Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig er lesblinda greind?

Jörgen Pind

Upphaflega spurningin var svohljóðandi:

Hvernig er lesblinda greind? Hvenær var byrjað að greina lesblindu hér á Íslandi? Og hve gömul eru börn þegar það er hægt að greina þau?

Fjöldi lesblindra eða lesraskaðra nemenda er mjög á reiki. Nýlegar rannsóknir frá Bandaríkjunum benda til þess að helstu ástæðu þess sé að leita í „ófullnægjandi uppfræðslu“. Sum börn geta lært að lesa en þurfa langtum einbeittari og kerfisbundnari þjálfun en tök virðast vera á að veita í skólum. Eftir stendur þá tiltölulega fámennur hópur barna – líklega innan við fimm af hundraði – sem á í viðvarandi erfiðleikum með lestur.

Ekki verður fullyrt hvenær greining á lesblindu hófst fyrst hér á landi en greiningar voru meðal annars gerðar á vegum sálfræðideilda skóla. Þær voru fyrst stofnaðar um 1960.

Greiningarviðmið

Ekki er til ein aðferð við að greina lesblindu sem allir hafa getað sammælst um. Oft er þó unnið út frá þeirri skilgreiningu á lesblindu – eða sértækum lesröskunum – sem er að finna í ICD-10 flokkunarkerfinu, alþjóðlegu flokkunarkerfi sjúkdóma og annarra heilbrigðisvandamála. Í því er sértæk lesröskun skilgreind svo:

Sértæk lesröskun er ein tegund sértækrar þroskaröskunar á námshæfni. Aðaleinkenni hennar er sértæk og veruleg skerðing á þróun lestrarfærni. Þessi skerðing verður ekki skýrð með greindaraldri, skertri sjón eða ófullnægjandi uppfræðslu. Skerðingin getur birst sem skortur á lesskilningi, erfiðleikar við að greina orð, vandi við að lesa upphátt, og lítil færni við að leysa verkefni þar sem lestrar er krafist. Stafsetningarerfiðleikar fylgja iðulega sértækri lesröskun, og eru oft fyrir hendi fram á unglingsaldur, jafnvel þótt nokkur árangur hafi náðst í lestri. Þegar sértæk lesröskun kemur fram hjá barni á skólaaldri á það sér gjarna sögu röskunar í tal- og málþroska á forskólaaldri. Á skólaaldri býr barnið oft við hegðunarvandamál og tilfinningaerfiðleika.
Kjarni þessarar skilgreiningar er sú staðhæfing að lesröskunin verði ekki skýrð með skertri greind. Í samræmi við það hefur verið viðtekin venja um langa hríð að greina lesblindu sem frávik lestrargetu frá því sem búast mætti við með hliðsjón af greind barnsins. Samkvæmt þessu þarf því bæði að mæla greind barnsins og lestrarfærni. Um greind og greindarpróf er meðal annars hægt að lesa í svarinu Hver er greindarvísitala meðalmanneskju og hvenær er hún orðin óeðlilega lág eða há? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur og svörunum Af hverju eru sumir gáfaðri en aðrir?, Er sannað að greindarpróf verki? og Hvað er greind? eftir Sigurð J. Grétarsson.


„Undir yfirborðinu“, mynd eftir Alexander, 9 ára.

Á síðustu árum hefur nokkuð borið á því að fræðimenn hafa dregið í efa að rétt sé að bera sig að með þessum hætti við að greina lesblindu. Ástæðan er sú að rannsóknir benda til þess að ekki sé neinn munur á lestrarfærni slakra lesara sem uppfylla viðmið um óvenju litla lestrargetu miðað við greind, og slakra lesara sem ekki uppfylla þessi viðmið. Þess í stað hafa menn þá viljað leggja mesta áherslu á að mæla lestrarfærnina sjálfa og skylda málhæfni, til dæmis hljóðkerfisvitund barnanna eða nefnunarflýti svo dæmi séu tekin. Hljóðkerfisvitund er metin með prófum þar sem börnin eru beðin um að fella hljóð framan eða aftan af orðum, skipta orðum í atkvæði og annað í þeim dúr. Meira má lesa um hljóðkerfisvitund í svari Aldísar Guðmundsdóttur og Jörgens Pinds, Hvað er lesblinda? Er hægt að lækna hana? Nefnunarflýtir er mældur með því að biðja börn um að segja eins hratt og þau geta heiti margra litaflekkja á blaði eða mynda af algengum hlutum.

