Sólin Sólin Rís 06:52 • sest 19:52 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:16 • Sest 00:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:13 • Síðdegis: 16:37 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 23:00 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:52 • sest 19:52 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:16 • Sest 00:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:13 • Síðdegis: 16:37 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 23:00 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Eru menn aðeins eftirmyndir af hinum fullkomna manni eða konu, líkt og málverk af stól er aðeins eftirmynd af einhverjum ákveðnum stól?

Geir Þ. Þórarinsson

Hér verður einnig svarað spurningunum:

  • Hvað sagði Platon um hugtök og hvernig tengjast hugtökin frummyndunum? (Ásta Björk, f. 1987)
  • Hvaða þýðingu hafði frummyndakenning Platons fyrir siðfræði hans? (Páll Gunnarsson)
  • Hver var frummyndarkenningin? (Kristján Óskar, f. 1986)

Með spurningu sinni vísar spyrjandi í frægustu kenningu forngríska heimspekingsins Platons, frummyndakenninguna svonefndu, en höfundur fjallar um Platon sjálfan í svari við spurningunni Hver var Platon? Frummyndakenningin var allsherjarkenning sem gegndi bæði frumspekilegu, þekkingarfræðilegu, siðfræðilegu og jafnvel merkingarfræðilegu hlutverki. Kenningin átti sem sagt að útskýra í senn í hverju raunveruleikinn fælist, hvernig þekking væri möguleg og á hverju, hverjar væru undirstöður siðferðisins og í hverju merking altækra hugtaka væri fólgin.

Kveikjan að kenningunni

Kveikjuna að kenningunni er ef til vill að finna í áhrifunum sem Platon varð fyrir frá hugmyndum Herakleitosar frá Efesos (um 540-475 f.Kr.) og Parmenídesar frá Eleu (um 515-443 f.Kr.). Þeim áhrifum skal lýst í stuttu máli áður en meginatriði frummyndakenningarinnar verða reifuð.

Herakleitos var myrkur hugsuður og torskilinn og stundum er eins og hann tali í gátum. Af brotunum sem varðveitt eru eftir hann er þó ljóst að hann hefur talið allt vera breytingum undirorpið, að ekkert stæði í stað. Í frægu broti segir hann að maður stígi ekki tvisvar í sömu ána því í hvert sinn sem maður stígur í ána streymir um mann nýtt vatn. Aristóteles (384-322 f.Kr.) sem var nemandi og síðar samstarfsmaður Platons við Akademíuna segir að kynni Platons af kenningum Herakleitosar hafi verið í gegnum Kratýlos, fylgismann Herkaleitosar. Kratýlos þessi var jafnvel róttækari en Herakleitos sjálfur og á að hafa sagt að maður gæti ekki stigið einu sinni í sama fljótið enda væri ekkert sem heitið gæti sama fljótið.


Samkvæmt Herakleitosi er allt breytingum undirorpið; maður stígur aldrei tvisvar í sömu ána.

Þessar herakleitísku hugmyndir um óreiðukenndan heim sem er breytingum undirorpinn lituðu heimssýn Platons, að minnsta kosti virðist hann hafa fallist á þetta viðhorf hvað efnisheiminn varðar. Ein afleiðingin var sú að mati Platons að enga raunverulega þekkingu var á efnisheiminum að hafa, heldur einungis brigðular skoðanir. Hvernig væri annað hægt þegar heimurinn er sífellt að verða eitthvað annað? Hann er stöðugt verðandi en hann er raunverulega ekki neitt.

Parmenídes hélt fram allt annars konar hugmyndum. Hann færði rök fyrir því að óveran gæti ekki verið til, hún væri óskiljanleg og beinlínis óhugsandi. Það væri ekki hægt að segja um hlut að hann væri ekki eitthvað, til dæmis að hann væri ekki grænn eða stór eða hér eða þar. Af þessu leiddi að öll breyting og hreyfing var eintóm blekking því þegar eitthvað breytist er það ekki eins og það var áður og það sem hreyfist er ekki þar sem það var áður.

