Sólin Sólin Rís 10:45 • sest 15:48 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:22 • Sest 00:26 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:15 • Síðdegis: 12:51 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:19 í Reykjavík

Hvar og hvernig voru grísku guðirnir dýrkaðir til forna?

Geir Þ. Þórarinsson

Spurninguna um hvar grísku guðirnir voru dýrkaðir má skilja á ýmsa vegu. Eitt svarið er að grísku guðirnir voru dýrkaðir í Grikklandi hinu forna. Það liggur eflaust í augum uppi en þó má segja að þeir hafi líka verið dýrkaðir utan Grikklands. Í fyrsta lagi kom fyrir að aðrar þjóðir tækju upp dýrkun grísku guðanna. Til dæmis tóku Rómverjar snemma upp þann sið frá Grikkjum að dýrka guðinn Apollon en auk þess tóku sögurnar sem Grikkir sögðu um guðina sína smám saman yfir suma rómversku guðanna sem í upphafi voru allt aðrir guðir. Sem dæmi um þetta má nefna að frá 2. öld f.Kr. tók gríska ástargyðjan Afródíta smám saman yfir rómversku ástargyðjuna Venus, sem var í upphafi einhvers konar gróður- og frjósemisgyðja og hafði verið dýrkuð á Ítalíu allt frá því fyrir stofnun Rómarborgar og tengdist Afródítu í upphafi ekki neitt.

Í öðru lagi voru guðir annarra þjóða í sumum tilvikum upprunalega sömu guðirnir og grísku guðirnir og því mætti segja að í einhverjum skilningi hafi sami guðinn verið dýrkaður víðar en í Grikklandi. Þannig var til dæmis guðinn *Dyews upphaflega indóevrópskur himnaguð. Nafn hans breyttist smám saman á ólíka vegu í ólíkum indóevrópskum tungumálum. Í grísku varð nafnið *Dyews að nafninu Zeus sem á íslensku nefnist Seifur. Í latínu (tungumáli Rómverja) eru orðin dies (dagur) og deus (guð) bæði skyld nafni hans. *Dyews var í ávarpsfalli *Dyew og var oftast nefndur faðir þegar hann var ávarpaður, það er *Dyew pater. Þetta orðasamband festist í latínu og varð (í nefnifalli) Júpíter. Þannig eru Seifur og Júpíter ekki bara grísk og rómversk hliðstæða heldur upphaflega sami indóevrópski guðinn sem var dýrkaður bæði í Grikklandi og Rómaveldi. Þessu skylt er nafnið Tiwas sem hjá norrænum mönnum hét síðar Týr.


Fórnarathöfn í Grikklandi til forna. Mynd á leirkeri.

Í öðru lagi má skilja spurninguna þannig að spurt sé í hvaða borgum guðirnir voru einkum dýrkaðir því að guðirnir áttu mismiklum vinsældum að fagna í ólíkum borgum og áttu sér ákveðna helgistaði sem voru eins konar miðpunktur dýrkunar þeirra. Í Aþenuborg voru gyðjan Aþena og guðirnir Seifur og Póseidon til að mynda einkum í hávegum höfð. Póseidon hafði raunar verið dýrkaður sérstaklega í borgunum Pylos og Þebu frá því á bronsöld og var dýrkaður mjög víða. Í Delfí var véfrétt spádómsguðsins Apollons en Apollon var einnig í hávegum hafður ásamt systur sinni Artemis á eynni Delos þar sem þau áttu að hafa fæðst. Artemis var einnig dýrkuð víða og var meðal annars tileinkað frægt hof í borginni Efesos í Jóníu í Litlu-Asíu en hofið var eitt af sjö undrum veraldar.

