Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hægt er að beita nokkrum aðferðum við aldursgreiningu á fiskum. Þær sem mest eru notaðar, meðal annars hér á landi, eru greiningar á hörðum líkamshlutum fisksins svo sem kvörnum og hreistri. Kvarnir eru litlar steinagnir sem finnast í pokalaga líffærum eða skjóðum í innra eyra allra beinfiska (Osteichthyes).
Árlega myndast misþéttir vaxtarhringir á kvörnum og hreistri. Líkt og í trjám eru vaxtarhringirnir misþéttir. Breiðir og hvítir hringir myndast yfir sumarið þegar fæðuframboð er mikið og fiskurinn er í vexti en dekkri og mjórri hringir á veturna þegar vöxturinn er hægur.
Þverskurður af kvörn þorsks. Árhringirnir sjást greinilega.
Kvarnirnar vaxa alla ævi líkt og fiskurinn sjálfur. Góð fylgni er á milli stærðar kvarna og stærð fisksins og er því hægt að áætla stærð fisks út frá kvörnum.
En það eru ekki aðeins vaxtarhringir sem hægt er að lesa úr kvörnunum heldur einnig vaxtarsögu fisksins úr bilinu á milli hringjanna og stærð kvarnanna. Þessar aðferðir henta betur fyrir fisk á svæðum þar sem meiri hitamunur er á milli árstíða, það er í köldum og kaldtempruðum sjó. Vaxtarhringir myndast þó einnig í hreistri og kvörnum fiska í hlýjum sjó við miðbaug og í heittempruðu belti jarðar en þeir eru bæði ógreinilegri og óreglulegri.
Hægt er að lesa meira um kvarnir í svari við spurningunni Heyra fiskar hljóð og hafa þeir eitthvað jafnvægisskyn?Heimildir og mynd:
Gróa Þóra Pétursdóttir. 2001. "Aldurslestur á kvörnum og hreistri helstu nytjafiska". Greinar um hafrannsóknir 56:72-74.
Helfman, Gene s., Bruce B. Collette og Douglas E. Facey. 1997. Diversity of fishes. 2.útg 2002. Blackwell Science, Inc. a Blackwell Publishing company.
Jón Már Halldórsson. „Hvernig er hægt að aldursgreina fisk?“ Vísindavefurinn, 19. febrúar 2010, sótt 8. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=54986.
Jón Már Halldórsson. (2010, 19. febrúar). Hvernig er hægt að aldursgreina fisk? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=54986
Jón Már Halldórsson. „Hvernig er hægt að aldursgreina fisk?“ Vísindavefurinn. 19. feb. 2010. Vefsíða. 8. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=54986>.