Úranus, sem hér sést til hliðar er, er að vísu rétt nógu bjartur til að sjást með berum augum en enginn virðist hafa tekið eftir honum reika fyrr á tímum. Úranus hafði því sést mörgum sinnum áður en hann var „uppgötvaður“ en menn töldu hann vera fastastjörnu. Segja má að Úranus hafi verið uppgötvaður aðfaranótt 13. mars, 1781, af hinum ensk-þýska stjörnuáhugamanni William Herschel (1738-1822). Herschel tók eftir því að Úranus hreyfðist miðað við fastastjörnurnar á himinnum en gerði sér þó ekki grein fyrir því að Úranus væri reikistjarna, heldur hélt hann væri halastjarna.
Það var enski konunglegi stjörnufræðingurinn Nevil Maskelyne (1732-1811) sem taldi að þarna væri hugsanlega um reikistjörnu að ræða þar sem útlit hennar svipaði á engan hátt til halastjörnu. Úranus hafði nokkrum sinnum verið kortlagður af öðrum á undan Herschel, til dæmis af konunglega enska stjörnufræðingnum John Flamsteed (1646–1719) árið 1690 og Tobias Meyer (1723-1762), þýskum stjörnufræðingi, árið 1756.
Neptúnus, sem sést hér til hliðar, er of daufur til að sjást með berum augum á næturhimninum og því var það ekki fyrr en sjónaukinn kom til sögunnar að unnt var að finna reikistjörnuna. Ítarlegar rannsóknir stjörnufræðinga á brautarfærslu Úranusar leiddu þó til þess að Neptúnus fannst. Heiðurinn af uppgötvun Neptúnusar eiga tveir stærðfræðingar sem reiknuðu út staðsetningu Úranusar án vitundar hvor annars. Í október 1845 litu útreikningar enska stærðfræðingsins John Couch Adams (1819-1892) dagsins ljós og fáeinum mánuðum seinna gerði franski stærð- og stjörnufræðingurinn Urbain Joseph Le Verrier (1811-1877) samsvarandi útreikninga. Báðir spáðu þeir fyrir um staðsetningu óþekktu reikistjörnunnar með innan við einnar gráðu skekkju.
Það var þó þýski stjörnufræðingurinn Johann Gottfried Galle (1812-1910) sem fann Neptúnus á stjörnuhimninum fyrstur manna 23. september 1846 eftir ábendingu frá Le Verrier. Enska eðlis- og stjörnufræðingnum James Challis (1803-1882) varð síðar ljóst að hann hafði sjálfur séð reikistjörnuna tvisvar sinnum í mánuðinum á undan, það er í ágúst 1846, en hann var ekki nógu vandvirkur til að taka eftir henni.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvenær fannst Úranus? eftir Sævar Helga Bragason
- Á hvern hátt er Úranus frábrugðinn hinum reikistjörnunum? eftir Sævar Helga Bragason
- Hvenær fannst Úranus? eftir Sævar Helga Bragason
- Af hverju er Plútó ekki lengur talin reikistjarna? eftir Sævar Helga Bragason
- Stjörnufræðivefurinn - Skoðað 23.09.10
- Stjörnufræðivefurinn - Úranus. Sótt 23.09.10
- Stjörnufræðivefurinn - Neptúnus. Sótt 23.09.10
- Wikipedia.org - Sótt 23.09.10