Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Líkist Öræfasveit Pompeii á Ítalíu?

Orri Vésteinsson

Litlahérað er nafn sem utanhéraðsmenn gáfu sveitinni sem nú kallast Öræfi, milli Skeiðarársands og Breiðamerkursands. Það gerðu þeir til að aðgreina hana frá Fljótsdalshéraði, en í munni heimamanna hét hún einfaldlega Hérað. Annað og enn eldra nafn á þessari sveit er Ingólfshöfðahverfi.

Í byrjun 14. aldar voru að minnsta kosti 30 bæir í Héraði og fjórar kirkjusóknir. Með bænhúsum og útkirkjum er vitað um 17 guðshús þar og er það heldur hærra hlutfall en í öðrum sveitum á sama tíma. Það gæti bent til að bæirnir hafi verið heldur fleiri, 40 bæir á móti 17 guðshúsum væri venjulegra hlutfall, eða að velmegun (eða guðhræðsla?) hafi verið meiri þar en annars staðar.

Ekki er annað að sjá en að þessi byggð hafi verið blómleg en á því varð breyting árið 1362. Þá gaus í Öræfajökli og eru samtímaheimildir sammála um að öll byggð í sveitinni hafi lagst af vegna þess. Getið er um mikil jökulhlaup sem hafi meðal annars tekið af öll hús á höfuðbólinu Rauðalæk þannig að ekkert stóð eftir nema kirkjan.



Frá uppgreftri á Bæ í Öræfum.

Þó þetta hafi eflaust verið mikið hamfarahlaup er óvíst hvort það hafi í raun og veru sópað burt öllum þeim bæjum sem lögðust í eyði á þessum tíma. Ljóst er að gjóskufall í sveitinni var gríðarlegt og er gjóskan þar 20-40 cm þykk. Það eitt hefur nægt til að óbyggilegt varð í sveitinni um hríð og hún hlaut það nafn sem hún gengur undir síðan, Öræfi. Nokkur býli byggðust þó aftur og var á seinni öldum búið á átta bæjum í Öræfasveit. Einhverjir bæir fóru líka í eyði af öðrum orsökum – til dæmis var búið á kirkjustaðnum Breiðá fram um 1700 en bæjarstæðið hvarf síðar undir jökul. Engu að síður lítur út fyrir að meir en 2/3 allra bæja í Héraði hafi lagst endanlega í eyði vegna gossins 1362.

Tveir af þessum bæjum hafa verið grafnir upp, Gröf skammt norðan við Hof og Bær við Salthöfða. Uppgröftur sýnir að bæirnir hafa lagst í eyði við gosið og voru tóftir þeirra fullar af vikri. Hvort að það hafi gerst í gusthlaupi eins og í Pompeii þannig að allt líf hafi eyðst í einni andrá (sjá Morgunblaðið 15. júní, 2005, Líklegt að gusthlaup hafi eytt Litla-Héraði) eða hvort íbúarnir hafi haft ráðrúm til að taka saman föggur sínar og koma sér í burtu skal ekki dæmt um hér. Það skiptir heldur ekki höfuðmáli frá sjónarmiði fornleifafræðinnar: víst er að fjölmargir bæir lögðust endanlega í eyði í þessu gosi og að fornleifauppgröftur á svæðinu hefur stórbætt skilning okkar á íslensku miðaldasamfélagi. Fleiri bæjarstæði geta átt eftir að koma í ljós og er óhætt að fullyrða að ef einhver staður á Íslandi líkist Pompeii þá er það Öræfasveit.

Heimildir og mynd:

  • Sigurður Þórarinsson, ‘Hérað milli sanda og eyðing þess.’ Andvari 82 (1957), bls. 35-47.
  • Sigurður Þórarinsson, The Öræfajökull Eruption of 1362, (Acta Naturalia Islandica II, 2), Reykjavík: Náttúrugripsasafn Íslands 1958.
  • Gísli Gestsson, 'Gröf í Öræfum.' Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1959, bls. 5 87.
  • Bjarni F. Einarsson, ‘Inn í eilífiðina á augnabliki – Bær í Öræfum.’ Glettingur 15,2-3, (2005) bls. 25-34.
  • Mynd: Fornleifafræðistofan.

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Er mögulegt að finna leifar Litla-Héraðs eins og leifar Pompei?

Höfundur

Orri Vésteinsson

prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

14.6.2010

Spyrjandi

Halldór Runólfsson

Tilvísun

Orri Vésteinsson. „Líkist Öræfasveit Pompeii á Ítalíu?“ Vísindavefurinn, 14. júní 2010. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=56104.