Grískir hugsuðir tóku rök Parmenídesar mjög alvarlega og reyndu allir að bregðast við þeim á einn eða annan hátt. Þeir leituðu óbreytanlegrar undirstöðu heimsins sem átti jafnframt að útskýra breytingar í honum. Í þessum tilgangi tefldi Empedókles fram höfuðskepnunum fjórum, Anaxagóras frá Klasómenæ hélt uppi hugmyndum um óendanlega mörg frumefni og Demókrítos frá Abderu hugmyndum um atóm eða ódeili. Um hinn síðastnefnda má lesa í svari sama höfundar, Hver var hugsuðurinn Demókrítos og hvað gerði hann?

Frummyndirnar

Platon fann óbreytanlega undirstöðu heimsins í frummyndunum. Efnisheimurinn er ef til vill sífellt verðandi en frummyndirnar eru ævinlega óbreytanlegar og samar. Frummyndirnar eru óefnislegar og óáþreifanlegar fyrirmyndir efnisheimsins handan tíma og rúms, óskynjanlegar með skynfærunum en skiljanlegar í hugsuninni. Þær eru raunverulegasti hluti veruleikans, raunverulegri en efnisheimurinn sem er einungis léleg eftirlíking af frummyndunum. Þannig svara frummyndirnar bæði frumspekilegu spurningunni um hvað sé raunverulega til og þekkingarfræðilegu spurningunni um hvað sé hægt að þekkja. Þær útskýra merkingarmið sértækra hugtaka eins og ‘hugrekkis’ og ‘réttlætis’ og ‘jafnaðar’ því þegar við tölum um hugrekki og réttlæti eða jöfnuð, þá erum við að vísa til frummynda hugrekkisins og réttlætisins og jöfnuðarins. Við vitum öll hvað jöfnuður er en samt höfum við aldrei séð tvo nákvæmlega jafnlanga eða jafnbreiða hluti. Það eru engir tveir fullkomlega jafnir hlutir í efnisheiminum, á þeim er alltaf einhver ofurlítill munur. Aftur á móti skiljum við hvað jöfnuður er vegna þess að við þekkjum frummynd jöfnuðarins, jöfnuðinn sjálfan.


Málverk eru samkvæmt Platoni enn ómerkilegri en hlutir efnisheimsins, þar sem þau eru aðeins eftirlíkingar af eftirlíkingum. 'Stóllinn' eftir Vincent van Gogh, 1888.

Frummyndirnar mynda stigveldi þar sem efst trónir frummynd hins góða. Hún er sögð orsök alls sem er fagurt og gott og foreldri ljóssins í hinum sýnilega heimi. Á hinu huglæga sviði er hún sögð höfundur sannleika og hugsunar. Þannig eru frummyndirnar einnig undirstaða siðferðisins því sá sem hyggst haga sér skynsamlega hvort heldur í einkalífi sínu eða í þjónustu ríkisins verður að hafa hliðsjón af frummynd hins góða. Þær eru enn fremur undirstaða algilds siðferðis, siðferðis sem gildir jafnt fyrir alla því heimur frymmyndanna er hlutlægur veruleiki, það er að segja hann er óháður hugmyndum okkar um hann og viðhorfum okkar til hans, hann á sér sjálfstæða tilvist. Hugmyndin um algilt siðferði er andstæð hugmyndum sem Platoni var meinilla við um að siðferðið sé afstætt, eða að í einu menningarsamfélagi gildi til að mynda eitt siðferði en annað í öðru og svo framvegis.

Stundum er það að efnisheimurinn sé eftirlíking af frummyndunum orðað þannig að efnislegir hlutir taki þátt í frummyndinni, að fallegur hlutur taki þátt í frummynd fegurðarinnar, fegurðinni sjálfri, sem er þá orsök þess að einstakir hlutir eru fallegir. Það er höfuðatriði um frummyndirnar að orsakaráhrifin eru aðeins í aðra áttina. Frummyndirnar eru orsakir efnislegra hluta sem taka þátt í þeim og líkja eftir þeim, en hlutirnir hafa engin áhrif á frummyndirnar. Platon segir enn fremur um frummyndirnar að þær séu sjálfar það sem þær eru, frummynd fegurðarinnar er til dæmis fögur og þar fram eftir götunum.

