Sólin Sólin Rís 08:51 • sest 18:32 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 09:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:10 • Síðdegis: 19:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:03 • Síðdegis: 13:25 í Reykjavík

Ef Sókrates væri uppi á okkar tímum, væri hann þá ekki bara iðjuleysingi og ónytjungur?

Haukur Már Helgason

Vafalaust myndu einhverjir líta á heimspekinginn Sókrates (470-399 f.Kr.) sem ónytjung væri hann uppi í dag, enda gerðu það margir fyrir 2400 árum í Grikklandi. Okkur er ekki kunnugt um að hvítskeggjaður öldungur hafi sést nýlega í hvítum kyrtli og sandölum, sprangandi um Ingólfstorg, umkringdur ungum mönnum með blik þekkingarþorstans í augunum. Þó kann að vera að maður af þessum toga finnist á Fróni og þá er trúlegt að margir líti á hann sem ónytjung. Um leið er vonandi að einhverjir viti betur og þessi maður eigi sér áheyrendur, líkt og Sókrates forðum.


Það sem við vitum um Sókrates er að mestu fengið úr ritum lærisveins hans, Platons. Sjálfur skrifaði Sókrates ekkert. Platon var heimspekingur -- einn áhrifamesti hugsuður allra tíma -- en öll rit hans eru byggð upp sem samræður milli Sókratesar og annarra manna. Þetta hefur torveldað mönnum að skilja milli þess sem raunverulega er komið frá Sókratesi og hins sem Platon leggur til. Í dag er þó almenn sátt um að flokka ákveðin rit sem fyrstu rit Platons og önnur sem síðari rit, og að í þeim fyrstu birtist mál Sókratesar en hinum síðari frekar kenningar Platons.

Sókrates gekk um götur og talaði -- það er sú iðja sem gerði hann manna ódauðlegastan í verkum Platons. Sókrates kvaðst leita að þekkingu með samræðum við menn. Aðferð Sókratesar, sem hann beitti í samræðu, heitir elenkos á grísku. Elenkos felst í því að leiða niðurstöður af skoðunum eða hugmyndum viðmælanda sem ýmist eru í mótsögn hvor við aðra eða við augljósar staðreyndir, og varpa þannig ljósi á hvað í skoðun felst og sýna hvernig hún stenst í raun ekki.

Sókrates beitir elenkos í bland við ljósmóðurtækni sína. Hún felst í því að spyrja aðeins spurninga en veita engin svör sjálfur, leiða þannig samræðuna áfram en láta öll málsatriði koma úr munni viðmælanda – hjálpa til við fæðingu hugmynda úr annarra skauti. Móðir Sókratesar var ljósmóðir; þaðan hefur hann líkinguna.

Sókrates kveðst sjálfur fávís og spyr þann sem mest þykist vita um tiltekið efni, til dæmis þekkingu: Hvað er þekking? Og sá sem telur sig vita skýrir frá hugmyndum sínum -- þekking er skynjun. Þá segir Sókrates: En tveir menn finna sama vind leika um sig og annar segir hann hlýjan en hinn kaldan, báðir skynja þeir; hvor hefur þekkinguna? Þá betrumbætir viðmælandinn kenninguna en Sókrates finnur enn á henni einhverja meinbugi. Þannig heldur samræðunni áfram þar til báðir standa upp og hafa komið því til leiðar að allar fyrri hugmyndir um efnið eru ónýtar en engin niðurstaða fengin, ekkert svar við spurningunni: Hvað er þekking? (Sjá Þeætetus eftir Platón í þýðingu Arnórs Hannibalssonar).

Þetta þótti mörgum lítilsvert -- að fá ekki botn í samræðuna -- sérstaklega á dögum fræðaranna (sófistanna) sem fóru um Grikkland og kváðust sumir geta komist að niðurstöðu í hvaða máli sem er og sannfært viðmælendur án mikillar fyrirhafnar.

Sókrates og nemendur hans eftir Giovanni Francesco Romanelli (1610-1662).

Þessi aðferð, samræðulistin, er kennd við Sókrates. En aðferð Sókratesar er ekki það eina sem hann færði heimspekinni nýtt. Viðfangsefni hans voru líka nýmæli. Forverar hans í forngrískri heimspeki höfðu velt vöngum yfir heiminum sem maðurinn er staddur í -- hvert væri eðli heimsins, hvað byggi að baki honum, hvernig hann væri til kominn. En Sókrates beitir heimspekilegri hugsun á manninn, líf hans og samfélag. Sókrates er fyrstur í heimspekisögunni til að spyrja: Hvað er réttlæti? Hvað er dygð? Hvað er ást? Hvað er þekking? Rómverski ræðu- og ritsnillingurinn Cicero orðaði það sem svo að Sókrates hefði fært heimspekina úr skýjunum niður á jörðina.

