Sólin Sólin Rís 11:13 • sest 15:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:20 • Sest 09:25 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:21 • Síðdegis: 16:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:42 • Síðdegis: 22:57 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:13 • sest 15:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:20 • Sest 09:25 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:21 • Síðdegis: 16:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:42 • Síðdegis: 22:57 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

„Því meira sem ég læri því betur geri ég mér grein fyrir því hve lítið ég veit.“ Hvaða heimspekingur sagði eitthvað á þessa leið?

Geir Þ. Þórarinsson

Ef til vill er heimspekingurinn sem um ræðir Sókrates en hann mun hafa sagt að hann vissi það eitt að hann vissi ekkert. Þess ber að geta í upphafi að sumir fræðimenn vilja fara varlega í sakirnar þegar rætt er um hinn sögulega Sókrates enda skildi Sókrates ekki eftir sig nein rit og við þekkjum hann best sem persónu í samræðum Platons. Höfundur fjallar meira um þetta álitamál í svarinu Hvernig er vitað að hugmyndirnar sem Sókrates heldur fram í samræðum Platons tilheyri Platoni en ekki Sókratesi?

Sókrates fæddist í Aþenu árið 469 f.Kr. Hann stundaði heimspeki sína fyrst og fremst í samræðum við aðra menn. Kærefón, vinur Sókratesar, hafði spurt véfréttina í Delfí hver væri vitrasti maður Grikklands. Véfréttin sagði það vera Sókrates. Þetta taldi Sókrates að væri hæpið og hóf því leit að einhverjum sem byggi yfir visku. Hann prófaði jafnt stjórnmálamenn sem iðnaðarmenn og spurði einkum um siðferðileg hugtök, en enginn gat svarað svo að Sókrates undi við. Svar véfréttarinnar túlkaði Sókrates því á þá leið að hann væri öðrum mönnum vitrari að því leyti einu að hann vissi að hann vissi ekki neitt. Ólíkt þeim sem urðu á vegi Sókratesar þekkti Sókrates sjálfan sig, en „Þekktu sjálfan þig” voru einmitt einkunnarorð véfréttarinnar.

Í elstu samræðum Platons er Sókrates iðulega í aðalhlutverki og spyr spurninga á forminu „Hvað er x?” Hann spyr fyrst og fremst um hugtök eins og dygð, hugrekki, hófstillingu, réttlæti, guðrækni og þar fram eftir götunum. Hann sættir sig ekki við svör sem felast í upptalningu á dæmum. Ef við vitum til að mynda ekki hvað hugrekki er, þá erum við engu nær þegar okkur er sagt að hugrekki sé til dæmis hugrekki hermannsins og hugrekki kafarans. Sókrates leitar að skilgreiningum á siðferðislegum hugtökum sem þessum, og þegar skilgreiningin er loks gefin prófar Sókrates skilgreininguna með því að spyrja áfram. Aðferðin er nefnd elenkos-aðferðin, en gríska orðið elenkos þýðir prófun. Hún hafði að minnsta kosti tvíþættan tilgang: Annars vegar að prófa hvort tiltekin skilgreining stæðist, og hins vegar að prófa hvort einhver byggi yfir þekkingu á því sem rætt var um. Alla jafnan lenda þeir sem sitja fyrir svörum í mótsögn við sjálfa sig og þar með er óvíst hvort skilgreining þeirra standist. Þeir virðast þá líka ekki vita það sem þeir töldu sig vita.

Ábending um frekara lesefni

Lesa má um Sókrates í inngangi Sigurðar Nordal

  • Platóni, Síðustu dögum Sókratesar, Sigurður Nordal og Þorsteinn Gylfason (þýð.), (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1983).

Einnig getur fólk lesið svör Hauks Más Helgasonar og Hrannars Baldurssonar við spurningunni 'Ef Sókrates væri uppi á okkar tímum, væri hann þá ekki bara iðjuleysingi og ónytjungur?'

Mynd

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

21.9.2005

Spyrjandi

Guðlaug Sturlaugsdóttir

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „„Því meira sem ég læri því betur geri ég mér grein fyrir því hve lítið ég veit.“ Hvaða heimspekingur sagði eitthvað á þessa leið?“ Vísindavefurinn, 21. september 2005, sótt 13. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5278.

