Sólin Sólin Rís 09:54 • sest 16:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:39 • Sest 07:41 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:44 • Síðdegis: 17:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:01 • Síðdegis: 23:18 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:54 • sest 16:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:39 • Sest 07:41 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:44 • Síðdegis: 17:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:01 • Síðdegis: 23:18 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað vissu Evrópuþjóðir um Ísland á miðöldum?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Frá upphafi byggðar á Íslandi hefur fólki á vesturströnd Noregs verið kunnugt um landið því sjálfsagt hafa verið stöðugar siglingar þangað. Einnig skiptir máli að langt fram eftir miðöldum var þungamiðja norska konungsríkisins á vesturströndinni því konungur hafði aðsetur í Björgvin. Í samanburði við Norðmenn voru Íslendingar engan veginn lítilvæg smáþjóð. Um 1100 virðist mannfjöldi á Íslandi hafa verið um það bil fimmti til sjöundi hluti af fjölda Norðmanna; nú er hann um sextándi hluti.

Elstu rituðu heimildir um að fólk í öðrum löndum viti af Íslandi eru frá 11. öld. Á ensku landakorti frá þeim tíma er nafnið Island merkt á austurhluta norðlægrar eyjar. Á rúnasteini á Gotlandi, ámóta gömlum, kemur orðið islat fyrir í upptalningu fjarlægra landa og staða, og er talið að þar sé átt við Ísland. Loks segir þýski klerkurinn Adam frá Brimum talsvert frá Íslandi og Íslendingum í sögu erkibiskupsdæmis Hamborgar, sem hann skrifaði um 1070. Adam lýsir Íslendingum sem nægjusömu fólki sem lifi í heilögum einfaldleik með búfé sínu í hellum. Hann veit um kristnitöku Íslendinga og Ísleif biskup Gissurarson sem var vígður af erkibiskupi Hamborgar.


Hér sést Ísland ásamt öðrum löndum Evrópu. Aðeins eitt örnefni er sýnt, Heckl´berg eða Hekla. Kortið er frá 1544 og er eitt elsta Íslandskort sögunnar.

Frá 11. öld voru Íslendingar í nokkuð stöðugu menningarsambandi við Evrópu. Biskupar Íslands þurftu til dæmis að sækja vígslu til útlanda, fyrst til Hamborgar, síðan Lundar í Danmörku og síðast til Þrándheims í Noregi frá því um miðja 12. öld. Ísland var talið hluti af hinum kristna heimi ekkert síður en önnur Norðurlönd. Um 1120 var til dæmis páfabréf falsað í Hamborg sem sagt var vera frá 1022. Þar staðfestir páfi erkibiskupsdóm Hamborgarerkibiskups „yfir öllum norðlægum löndum, nefnilega ríkjum Dana, Svía, Norðmanna, Íslendinga og öllum eyjum sem liggja að þessum löndum.“

Í evrópskum ritum kemur fram ólíkt álit á íbúum þessa fjarlæga lands. Á Norðurlöndum gátu Íslendingar sér góðan orðstír fyrir þekkingu sína á fornum sögum; það nefna tveir konungasagnahöfundar um 1200, Theodoricus í Noregi og Saxo í Danmörku. Hjá páfa kvað við annan tón rúmum tveimur öldum síðar. Daninn Jón Gerreksson hafði hrökklast af erkibiskupsstóli í Uppsölum, en páfi veitti honum Skálholtsstól með þeim ummælum að lítið væri í húfi þótt hann fengi embætti á svo fjarlægum slóðum hjá fólki sem væri nánast villimenn.

Um náttúru Íslands gengu líka furðusögur. Árið 1104 gaus Hekla í fyrsta sinn síðan land byggðist. Um 10-20 árum síðar var því haldið fram í ensku kvæði að frægasti svikari mannkynssögunnar, Júdas Iskariot, væri geymdur í Heklu. Frá síðari hluta aldarinnar er til lýsing á íslensku eldgosi eftir Herbert munk í Clairvaux í Frakklandi. Hann lýsir gífurlega miklu eldfjalli, sem á sjálfsagt eitthvað skylt við Heklu, en talar þó jafnframt um að jarðeldurinn ráðist á sjóinn og brenni hann, sem getur ekki átt við Heklugos. Jarðeldar Íslands voru happafengur fyrir evrópska klerka því að eldgosin sönnuðu að þeirra mati að helvíti væri til.

Mynd Evrópubúa af Íslandi var því að vonum nokkuð fjölbreytileg. En ætli það hafi ekki verið líkt og nú, að furðu margir hafi haft einhverjar hugmynd um landið?

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:

  • Björn Þorsteinsson: „Glæpur án refsingar. Jón biskup Gerreksson 1426–1433.“ Björn Þorsteinsson: Á fornum slóðum og nýjum (Reykjavík, Sögufélag, 1978), 3–20.
  • „Ísland í erlendum miðaldaheimildum fyrir 1200 og hafsvæði þess. Safn þýddra texta; brot.“ Saga I:4 (1958), 452–98.
  • Sigurður Líndal: „Ísland og umheimurinn.“ Saga Íslands I (Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, 1974), 197–223.
  • Sigurður Þórarinsson: “Herbert múnkur og Heklufell.“ Náttúrufræðingurinn XXII (1952), 49–61.
  • Sigurður Þórarinsson: Heklueldar. Reykjavík, Sögufélagið, 1968.
  • Sumarliði Ísleifsson: Ísland, framandi land.Reykjavík, Mál og menning, 1996.
  • Fyrstu Íslandsgerðir á kortum. Forn Íslandskort.