Afródíta var einkum dýrkuð á eyjunum Kýpur og Kýþeru sem voru báðar sagðar vera fæðingarstaður hennar. Henni var tileinkað hof á háborg Kórinþu (sem stóð þar til ársins 146 f.Kr. þegar Rómverjar lögðu borgina í eyði) og Afródítuhátíðin var haldin árlega víða um Grikkland en ekki þó síst í Kórinþu og Aþenu. Seifur, Hermes og Demetra voru dýrkuð víðar en flestir aðrir. Auk tiltekinna helgistaða voru guðirnir oft dýrkaðir á ýmsum hátíðum sem tengdust þeim. Til dæmis tengdist Díonýsosarhátíðin dýrkun Dýonýsosar og Þesmófóruhátíðin dýrkun Demetru. Of langt mál yrði að rekja alla helstu helgistaði allra guðanna og allar hátíðir sem tengdust þeim.

Samskipti manna við guðdóminn voru einkum fólgin í bænum og fórnum þar sem einhverju var lofað í skiptum fyrir eitthvað, jafnvel bara velvild guðsins. Grikkir byggðu guðunum hof. Mörg þeirra voru afar fræg. Áður hefur verið minnst á Artemisarhorfið í Efesos en einnig má nefna Seifshofið í Ólympíu og Meyjarhofið í Aþenu. Þeir sem áttu leið fram hjá hofi köstuðu gjarnan kveðju á guðinn. Inni í hofinu var stór salur þar sem stóð stytta af guðinum sem hofið var tileinkað. Fyrir utan hofið stóð altari og á altarinu voru færðar fórnir, oft í dögun. Gyðjum voru slátruð kvendýr en guðum karldýr. Auk þess voru ákveðnar venjur um hvers konar dýrum skyldi fórnað handa tilteknum guðum. Póseidoni fórnuðu menn oftast nauti eða þá nauti, villisvíni og hrúti. Aþenu færðu menn venjulega kú en Artemis og Afródítu fórnuðu menn oft geit. Stundum var fiskum eða fuglum fórnað en það var sjaldgæfara. Venjulega fengu undirheimaguðir dökk eða svört dýr en aðrir guðir hvít dýr. Dýrin báru gjarnan blómaskreytingar og annað skart þegar þau voru leidd upp að altarinu, vatni var skvett á þau og hárlokkur skorinn af áður en þau voru drepin. Dýrin voru svo skorin á háls og látið blæða út. Eftir að þau höfðu verið drepin voru þau venjulega borðuð en guðirnir fengu að fórn feitan bita á eldinn og víni hellt yfir hann.

Á uppskerutímum voru ávextir og grænmeti skilin eftir á altarinu handa guðunum til að tryggja góða uppskeru. Einnig var algengt að guðum væru færðar kökur að fórn og auk þess færðu menn þeim dreypifórnir en þá helltu menn oftast víni, vatni, mjólk, ólífuolíu eða hunangi á jörðina handa guðunum. Dreypifórnir var hægt að færa hvar sem er og voru þær ekki færðar einungis þar sem var altari. Til dæmis var til siðs að hefja samdrykkjur á að færa í dreypifórn óblandað vín svo að veislan færi vel fram.

Auk opinberra guða sérhvers borgríkis voru svonefndar launhelgar en það voru söfnuðir tileinkaðir tilteknum guðum þar sem einungis innvígðir fengu að taka þátt í athöfnum. Venjum og helgisiðum launhelganna var haldið leyndum fyrir öllum öðrum. Launhelgar lofuðu oft einhvers konar frelsun og hamingju að jarðlífi loknu. Launhelgar voru til víða í Grikklandi. Þekktastar eru eflaust launhelgarnar í Elevsis þar sem mæðgurnar Demetra og Kore voru dýrkaðar. Meðal annarra launhelga má nefna launhelgar Díonýsosar og orfeifstrú.

Meira lesefni:

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

19.1.2009

Spyrjandi

Gísli Guðlaugsson

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvar og hvernig voru grísku guðirnir dýrkaðir til forna?“ Vísindavefurinn, 19. janúar 2009. Sótt 1. desember 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=19959.

