Fram yfir 1960 töldu vísindamenn segul-pólskiptin hafa orðið aðeins einu sinni eða tvisvar á hverjum milljón árum, og hafa tímabilin á milli þeirra verið kölluð segulskeið (e. chrons). Einna best könnuðu pólskiptin urðu fyrir um 780 þúsund árum, og hefur jarðsegulsviðið síðan þá að mestu stefnt í sömu átt og nú. Á fyrri hluta sjöunda áratugarins fundust ummerki um einstöku segulskeið sem stóðu aðeins nokkra tugi þúsunda ára, og voru kölluð subchrons. Á síðustu áratugum hafa vandaðar rannsóknir meðal annars á setlögum á sjávarbotni sýnt, að slík stutt segulskeið eru all-algeng. Einnig finnast ummerki um mörg jafnvel enn styttri skeið (e. cryptochrons) sem hafa tekið aðeins fáein þúsund ár og segulskautin þá stundum ekki náð að snúast að fullu við.
Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
Mynd:- Reversals of Earth's Magnetic Field Explained by Small Core Fluctuations, á vefsíðunni Physorg.com. Sótt 10.9.2009.