Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Skjaldbökur eru afar frumstæð skriðdýr af ættbálknum Chelonia. Helsta einkenni þeirra er skjöldurinn sem umlykur skrokkinn og geta þær dregið bæði fætur og höfuð inn undir hann ef hætta steðjar að.
Fæðuval skjaldbaka er nokkuð fjölbreytilegt. Þar sem þær eru tannlausar, og hafa sennilega verið það í 150 milljónir ára, lifa flestar tegundirnar á jurtum og þá helst mjúkum safaríkum sprotum og laufblöðum. Þó eru til nokkrar tegundir landskjaldbaka sem éta önnur dýr. Kunnust þeirra er tegund sem á heimkynni sín í suðurríkjum Bandaríkjanna og nefnist á ensku 'giant alligator snapping turtle' (Macrochelys temmincki) en höfundi er því miður ekki kunnugt um íslenskt heiti hennar. Þessi tegund hefur rauðan skinnflipa neðarlega í munninum sem minnir á orm. Flipi þessi hefur það hlutverk að laða að fisk. Skjaldbakan liggur þá hreyfingarlaus með opinn munninn en þegar fiskur lætur gabbast og syndir í munn hennar skellir hún skoltinum snöggt og hremmir þannig bráðina.
Flestar skjaldbökutegundir lifa á jurtum.
Líkt og önnur skriðdýr geta skjaldbökur lifað í langan tíma án fæðu. Dæmi eru um að skjaldbökur hafi lifað af í meira en mánuð án fæðu og vatns. Þegar þær komast hins vegar í vatn geta þær drukkið mikið og eru umframbirgðirnar geymdar í blöðru sem liggur við þarfaganginn.
Flestar tegundir skjaldbaka eru landdýr sem lifa í fenjum og mýrlendi en nokkrar tegundir hafa að mestu leyti aðlagast lífi í sjó. Þessar sæskjaldbökur koma koma samt á land til þess að verpa eggjum sínum.
Hreiðurgerð er vel þekkt meðal skjaldbaka. Frægasta „hreiðurgerðin“ eru sennilega holurnar sem sæskjaldbökur gera á suðrænum ströndum og moka síðan vandlega yfir eftir varpið. Fjöldi eggja í varpi fer mjög eftir tegundum. Stærstu sæskjaldbökurnar geta verpt allt að því 200 eggjum en margar tegundir landskjaldbaka verpa aðeins einu eggi.
Klaktíminn er mislangur eftir tegundum en er einnig háður utanaðkomandi þáttum eins og hitastigi. Þegar egg sæskjaldbaka klekjast út þurfa ungarnir að krafsa sig upp á yfirborðið og skríða til sjávar. Þetta ferðalag er vægast sagt hættulegt því um þá situr fjöldi fugla og smærri rándýra sem tína þá upp og éta. Þeir fáu sem ná til sjávar úr þessari hættuför þurfa svo að komast undan fiskum sem bíða þeirra undan ströndinni.
Skynjun skjaldbaka á umhverfi sínu hefur ekki verið mikið rannsökuð en þær rannsóknir sem til eru benda til þess að skjaldbökur virðist aðallega styðjast við lyktarskyn. Sjónskynjun er þó einnig nokkuð vel þróuð og þá sérstaklega skynjun lita. Skjaldbökur bregðast klárlega við bylgjum í vatni. Rannsóknir benda jafnframt til þess að þær hafi ágæta heyrn og sérstaklega við lága tíðni, allt að 20 rið á sekúndu.
Rannsóknir á greind skjaldbaka hafa sýnt að þær hafa nokkuð góða námshæfileika af skriðdýrum að vera og á mörgum sviðum áþekkar tilraunarottum. Mörgum þykir þó ekki mikið til greindar þeirra koma, til dæmis þegar þær reyna hvað eftir annað að komast yfir háa hindrun í staðinn fyrir að fara framhjá henni.
Risaskjaldbaka að teygja úr sér.
Þó að talsvert vanti af steingervingum til þess að fá heildstæða mynd af þróun skjalbaka þá er steingervingasaga þeirra nokkuð betri en flestra annarra hópa hryggdýra. Á miðju trías-tímabilinu (fyrir um 200 miljón árum) virðast skjaldbökur hafa verið tiltölulega algengar í fánunni og hið dæmigerða líkamsform þeirra komið fram. Einstaka tegundir voru tenntar en þegar fram liðu stundir hurfu þessar tennur.
Á meðan sumir hópar skriðdýra blómstruðu fyrir milljónum ára en hurfu síðan og aðrir hafa átt sitt blómaskeið á nýlífsöld þá viðast skjaldbökur hafa haldið sínu striki í meira en 200 miljónir ára og breyst afar lítið í grunnlíkamsbyggingu.
Heimildir og myndir:
Ernst, C.H., og Barbour, R.W. 1989. Turtles of the World. Smithsonian Inst. Press, Washington, D.C.
Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér það helsta um skjaldbökur?“ Vísindavefurinn, 30. september 2005, sótt 8. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5301.
Jón Már Halldórsson. (2005, 30. september). Getið þið sagt mér það helsta um skjaldbökur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5301
Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér það helsta um skjaldbökur?“ Vísindavefurinn. 30. sep. 2005. Vefsíða. 8. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5301>.