Geir Þ. Þórarinsson. (2009, 19. janúar). Hvar og hvernig voru grísku guðirnir dýrkaðir til forna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=19959

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvar og hvernig voru grísku guðirnir dýrkaðir til forna?“ Vísindavefurinn. 19. jan. 2009. Vefsíða. 1. des. 2022. <http://visindavefur.is/svar.php?id=19959>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvar og hvernig voru grísku guðirnir dýrkaðir til forna?
Spurninguna um hvar grísku guðirnir voru dýrkaðir má skilja á ýmsa vegu. Eitt svarið er að grísku guðirnir voru dýrkaðir í Grikklandi hinu forna. Það liggur eflaust í augum uppi en þó má segja að þeir hafi líka verið dýrkaðir utan Grikklands. Í fyrsta lagi kom fyrir að aðrar þjóðir tækju upp dýrkun grísku guðanna. Til dæmis tóku Rómverjar snemma upp þann sið frá Grikkjum að dýrka guðinn Apollon en auk þess tóku sögurnar sem Grikkir sögðu um guðina sína smám saman yfir suma rómversku guðanna sem í upphafi voru allt aðrir guðir. Sem dæmi um þetta má nefna að frá 2. öld f.Kr. tók gríska ástargyðjan Afródíta smám saman yfir rómversku ástargyðjuna Venus, sem var í upphafi einhvers konar gróður- og frjósemisgyðja og hafði verið dýrkuð á Ítalíu allt frá því fyrir stofnun Rómarborgar og tengdist Afródítu í upphafi ekki neitt.

Í öðru lagi voru guðir annarra þjóða í sumum tilvikum upprunalega sömu guðirnir og grísku guðirnir og því mætti segja að í einhverjum skilningi hafi sami guðinn verið dýrkaður víðar en í Grikklandi. Þannig var til dæmis guðinn *Dyews upphaflega indóevrópskur himnaguð. Nafn hans breyttist smám saman á ólíka vegu í ólíkum indóevrópskum tungumálum. Í grísku varð nafnið *Dyews að nafninu Zeus sem á íslensku nefnist Seifur. Í latínu (tungumáli Rómverja) eru orðin dies (dagur) og deus (guð) bæði skyld nafni hans. *Dyews var í ávarpsfalli *Dyew og var oftast nefndur faðir þegar hann var ávarpaður, það er *Dyew pater. Þetta orðasamband festist í latínu og varð (í nefnifalli) Júpíter. Þannig eru Seifur og Júpíter ekki bara grísk og rómversk hliðstæða heldur upphaflega sami indóevrópski guðinn sem var dýrkaður bæði í Grikklandi og Rómaveldi. Þessu skylt er nafnið Tiwas sem hjá norrænum mönnum hét síðar Týr.


Fórnarathöfn í Grikklandi til forna. Mynd á leirkeri.

Í öðru lagi má skilja spurninguna þannig að spurt sé í hvaða borgum guðirnir voru einkum dýrkaðir því að guðirnir áttu mismiklum vinsældum að fagna í ólíkum borgum og áttu sér ákveðna helgistaði sem voru eins konar miðpunktur dýrkunar þeirra. Í Aþenuborg voru gyðjan Aþena og guðirnir Seifur og Póseidon til að mynda einkum í hávegum höfð. Póseidon hafði raunar verið dýrkaður sérstaklega í borgunum Pylos og Þebu frá því á bronsöld og var dýrkaður mjög víða. Í Delfí var véfrétt spádómsguðsins Apollons en Apollon var einnig í hávegum hafður ásamt systur sinni Artemis á eynni Delos þar sem þau áttu að hafa fæðst. Artemis var einnig dýrkuð víða og var meðal annars tileinkað frægt hof í borginni Efesos í Jóníu í Litlu-Asíu en hofið var eitt af sjö undrum veraldar.