Einn frægasti staðurinn í samræðum Platons er í sjöundu bók Ríkisins þar sem finna má hellislíkinguna svonefndu. Þar líkir Platon jarðlífinu við dvöl í helli þar sem fólk er fjötrað niður svo að það getur ekki hreyft sig. Sjónum þess er beint að hellisveggnum en fyrir aftan fólkið eru menn sem ganga um með alls kyns hluti og láta skugga varpast af þeim á vegginn. Heimurinn sem við skynjum – efnisheimurinn – er eins og skuggamyndirnar, eftirlíking af hinu raunverulega. Sá sem öðlast skilning á frummyndunum er því eins og fangi sem sleppur úr fjötrunum og kemst út úr hellinum. Í fyrstu blindar birta sólarljóssins hann, enda hefur hann aldrei upplifað raunverulegt sólarljós, en þegar hann hefur vanist birtunni sér hann það sem er fyrir utan hellinn og hann sér mun skýrar en hann sá inni í hellinum.

Frummyndakenningin gagnrýnd

Frummyndakenningin birtist fyrst í Fædoni en meira fer fyrir henni í Ríkinu, Fædrosi og Samdrykkjunni. Í samræðunni Parmenídesi sem nefnd er eftir Parmenídesi frá Eleu sætir kenningin aftur á móti harðri gagnrýni. Frægustu andmælin hafa hlotið nafnið Þriðji maðurinn en það eru vítarunurök. Ef allir fagrir hlutir eiga það sameiginlegt að taka þátt í frummynd fegurðarinnar og frummynd fegurðarinnar er sjálf fögur, þá hlýtur að vera til önnur frummynd fegurðarinnar sem allir fagrir hlutir og fyrri frummynd fegurðarinnar sem er sjálf fögur taka þátt í. En ef nýja frummyndin er sjálf fögur hlýtur að vera til enn ein frummynd fegurðarinnar sem fögru hlutirnir og fyrri frummyndirnar tvær eiga öll hlutdeild í. Þá er komin vítaruna því það þarf alltaf nýja frummynd til að útskýra hvað hlutirnir og frummyndirnar sem þeir líkja eftir eiga sameiginlegt. Og það geta ekki verið margar frummyndir sömu tegundar samkvæmt kenningunni. Rökin nýta sér sem sagt veikleika í kenningunni sem felst í óljósum hugmyndum um hlutdeild eða þátttöku hluta í frummyndunum og um sjálfsþátttöku frummyndanna. Þótt kenningin hafi sætt harðri gagnrýni í Parmenídesi hvarf hún eigi að síður ekki alfarið úr ritum Platons. Henni sér enn stað í Tímajosi og yngri samræðum.

Heimildir og frekari fróðleikur

Á vefnum

Rit

  • Platón, Ríkið, Eyjólfur Kjalar Emilsson (þýð.), (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991/1997).
  • Platón, Samdrykkjan, Eyjólfur Kjalar Emilsson (þýð.), (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1999).
  • Platón, Síðustu dagar Sókratesar, Sigurður Nordal og Þorsteinn Gylfason (þýð.), (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1983).
  • Guthrie, W.K.C., A History of Greek Philosophy IV: Plato: The Man and His Dialogues, Earlier Period (Cambridge: Cambridge University Press, 1975).
  • Guthrie, W.K.C., A History of Greek Philosophy V: The Later Plato and the Academy (Cambridge: Cambridge University Press, 1978).

Myndir

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

19.9.2005

Spyrjandi

Petra Heimisdóttir

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Eru menn aðeins eftirmyndir af hinum fullkomna manni eða konu, líkt og málverk af stól er aðeins eftirmynd af einhverjum ákveðnum stól?“ Vísindavefurinn, 19. september 2005, sótt 15. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5274.

