Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

doktor.is

Getur ofgnótt streituhormónsins kortisól valdið svefnleysi?

Þegar fólk verður stressað eykst magn streituhormónsins kortisóls í blóði. Nánar tiltekið eykst svokallað stýrihormón nýrnahettubarkar (SHNB eða ACTH) sem aftur eykur seyti kortisóls og skyldra streituhormóna í blóðrásina. Þetta streituviðbragðakerfi veldur örvun og svefnleysi. Rannsakendur við Svefnrannsókna- og meðferðarmiðstöð Pennsylvaníuháskóla settu því fram þá tilgátu að langvarandi svefnleysi gæti skýrst af aukinni seytingu streituhormóna. Þetta gekk eftir; fólk sem þjáist af langvarandi svefnleysi hefur aukið magn af streituhormónum í blóði sem gefur til kynna að það bregðist óeðlilega sterkt við streituvaldandi aðstæðum.Fylgst var með svefni 11 ungra einstaklinga sem þjáðust af langvarandi svefnleysi og 13 heilbrigðra einstaklinga án svefntruflana í fjórar nætur samfellt. Á fjórða degi voru tekin blóðsýni og magn streituhormónanna kortisóls og SHNB mæld á hálftíma fresti. Eins og við mátti búast voru gæði svefns lítil í hópi þeirra sem þjáðust af svefnleysi í samanburði við hina. Þeir sem þjáðust af svefnleysi voru enn fremur með hærra magn af streituhormónum sólarhringinn þegar mælt var og þeir sem höfðu verstu svefntruflanirnar mældust með mest kortisól. Mest jókst magn streituhormónanna á kvöldin og fyrri hluta nætur, bæði hjá heilbrigðum og þeim sem þjáðust af langvarandi svefnleysi.

Þessar niðurstöður gefa til kynna að viðvarandi ofurörvun streituviðbragðakerfisins leiði til langvarandi svefnleysis. Einfaldur svefnmissir virðist þó vera af öðrum toga; í svefnmissi kemur venjulega ekki fram aukning á magni streituhormóna eða truflun á dægursveiflu seytis þeirra.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru mikilvægar fyrir lækna sem meðhöndla fólk með langvarandi svefnleysi. Í stað þess að grípa til lyfja sem auka syfju gætu önnur lyf (svo sem sum geðdeyfðarlyf) eða tækni sem dregur úr örvun streituviðbragðakerfisins reynst farsælli til lækningar á langvarandi svefnleysi. Þetta ætti ekki aðeins að bæta gæði nætursvefns heldur einnig hindra þróun líkamlegra og andlegra truflana, svo sem þunglyndi og kvíða, sem fylgja í kjölfar ofurvirkra streituviðbragða.

Heimildir og mynd:

Útgáfudagur

28.11.2005

Spyrjandi

Sigríður V.

Höfundur

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Getur ofgnótt streituhormónsins kortisól valdið svefnleysi?“ Vísindavefurinn, 28. nóvember 2005. Sótt 20. janúar 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=5439.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2005, 28. nóvember). Getur ofgnótt streituhormónsins kortisól valdið svefnleysi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5439

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Getur ofgnótt streituhormónsins kortisól valdið svefnleysi?“ Vísindavefurinn. 28. nóv. 2005. Vefsíða. 20. jan. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5439>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Ingibjörg Gunnarsdóttir

1974

Ingibjörg Gunnarsdóttir er prófessor í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og forstöðumaður Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala. Ingibjörg hefur rannsakað áhrif næringar á meðgöngu á heilsu móður og tengsl næringar og vaxtar fyrstu ár ævinnar við heilsu allt fram á fullorðins ár.