Afródíta var einkum dýrkuð á eyjunum Kýpur og Kýþeru sem voru báðar sagðar vera fæðingarstaður hennar. Henni var tileinkað hof á háborg Kórinþu (sem stóð þar til ársins 146 f.Kr. þegar Rómverjar lögðu borgina í eyði) og Afródítuhátíðin var haldin árlega víða um Grikkland en ekki þó síst í Kórinþu og Aþenu. Seifur, Hermes og Demetra voru dýrkuð víðar en flestir aðrir. Auk tiltekinna helgistaða voru guðirnir oft dýrkaðir á ýmsum hátíðum sem tengdust þeim. Til dæmis tengdist Díonýsosarhátíðin dýrkun Dýonýsosar og Þesmófóruhátíðin dýrkun Demetru. Of langt mál yrði að rekja alla helstu helgistaði allra guðanna og allar hátíðir sem tengdust þeim.

Samskipti manna við guðdóminn voru einkum fólgin í bænum og fórnum þar sem einhverju var lofað í skiptum fyrir eitthvað, jafnvel bara velvild guðsins. Grikkir byggðu guðunum hof. Mörg þeirra voru afar fræg. Áður hefur verið minnst á Artemisarhorfið í Efesos en einnig má nefna Seifshofið í Ólympíu og Meyjarhofið í Aþenu. Þeir sem áttu leið fram hjá hofi köstuðu gjarnan kveðju á guðinn. Inni í hofinu var stór salur þar sem stóð stytta af guðinum sem hofið var tileinkað. Fyrir utan hofið stóð altari og á altarinu voru færðar fórnir, oft í dögun. Gyðjum voru slátruð kvendýr en guðum karldýr. Auk þess voru ákveðnar venjur um hvers konar dýrum skyldi fórnað handa tilteknum guðum. Póseidoni fórnuðu menn oftast nauti eða þá nauti, villisvíni og hrúti. Aþenu færðu menn venjulega kú en Artemis og Afródítu fórnuðu menn oft geit. Stundum var fiskum eða fuglum fórnað en það var sjaldgæfara. Venjulega fengu undirheimaguðir dökk eða svört dýr en aðrir guðir hvít dýr. Dýrin báru gjarnan blómaskreytingar og annað skart þegar þau voru leidd upp að altarinu, vatni var skvett á þau og hárlokkur skorinn af áður en þau voru drepin. Dýrin voru svo skorin á háls og látið blæða út. Eftir að þau höfðu verið drepin voru þau venjulega borðuð en guðirnir fengu að fórn feitan bita á eldinn og víni hellt yfir hann.

Á uppskerutímum voru ávextir og grænmeti skilin eftir á altarinu handa guðunum til að tryggja góða uppskeru. Einnig var algengt að guðum væru færðar kökur að fórn og auk þess færðu menn þeim dreypifórnir en þá helltu menn oftast víni, vatni, mjólk, ólífuolíu eða hunangi á jörðina handa guðunum. Dreypifórnir var hægt að færa hvar sem er og voru þær ekki færðar einungis þar sem var altari. Til dæmis var til siðs að hefja samdrykkjur á að færa í dreypifórn óblandað vín svo að veislan færi vel fram.

Auk opinberra guða sérhvers borgríkis voru svonefndar launhelgar en það voru söfnuðir tileinkaðir tilteknum guðum þar sem einungis innvígðir fengu að taka þátt í athöfnum. Venjum og helgisiðum launhelganna var haldið leyndum fyrir öllum öðrum. Launhelgar lofuðu oft einhvers konar frelsun og hamingju að jarðlífi loknu. Launhelgar voru til víða í Grikklandi. Þekktastar eru eflaust launhelgarnar í Elevsis þar sem mæðgurnar Demetra og Kore voru dýrkaðar. Meðal annarra launhelga má nefna launhelgar Díonýsosar og orfeifstrú.

Meira lesefni:

Mynd:...