Hvað sem þessum deilum fræðimanna líður verður að teljast heppilegt að greiningaraðilar reyni að fá sem gleggsta mynd af styrkleikum og veikleikum nemenda og greindarpróf geta vitaskuld nýst til þess.

Hvenær má greina?

Það liggur í framangreindri skilgreiningu að ekki er unnt að meta lesblindu fyrr en reynt hefur verið að kenna barninu að lesa, kannski við lok fyrsta bekkjar, þótt dæmin sanni að oft greinist lestrarerfiðleikarnir ekki fyrr en löngu síðar. Hér er því mikilvægt að kennarar og foreldrar fylgist grannt með árangri lestrarkennslunnar strax frá upphafi skólagöngu.

Rannsóknir á tengslum hljóðkerfisvitundar og lestrarfærni hafa leitt til þess að unnt er að greina lestrarerfiðleika fyrr en áður var hægt – eða að minnsta kosti að finna þá sem eru í áhættuhópi fyrir lesröskun – því hljóðkerfisvitund og nefnunarflýti er unnt að mæla áður en börn byrja að læra að lesa.

Heimildir og mynd

Höfundur

Jörgen Pind

prófessor í sálarfræði við HÍ

Útgáfudagur

18.11.2005

Spyrjandi

Auðbjörg Guðjónsdóttir

Tilvísun

Jörgen Pind. „Hvernig er lesblinda greind?“ Vísindavefurinn, 18. nóvember 2005, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5416.

Jörgen Pind. (2005, 18. nóvember). Hvernig er lesblinda greind? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5416

Jörgen Pind. „Hvernig er lesblinda greind?“ Vísindavefurinn. 18. nóv. 2005. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5416>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig er lesblinda greind?
Upphaflega spurningin var svohljóðandi:

Hvernig er lesblinda greind? Hvenær var byrjað að greina lesblindu hér á Íslandi? Og hve gömul eru börn þegar það er hægt að greina þau?

Fjöldi lesblindra eða lesraskaðra nemenda er mjög á reiki. Nýlegar rannsóknir frá Bandaríkjunum benda til þess að helstu ástæðu þess sé að leita í „ófullnægjandi uppfræðslu“. Sum börn geta lært að lesa en þurfa langtum einbeittari og kerfisbundnari þjálfun en tök virðast vera á að veita í skólum. Eftir stendur þá tiltölulega fámennur hópur barna – líklega innan við fimm af hundraði – sem á í viðvarandi erfiðleikum með lestur.

Ekki verður fullyrt hvenær greining á lesblindu hófst fyrst hér á landi en greiningar voru meðal annars gerðar á vegum sálfræðideilda skóla. Þær voru fyrst stofnaðar um 1960.

Greiningarviðmið

Ekki er til ein aðferð við að greina lesblindu sem allir hafa getað sammælst um. Oft er þó unnið út frá þeirri skilgreiningu á lesblindu – eða sértækum lesröskunum – sem er að finna í ICD-10 flokkunarkerfinu, alþjóðlegu flokkunarkerfi sjúkdóma og annarra heilbrigðisvandamála. Í því er sértæk lesröskun skilgreind svo:

