Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hvers vegna er lögum um fyrirtækjanöfn ekki framfylgt?

Ragnar Guðmundsson

Lengi vel var ekki allt sem sýndist þegar kom að nöfnum íslenskra fyrirtækja því að það tíðkaðist um hríð að fyrirtæki hétu íslenskum nöfnum í firmaskrá en notuðu önnur og jafnvel erlend nöfn í viðskiptum sínum. Margir kannast til dæmis við það að á yfirlitum um greiðslukortaviðskipti standa oft önnur fyrirtækjanöfn en þau sem greiðandi hélt að hann hefði verið að skipta við.

Ekki eru til sérstök lög um nöfn fyrirtækja. Lausleg athugun okkar á nöfnum í fyrirtækjaskrá sýnir þó að kjarni spurningarinnar á rétt á sér gagnvart henni; þar eru nöfn eða nafnliðir sem ekki hljóma mjög íslensk eins og "Spa", "Group", "Nordica" og svo framvegis.

Samkvæmt núgildandi reglum verður að skrá öll fyrirtæki hjá fyrirtækjaskrá sem ríkisskattstjóri sér um. Hægt er lesa um hvaða reglur eru lagðar til grundvallar við skráningu fyrirtækja í Fyrirtækjaskrá.

Megináhersla er lögð á það að nöfn nýrra fyrirtækja séu ekki of lík nöfnum sem þegar eru á skrá, og alls ekki má nota nafn sem þegar er í notkun. Nokkur fleiri atriði eru líka höfð að leiðarljósi svo sem það að nafn fyrirtækis innihaldi ekki tákn eins og +, /, # og svo framvegis. Að öðru leyti á nafngiftin að fara eftir reglum firmalaga eins og segir í leiðbeiningum fyrirtækjaskrár. Þá er líklega sérstaklega átt við 8. gr. laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð nr. 42 frá árinu 1903. Þar segir meðal annars:
Hver sá er rekur verslun, handiðnað eða verksmiðjuiðnað skal hlýða ákvæðum þeim, er hér fara á eftir, um nafn það, er hann notar við atvinnuna, og um undirskrift fyrir hana (firma), enda beri fyrirtækið og atvinnustarfsemi þess nöfn, sem samrýmist íslensku málkerfi að dómi skrásetjara [...]
Líklega er það þetta atriði sem spyrjandi er að leita að svari við. Af hverju er því ekki framfylgt að nafn fyrirtækis "samrýmist íslensku málkerfi"?

Við þeirri spurningu er í raun aðeins eitt svar. Menn hafa væntanlega gefist upp á því að halda þessu til streitu. Fyrir því eru sjálfsagt margar ástæður en sú mikilvægasta er líklega sú að það getur verið álitamál hvað nöfn samrýmast íslensku málkerfi og hvaða nöfn gera það ekki. Flestir kannast líklega við umræðu sem reglulega kemur upp vegna starfa mannanafnanefndar.

Þróunin hefur þess vegna orðið sú að í dag er þetta ákvæði um íslensk nöfn á íslenskum fyrirtækjum eiginlega fallið niður vegna notkunarleysis. Ef allt í einu ætti að fara að fylgja ákvæðinu er líklegt að það væri brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þar sem réttarstaða manna myndi breytast þrátt fyrir óbreytt lagaumhverfi. Örugglega þyrfti að breyta lögum til þess að afturkalla rétt fyrirtækja, sem nú heita erlendum nöfnum, til þeirrar nafngiftar. Þá er komið að álitamáli um stjórnarskrárvarinn eignarrétt fyrirtækjanna yfir eigin nöfnum, en það er flókið mál og ekki hægt að svara í stuttu máli, enda varla raunhæft að til þess komi.

Höfundur

nemi í lögfræði við HÍ

Útgáfudagur

26.10.2005

Spyrjandi

Silja Guðbjörnsdóttir, f. 1987

Tilvísun

Ragnar Guðmundsson. „Hvers vegna er lögum um fyrirtækjanöfn ekki framfylgt?“ Vísindavefurinn, 26. október 2005. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5356.

