Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ef ég ætla að fara að lesa mér til um heimspekinga, Sókrates og þá alla, á hverjum á ég þá fyrst að byrja?
Nú er óljóst nákvæmlega hvaða heimspekinga er átt við að Sókratesi undanskildum. Það gæti verið að spyrjandi hafi í huga aðra gríska heimspekinga eða einfaldlega aðra fræga og merka heimspekinga, jafnt gríska sem aðra. Það gildir einu, því til eru margar bækur sem fjalla um sögu heimspekinnar allt frá upphafi til vorra daga og því er af nógu að taka.
Ýmsir helstu heimspekingar sögunnar.
Ef til vill er bókin Veröld Soffíu eftir norska höfundinn Jostein Gaarder prýðileg byrjun fyrir unga lesendur. Bókin fjallar um stúlkuna Soffíu sem er að kynnast heimspekinni í fyrsta sinn. Þar er fjallað um marga helstu heimspekinga Vesturlanda frá upphafi heimspekinnar í Grikklandi til samtímans. Veröld Soffíu er til í íslenskri þýðingu Aðalheiðar Steingrímsdóttur og Þrastar Árnasonar (Reykjavík: Mál og menning, 1995/1998).
Nokkur yfirlitsrit yfir sögu heimspekinnar eru til á íslensku. Eitt þeirra er Saga heimspekinnar eftir Bryan Magee í þýðingu Róberts Jacks (Reykjavík: Mál og menning, 2002). Annað ítarlegra rit er Heimspekisaga eftir Gunnar Skirbekk og Nils Gilje í þýðingu Stefáns Hjörleifssonar (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1999). Í báðum ritum er fjallað um gríska heimspeki, Sókrates, Platon og Aristóteles, forvera þeirra og sporgöngumenn, en einnig um alla helstu heimspekinga síðari tíma, svo sem Tómas af Aquino, René Descartes, John Locke, David Hume, Immanuel Kant, John Stuart Mill, Friedrich Nietzsche og marga fleiri.
Bækurnar sem nefndar hafa verið ættu að vera fáanlegar á öllum helstu bókasöfnum.
Þá eru til íslenskar þýðingar á ritum margra heimspekinga, þar á meðal á nokkrum ritum eftir alla ofantalda heimspekinga að Sókratesi undanskildum (því hann skildi ekki eftir sig nein rit). En nokkur rita Platons, sem var lærisveinn Sókratesar, hafa verið þýdd og þar bregður Sókratesi einmitt fyrir sem einni af aðalpersónunum. Flest hafa þessi rit verið gefin út í ritröðinni Lærdómsrit Hins íslenzka bókmenntafélags. Mörg lærdómsritanna eru til á helstu bókasöfnum.
Að lokum má benda á að á Vísindavefnum hafa birst fjölmörg svör um heimspeki og heimspekinga, meðal annarra Sókrates og aðra gríska heimspekinga. Hægt er að nálgast svörin með því að nota leitarvélina hér á síðunni eða skoða heimspekiflokk Vísindavefsins. Hér að neðan eru svo tenglar í nokkur svör Vísindavefsins um heimspekinga.
Frekara lesefni á Vísindavefnum og mynd:
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvar get ég lesið um Sókrates og alla heimspekingana?“ Vísindavefurinn, 30. nóvember 2005, sótt 10. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5444.
Geir Þ. Þórarinsson. (2005, 30. nóvember). Hvar get ég lesið um Sókrates og alla heimspekingana? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5444
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvar get ég lesið um Sókrates og alla heimspekingana?“ Vísindavefurinn. 30. nóv. 2005. Vefsíða. 10. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5444>.