Iðja Sókratesar var merkileg en það var ekki ljóst þeim sem hæddu hann á torgum. Sumt sem er merkilegt er afar tímafrekt að nema. Þeir sem gáfu sér ekki tíma námu það ekki þá (og nema það ekki nú). En Sókrates átti sér dyggan hóp lærisveina sem fylgdu honum hvert fótmál og hlýddu á samræður hans. Ljóst er af verkum Platons, sem var einn þessara sveina, að virðing þeirra fyrir Sókratesi var takmarkalaus.

Einhverjir sem vilja ekki virða Sókrates sem heimspeking kynnu að vilja virða hann fyrir önnur störf hans. Á yngri árum gegndi hann herþjónustu með sóma, framdi hetjudáðir á vígvelli og starfaði síðar sem steinsmiður þegar á þurfti að halda. Aðrir kynnu að virða hann fyrir heilindi því að Sókrates lifði og dó af heilindum gagnvart því sem hann taldi rétt. Aldrei þáði hann borgun fyrir samræður við menn, líkt og samtímamenn hans fræðararnir gerðu. Þegar samborgarar hans í Aþenu dæmdu hann til dauða árið 399 fyrir Krist fyrir að spilla æskulýð borgríkisins þá átti Sókrates kost á að flýja. Sveinar hans skipulögðu flótta úr fangelsi, en hann neitaði. Hann sagðist hafa notið góðs af lögum Aþenu og myndi ekki brjóta þau þó að þau ynnu nú gegn honum.

Lesendum er bent á svar Hrannars Baldurssonar við sömu spurningu.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Rit til hliðsjónar:
  • Platón, Menón, þýð. Sveinbjörn Egilsson. Hið íslenska bókmenntafélag. 2. útg. 1993.
  • Platón, Þeætetus, þýð. Arnór Hannibalsson. (Bóksala stúdenta selur).
  • Platón, Síðustu dagar Sókratesar, þýð. Sigurður Nordal. Hið íslenska bókmenntafélag. 4. útg. 1996.
  • Þorsteinn Vilhjálmsson. Heimsmynd á hverfanda hveli I. Mál og menning, 1986.

Mynd:

Höfundur

heimspekingur og fyrrverandi starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

22.6.2000

Spyrjandi

Andri Pálsson

Tilvísun

Haukur Már Helgason. „Ef Sókrates væri uppi á okkar tímum, væri hann þá ekki bara iðjuleysingi og ónytjungur? “ Vísindavefurinn, 22. júní 2000. Sótt 25. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=563.

Haukur Már Helgason. (2000, 22. júní). Ef Sókrates væri uppi á okkar tímum, væri hann þá ekki bara iðjuleysingi og ónytjungur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=563

Haukur Már Helgason. „Ef Sókrates væri uppi á okkar tímum, væri hann þá ekki bara iðjuleysingi og ónytjungur? “ Vísindavefurinn. 22. jún. 2000. Vefsíða. 25. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=563>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Ef Sókrates væri uppi á okkar tímum, væri hann þá ekki bara iðjuleysingi og ónytjungur?
Vafalaust myndu einhverjir líta á heimspekinginn Sókrates (470-399 f.Kr.) sem ónytjung væri hann uppi í dag, enda gerðu það margir fyrir 2400 árum í Grikklandi. Okkur er ekki kunnugt um að hvítskeggjaður öldungur hafi sést nýlega í hvítum kyrtli og sandölum, sprangandi um Ingólfstorg, umkringdur ungum mönnum með blik þekkingarþorstans í augunum. Þó kann að vera að maður af þessum toga finnist á Fróni og þá er trúlegt að margir líti á hann sem ónytjung. Um leið er vonandi að einhverjir viti betur og þessi maður eigi sér áheyrendur, líkt og Sókrates forðum.


Það sem við vitum um Sókrates er að mestu fengið úr ritum lærisveins hans, Platons. Sjálfur skrifaði Sókrates ekkert. Platon var heimspekingur -- einn áhrifamesti hugsuður allra tíma -- en öll rit hans eru byggð upp sem samræður milli Sókratesar og annarra manna. Þetta hefur torveldað mönnum að skilja milli þess sem raunverulega er komið frá Sókratesi og hins sem Platon leggur til. Í dag er þó almenn sátt um að flokka ákveðin rit sem fyrstu rit Platons og önnur sem síðari rit, og að í þeim fyrstu birtist mál Sókratesar en hinum síðari frekar kenningar Platons.

Sókrates gekk um götur og talaði -- það er sú iðja sem gerði hann manna ódauðlegastan í verkum Platons. Sókrates kvaðst leita að þekkingu með samræðum við menn. Aðferð Sókratesar, sem hann beitti í samræðu, heitir elenkos á grísku. Elenkos felst í því að leiða niðurstöður af skoðunum eða hugmyndum viðmælanda sem ýmist eru í mótsögn hvor við aðra eða við augljósar staðreyndir, og varpa þannig ljósi á hvað í skoðun felst og sýna hvernig hún stenst í raun ekki.

