Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hárlos er hægt að flokka í tvennt: það er missa hár og fá það aftur eða missa hár og fá það ekki aftur, það kallast skallamyndun.
Hár vex að meðaltali um einn cm á mánuði. Hvert hár vex í allt að fimm til sex ár en hættir síðan að vaxa og fellur að lokum af. Hár er í mismunandi vaxtarskeiðum þannig að um það bil 85% af hári er í vexti en 15% í dvala. Á höfðinu eru að meðaltali um 100 - 160 þúsund hár og um 100 hár falla af höfðinu á dag. Síðhærður einstaklingur verður óneitanlega meira var við það heldur en stutthærður.
Hár þynnist með aldri hjá báðum kynjum og þótt skallamyndun sé algengari hjá körlum þá getur hún einnig gerst hjá konum.
Þættir sem geta valdið hárlosi:
Erfðir og aldur
Hormónabreytingar, til dæmis skjaldkirtilssjúkdómar
Alvarlegir sjúkdómar
Tilfinningaleg og líkamleg streita
Slæmir ávanar eins og hártog og óþarfa nudd í hárrót
Bruni
Geislameðferð (krabbamein)
Lyfjameðferð
Tinea capitis (sveppasýking)
Slæm dagleg meðferð á hárinu við litun, þurrkun, umhirðu og fleira
Meðferðir við hárlosi eru nánast jafn margar og orsakir og verður því stiklað á stóru hér.
Við skallamyndun sem á sér erfðafræðilegar orsakir, það er gengur í erfðir, eru að minnsta kosti 2 skráð lyf á Íslandi, það er Regaine sem er lausn sem borin er í hársvörð og hægt er að kaupa í lausasölu og Propecia sem eru töflur sem fást út á lyfseðil. Þetta eru engin kraftaverkalyf en rannsóknir sýna að þau geta hægt á skallamyndun og jafnvel örvað hárvöxt í hársekkjum sem hefur stöðvast alveg. Einnig er til svokölluð hárígræðsla.
Í raun felur skallamyndun ekki í sér neitt heilsufarslegt vandamál ef sá sem missir hárið er fullkomlega sáttur við það, en því geta af sjálfsögðu fylgt ýmis félagsleg vandamál og óþægindi fyrir viðkomandi sem hann er alls ekki sáttur við. Í raun er það að missa hárið mjög eðlilegt og ekkert til að skammast sín fyrir.
Við hárlosi sem á sér rætur að rekja til lyfja, geislameðferðar, eða sjúkdóma er lítið hægt að gera en venjulega tekur hárið að vaxa aftur þegar meðferð líkur.
Það er ýmislegt til við vægu almennu hárlosi (það er ekki skallamyndun eða sem rekja má til sjúkdóma) sem telst þó meira en eðlilegt (meira en þessi um það bil 100 hár á sólarhring sem maður missir að meðaltali), allt frá hárnæringu til vítamínhárkúra í töfluformi. Undirritaður er þó þeirrar skoðunar að allt þetta geri í raun lítið fyrir hárvöxtinn sjálfan en gæti mögulega gert hárið líflegra og fallegra.
Það er mjög sjaldgæft að fólk þjáist af langvarandi vítamínskorti á Íslandi en það þarf töluvert langvarandi vítamínskort til þess að hafa áhrif á hárvöxt. Margar konur kannast við það hár þeirra tekur breytingum á meðgöngu eða við brjóstagjöf. Þetta getur bæði stafað af hormónabreytingum og þeirri staðreynd að þær eru að næra tvo einstaklinga og eðlilegt að það geti haft áhrif á næringarástand þeirra og þar af leiðandi hár.
Á Vísindavefnum eru fleiri svör um hár, til dæmis:
Friðþjófur Már Sigurðsson. „Hverjar eru ástæðurnar fyrir hárlosi og hvað er hægt að gera við því?“ Vísindavefurinn, 7. desember 2005, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5465.
Friðþjófur Már Sigurðsson. (2005, 7. desember). Hverjar eru ástæðurnar fyrir hárlosi og hvað er hægt að gera við því? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5465
Friðþjófur Már Sigurðsson. „Hverjar eru ástæðurnar fyrir hárlosi og hvað er hægt að gera við því?“ Vísindavefurinn. 7. des. 2005. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5465>.