Yfirleitt er áreiti af þessu tagi það mikið að hljóðbörkurinn, sem sést hér á myndinni til hliðar, einbeitir sér ekki að upprifjun á einu lagi, frekar en öðru. Stundum getur þó komið fyrir að við lendum í því að rifja upp aftur og aftur sama lagið. Á þýsku nefnist það Ohrwurm sem þýðir bókstaflega eyrnaormur. Vísindamenn vita ekki fyrir víst af hverju það gerist.
Svo virðist sem konur fái oftar lög á heilann heldur en karlmenn. Eins er eyrnaormur algengari meðal tónlistarmanna en annarra starfsstétta. Þegar fólk er þreytt eða stressað fær það frekar lög á heilann en ella.
Til þess að losna við síendurtekna upprifjun hljóðbarkarins getur verið gott að reyna að rifja upp eitthvað annað lag, hlusta á aðra tónlist eða taka til við að gera eitthvað sem krefst mikillar athygli manns. Eins virðist það gagnast sumum að rifja einfaldlega upp lagið sem maður er með á heilanum, frá upphafi til enda. Stundum losna menn þá við lagið úr hljóðberkinum.
Heimildir:- Can't get it out of my head. Grein á Guardian.co.uk.
- Why do songs get stuck in my head?. Grein á howstuffworks.
- The Dana Foundation. Sótt 7.5.2009.