Flinders Petrie fæddist í Kent á Englandi 1853. Hann var af efnafólki kominn og gekk aldrei í skóla heldur lærði heima undir leiðsögn föður síns sem kenndi honum meðal annars landmælingar. Hann fékk ungur áhuga á sögu og fornfræði, lærði latínu og grísku og hóf þegar á unglingsárum að spreyta sig á að mæla upp rómversk og forsöguleg mannvirki í Englandi, meðal annars Stonehenge. Árið 1880 fór hann í sinn fyrsta leiðangur til Egyptalands og mældi þá upp píramída og önnur mannvirki í Giza. Nákvæmar mælingar hans og skipuleg greining á mannvirkjaleifunum og ástandi þeirra gerðu honum kleift að setja fram kenningar um hvernig píramídarnir voru byggðir. Þessar kenningar voru þær fyrstu sem byggðu á nákvæmum vettvangsathugunum og vöktu þær strax athygli á Flinders Petrie og aðferðum hans. Hann var í kjölfarið gerður að rannsóknarmanni Egypt Exploration Fund, sem var og er helsta fræðafélag Bretlands á sviði fornegypskra fræða. Á næstu árum fór Flinders Petrie í fjölmarga leiðangra til Egyptalands og Palestínu, gerði uppgrefti og margar merkar uppgötvanir á stöðum á borð við Tanis, Sehel, Amarna og Fayum í Egyptalandi auk þess sem hann er talinn hafa gert fyrstu vísindalegu fornleifauppgreftina á biblíuslóðum í Palestínu. Árið 1892 var hann skipaður prófessor í fornegypskum fræðum við University College London, sá fyrsti til að gegna slíkri stöðu þar í landi, og sat hann í henni til 1933 þegar hann flutti til Jerúsalem þar sem hann lést 1942.
Í uppgröftum sínum notaðist Flinders Petrie ekki við verkstjóra eins og hafði tíðkast fram að því heldur stjórnaði hann sjálfur aðgerðum og fylgdist með að allir gripir, hvort sem þeir töldust verðmætir eða ekki, væru skráðir, staðsettir og varðveittir. Hann lagði áherslu á öguð og skipuleg vinnubrögð við uppgreftina, að jarðvegur væri fjarlægður smátt og smátt þannig að tryggt væri að minnstu gripirnir færu ekki forgörðum, og að allt sem fyndist, hvort heldur gripir eða mannvirki, væri nákvæmlega mælt upp og birt í rannsóknarskýrslum. Allt þetta þykir nú sjálfsagt mál en var það ekki á þessum tíma, sér í lagi ekki utan Evrópu þar sem uppgreftir vestrænna fornfræðinga og ævintýramanna sóru sig meir í ætt við fjársjóðsleit en vísindalegar rannsóknir. Viðhorf og aðferðafræði Flinders Petrie höfðu mótandi áhrif á komandi kynslóðir fornleifafræðinga, bæði þeirra sem hann kenndi sjálfur, hvort heldur sem er á vettvangi í Egyptalandi og Palestínu eða í kennslustofu í London, en ekki síður með bókinni Methods and Aims in Archaeology sem kom út 1904. Hún er fyrsta bókin um uppgraftartækni og aðferðafræði fornleifafræðinnar sem kom út á ensku og markaði þáttaskil í þróun fornleifafræði sem vísindagreinar.

Flinders Petrie er einnig minnst fyrir tækni sem hann þróaði við afstæða aldursgreiningu forngripa. Í Diospolis Parva í Efra-Egyptalandi stóð hann frammi fyrir því að aldursgreina gripi úr gröfum þó að engin jarðlagatengsl væru á milli þeirra og þó þeir væru eldri en hið sögulega tímatal sem egypsk fornfræði byggir annars á. Hann tók það til bragðs að setja gripategundirnar úr hverri gröf á blaðræmur sem hann bar síðan saman við hinar grafirnar og raðaði í afstæða tímaröð eftir því hvar líkindi voru mest á milli grafa. Meginniðurstöðurnar sem Flinders Petrie komst að með þessu hafa staðist tímans tönn og verið staðfestar með yngri rannsóknum. Þessi aðferð (e. seriation) var mikilvægur áfangi í þróun gerðfræðinnar og jók mjög á möguleika fornleifafræðinga á að nota gerð gripa til tímasetningar. Hún var mikið notuð á fyrri hluta 20. aldar áður en algildar tímasetningaraðferðir á borð við geislakolsaldursgreiningu komu til sögunnar og heldur enn gildi sínu þó hún þurfi ekki lengur ein að standa undir hugmyndum um aldur hluta. Arfleifð Flinders Petrie er því fyrst og fremst aðferðafræðileg nákvæmni en rannsóknir hans í Egyptalandi halda einnig gildi sínu, ekki síst vegna þess að margir fornleifastaðanna sem hann mældi upp og gróf í hafa síðan látið mjög á sjá, bæði vegna ágangs ferðamanna og rána, og eru rannsóknargögn hans því mikilvægar heimildir um þá. Hugmyndir Flinders Petrie um söguleg ferli úreltust hins vegar fljótt. Hann var strangtrúaður, alinn upp í mótmælendasöfnuðinum Plymouth Brethren (Bræðrasamkoman) og rannsóknarspurningar hans mótuðust mjög af áhuga á að varpa ljósi á frásagnir Gamla testamentisins og setja egypska fornöld í samhengi við þær. Flinders Petrie varð umdeildur fyrir hugmyndir sínar um mannkynbætur og kynþáttahyggja hans, sem birtist meðal annars í því að hann taldi að fornegypsk menning hefði náð að blómstra vegna innrásar kákasískrar herraþjóðar, þykir nú ógeðfelld og fáránleg. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað eru fornleifar? eftir Orra Vésteinsson
- Hvað er það merkilegasta sem fornleifafræðingar hafa fundið? eftir Orra Vésteinsson
- Hvar finn ég upplýsingar á netinu um forngripi eða forngripasöfn? eftir Dagnýju Arnarsdóttur
- Hver var Christian Jürgensen Thomsen og hvert var framlag hans til fornleifafræðinnar? eftir Orra Vésteinsson
- Hver var Kristján Eldjárn og hvert var framlag hans til fornleifafræðinnar? eftir Adolf Friðriksson
- Margaret S. Drower. 1995. Flinders Petrie: A Life in Archaeology, 2. útg. Madison: University of Wisconsin Press.
- Gavin M. Lucas. 2001. Critical Approaches to Fieldwork. Contemporary and Historical Archaeological Practice. London: Routledge, einkum s. 26-32, 78-79.
- Wikipedia.com - Flinders Petrie. Sótt 29.3.2011.
- Mynd af leirkerum er úr safni höfundar.