Sértæk lesröskun er ein tegund sértækrar þroskaröskunar á námshæfni. Aðaleinkenni hennar er sértæk og veruleg skerðing á þróun lestrarfærni. Þessi skerðing verður ekki skýrð með greindaraldri, skertri sjón eða ófullnægjandi uppfræðslu. Skerðingin getur birst sem skortur á lesskilningi, erfiðleikar við að greina orð, vandi við að lesa upphátt, og lítil færni við að leysa verkefni þar sem lestrar er krafist. Stafsetningarerfiðleikar fylgja iðulega sértækri lesröskun, og eru oft fyrir hendi fram á unglingsaldur, jafnvel þótt nokkur árangur hafi náðst í lestri. Þegar sértæk lesröskun kemur fram hjá barni á skólaaldri á það sér gjarna sögu röskunar í tal- og málþroska á forskólaaldri. Á skólaaldri býr barnið oft við hegðunarvandamál og tilfinningaerfiðleika.
Kjarni þessarar skilgreiningar er sú staðhæfing að lesröskunin verði ekki skýrð með skertri greind. Í samræmi við það hefur verið viðtekin venja um langa hríð að greina lesblindu sem frávik lestrargetu frá því sem búast mætti við með hliðsjón af greind barnsins. Samkvæmt þessu þarf því bæði að mæla greind barnsins og lestrarfærni. Um greind og greindarpróf er meðal annars hægt að lesa í svarinu Hver er greindarvísitala meðalmanneskju og hvenær er hún orðin óeðlilega lág eða há? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur og svörunum Af hverju eru sumir gáfaðri en aðrir?, Er sannað að greindarpróf verki? og Hvað er greind? eftir Sigurð J. Grétarsson.


„Undir yfirborðinu“, mynd eftir Alexander, 9 ára.

Á síðustu árum hefur nokkuð borið á því að fræðimenn hafa dregið í efa að rétt sé að bera sig að með þessum hætti við að greina lesblindu. Ástæðan er sú að rannsóknir benda til þess að ekki sé neinn munur á lestrarfærni slakra lesara sem uppfylla viðmið um óvenju litla lestrargetu miðað við greind, og slakra lesara sem ekki uppfylla þessi viðmið. Þess í stað hafa menn þá viljað leggja mesta áherslu á að mæla lestrarfærnina sjálfa og skylda málhæfni, til dæmis hljóðkerfisvitund barnanna eða nefnunarflýti svo dæmi séu tekin. Hljóðkerfisvitund er metin með prófum þar sem börnin eru beðin um að fella hljóð framan eða aftan af orðum, skipta orðum í atkvæði og annað í þeim dúr. Meira má lesa um hljóðkerfisvitund í svari Aldísar Guðmundsdóttur og Jörgens Pinds, Hvað er lesblinda? Er hægt að lækna hana? Nefnunarflýtir er mældur með því að biðja börn um að segja eins hratt og þau geta heiti margra litaflekkja á blaði eða mynda af algengum hlutum.

Hvað sem þessum deilum fræðimanna líður verður að teljast heppilegt að greiningaraðilar reyni að fá sem gleggsta mynd af styrkleikum og veikleikum nemenda og greindarpróf geta vitaskuld nýst til þess.

Hvenær má greina?

Það liggur í framangreindri skilgreiningu að ekki er unnt að meta lesblindu fyrr en reynt hefur verið að kenna barninu að lesa, kannski við lok fyrsta bekkjar, þótt dæmin sanni að oft greinist lestrarerfiðleikarnir ekki fyrr en löngu síðar. Hér er því mikilvægt að kennarar og foreldrar fylgist grannt með árangri lestrarkennslunnar strax frá upphafi skólagöngu.

Rannsóknir á tengslum hljóðkerfisvitundar og lestrarfærni hafa leitt til þess að unnt er að greina lestrarerfiðleika fyrr en áður var hægt – eða að minnsta kosti að finna þá sem eru í áhættuhópi fyrir lesröskun – því hljóðkerfisvitund og nefnunarflýti er unnt að mæla áður en börn byrja að læra að lesa.

Heimildir og mynd

...