Sókrates beitir elenkos í bland við ljósmóðurtækni sína. Hún felst í því að spyrja aðeins spurninga en veita engin svör sjálfur, leiða þannig samræðuna áfram en láta öll málsatriði koma úr munni viðmælanda – hjálpa til við fæðingu hugmynda úr annarra skauti. Móðir Sókratesar var ljósmóðir; þaðan hefur hann líkinguna.

Sókrates kveðst sjálfur fávís og spyr þann sem mest þykist vita um tiltekið efni, til dæmis þekkingu: Hvað er þekking? Og sá sem telur sig vita skýrir frá hugmyndum sínum -- þekking er skynjun. Þá segir Sókrates: En tveir menn finna sama vind leika um sig og annar segir hann hlýjan en hinn kaldan, báðir skynja þeir; hvor hefur þekkinguna? Þá betrumbætir viðmælandinn kenninguna en Sókrates finnur enn á henni einhverja meinbugi. Þannig heldur samræðunni áfram þar til báðir standa upp og hafa komið því til leiðar að allar fyrri hugmyndir um efnið eru ónýtar en engin niðurstaða fengin, ekkert svar við spurningunni: Hvað er þekking? (Sjá Þeætetus eftir Platón í þýðingu Arnórs Hannibalssonar).

Þetta þótti mörgum lítilsvert -- að fá ekki botn í samræðuna -- sérstaklega á dögum fræðaranna (sófistanna) sem fóru um Grikkland og kváðust sumir geta komist að niðurstöðu í hvaða máli sem er og sannfært viðmælendur án mikillar fyrirhafnar.

Sókrates og nemendur hans eftir Giovanni Francesco Romanelli (1610-1662).

Þessi aðferð, samræðulistin, er kennd við Sókrates. En aðferð Sókratesar er ekki það eina sem hann færði heimspekinni nýtt. Viðfangsefni hans voru líka nýmæli. Forverar hans í forngrískri heimspeki höfðu velt vöngum yfir heiminum sem maðurinn er staddur í -- hvert væri eðli heimsins, hvað byggi að baki honum, hvernig hann væri til kominn. En Sókrates beitir heimspekilegri hugsun á manninn, líf hans og samfélag. Sókrates er fyrstur í heimspekisögunni til að spyrja: Hvað er réttlæti? Hvað er dygð? Hvað er ást? Hvað er þekking? Rómverski ræðu- og ritsnillingurinn Cicero orðaði það sem svo að Sókrates hefði fært heimspekina úr skýjunum niður á jörðina.

Iðja Sókratesar var merkileg en það var ekki ljóst þeim sem hæddu hann á torgum. Sumt sem er merkilegt er afar tímafrekt að nema. Þeir sem gáfu sér ekki tíma námu það ekki þá (og nema það ekki nú). En Sókrates átti sér dyggan hóp lærisveina sem fylgdu honum hvert fótmál og hlýddu á samræður hans. Ljóst er af verkum Platons, sem var einn þessara sveina, að virðing þeirra fyrir Sókratesi var takmarkalaus.

Einhverjir sem vilja ekki virða Sókrates sem heimspeking kynnu að vilja virða hann fyrir önnur störf hans. Á yngri árum gegndi hann herþjónustu með sóma, framdi hetjudáðir á vígvelli og starfaði síðar sem steinsmiður þegar á þurfti að halda. Aðrir kynnu að virða hann fyrir heilindi því að Sókrates lifði og dó af heilindum gagnvart því sem hann taldi rétt. Aldrei þáði hann borgun fyrir samræður við menn, líkt og samtímamenn hans fræðararnir gerðu. Þegar samborgarar hans í Aþenu dæmdu hann til dauða árið 399 fyrir Krist fyrir að spilla æskulýð borgríkisins þá átti Sókrates kost á að flýja. Sveinar hans skipulögðu flótta úr fangelsi, en hann neitaði. Hann sagðist hafa notið góðs af lögum Aþenu og myndi ekki brjóta þau þó að þau ynnu nú gegn honum.

Lesendum er bent á svar Hrannars Baldurssonar við sömu spurningu.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Rit til hliðsjónar:
  • Platón, Menón, þýð. Sveinbjörn Egilsson. Hið íslenska bókmenntafélag. 2. útg. 1993.
  • Platón, Þeætetus, þýð. Arnór Hannibalsson. (Bóksala stúdenta selur).
  • Platón, Síðustu dagar Sókratesar, þýð. Sigurður Nordal. Hið íslenska bókmenntafélag. 4. útg. 1996.
  • Þorsteinn Vilhjálmsson. Heimsmynd á hverfanda hveli I. Mál og menning, 1986.

Mynd:...