Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Leysikorn (e. lysosome) eða leysibólur eru blöðrulaga frumulíffæri sem mynduð eru í golgíkerfinu en það er netlaga frumulíffæri sem staðsett er í umfrymi fruma. Leysikorn ólíkra frumna eru mismunandi að gerð og samsetningu.
Leysikorn gegna mikilvægu hlutverki í meltingarstarfi frumunnar. Þau eru vökvafyllt og innihalda mikinn styrk meltingarhvata eða melingarensíma. Meltingarhvatarnir hafa það hlutverk að sundra öllum stórum fæðusameindum sem leysikornin komast í tæri við, niður í smærri einingar sem fruman getur nýtt sér. Meðal þeirra ensíma sem finnast í leysikornum eru:
Lípasi - brýtur niður fitusýrur.
Amýlasi - brýtur niður kolvetnisefnasambönd (sykrur).
Prótínasi - brýtur niður prótínsambönd.
Núkleasi - brýtur niður kjarnasýrur.
Fósforsýra - brýtur niður einestra efnasambönd (monoester).
Leysikorn leika einnig mikilvægt hlutverk í vörnum frumunnar því þau eyða meðal annars bakteríum og öðrum aðskotahlutum sem berast inn í umfrymið. Þar eru mikilvirkar sérhæfðar átfrumur (e. macrophages) sem éta upp bakteríur og ónýtar frumur í líkamanum en í þessum átfrumum er mikið af leysikornum.
Lifrarfrumur eru einnig ríkar af leysikornum en rannsóknir hafa sýnt að leysikorn eru að meðaltali 300 í umfrymi þessara fruma en aðeins 1% af rúmmáli þeirra.
Leysikorn má einnig líta á sem einskonar sorphirðu frumunnar því þau melta meðal annars úrelt frumulíffæri og viðtaka frumunnar, en viðtakar eru prótínefnasambönd sem finnast víða í frumunni og leika eitt af meginhlutverkum í viðtakaháðri starfsemi hennar. Stanslaus nýmyndun efna á sér stað allan líftíma frumunnar og talsvert magn gengur sér til húðar en það er hlutverk leysikorna að brjóta þessar agnir niður. Meðal annars er meðallíftími hvatbera í lifrarfrumu aðeins 10 dagar. Þegar hvatberinn drepst þá er það hlutverk leysikorna að brjóta hann niður.
Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
Jón Már Halldórsson. „Hvað eru leysikorn og hvernig virka þau?“ Vísindavefurinn, 26. mars 2010, sótt 10. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=55235.
Jón Már Halldórsson. (2010, 26. mars). Hvað eru leysikorn og hvernig virka þau? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=55235
Jón Már Halldórsson. „Hvað eru leysikorn og hvernig virka þau?“ Vísindavefurinn. 26. mar. 2010. Vefsíða. 10. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=55235>.