Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hvað er það merkilegasta sem fornleifafræðingar hafa fundið?

Orri Vésteinsson

Fornleifafræðingar myndu flestir segja að allar fornleifar séu merkilegar og að ekki sé hægt að gera upp á milli þeirra – hver einasti gripur og bygging séu mikilvæg til að hjálpa okkur að skilja fortíðina. Það er rétt svo langt sem það nær en hinsvegar hafa fornleifar oft meira gildi en bara sem einingar í rökræðu vísindamanna um fortíðina. Sumar fornleifar öðlast frægð og fá tilfinningalegt og táknrænt gildi fyrir hópa fólks. Hér á Íslandi myndum við til dæmis getað bent á Valþjófsstaðahurðina (á mynd til hægri) eða Konungsbók Eddukvæða sem mikilvæga forngripi fyrir íslenska þjóðerniskennd. Sögulegir staðir eins og Þingvellir geta líka haft þannig táknrænt gildi.

Frægir gripir og staðir eru aðeins örlítið brot af öllum fornleifum í heiminum. Þeir eru samt mikilvægir því athygli almennings beinist að þeim og athyglinni fylgir fjármagn. Því sinna vísindamenn slíkum fornleifum meira en hinum sem ekki hafa orðið frægar. Á Heimsminjaskrá UNESCO – menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðana – er úrval fornleifastaða (og raunar náttúruminjastaða líka) sem alþjóðasamfélagið hefur skilgreint sem merkilegri en aðra. Þingvellir eru eini íslenski staðurinn á þessari skrá en íslensk stjórnvöld hafa líka friðlýst um 700 staði (sjá friðlýsingaskrá). Þessar friðlýsingar eru komnar nokkuð til ára sinna og nokkuð umdeildar, en þær byggja að minnsta kosti á þeirri hugmynd að sumir staðir séu merkilegri en aðrir. Ekki eru til sambærileg skilgreiningakerfi fyrir forngripi, en þeir eru undantekningalítið varðveittir á opinberum söfnum sem hvert um sig leitast við að hafa á sýningum sínum þá gripi sem þykja merkastir.

Frá fornöld hafa menn talað um sjö undur veraldar sem lesa má um í svari HMH við spurningunni Hver eru sjö undur veraldar? Þetta voru allt stórfenglegar byggingar í Austurlöndum nær og við Miðjarðarhaf. Um margar þeirra eru engin ummerki lengur en aðrar, til dæmis pýramíðinn mikli í Giza, standa enn til vitnis um forn verkfræðiafrek. Mikilfenglegar mannvirkjaleifar eins og pýramíðarnir, Kínamúrinn og Stonehenge (á mynd að ofan til vinstri) eru líklega það sem fólki dettur fyrst í hug þegar talað er um merkilegustu fornleifar heims. Mannvirki af því tagi eru líka ótvírætt merkileg af því að þau eru óvenjuleg og af því að menn hafa spáð í þau nánast frá því að þau voru reist; reynt að skilja tilgang þeirra, hvernig þau voru byggð og hvað þau segja um fortíðina. Þau hafa þannig mótað söguna og skilning okkar á henni.

Margir fornleifafundir eru æsilegir og fá mikla kynningu því þeir veita skyndilega innsýn inn í fortíðina. Staðir eins og Pompei og gröf Tut ankh amons (á mynd til hægri) eru í þessum flokki, einnig ísmaðurinn Ötzi, en líka staðir eins og L’ans aux Meadows – búsetuleifar norrænna manna á Nýfundnalandi – sem í sjálfu sér geta ekki talist æsilegir, en virðast staðfesta kenningar sem áður höfðu verið dregnar í efa.

Önnur nálgun er að benda á þær fornleifar sem mest hafa komið á óvart og mestu hafa breytt fyrir skilning okkar á fortíðinni. Þar undir eru ýmsir fundir á seinni hluta 19. aldar sem vörpuðu nýju ljósi á uppruna og þróun mannsins. Meðal þeirra eru beinafundinn í Neanderthal 1856 og hellamálverkin í Altamira á Spáni sem fundust 1879. Slíkir fundir hafa gerbreytt hugmyndum manna um mannkynssöguna. Algengara er þó að hugmyndirnar breytist smátt og smátt með mörgum fundum sem hver og einn lætur ekki mikið yfir sér en mynda nýjan skilning þegar þeir leggjast saman. Þannig hafa fáir heyrt um staði eins og El Wad, Azraq, ‘Ain Mallaha, WF16, Abu Hureyra eða Hallan Çemi Tepesi en rannsóknir á þeim og mörgum öðrum í Austurlöndum nær á undanförnum áratugum hafa þó gerbreytt hugmyndum okkar um upphaf landbúnaðar fyrir meira en tíu þúsund árum síðan.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Myndir

  • Valþjófsstaðahurðin er af Handritin heima.
  • Stonehenge er af Stonehenge. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
  • Tut ankh amun er af Tutankhamun. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.

Höfundur

Orri Vésteinsson

prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

20.12.2005

Spyrjandi

Hallur Reynisson, f. 1991
Sahara Rós Ívarsdóttir, f. 1992

Tilvísun

Orri Vésteinsson. „Hvað er það merkilegasta sem fornleifafræðingar hafa fundið? “ Vísindavefurinn, 20. desember 2005. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5501.