Geir Þ. Þórarinsson. (2005, 19. september). Eru menn aðeins eftirmyndir af hinum fullkomna manni eða konu, líkt og málverk af stól er aðeins eftirmynd af einhverjum ákveðnum stól? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5274

Geir Þ. Þórarinsson. „Eru menn aðeins eftirmyndir af hinum fullkomna manni eða konu, líkt og málverk af stól er aðeins eftirmynd af einhverjum ákveðnum stól?“ Vísindavefurinn. 19. sep. 2005. Vefsíða. 15. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5274>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Eru menn aðeins eftirmyndir af hinum fullkomna manni eða konu, líkt og málverk af stól er aðeins eftirmynd af einhverjum ákveðnum stól?
Hér verður einnig svarað spurningunum:

  • Hvað sagði Platon um hugtök og hvernig tengjast hugtökin frummyndunum? (Ásta Björk, f. 1987)
  • Hvaða þýðingu hafði frummyndakenning Platons fyrir siðfræði hans? (Páll Gunnarsson)
  • Hver var frummyndarkenningin? (Kristján Óskar, f. 1986)

Með spurningu sinni vísar spyrjandi í frægustu kenningu forngríska heimspekingsins Platons, frummyndakenninguna svonefndu, en höfundur fjallar um Platon sjálfan í svari við spurningunni Hver var Platon? Frummyndakenningin var allsherjarkenning sem gegndi bæði frumspekilegu, þekkingarfræðilegu, siðfræðilegu og jafnvel merkingarfræðilegu hlutverki. Kenningin átti sem sagt að útskýra í senn í hverju raunveruleikinn fælist, hvernig þekking væri möguleg og á hverju, hverjar væru undirstöður siðferðisins og í hverju merking altækra hugtaka væri fólgin.

Kveikjan að kenningunni

Kveikjuna að kenningunni er ef til vill að finna í áhrifunum sem Platon varð fyrir frá hugmyndum Herakleitosar frá Efesos (um 540-475 f.Kr.) og Parmenídesar frá Eleu (um 515-443 f.Kr.). Þeim áhrifum skal lýst í stuttu máli áður en meginatriði frummyndakenningarinnar verða reifuð.

Herakleitos var myrkur hugsuður og torskilinn og stundum er eins og hann tali í gátum. Af brotunum sem varðveitt eru eftir hann er þó ljóst að hann hefur talið allt vera breytingum undirorpið, að ekkert stæði í stað. Í frægu broti segir hann að maður stígi ekki tvisvar í sömu ána því í hvert sinn sem maður stígur í ána streymir um mann nýtt vatn. Aristóteles (384-322 f.Kr.) sem var nemandi og síðar samstarfsmaður Platons við Akademíuna segir að kynni Platons af kenningum Herakleitosar hafi verið í gegnum Kratýlos, fylgismann Herkaleitosar. Kratýlos þessi var jafnvel róttækari en Herakleitos sjálfur og á að hafa sagt að maður gæti ekki stigið einu sinni í sama fljótið enda væri ekkert sem heitið gæti sama fljótið.


Samkvæmt Herakleitosi er allt breytingum undirorpið; maður stígur aldrei tvisvar í sömu ána.

Þessar herakleitísku hugmyndir um óreiðukenndan heim sem er breytingum undirorpinn lituðu heimssýn Platons, að minnsta kosti virðist hann hafa fallist á þetta viðhorf hvað efnisheiminn varðar. Ein afleiðingin var sú að mati Platons að enga raunverulega þekkingu var á efnisheiminum að hafa, heldur einungis brigðular skoðanir. Hvernig væri annað hægt þegar heimurinn er sífellt að verða eitthvað annað? Hann er stöðugt verðandi en hann er raunverulega ekki neitt.

