
Sókratíska aðferðin er kennd við Sókrates sem Platon lét spyrja spurninga í þeim samræðum sínum sem taldar eru elstar og iðulega nefndar sókratísku samræðurnar.
Hann [Kærefon] fór einu sinni til Delfa og dirfðist að leggja þessa spurningu fyrir guðinn … hann spurði, hvort nokkur maður væri vitrari en ég. Völvan svaraði því, að enginn væri mér vitrari … Þegar ég heyrði þetta, fór ég að hugsa eitthvað á þessa leið með sjálfum mér: „Hvað ætli guðinn eigi við? Hvað ætli búi að baki, er hann talar í gátum? Því það veit ég með sjálfum mér, að ég er ekki vitur, hvorki í smáu né stóru. Hvað getur hann þá átt við, er hann segir, að ég sé manna vitrastur? Ekki getur hann logið, því að það væri gagnstætt guðseðli hans.“ … Ég fór til eins þeirra manna, er höfðu orð á sér fyrir að vera vitrir … Þegar ég fór nú að reyna manninn … þá reyndist mér og leizt svo, að bæði mörgum öðrum og þó einkum honum sjálfum þætti hann vera vitur, en hann væri það ekki í raun og veru. Leitaðist ég því næst við að sýna honum fram á, að hann þættist reyndar vera vitur, en væri það ekki. Af þessu lagði hann fæð á mig og margir aðrir, sem við voru staddir. En á leiðinni heim til mín hugsaði ég svo með sjálfum mér: Vitrari er ég þó en þessi maður. Reyndar virðist hvorugur okkar vita neitt fagurt né gott, en hann þykist vita eitthvað, þótt hann viti ekkert, en það er hvorttveggja um mig, að ég veit ekkert, enda þykist ég ekki vita neitt. Þess vegna virðist ég vera ofurlitla ögn vitrari en hann að þessu eina leyti, að það sem ég veit ekki, þykist ég heldur ekki vita.Svo virðist sem Sókrates sé ekki vitur, að eigin mati, því hann viti ekkert fagurt og gott. Áður (20d8) hafði hann reyndar viðurkennt að búa yfir mannviti. En þetta mannvit sé ómerkilegt og fangi ekki það sem er fagurt og gott. Síðar útskýrir hann hversu lítils virði slíkt mannvit er (23a-b):
En sannleikurinn er sá, Aþenumenn, að guðinn einn er vitur, og í véfrétt þessari á hann við það, að mannleg vizka sé mjög lítils eða öllu heldur einskis virði. Virðist svo sem hann hafi ekki notað nafn mitt nema til dæmis, eins og hann vildi segja: Sá yðar, góðir menn, er vitrastur, sem eins og Sókrates hefur komizt til þeirrar viðurkenningar, að þekking hans sé í sannleika einskis virði.“Hann hélt að eigin sögn áfram leit sinni. Eftir að hafa átt samræður við stjórnmálamenn ræddi hann við skáldin, sem „ortu ekki af vizku, heldur af einhverri andagift og guðmóði, eins og innblásnir spámenn eða völur, er segja margt gott, en skilja það ekki sjálf“ (22b-c). Iðnaðarmenn tók hann tali, enda kunnu þeir margt sem hann kunni ekki, en eins og aðrir þóttust þeir „vera hinir vitrustu í öðrum greinum, er mikilvægastar eru“ (22d-e). Þessir kunnáttumenn bjuggu væntanlega yfir einhvers konar mannviti, óæðra viti. Mannvit Sókratesar sjálfs er takmarkað, eins og gefur að skilja. Þó stendur hann framar öðrum, því mannvit hans virðist fyrst og fremst felast í því að viðurkenna að hann búi ekki yfir guðaviti, guðdómlegri visku; mannvit hans fangi því ekkert fagurt eða gott. En það útilokar ekki að hann viti ýmislegt annað, sem er hvorki fagurt né gott, eða mikils virði yfirleitt. Sókrates virðist gera greinarmun á viðfangsefnum þekkingar. Hann leitar þekkingar sem er guðdómleg af því hún beinist að hinu fagra og góða, sem aðrir þykjast hafa en ekki hann. Þekking á hverju er þetta? Megi marka sókratísku samræðurnar, er þetta þekking á því hvernig skuli haga lífi sínu sem best, af dyggð, til dæmis réttlæti og frómleika. Hér komum við að seinni spurningunni. Sókrates virðist hafa álitið að þessi þekking, sem gerði manni kleift að lifa vel, krefðist getunnar til að skilgreina dyggð og aðra siðferðilega eiginleika. Hann býr sjálfur ekki yfir þessari getu og er því fávís um það sem er í sannleika fagurt og gott. En hvernig má vera að Sókrates telji sig vita ýmislegt, einkum um siðferðismál, eins og að verra sé að fremja en þola ranglæti, sem hann segist vita mætavel? Þessi þekking er væntanlega ekki sú sem hann kallar þekkingu á fögrum og góðum hlutum, sem gæti gert honum kleift að lifa vel.

Sókratíska aðferðin er iðulega nefnd á útlendum málum latneska nafnorðinu elenchus (af grísku elenkos), sem mætti þýða með íslenska nafnorðinu „hnekking“, enda hnekkir Sókrates tillögum viðmælenda sinna, flækir þá alltént í þversögn. Myndin er Dauði Sókratesar (1787), málverk eftir Jacques-Louis David (1748-1825).
- ^ Hvað sem um skilning hans og skoðanir á Sókratesi mætti segja er ljóst að hann velti fyrir sér sókratísku aðferðinni á þann hátt sem hefur mótað umræðu fræðimanna um sókratíska hnekkingu. Skrif hans um aðrar hliðar á heimspeki Sókratesar höfðu einnig mikil áhrif; sjá G. Vlastos, „The Socratic Elenchus: Method is All“, M. Burnyeat (ritstj.) Socratic Studies (Cambridge, 1994), 1-37.
- ^ Sjá t.d. T. Irwin, Plato’s Ethics (Oxford, 1995), k. 2.
- ^ Sjá t.d. H. Benson, “Socratic Method”, D.R. Morrison (ritstj.), Cambridge Companion to Socrates (Cambridge, 2010), 179-200.
- ^ Þessar samræður Platons hafa allar verið þýddar á íslensku: Síðustu dagar Sókratesar (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1973) hefur að geyma Fædon og Málsvörn Sókratesar (ásamt Krítoni) í þýðingum Sigurðar Nordal og Þorsteins Gylfasonar; Menón (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1993) þýddi Sveinbjörn Egilsson, en Eyjólfur Kjalar Emilsson og Gunnar Harðarson önnuðust útgáfuna; Ríkið (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1991) þýddi Eyjólfur Kjalar Emilsson.
- Athena looking over Socrates | seber's tumblr commons.wikime… | Flickr. (Sótt 4.05.2020). Birt undir leyfinu CC BY 2.0.
- Jacques Louis David | The Death of Socrates | The Met. (Sótt 4.05.2020).