Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:49 • Síðdegis: 18:13 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:55 • Síðdegis: 24:31 í Reykjavík

Af hverju eru sum eldfjöll á Íslandi virk en önnur ekki?

Ármann Höskuldsson

Einfaldasta svarið við þessari spurningu er; vegna þess að til þeirra óvirku streymir ekki lengur kvika. En þetta svar skilur spyrjandann kannski eftir í sömu sporum þar sem það útskýrir ekki hvers vegna kvikan hættir að streyma til eldfjallanna. Skoðum þetta nánar.

Ísland hefur mikla sérstöðu í heiminum vegna þess að hér eru tvö meginkerfi jarðskorpumyndunar að verki. Þau eru annars vegar úthafshryggjakerfi og hins vegar heitur reitur. Í báðum tilvikum streymir bráð úr möttli jarðar til yfirborðs. Í fyrra tilvikinu er kvikuframleiðslan tengd tveim flekum sem eru að skiljast að og fer bráðin að mestu í að mynda nýja skorpu á saumum þessara tveggja fleka. Í síðara tilvikinu er um að ræða bráð sem vellur upp úr möttlinum óháð flekaskilum. Bráðin fer því í að mynda hraun og innskot ofan á og í eldri skorpu.

Í báðum tilvikum verða eldgos vegna þess að bráð flyst úr iðrum jarðar til yfirborðs. Þar sem eldfjöllin eru ofan á flekunum og flekarnir eru á sífelldri hreyfingu óháð kvikuframleiðslunni í möttlinum rofna þessi tengsl um síðir.

Til að ákvarða virkni eldfjalla þarf að þekkja sögu þeirra. Sum eldfjöll gjósa reglulega með áratuga eða alda millibili. Hjá öðrum líða þúsundir ára milli gosa. Því er nauðsynlegt að þekkja gostíðni þeirra áður en að þau eru ákvörðuð virk eða óvirk. Snæfellsjökull er til dæmis virk eldstöð þó hún hafi ekki gosið í langan tíma.

Á Íslandi skiljast flekarnir að um 1,95 cm á ári og þar fyrir utan færast flekamótin til norðvesturs sé tekið tillit til heita reitsins. Þessar hreyfingar á jarðskorpunni verða því til þess að með tíð og tíma rofnar samband eldfjallanna við uppruna sinn, það er kvikuframleiðsluna, og þau kólna hægt og rólega niður.

Mynd:

Höfundur

Ármann Höskuldsson

eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans

Útgáfudagur

7.10.2005

Spyrjandi

Andri Þór Eyþórsson, f. 1993

Tilvísun

Ármann Höskuldsson. „Af hverju eru sum eldfjöll á Íslandi virk en önnur ekki?“ Vísindavefurinn, 7. október 2005. Sótt 21. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5316.

Ármann Höskuldsson. (2005, 7. október). Af hverju eru sum eldfjöll á Íslandi virk en önnur ekki? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5316

Ármann Höskuldsson. „Af hverju eru sum eldfjöll á Íslandi virk en önnur ekki?“ Vísindavefurinn. 7. okt. 2005. Vefsíða. 21. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5316>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju eru sum eldfjöll á Íslandi virk en önnur ekki?
Einfaldasta svarið við þessari spurningu er; vegna þess að til þeirra óvirku streymir ekki lengur kvika. En þetta svar skilur spyrjandann kannski eftir í sömu sporum þar sem það útskýrir ekki hvers vegna kvikan hættir að streyma til eldfjallanna. Skoðum þetta nánar.

Ísland hefur mikla sérstöðu í heiminum vegna þess að hér eru tvö meginkerfi jarðskorpumyndunar að verki. Þau eru annars vegar úthafshryggjakerfi og hins vegar heitur reitur. Í báðum tilvikum streymir bráð úr möttli jarðar til yfirborðs. Í fyrra tilvikinu er kvikuframleiðslan tengd tveim flekum sem eru að skiljast að og fer bráðin að mestu í að mynda nýja skorpu á saumum þessara tveggja fleka. Í síðara tilvikinu er um að ræða bráð sem vellur upp úr möttlinum óháð flekaskilum. Bráðin fer því í að mynda hraun og innskot ofan á og í eldri skorpu.

Í báðum tilvikum verða eldgos vegna þess að bráð flyst úr iðrum jarðar til yfirborðs. Þar sem eldfjöllin eru ofan á flekunum og flekarnir eru á sífelldri hreyfingu óháð kvikuframleiðslunni í möttlinum rofna þessi tengsl um síðir.

Til að ákvarða virkni eldfjalla þarf að þekkja sögu þeirra. Sum eldfjöll gjósa reglulega með áratuga eða alda millibili. Hjá öðrum líða þúsundir ára milli gosa. Því er nauðsynlegt að þekkja gostíðni þeirra áður en að þau eru ákvörðuð virk eða óvirk. Snæfellsjökull er til dæmis virk eldstöð þó hún hafi ekki gosið í langan tíma.

Á Íslandi skiljast flekarnir að um 1,95 cm á ári og þar fyrir utan færast flekamótin til norðvesturs sé tekið tillit til heita reitsins. Þessar hreyfingar á jarðskorpunni verða því til þess að með tíð og tíma rofnar samband eldfjallanna við uppruna sinn, það er kvikuframleiðsluna, og þau kólna hægt og rólega niður.

Mynd: ...