Parmenídes hélt fram allt annars konar hugmyndum. Hann færði rök fyrir því að óveran gæti ekki verið til, hún væri óskiljanleg og beinlínis óhugsandi. Það væri ekki hægt að segja um hlut að hann væri ekki eitthvað, til dæmis að hann væri ekki grænn eða stór eða hér eða þar. Af þessu leiddi að öll breyting og hreyfing var eintóm blekking því þegar eitthvað breytist er það ekki eins og það var áður og það sem hreyfist er ekki þar sem það var áður.

Grískir hugsuðir tóku rök Parmenídesar mjög alvarlega og reyndu allir að bregðast við þeim á einn eða annan hátt. Þeir leituðu óbreytanlegrar undirstöðu heimsins sem átti jafnframt að útskýra breytingar í honum. Í þessum tilgangi tefldi Empedókles fram höfuðskepnunum fjórum, Anaxagóras frá Klasómenæ hélt uppi hugmyndum um óendanlega mörg frumefni og Demókrítos frá Abderu hugmyndum um atóm eða ódeili. Um hinn síðastnefnda má lesa í svari sama höfundar, Hver var hugsuðurinn Demókrítos og hvað gerði hann?

Frummyndirnar

Platon fann óbreytanlega undirstöðu heimsins í frummyndunum. Efnisheimurinn er ef til vill sífellt verðandi en frummyndirnar eru ævinlega óbreytanlegar og samar. Frummyndirnar eru óefnislegar og óáþreifanlegar fyrirmyndir efnisheimsins handan tíma og rúms, óskynjanlegar með skynfærunum en skiljanlegar í hugsuninni. Þær eru raunverulegasti hluti veruleikans, raunverulegri en efnisheimurinn sem er einungis léleg eftirlíking af frummyndunum. Þannig svara frummyndirnar bæði frumspekilegu spurningunni um hvað sé raunverulega til og þekkingarfræðilegu spurningunni um hvað sé hægt að þekkja. Þær útskýra merkingarmið sértækra hugtaka eins og ‘hugrekkis’ og ‘réttlætis’ og ‘jafnaðar’ því þegar við tölum um hugrekki og réttlæti eða jöfnuð, þá erum við að vísa til frummynda hugrekkisins og réttlætisins og jöfnuðarins. Við vitum öll hvað jöfnuður er en samt höfum við aldrei séð tvo nákvæmlega jafnlanga eða jafnbreiða hluti. Það eru engir tveir fullkomlega jafnir hlutir í efnisheiminum, á þeim er alltaf einhver ofurlítill munur. Aftur á móti skiljum við hvað jöfnuður er vegna þess að við þekkjum frummynd jöfnuðarins, jöfnuðinn sjálfan.


Málverk eru samkvæmt Platoni enn ómerkilegri en hlutir efnisheimsins, þar sem þau eru aðeins eftirlíkingar af eftirlíkingum. 'Stóllinn' eftir Vincent van Gogh, 1888.

Frummyndirnar mynda stigveldi þar sem efst trónir frummynd hins góða. Hún er sögð orsök alls sem er fagurt og gott og foreldri ljóssins í hinum sýnilega heimi. Á hinu huglæga sviði er hún sögð höfundur sannleika og hugsunar. Þannig eru frummyndirnar einnig undirstaða siðferðisins því sá sem hyggst haga sér skynsamlega hvort heldur í einkalífi sínu eða í þjónustu ríkisins verður að hafa hliðsjón af frummynd hins góða. Þær eru enn fremur undirstaða algilds siðferðis, siðferðis sem gildir jafnt fyrir alla því heimur frymmyndanna er hlutlægur veruleiki, það er að segja hann er óháður hugmyndum okkar um hann og viðhorfum okkar til hans, hann á sér sjálfstæða tilvist. Hugmyndin um algilt siðferði er andstæð hugmyndum sem Platoni var meinilla við um að siðferðið sé afstætt, eða að í einu menningarsamfélagi gildi til að mynda eitt siðferði en annað í öðru og svo framvegis.