Ragnar Guðmundsson. (2005, 26. október). Hvers vegna er lögum um fyrirtækjanöfn ekki framfylgt? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5356

Ragnar Guðmundsson. „Hvers vegna er lögum um fyrirtækjanöfn ekki framfylgt?“ Vísindavefurinn. 26. okt. 2005. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5356>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna er lögum um fyrirtækjanöfn ekki framfylgt?
Lengi vel var ekki allt sem sýndist þegar kom að nöfnum íslenskra fyrirtækja því að það tíðkaðist um hríð að fyrirtæki hétu íslenskum nöfnum í firmaskrá en notuðu önnur og jafnvel erlend nöfn í viðskiptum sínum. Margir kannast til dæmis við það að á yfirlitum um greiðslukortaviðskipti standa oft önnur fyrirtækjanöfn en þau sem greiðandi hélt að hann hefði verið að skipta við.

Ekki eru til sérstök lög um nöfn fyrirtækja. Lausleg athugun okkar á nöfnum í fyrirtækjaskrá sýnir þó að kjarni spurningarinnar á rétt á sér gagnvart henni; þar eru nöfn eða nafnliðir sem ekki hljóma mjög íslensk eins og "Spa", "Group", "Nordica" og svo framvegis.

Samkvæmt núgildandi reglum verður að skrá öll fyrirtæki hjá fyrirtækjaskrá sem ríkisskattstjóri sér um. Hægt er lesa um hvaða reglur eru lagðar til grundvallar við skráningu fyrirtækja í Fyrirtækjaskrá.

Megináhersla er lögð á það að nöfn nýrra fyrirtækja séu ekki of lík nöfnum sem þegar eru á skrá, og alls ekki má nota nafn sem þegar er í notkun. Nokkur fleiri atriði eru líka höfð að leiðarljósi svo sem það að nafn fyrirtækis innihaldi ekki tákn eins og +, /, # og svo framvegis. Að öðru leyti á nafngiftin að fara eftir reglum firmalaga eins og segir í leiðbeiningum fyrirtækjaskrár. Þá er líklega sérstaklega átt við 8. gr. laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð nr. 42 frá árinu 1903. Þar segir meðal annars:
Hver sá er rekur verslun, handiðnað eða verksmiðjuiðnað skal hlýða ákvæðum þeim, er hér fara á eftir, um nafn það, er hann notar við atvinnuna, og um undirskrift fyrir hana (firma), enda beri fyrirtækið og atvinnustarfsemi þess nöfn, sem samrýmist íslensku málkerfi að dómi skrásetjara [...]
Líklega er það þetta atriði sem spyrjandi er að leita að svari við. Af hverju er því ekki framfylgt að nafn fyrirtækis "samrýmist íslensku málkerfi"?

Við þeirri spurningu er í raun aðeins eitt svar. Menn hafa væntanlega gefist upp á því að halda þessu til streitu. Fyrir því eru sjálfsagt margar ástæður en sú mikilvægasta er líklega sú að það getur verið álitamál hvað nöfn samrýmast íslensku málkerfi og hvaða nöfn gera það ekki. Flestir kannast líklega við umræðu sem reglulega kemur upp vegna starfa mannanafnanefndar.

Þróunin hefur þess vegna orðið sú að í dag er þetta ákvæði um íslensk nöfn á íslenskum fyrirtækjum eiginlega fallið niður vegna notkunarleysis. Ef allt í einu ætti að fara að fylgja ákvæðinu er líklegt að það væri brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þar sem réttarstaða manna myndi breytast þrátt fyrir óbreytt lagaumhverfi. Örugglega þyrfti að breyta lögum til þess að afturkalla rétt fyrirtækja, sem nú heita erlendum nöfnum, til þeirrar nafngiftar. Þá er komið að álitamáli um stjórnarskrárvarinn eignarrétt fyrirtækjanna yfir eigin nöfnum, en það er flókið mál og ekki hægt að svara í stuttu máli, enda varla raunhæft að til þess komi....