Kvarnapörin þrjú nefnast sagitta eða stóra heyrnarkvörn (sjá mynd hér til hliðar), astericus eða litla heyrnarkvörn og lapillus eða jafnvægiskvörn. Sagitta-steinarnir eru stærstir og það eru árhringir þeirra sem vísindamenn skoða þegar meta á aldur fisks. Þessir steinar, ásamt astericus, sjá um heyrnarskynjun. Þegar hljóðbylgjur berast um sjóinn fara þær í gegnum fiskinn því þéttleikinn er svipaður og hafið. Þegar bylgjurnar lenda á kvörninni, sem er mun þéttari, þá fer hún að titra og skynfrumurnar í veggjum skjóðunnar nema þennan titring sem hljóð.
Þriðja parið, jafnvægiskvörn, sér um jafnvægisskynjun. Þegar fiskurinn hallar á hliðina, færist kvörnin til í skjóðunni og snerting við bifhár skynfrumnanna gefur hallann til kynna og fiskurinn getur því rétt sig af.
Kvarnir eru gerðar úr kalsín-karbónati (CaCO3) og ýmsu öðrum formum kalsíns Ca2+. Einnig er lífrænt efni sem kallast ótólín, (NMITA), en það er prótín sem hefur væntanlega það hlutverk að búa til beinagrind sem kalsínið binst. Um 10% eru snefilefni sem koma úr umhverfi fisksins.
Sérstakar seytifrumur eru í innra eyranu sem seyta Ca2+. Þessar frumur seyta öllum efnum sem fara í kvörnina, líka snefilefnum, sem setjast utan á kvörnina. Efnasamsetning kvarnanna ræðst því að nokkru leyti af efnum í umhverfinu og geta líffræðingar því metið að einhverju leyti hvar fiskurinn hefur haldið sig með því að bera saman efnasamsetningu kvarna í fiski á mismunandi svæðum. Þessar seytifrumur eru misvirkar eftir árstíma og jafnvel eftir því hvaða tími dagsins er. Þannig myndast hringir í kvörnunum, árhringir eða dægurhringir, sem hægt er að nota til að meta aldur fisksins. Kvarnir vaxa í hlutfalli við fiskinn og út frá stærð þeirra er hægt að áætla stærð fisksins.
Frekari fróðleikur um Vísindavefnum:
Heimildir og mynd:
- Gróa Þóra Pétursdóttir. 2001. "Aldurslestur á kvörnum og hreistri helstu nytjafiska". Greinar um hafrannsóknir 56:72-74.
- Helfman, Gene s., Bruce B. Collette og Douglas E. Facey. 1997. Diversity of fishes. 2.útg 2002. Blackwell Science, Inc. a Blackwell Publishing company.
- Bleikjunetið
- Mynd: Maine In-situ Sound & Color Lab.