Orri Vésteinsson. (2010, 14. júní). Líkist Öræfasveit Pompeii á Ítalíu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=56104

Orri Vésteinsson. „Líkist Öræfasveit Pompeii á Ítalíu?“ Vísindavefurinn. 14. jún. 2010. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=56104>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Líkist Öræfasveit Pompeii á Ítalíu?
Litlahérað er nafn sem utanhéraðsmenn gáfu sveitinni sem nú kallast Öræfi, milli Skeiðarársands og Breiðamerkursands. Það gerðu þeir til að aðgreina hana frá Fljótsdalshéraði, en í munni heimamanna hét hún einfaldlega Hérað. Annað og enn eldra nafn á þessari sveit er Ingólfshöfðahverfi.

Í byrjun 14. aldar voru að minnsta kosti 30 bæir í Héraði og fjórar kirkjusóknir. Með bænhúsum og útkirkjum er vitað um 17 guðshús þar og er það heldur hærra hlutfall en í öðrum sveitum á sama tíma. Það gæti bent til að bæirnir hafi verið heldur fleiri, 40 bæir á móti 17 guðshúsum væri venjulegra hlutfall, eða að velmegun (eða guðhræðsla?) hafi verið meiri þar en annars staðar.

Ekki er annað að sjá en að þessi byggð hafi verið blómleg en á því varð breyting árið 1362. Þá gaus í Öræfajökli og eru samtímaheimildir sammála um að öll byggð í sveitinni hafi lagst af vegna þess. Getið er um mikil jökulhlaup sem hafi meðal annars tekið af öll hús á höfuðbólinu Rauðalæk þannig að ekkert stóð eftir nema kirkjan.



Frá uppgreftri á Bæ í Öræfum.

Þó þetta hafi eflaust verið mikið hamfarahlaup er óvíst hvort það hafi í raun og veru sópað burt öllum þeim bæjum sem lögðust í eyði á þessum tíma. Ljóst er að gjóskufall í sveitinni var gríðarlegt og er gjóskan þar 20-40 cm þykk. Það eitt hefur nægt til að óbyggilegt varð í sveitinni um hríð og hún hlaut það nafn sem hún gengur undir síðan, Öræfi. Nokkur býli byggðust þó aftur og var á seinni öldum búið á átta bæjum í Öræfasveit. Einhverjir bæir fóru líka í eyði af öðrum orsökum – til dæmis var búið á kirkjustaðnum Breiðá fram um 1700 en bæjarstæðið hvarf síðar undir jökul. Engu að síður lítur út fyrir að meir en 2/3 allra bæja í Héraði hafi lagst endanlega í eyði vegna gossins 1362.

Tveir af þessum bæjum hafa verið grafnir upp, Gröf skammt norðan við Hof og Bær við Salthöfða. Uppgröftur sýnir að bæirnir hafa lagst í eyði við gosið og voru tóftir þeirra fullar af vikri. Hvort að það hafi gerst í gusthlaupi eins og í Pompeii þannig að allt líf hafi eyðst í einni andrá (sjá Morgunblaðið 15. júní, 2005, Líklegt að gusthlaup hafi eytt Litla-Héraði) eða hvort íbúarnir hafi haft ráðrúm til að taka saman föggur sínar og koma sér í burtu skal ekki dæmt um hér. Það skiptir heldur ekki höfuðmáli frá sjónarmiði fornleifafræðinnar: víst er að fjölmargir bæir lögðust endanlega í eyði í þessu gosi og að fornleifauppgröftur á svæðinu hefur stórbætt skilning okkar á íslensku miðaldasamfélagi. Fleiri bæjarstæði geta átt eftir að koma í ljós og er óhætt að fullyrða að ef einhver staður á Íslandi líkist Pompeii þá er það Öræfasveit.

Heimildir og mynd:

  • Sigurður Þórarinsson, ‘Hérað milli sanda og eyðing þess.’ Andvari 82 (1957), bls. 35-47.
  • Sigurður Þórarinsson, The Öræfajökull Eruption of 1362, (Acta Naturalia Islandica II, 2), Reykjavík: Náttúrugripsasafn Íslands 1958.
  • Gísli Gestsson, 'Gröf í Öræfum.' Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1959, bls. 5 87.
  • Bjarni F. Einarsson, ‘Inn í eilífiðina á augnabliki – Bær í Öræfum.’ Glettingur 15,2-3, (2005) bls. 25-34.
  • Mynd: Fornleifafræðistofan.

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Er mögulegt að finna leifar Litla-Héraðs eins og leifar Pompei?

...