Sólin Sólin Rís 05:47 • sest 21:09 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 11:52 • Sest 06:25 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:29 • Síðdegis: 14:32 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:11 • Síðdegis: 20:41 í Reykjavík

Af hverju tóku Grikkir upp á því að trúa á grísku guðina?

Geir Þ. Þórarinsson

Það er ekki gott að segja hvers vegna Grikkir tóku upp trú á grísku guðina en það var ekki meðvituð ákvörðun. Segja má að í ákveðnum skilningi hafi þeir þegar trúað á guðina sína frá því áður en þeir voru Grikkir. Til dæmis er nafn gríska guðsins Seifs (á grísku Zeus) komið af frumindóevrópska orðinu *Dyews sem var himnaguð. Því má segja að Grikkir hafi aldrei tekið upp trú á Seif heldur þegið hana í arf frá forfeðrum sínum sem dýrkuðu himnaguðinn frá því löngu áður en gríska tungumálið varð til og áður en Grikkir urðu til sem þjóð.

Á nákvæmlega sama hátt tóku Íslendingar aldrei upp trú á norrænu guðina, heldur trúðu þeir á þá frá því áður en Íslendingar urðu til sem þjóð og áður en íslenska (eða norræna) varð til sem tungumál. Svo dæmi sé nefnt tóku Íslendingar aldrei upp á að trúa á Tý heldur fluttu landnámsmenn með sér trúna á hann til Íslands þegar þeir námu hér land. Og þeir höfðu trúað á hann frá því áður en norræna – málið sem þeir töluðu – varð til. Nafn guðsins Týs er komið af Tiwas, sem er aftur komið af frumindóevrópska orðinu *Deiwos (sem er skylt orðinu *Dyews), svo að dýrkun Týs er menningararfur sem rekja má aftur til frumindóevrópumanna fyrir um sjö þúsund árum.


Seifur á fornu grísku leirkeri.

Rétt eins og norrænir menn tóku aldrei upp trúna á Tý, heldur þáðu þeir hana í arf, tóku Grikkir ekki upp trúna á Seif heldur bjuggu þeir að þeirri trú sem fornum menningararfi; trúin á Seif varð smám saman til upp úr eldri trú á *Dyews samtímis því sem gríska tungumálið varð smám saman til úr eldra málstigi. Sömu sögu er að segja af til dæmis Afródítu og Demetru, sem eiga sér frumindóevrópskar rætur. Á hinn bóginn eiga ekki allir grísku guðirnir sér frumindóevrópskar rætur. Til dæmis getur verið að trúin á Apollon hafi borist Grikkjum að austan og breiðst út einhvern tímann á 12.-9 öld f.Kr. en um uppruna guðsins er reyndar deilt.

En hvers vegna taka þjóðir stundum upp trú á erlenda guði eða finna í einhverjum tilvikum upp nýja guði? Það geta verið margvíslegar skýringar á því að trú á guðir einnar þjóðar breiðist út til annarra þjóða. Svo kunnuglegt dæmi sé nefnt tóku Íslendingar upp kristna trú árið 999 fyrst og fremst af af pólitískum ástæðum en áður var kristinn minnihluti í landinu. Kristni er vitaskuld innflutt trú, bæði á Íslandi og í Noregi þaðan sem hún barst Íslendingum. Við vitum sæmilega mikið um hvernig kristnin barst til Íslands en minna er vitað um áhrif erlendra trúarbragða í Grikklandi hinu forna og því oft vandi að segja hvers vegna eða með hvaða hætti trúarbrögð annarra þjóða höfðu áhrif á trúarbrögð Grikkja. Sennilega hefur þótt þess virði að taka upp trú á guði sem sagðir voru ríkja yfir ákveðnum sviðum sem þóttu mikilvæg. Ef Grikkir kynntust til dæmis lækninga- og spádómsguðinum Apolloni hjá erlendum mönnum og enginn af guðunum sem Grikkir trúðu á þá þegar ríkti yfir þessum sviðum, þá er ekki ósennilegt að þeir hafi tekið upp trúna á hann vegna þess að það hefur þótt borga sig að hafa slíkan guð sér hliðhollan.

En þá er enn ósvarað spurningunni um hvers vegna menn taka upp trú á guði yfirleitt, hvort sem það eru Grikkir eða frumindóevrópumenn eða einhverjir aðrir. Það er vitaskuld flókin spurning, sem vart gefst færi á að svara hér, en sennilega liggja rætur flestrar guðstrúar á endanum í hjátrú og trú á yfirnáttúrleg fyrirbæri, sem aftur má skýra með tilvísun til vanþekkingar manna á því sem þeir verða vitni að í náttúrunni.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

8.12.2009

Spyrjandi

Ágúst Pálsson

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Af hverju tóku Grikkir upp á því að trúa á grísku guðina?“ Vísindavefurinn, 8. desember 2009. Sótt 17. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=54335.

