Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað hét kona Sókratesar og hvað er vitað um hana?

Geir Þ. Þórarinsson

Kona Sókratesar hét Xanþippa. Hún er einkum þekkt fyrir að vera skapmikil og erfið í sambúð. Xanþippa kemur meðal annars fyrir í samræðunni Fædoni eftir Platon (427 – 347 f.Kr.) sem var lærisveinn Sókratesar. Þar situr Xanþippa hjá manni sínum með son þeirra í kjöltunni í fangelsinu daginn sem dauðadómi hans skal fullnægt. Þegar vini Sókratesar ber að er Xanþippa í miklu uppnámi. Platon lýsir atvikinu svona:
Þegar Xanþippa sá okkur hljóðaði hún upp yfir sig og talaði líkt og konum er títt: „Ó, Sókrates! Nú tala vinir þínir við þig í síðasta sinn og þú við þá!“ Þá leit Sókrates til Krítons og mælti: „Kríton, láttu einhvern fara með hana heim.“ Einhverjir förunautar Krítons fóru þá burt með hana, en hún hljóðaði og barði sér á brjóst. (Fædon 60A, þýð. Sigurðar Nordal)

Annar kunningi og lærisveinn Sókratesar, sem einnig ritaði um kennara sinn, var herforinginn og rithöfundurinn Xenofon (428 – 354 f.Kr.). Hann minnist á Xanþippu í rit sínu Samdrykkjunni (II.9-10). Þar er Sókrates að segja félögum sínum að konur standi körlum ekki að baki að neinu leyti nema að vísu hvað dómgreind og líkamlegt hreysti varðar og hann hvetur þá til að fræða eiginkonur sínar og kenna þeim hvaðeina sem þeir vilja að þær kunni. Þá spyr Antisþenes, einn viðstaddra, hvers vegna Sókrates geri þá ekki slíkt hið sama sjálfur og fræði Xanþippu sína í stað þess að búa með jafn erfiðri konu. Sókrates svarar því til að líkt og tamningamenn hafi meiri áhuga á skapstórum hestum og halda að ef þeir ráði við þá ráði þeir við hvaða hest sem er, telji hann sjálfur að ef hann geti búið með Xanþippu geti hann sömuleiðis átt vingott við hvern sem er.


Xanþippa hellir úr hlandkoppi yfir Sókrates. Myndskreyting frá 1607.

Frá því á 4. öld f.Kr. þekktist sú saga að Sókrates hafi átt tvær eiginkonur, Xanþippu og Myrtó Aristídesardóttur. Hvorki Xenofon né Platon minnist á Myrtó en Platon nefnir að Sókrates hafi átt þrjá syni. Díogenes Laertíos (uppi á fyrri hluta 3. aldar) segir í ævisögu Sókratesar að hann hafi átt soninn Lamprókles með Xanþippu en synina Sófróniskos og Menexenos með Myrtó, síðari eiginkonu sinni (D.L. II.26). Díogenes kveðst styðjast við Aristóteles (384 – 322 f.Kr.) sem heimildarmann sinn en getur þess þó að í öðrum heimildum sé Myrtó talin fyrri eiginkona Sókratesar og Xanþippa síðari eiginkona hans. Enn aðrir, þar á meðal Satýros og Híeronýmos frá Ródos (báðir uppi á 3. öld f.Kr.), héldu því fram að sögn Díogenesar að Sókrates hafi verið kvæntur báðum konunum í einu, enda hafi verið skortur á körlum í Aþenu og lög hafi verið sett sem leyfðu aþenskum borgurum að kvænast einni aþenskri konu og eiga einnig börn með annarri.

Í ævisögu Aristídesar segir sagnaritarinn Plútarkos (46 – 120) að Myrtó hafi verið barnabarn Aristódesar og að hún hafi búið með Sókratesi eftir að hún varð ekkja þrátt fyrir að hann hafi verið kvæntur annarri konu; hann hafi tekið hana undir sinn verndarvæng af því að hún var fátæk og gat ekki séð fyrir sér sjálf. Plútarkos nefnir sem heimildarmenn sína Demetríos frá Faleron (350 – 283 f.Kr.), Híeronýmos frá Ródos, Aristóxenos (fæddur milli 375 og 360 f.Kr.) og Aristóteles, hafi ritið Um ættgöfgi á annað borð verið réttilega eignað honum. Um ættgöfgi er á lista Díogenesar yfir ritverk Aristótelesar en það er því miður ekki að finna meðal varðveittra verka Aristótelesar. Þess má geta að á Myrtó er einnig minnst ásamt Xanþippu í ritinu Halkýónu (Halk. 8) sem er frá um 150 f.Kr. – 50 e.Kr. og er ranglega eignað Platoni.

Öllum heimildum ber því saman um að kona Sókratesar hafi heitið Xanþippa en um Myrtó er á hinn bóginn vandi að segja með vissu.

Svör um tengt efni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

15.11.2007

Spyrjandi

Eva María Ingvadóttir, f. 1991

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað hét kona Sókratesar og hvað er vitað um hana?“ Vísindavefurinn, 15. nóvember 2007, sótt 24. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6907.

