Ef eigendaskipti að fasteign verða með gjafagerningi gilda ákvæði 7. gr., 11. gr., 3. mgr. 12. gr., 13. gr. og 2., 4. og 5. mgr. 51. gr. Um gefanda gilda þá reglur um seljanda og um gjafþega reglur um kaupanda.Þær greinar sem hér um ræðir fjalla fyrst og fremst um ýmis formsatriði, til dæmis hvenær samningur verður bindandi, afhendingartíma, áhættuna af 'seldri' fasteign og hvaða riftunarúrræði aðilar hafa. Þetta leiðir til þess að svo eigendaskipti að fasteign geti orðið með gjafagerningi verður skriflegur og vottaður samningur að vera fyrir hendi. Skriflegur samningur er líka forsenda þinglýsingar svo sem segir nánar í þinglýsingalögum, nr. 39/1978. Mikilvægt er einnig að gera sér grein fyrir því að gjafagerningar hafa ákveðna sérstöðu þegar kemur að túlkun samningsins. Á Íslandi er almennt viðurkennt að við túlkun samninga skuli svokölluð traustskenning notuð. Þetta felur í sér að helst er litið til þess sem loforðsmóttakandi (tilboðsmóttakandi) gerningsins mátti með réttu gera ráð fyrir að gerningurinn fæli í sér. Á móti þessari kenningu er síðan svokölluð viljakenning sem leggur megináherslu á það sem loforðsgjafi (tilboðsgjafi) vildi að gerningurinn fæli í sér. Eins og áður segir ræður traustskenningin einkum í íslenskum rétti, þó með ýmsum lagfæringum og undantekningum. Ein þessara undantekninga varðar einmitt gjafagerninga og þá er almennt viðurkennt að vilji gefandans skipti meira máli en það hvað þiggjandinn taldi felast í gjöfinni. Af ofansögðu sést að ekkert er því til fyrirstöðu að gefa eða þiggja fasteign, en fylgja verður almennum samninga- og formreglum sem um fasteignaviðskipti gilda og komi til deilna milli aðila um innihald gjafagerningsins er almennt frekar horft til vilja gefandans en ætlana þiggjandans.
Hvernig er staðið að gjafagerningi á fasteign?
Útgáfudagur
25.11.2005
Spyrjandi
Jón Gröndal
Tilvísun
Ragnar Guðmundsson. „Hvernig er staðið að gjafagerningi á fasteign?“ Vísindavefurinn, 25. nóvember 2005, sótt 16. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5431.
Ragnar Guðmundsson. (2005, 25. nóvember). Hvernig er staðið að gjafagerningi á fasteign? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5431
Ragnar Guðmundsson. „Hvernig er staðið að gjafagerningi á fasteign?“ Vísindavefurinn. 25. nóv. 2005. Vefsíða. 16. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5431>.