Geir Þ. Þórarinsson. (2009, 8. desember). Af hverju tóku Grikkir upp á því að trúa á grísku guðina? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=54335

Geir Þ. Þórarinsson. „Af hverju tóku Grikkir upp á því að trúa á grísku guðina?“ Vísindavefurinn. 8. des. 2009. Vefsíða. 17. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=54335>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju tóku Grikkir upp á því að trúa á grísku guðina?
Það er ekki gott að segja hvers vegna Grikkir tóku upp trú á grísku guðina en það var ekki meðvituð ákvörðun. Segja má að í ákveðnum skilningi hafi þeir þegar trúað á guðina sína frá því áður en þeir voru Grikkir. Til dæmis er nafn gríska guðsins Seifs (á grísku Zeus) komið af frumindóevrópska orðinu *Dyews sem var himnaguð. Því má segja að Grikkir hafi aldrei tekið upp trú á Seif heldur þegið hana í arf frá forfeðrum sínum sem dýrkuðu himnaguðinn frá því löngu áður en gríska tungumálið varð til og áður en Grikkir urðu til sem þjóð.

Á nákvæmlega sama hátt tóku Íslendingar aldrei upp trú á norrænu guðina, heldur trúðu þeir á þá frá því áður en Íslendingar urðu til sem þjóð og áður en íslenska (eða norræna) varð til sem tungumál. Svo dæmi sé nefnt tóku Íslendingar aldrei upp á að trúa á Tý heldur fluttu landnámsmenn með sér trúna á hann til Íslands þegar þeir námu hér land. Og þeir höfðu trúað á hann frá því áður en norræna – málið sem þeir töluðu – varð til. Nafn guðsins Týs er komið af Tiwas, sem er aftur komið af frumindóevrópska orðinu *Deiwos (sem er skylt orðinu *Dyews), svo að dýrkun Týs er menningararfur sem rekja má aftur til frumindóevrópumanna fyrir um sjö þúsund árum.


Seifur á fornu grísku leirkeri.

Rétt eins og norrænir menn tóku aldrei upp trúna á Tý, heldur þáðu þeir hana í arf, tóku Grikkir ekki upp trúna á Seif heldur bjuggu þeir að þeirri trú sem fornum menningararfi; trúin á Seif varð smám saman til upp úr eldri trú á *Dyews samtímis því sem gríska tungumálið varð smám saman til úr eldra málstigi. Sömu sögu er að segja af til dæmis Afródítu og Demetru, sem eiga sér frumindóevrópskar rætur. Á hinn bóginn eiga ekki allir grísku guðirnir sér frumindóevrópskar rætur. Til dæmis getur verið að trúin á Apollon hafi borist Grikkjum að austan og breiðst út einhvern tímann á 12.-9 öld f.Kr. en um uppruna guðsins er reyndar deilt.

En hvers vegna taka þjóðir stundum upp trú á erlenda guði eða finna í einhverjum tilvikum upp nýja guði? Það geta verið margvíslegar skýringar á því að trú á guðir einnar þjóðar breiðist út til annarra þjóða. Svo kunnuglegt dæmi sé nefnt tóku Íslendingar upp kristna trú árið 999 fyrst og fremst af af pólitískum ástæðum en áður var kristinn minnihluti í landinu. Kristni er vitaskuld innflutt trú, bæði á Íslandi og í Noregi þaðan sem hún barst Íslendingum. Við vitum sæmilega mikið um hvernig kristnin barst til Íslands en minna er vitað um áhrif erlendra trúarbragða í Grikklandi hinu forna og því oft vandi að segja hvers vegna eða með hvaða hætti trúarbrögð annarra þjóða höfðu áhrif á trúarbrögð Grikkja. Sennilega hefur þótt þess virði að taka upp trú á guði sem sagðir voru ríkja yfir ákveðnum sviðum sem þóttu mikilvæg. Ef Grikkir kynntust til dæmis lækninga- og spádómsguðinum Apolloni hjá erlendum mönnum og enginn af guðunum sem Grikkir trúðu á þá þegar ríkti yfir þessum sviðum, þá er ekki ósennilegt að þeir hafi tekið upp trúna á hann vegna þess að það hefur þótt borga sig að hafa slíkan guð sér hliðhollan.

En þá er enn ósvarað spurningunni um hvers vegna menn taka upp trú á guði yfirleitt, hvort sem það eru Grikkir eða frumindóevrópumenn eða einhverjir aðrir. Það er vitaskuld flókin spurning, sem vart gefst færi á að svara hér, en sennilega liggja rætur flestrar guðstrúar á endanum í hjátrú og trú á yfirnáttúrleg fyrirbæri, sem aftur má skýra með tilvísun til vanþekkingar manna á því sem þeir verða vitni að í náttúrunni.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:...