Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Blóðið í æðum okkar er yfirleitt rautt að lit. Þetta vita flestir sem hafa fengið sár sem blæðir úr. Rauði liturinn stafar af svokölluðu hemóglóbíni (e. hemoglobin), eða blóðrauða. Hemóglóbín sér um að flytja súrefni um líkamann með því að binda súrefnið við járn. Við þessa bindingu verður blóðið ljósrautt, en í súrefnislítilli lausn er það dökkrautt og stundum bláleitt.
En hvernig stendur þá á því að blóðið virðist vera blátt í æðunum? Ástæðan fyrir því er í sjálfu sér einföld. Í hvítu ljósi eru allir litir litrófsins. Hvítt blað er hvítt á litinn af því að það endurkastar nær öllu ljósinu. Blátt blað gleypir í sig aðra liti en þann bláa sem það endurkastar. Húðin á ljósleitu fólki endurkastar á líkan hátt og hvítt blað mest öllu ljósi sem á hana skín. Þessu er vitanlega öðruvísi háttað á fólki með dökka húð. Blóð endurkastar aðallega rauðu ljósi en gleypir aðra liti í sig.
Bláar æðar á handarbaki.
Rautt ljós nær lengra inn í húðina en blátt ljós. Þegar ljós fellur á æðar sem eru rétt undir húðinni endurkastast hlutfallslega meira af bláu ljósi en rauðu og æðarnar virðast bláleitar en ekki rauðar. Ef æðarnar eru nógu djúpt í húðinni nær ekkert ljós að skína á þær, ekkert endurkast verður og við sjáum æðarnar ekki.
Blóðið í æðum sem eru rétt undir húðinni virðist þess vegna vera blátt af því að þegar ljós skín á húðina yfir æðunum endurkastast meira af bláa ljósinu en því rauða.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Ég sendi þessa spurningu fyrir rúmlega tveimur árum síðan og hef ekki enn fengið svar en mig langar að vita: Af hverju virðast æðarnar á okkur bláar þegar blóðið er rautt?
JGÞ. „Af hverju virðast æðarnar á okkur bláar þótt blóðið sé rautt?“ Vísindavefurinn, 14. janúar 2010, sótt 8. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=54947.
JGÞ. (2010, 14. janúar). Af hverju virðast æðarnar á okkur bláar þótt blóðið sé rautt? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=54947
JGÞ. „Af hverju virðast æðarnar á okkur bláar þótt blóðið sé rautt?“ Vísindavefurinn. 14. jan. 2010. Vefsíða. 8. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=54947>.