Geir Þ. Þórarinsson. (2007, 15. nóvember). Hvað hét kona Sókratesar og hvað er vitað um hana? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6907

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað hét kona Sókratesar og hvað er vitað um hana?“ Vísindavefurinn. 15. nóv. 2007. Vefsíða. 24. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6907>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað hét kona Sókratesar og hvað er vitað um hana?
Kona Sókratesar hét Xanþippa. Hún er einkum þekkt fyrir að vera skapmikil og erfið í sambúð. Xanþippa kemur meðal annars fyrir í samræðunni Fædoni eftir Platon (427 – 347 f.Kr.) sem var lærisveinn Sókratesar. Þar situr Xanþippa hjá manni sínum með son þeirra í kjöltunni í fangelsinu daginn sem dauðadómi hans skal fullnægt. Þegar vini Sókratesar ber að er Xanþippa í miklu uppnámi. Platon lýsir atvikinu svona:

Þegar Xanþippa sá okkur hljóðaði hún upp yfir sig og talaði líkt og konum er títt: „Ó, Sókrates! Nú tala vinir þínir við þig í síðasta sinn og þú við þá!“ Þá leit Sókrates til Krítons og mælti: „Kríton, láttu einhvern fara með hana heim.“ Einhverjir förunautar Krítons fóru þá burt með hana, en hún hljóðaði og barði sér á brjóst. (Fædon 60A, þýð. Sigurðar Nordal)

Annar kunningi og lærisveinn Sókratesar, sem einnig ritaði um kennara sinn, var herforinginn og rithöfundurinn Xenofon (428 – 354 f.Kr.). Hann minnist á Xanþippu í rit sínu Samdrykkjunni (II.9-10). Þar er Sókrates að segja félögum sínum að konur standi körlum ekki að baki að neinu leyti nema að vísu hvað dómgreind og líkamlegt hreysti varðar og hann hvetur þá til að fræða eiginkonur sínar og kenna þeim hvaðeina sem þeir vilja að þær kunni. Þá spyr Antisþenes, einn viðstaddra, hvers vegna Sókrates geri þá ekki slíkt hið sama sjálfur og fræði Xanþippu sína í stað þess að búa með jafn erfiðri konu. Sókrates svarar því til að líkt og tamningamenn hafi meiri áhuga á skapstórum hestum og halda að ef þeir ráði við þá ráði þeir við hvaða hest sem er, telji hann sjálfur að ef hann geti búið með Xanþippu geti hann sömuleiðis átt vingott við hvern sem er.


Xanþippa hellir úr hlandkoppi yfir Sókrates. Myndskreyting frá 1607.

Frá því á 4. öld f.Kr. þekktist sú saga að Sókrates hafi átt tvær eiginkonur, Xanþippu og Myrtó Aristídesardóttur. Hvorki Xenofon né Platon minnist á Myrtó en Platon nefnir að Sókrates hafi átt þrjá syni. Díogenes Laertíos (uppi á fyrri hluta 3. aldar) segir í ævisögu Sókratesar að hann hafi átt soninn Lamprókles með Xanþippu en synina Sófróniskos og Menexenos með Myrtó, síðari eiginkonu sinni (D.L. II.26). Díogenes kveðst styðjast við Aristóteles (384 – 322 f.Kr.) sem heimildarmann sinn en getur þess þó að í öðrum heimildum sé Myrtó talin fyrri eiginkona Sókratesar og Xanþippa síðari eiginkona hans. Enn aðrir, þar á meðal Satýros og Híeronýmos frá Ródos (báðir uppi á 3. öld f.Kr.), héldu því fram að sögn Díogenesar að Sókrates hafi verið kvæntur báðum konunum í einu, enda hafi verið skortur á körlum í Aþenu og lög hafi verið sett sem leyfðu aþenskum borgurum að kvænast einni aþenskri konu og eiga einnig börn með annarri.

Í ævisögu Aristídesar segir sagnaritarinn Plútarkos (46 – 120) að Myrtó hafi verið barnabarn Aristódesar og að hún hafi búið með Sókratesi eftir að hún varð ekkja þrátt fyrir að hann hafi verið kvæntur annarri konu; hann hafi tekið hana undir sinn verndarvæng af því að hún var fátæk og gat ekki séð fyrir sér sjálf. Plútarkos nefnir sem heimildarmenn sína Demetríos frá Faleron (350 – 283 f.Kr.), Híeronýmos frá Ródos, Aristóxenos (fæddur milli 375 og 360 f.Kr.) og Aristóteles, hafi ritið Um ættgöfgi á annað borð verið réttilega eignað honum. Um ættgöfgi er á lista Díogenesar yfir ritverk Aristótelesar en það er því miður ekki að finna meðal varðveittra verka Aristótelesar. Þess má geta að á Myrtó er einnig minnst ásamt Xanþippu í ritinu Halkýónu (Halk. 8) sem er frá um 150 f.Kr. – 50 e.Kr. og er ranglega eignað Platoni.

Öllum heimildum ber því saman um að kona Sókratesar hafi heitið Xanþippa en um Myrtó er á hinn bóginn vandi að segja með vissu.

Svör um tengt efni á Vísindavefnum:

Mynd:...