Orri Vésteinsson. (2005, 20. desember). Hvað er það merkilegasta sem fornleifafræðingar hafa fundið? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5501

Orri Vésteinsson. „Hvað er það merkilegasta sem fornleifafræðingar hafa fundið? “ Vísindavefurinn. 20. des. 2005. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5501>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er það merkilegasta sem fornleifafræðingar hafa fundið?
Fornleifafræðingar myndu flestir segja að allar fornleifar séu merkilegar og að ekki sé hægt að gera upp á milli þeirra – hver einasti gripur og bygging séu mikilvæg til að hjálpa okkur að skilja fortíðina. Það er rétt svo langt sem það nær en hinsvegar hafa fornleifar oft meira gildi en bara sem einingar í rökræðu vísindamanna um fortíðina. Sumar fornleifar öðlast frægð og fá tilfinningalegt og táknrænt gildi fyrir hópa fólks. Hér á Íslandi myndum við til dæmis getað bent á Valþjófsstaðahurðina (á mynd til hægri) eða Konungsbók Eddukvæða sem mikilvæga forngripi fyrir íslenska þjóðerniskennd. Sögulegir staðir eins og Þingvellir geta líka haft þannig táknrænt gildi.

Frægir gripir og staðir eru aðeins örlítið brot af öllum fornleifum í heiminum. Þeir eru samt mikilvægir því athygli almennings beinist að þeim og athyglinni fylgir fjármagn. Því sinna vísindamenn slíkum fornleifum meira en hinum sem ekki hafa orðið frægar. Á Heimsminjaskrá UNESCO – menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðana – er úrval fornleifastaða (og raunar náttúruminjastaða líka) sem alþjóðasamfélagið hefur skilgreint sem merkilegri en aðra. Þingvellir eru eini íslenski staðurinn á þessari skrá en íslensk stjórnvöld hafa líka friðlýst um 700 staði (sjá friðlýsingaskrá). Þessar friðlýsingar eru komnar nokkuð til ára sinna og nokkuð umdeildar, en þær byggja að minnsta kosti á þeirri hugmynd að sumir staðir séu merkilegri en aðrir. Ekki eru til sambærileg skilgreiningakerfi fyrir forngripi, en þeir eru undantekningalítið varðveittir á opinberum söfnum sem hvert um sig leitast við að hafa á sýningum sínum þá gripi sem þykja merkastir.

Frá fornöld hafa menn talað um sjö undur veraldar sem lesa má um í svari HMH við spurningunni Hver eru sjö undur veraldar? Þetta voru allt stórfenglegar byggingar í Austurlöndum nær og við Miðjarðarhaf. Um margar þeirra eru engin ummerki lengur en aðrar, til dæmis pýramíðinn mikli í Giza, standa enn til vitnis um forn verkfræðiafrek. Mikilfenglegar mannvirkjaleifar eins og pýramíðarnir, Kínamúrinn og Stonehenge (á mynd að ofan til vinstri) eru líklega það sem fólki dettur fyrst í hug þegar talað er um merkilegustu fornleifar heims. Mannvirki af því tagi eru líka ótvírætt merkileg af því að þau eru óvenjuleg og af því að menn hafa spáð í þau nánast frá því að þau voru reist; reynt að skilja tilgang þeirra, hvernig þau voru byggð og hvað þau segja um fortíðina. Þau hafa þannig mótað söguna og skilning okkar á henni.

Margir fornleifafundir eru æsilegir og fá mikla kynningu því þeir veita skyndilega innsýn inn í fortíðina. Staðir eins og Pompei og gröf Tut ankh amons (á mynd til hægri) eru í þessum flokki, einnig ísmaðurinn Ötzi, en líka staðir eins og L’ans aux Meadows – búsetuleifar norrænna manna á Nýfundnalandi – sem í sjálfu sér geta ekki talist æsilegir, en virðast staðfesta kenningar sem áður höfðu verið dregnar í efa.

Önnur nálgun er að benda á þær fornleifar sem mest hafa komið á óvart og mestu hafa breytt fyrir skilning okkar á fortíðinni. Þar undir eru ýmsir fundir á seinni hluta 19. aldar sem vörpuðu nýju ljósi á uppruna og þróun mannsins. Meðal þeirra eru beinafundinn í Neanderthal 1856 og hellamálverkin í Altamira á Spáni sem fundust 1879. Slíkir fundir hafa gerbreytt hugmyndum manna um mannkynssöguna. Algengara er þó að hugmyndirnar breytist smátt og smátt með mörgum fundum sem hver og einn lætur ekki mikið yfir sér en mynda nýjan skilning þegar þeir leggjast saman. Þannig hafa fáir heyrt um staði eins og El Wad, Azraq, ‘Ain Mallaha, WF16, Abu Hureyra eða Hallan Çemi Tepesi en rannsóknir á þeim og mörgum öðrum í Austurlöndum nær á undanförnum áratugum hafa þó gerbreytt hugmyndum okkar um upphaf landbúnaðar fyrir meira en tíu þúsund árum síðan.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Myndir

  • Valþjófsstaðahurðin er af Handritin heima.
  • Stonehenge er af Stonehenge. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
  • Tut ankh amun er af Tutankhamun. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
...