Stundum er það að efnisheimurinn sé eftirlíking af frummyndunum orðað þannig að efnislegir hlutir taki þátt í frummyndinni, að fallegur hlutur taki þátt í frummynd fegurðarinnar, fegurðinni sjálfri, sem er þá orsök þess að einstakir hlutir eru fallegir. Það er höfuðatriði um frummyndirnar að orsakaráhrifin eru aðeins í aðra áttina. Frummyndirnar eru orsakir efnislegra hluta sem taka þátt í þeim og líkja eftir þeim, en hlutirnir hafa engin áhrif á frummyndirnar. Platon segir enn fremur um frummyndirnar að þær séu sjálfar það sem þær eru, frummynd fegurðarinnar er til dæmis fögur og þar fram eftir götunum.

Einn frægasti staðurinn í samræðum Platons er í sjöundu bók Ríkisins þar sem finna má hellislíkinguna svonefndu. Þar líkir Platon jarðlífinu við dvöl í helli þar sem fólk er fjötrað niður svo að það getur ekki hreyft sig. Sjónum þess er beint að hellisveggnum en fyrir aftan fólkið eru menn sem ganga um með alls kyns hluti og láta skugga varpast af þeim á vegginn. Heimurinn sem við skynjum – efnisheimurinn – er eins og skuggamyndirnar, eftirlíking af hinu raunverulega. Sá sem öðlast skilning á frummyndunum er því eins og fangi sem sleppur úr fjötrunum og kemst út úr hellinum. Í fyrstu blindar birta sólarljóssins hann, enda hefur hann aldrei upplifað raunverulegt sólarljós, en þegar hann hefur vanist birtunni sér hann það sem er fyrir utan hellinn og hann sér mun skýrar en hann sá inni í hellinum.

Frummyndakenningin gagnrýnd

Frummyndakenningin birtist fyrst í Fædoni en meira fer fyrir henni í Ríkinu, Fædrosi og Samdrykkjunni. Í samræðunni Parmenídesi sem nefnd er eftir Parmenídesi frá Eleu sætir kenningin aftur á móti harðri gagnrýni. Frægustu andmælin hafa hlotið nafnið Þriðji maðurinn en það eru vítarunurök. Ef allir fagrir hlutir eiga það sameiginlegt að taka þátt í frummynd fegurðarinnar og frummynd fegurðarinnar er sjálf fögur, þá hlýtur að vera til önnur frummynd fegurðarinnar sem allir fagrir hlutir og fyrri frummynd fegurðarinnar sem er sjálf fögur taka þátt í. En ef nýja frummyndin er sjálf fögur hlýtur að vera til enn ein frummynd fegurðarinnar sem fögru hlutirnir og fyrri frummyndirnar tvær eiga öll hlutdeild í. Þá er komin vítaruna því það þarf alltaf nýja frummynd til að útskýra hvað hlutirnir og frummyndirnar sem þeir líkja eftir eiga sameiginlegt. Og það geta ekki verið margar frummyndir sömu tegundar samkvæmt kenningunni. Rökin nýta sér sem sagt veikleika í kenningunni sem felst í óljósum hugmyndum um hlutdeild eða þátttöku hluta í frummyndunum og um sjálfsþátttöku frummyndanna. Þótt kenningin hafi sætt harðri gagnrýni í Parmenídesi hvarf hún eigi að síður ekki alfarið úr ritum Platons. Henni sér enn stað í Tímajosi og yngri samræðum.

Heimildir og frekari fróðleikur

Á vefnum

Rit

  • Platón, Ríkið, Eyjólfur Kjalar Emilsson (þýð.), (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991/1997).
  • Platón, Samdrykkjan, Eyjólfur Kjalar Emilsson (þýð.), (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1999).
  • Platón, Síðustu dagar Sókratesar, Sigurður Nordal og Þorsteinn Gylfason (þýð.), (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1983).
  • Guthrie, W.K.C., A History of Greek Philosophy IV: Plato: The Man and His Dialogues, Earlier Period (Cambridge: Cambridge University Press, 1975).
  • Guthrie, W.K.C., A History of Greek Philosophy V: The Later Plato and the Academy (Cambridge: Cambridge University Press, 1978).

Myndir

...