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

16.11.2005

Spyrjandi

Elsa Björgvinsdóttir

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvað vissu Evrópuþjóðir um Ísland á miðöldum?“ Vísindavefurinn, 16. nóvember 2005, sótt 14. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5411.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2005, 16. nóvember). Hvað vissu Evrópuþjóðir um Ísland á miðöldum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5411

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvað vissu Evrópuþjóðir um Ísland á miðöldum?“ Vísindavefurinn. 16. nóv. 2005. Vefsíða. 14. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5411>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað vissu Evrópuþjóðir um Ísland á miðöldum?
Frá upphafi byggðar á Íslandi hefur fólki á vesturströnd Noregs verið kunnugt um landið því sjálfsagt hafa verið stöðugar siglingar þangað. Einnig skiptir máli að langt fram eftir miðöldum var þungamiðja norska konungsríkisins á vesturströndinni því konungur hafði aðsetur í Björgvin. Í samanburði við Norðmenn voru Íslendingar engan veginn lítilvæg smáþjóð. Um 1100 virðist mannfjöldi á Íslandi hafa verið um það bil fimmti til sjöundi hluti af fjölda Norðmanna; nú er hann um sextándi hluti.

Elstu rituðu heimildir um að fólk í öðrum löndum viti af Íslandi eru frá 11. öld. Á ensku landakorti frá þeim tíma er nafnið Island merkt á austurhluta norðlægrar eyjar. Á rúnasteini á Gotlandi, ámóta gömlum, kemur orðið islat fyrir í upptalningu fjarlægra landa og staða, og er talið að þar sé átt við Ísland. Loks segir þýski klerkurinn Adam frá Brimum talsvert frá Íslandi og Íslendingum í sögu erkibiskupsdæmis Hamborgar, sem hann skrifaði um 1070. Adam lýsir Íslendingum sem nægjusömu fólki sem lifi í heilögum einfaldleik með búfé sínu í hellum. Hann veit um kristnitöku Íslendinga og Ísleif biskup Gissurarson sem var vígður af erkibiskupi Hamborgar.


Hér sést Ísland ásamt öðrum löndum Evrópu. Aðeins eitt örnefni er sýnt, Heckl´berg eða Hekla. Kortið er frá 1544 og er eitt elsta Íslandskort sögunnar.

Frá 11. öld voru Íslendingar í nokkuð stöðugu menningarsambandi við Evrópu. Biskupar Íslands þurftu til dæmis að sækja vígslu til útlanda, fyrst til Hamborgar, síðan Lundar í Danmörku og síðast til Þrándheims í Noregi frá því um miðja 12. öld. Ísland var talið hluti af hinum kristna heimi ekkert síður en önnur Norðurlönd. Um 1120 var til dæmis páfabréf falsað í Hamborg sem sagt var vera frá 1022. Þar staðfestir páfi erkibiskupsdóm Hamborgarerkibiskups „yfir öllum norðlægum löndum, nefnilega ríkjum Dana, Svía, Norðmanna, Íslendinga og öllum eyjum sem liggja að þessum löndum.“

Í evrópskum ritum kemur fram ólíkt álit á íbúum þessa fjarlæga lands. Á Norðurlöndum gátu Íslendingar sér góðan orðstír fyrir þekkingu sína á fornum sögum; það nefna tveir konungasagnahöfundar um 1200, Theodoricus í Noregi og Saxo í Danmörku. Hjá páfa kvað við annan tón rúmum tveimur öldum síðar. Daninn Jón Gerreksson hafði hrökklast af erkibiskupsstóli í Uppsölum, en páfi veitti honum Skálholtsstól með þeim ummælum að lítið væri í húfi þótt hann fengi embætti á svo fjarlægum slóðum hjá fólki sem væri nánast villimenn.

Um náttúru Íslands gengu líka furðusögur. Árið 1104 gaus Hekla í fyrsta sinn síðan land byggðist. Um 10-20 árum síðar var því haldið fram í ensku kvæði að frægasti svikari mannkynssögunnar, Júdas Iskariot, væri geymdur í Heklu. Frá síðari hluta aldarinnar er til lýsing á íslensku eldgosi eftir Herbert munk í Clairvaux í Frakklandi. Hann lýsir gífurlega miklu eldfjalli, sem á sjálfsagt eitthvað skylt við Heklu, en talar þó jafnframt um að jarðeldurinn ráðist á sjóinn og brenni hann, sem getur ekki átt við Heklugos. Jarðeldar Íslands voru happafengur fyrir evrópska klerka því að eldgosin sönnuðu að þeirra mati að helvíti væri til.

Mynd Evrópubúa af Íslandi var því að vonum nokkuð fjölbreytileg. En ætli það hafi ekki verið líkt og nú, að furðu margir hafi haft einhverjar hugmynd um landið?

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:

  • Björn Þorsteinsson: „Glæpur án refsingar. Jón biskup Gerreksson 1426–1433.“ Björn Þorsteinsson: Á fornum slóðum og nýjum (Reykjavík, Sögufélag, 1978), 3–20.
  • „Ísland í erlendum miðaldaheimildum fyrir 1200 og hafsvæði þess. Safn þýddra texta; brot.“ Saga I:4 (1958), 452–98.
  • Sigurður Líndal: „Ísland og umheimurinn.“ Saga Íslands I (Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, 1974), 197–223.
  • Sigurður Þórarinsson: “Herbert múnkur og Heklufell.“ Náttúrufræðingurinn XXII (1952), 49–61.
  • Sigurður Þórarinsson: Heklueldar. Reykjavík, Sögufélagið, 1968.
  • Sumarliði Ísleifsson: Ísland, framandi land.Reykjavík, Mál og menning, 1996.
  • Fyrstu Íslandsgerðir á kortum. Forn Íslandskort.
...