Heimildum ber ekki saman um hversu oft Etna hefur gosið á því 3500 ára tímabili sem skráð gossaga fjallsins nær yfir. Líklega má að einhverju leyti rekja það til þess hversu brotakenndar elstu heimildir eru og eins þess að fjallið lætur mjög oft á sér kræla án þess þó að um stórgos sé að ræða og því spurning hvernig talið er. Á heimasíðu Global Volcanism Program eru getið um yfir 200 eldgos frá því um 1500 fyrir Krist en ýmsar aðrar heimildir eru með mun lægri tölur, á bilinu 100-150.
Eldgos í Etnu hafa kostað mannslíf enda er töluverð byggð við rætur og í neðri hlíðum fjallsins þar sem jarðvegur er frjósamur og skilyrði til ræktunar góð. Þar er meðal annars Catanía, önnur stærsta borg Sikileyjar þar sem í dag búa yfir 300.000 manns. Meðal frægari gosa í Etnu er eldgos sem hófst þann 11. mars 1699 og stóð til 15. júlí sama ár. Hraunrennsli sem fylgdi því gosi eyðilagði á annan tug þorpa neðarlega í fjallinu auk þess sem vestur hluti borgarinnar Cataníu varð undir hrauni. Þetta gos kostaði um 20.000 mannslíf.
Etna gýs það oft að svar við því hvenær fjallið gaus síðast skrifað á tilteknum tíma verður mjög fljótt úrelt. Þess vegna er lesendum bent á að nota leitarvélar á netinu til þess að fá nýjustu upplýsingar hverju sinni.
Heimildir og mynd:- Global Volcanism Program
- Etna. (2005). Encyclopædia Britannica. Sótt 13. ágúst 2005, á Encyclopædia Britannica Online
- Mount Etna. Sótt 21. september 2005, á Wikipedia, the free encyclopedia
- Gunnar Dal. 2000. Grískar goðsögur sagðar af Gunnari Dal. Reykjavík, Nýja bókafélagið.