Jarðskorpunni er skipt í meginlandsskorpu, sem er um 40 km þykk að meðaltali, og hafsbotnsskorpu sem er 6-7 km þykk. Hlutföll flatarmáls meginlands- og hafsbotnsskorpu eru um 30:70 þannig að samkvæmt því er meðalþykkt jarðskorpunnar $40\cdot 0,3 + 6,5\cdot 0,7=16,6$ km. Miðað við það að þvermál jarðar er um 12.740 km en meðalþvermál hænueggs 5 cm, mundi samsvarandi skurn á egginu vera 0,13 mm sem er líklega nærri réttu lagi. En lítum aðeins betur á jarðskorpuna. Mörk jarðskorpu og jarðmöttuls eru skilgreind með svonefndum móhoróvicic-mörkum eða „móhó“ (eftir króatíska jarðskjálftafræðingnum A. Mohorovicic, 1857-1936), þar sem hljóðhraði jarðskjálftabylgna eykst skyndilega. Við mörkin verður stökkbreyting í efnasamsetningu: Jarðmöttullinn kallast útbasískur, hafsbotnsskorpan basísk og meginlandsskorpan ísúr eða súr. Með þessum heitum er vísað til styrks SiO2 í berginu, en á 19. öld litu efnafræðingar á bergbráð sem lausn af „kísilsýru“ og ýmsum öðrum efnum, og steindirnar í berginu sem sölt (siliköt) af henni. Hins vegar er til önnur skilgreining á skorpu jarðar sem þá nefnist „berghvel“ eða „stinnhvolf“ en undir því tekur við „deighvel“. Berghvolfið er sem sagt úr hörðu bergi og samsett úr hinni „efnafræðilegu jarðskorpu“ og efsta hluta jarðmöttulsins, en deighvelið er seigfljótandi vegna þess að þar er efnið við bræðslumark sitt. Berghvelið er mjög misþykkt: Við miðhafshryggina er það innan við 10 km en þykknar út frá þeim og verður 150 km undir meginlöndum. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað er átt við með súrum, ísúrum og basískum eldgosum? eftir Ármann Höskuldsson
- Hvað er jörðin þykk? eftir TÞ