Geir Þ. Þórarinsson. (2005, 21. september). „Því meira sem ég læri því betur geri ég mér grein fyrir því hve lítið ég veit.“ Hvaða heimspekingur sagði eitthvað á þessa leið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5278

Geir Þ. Þórarinsson. „„Því meira sem ég læri því betur geri ég mér grein fyrir því hve lítið ég veit.“ Hvaða heimspekingur sagði eitthvað á þessa leið?“ Vísindavefurinn. 21. sep. 2005. Vefsíða. 13. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5278>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

„Því meira sem ég læri því betur geri ég mér grein fyrir því hve lítið ég veit.“ Hvaða heimspekingur sagði eitthvað á þessa leið?
Ef til vill er heimspekingurinn sem um ræðir Sókrates en hann mun hafa sagt að hann vissi það eitt að hann vissi ekkert. Þess ber að geta í upphafi að sumir fræðimenn vilja fara varlega í sakirnar þegar rætt er um hinn sögulega Sókrates enda skildi Sókrates ekki eftir sig nein rit og við þekkjum hann best sem persónu í samræðum Platons. Höfundur fjallar meira um þetta álitamál í svarinu Hvernig er vitað að hugmyndirnar sem Sókrates heldur fram í samræðum Platons tilheyri Platoni en ekki Sókratesi?

Sókrates fæddist í Aþenu árið 469 f.Kr. Hann stundaði heimspeki sína fyrst og fremst í samræðum við aðra menn. Kærefón, vinur Sókratesar, hafði spurt véfréttina í Delfí hver væri vitrasti maður Grikklands. Véfréttin sagði það vera Sókrates. Þetta taldi Sókrates að væri hæpið og hóf því leit að einhverjum sem byggi yfir visku. Hann prófaði jafnt stjórnmálamenn sem iðnaðarmenn og spurði einkum um siðferðileg hugtök, en enginn gat svarað svo að Sókrates undi við. Svar véfréttarinnar túlkaði Sókrates því á þá leið að hann væri öðrum mönnum vitrari að því leyti einu að hann vissi að hann vissi ekki neitt. Ólíkt þeim sem urðu á vegi Sókratesar þekkti Sókrates sjálfan sig, en „Þekktu sjálfan þig” voru einmitt einkunnarorð véfréttarinnar.

Í elstu samræðum Platons er Sókrates iðulega í aðalhlutverki og spyr spurninga á forminu „Hvað er x?” Hann spyr fyrst og fremst um hugtök eins og dygð, hugrekki, hófstillingu, réttlæti, guðrækni og þar fram eftir götunum. Hann sættir sig ekki við svör sem felast í upptalningu á dæmum. Ef við vitum til að mynda ekki hvað hugrekki er, þá erum við engu nær þegar okkur er sagt að hugrekki sé til dæmis hugrekki hermannsins og hugrekki kafarans. Sókrates leitar að skilgreiningum á siðferðislegum hugtökum sem þessum, og þegar skilgreiningin er loks gefin prófar Sókrates skilgreininguna með því að spyrja áfram. Aðferðin er nefnd elenkos-aðferðin, en gríska orðið elenkos þýðir prófun. Hún hafði að minnsta kosti tvíþættan tilgang: Annars vegar að prófa hvort tiltekin skilgreining stæðist, og hins vegar að prófa hvort einhver byggi yfir þekkingu á því sem rætt var um. Alla jafnan lenda þeir sem sitja fyrir svörum í mótsögn við sjálfa sig og þar með er óvíst hvort skilgreining þeirra standist. Þeir virðast þá líka ekki vita það sem þeir töldu sig vita.

Ábending um frekara lesefni

Lesa má um Sókrates í inngangi Sigurðar Nordal

  • Platóni, Síðustu dögum Sókratesar, Sigurður Nordal og Þorsteinn Gylfason (þýð.), (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1983).

Einnig getur fólk lesið svör Hauks Más Helgasonar og Hrannars Baldurssonar við spurningunni 'Ef Sókrates væri uppi á okkar tímum, væri hann þá ekki bara iðjuleysingi og ónytjungur?'

Mynd

...