Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Orrar (Tetrao tetrix, e. black grouse) eru hænsnfuglar (Galliformes) af orraætt (Tetraonidae) líkt og rjúpan, en dæmi um aðra hænsnfugla eru nytjahænur, fasanar og kalkúnar.
Karlfuglinn er kallaður karri og hann er 49-55 cm að lengd, með svartan fjaðurham fyrir utan rauðleitar augabrúnir, hvítar rendur á vængjum og hvítar undirstélfjaðrir. Kvenfuglinn er minni, 40-45 cm á lengd, og grábrúnn að lit.
Útbreiðslusvæði orrans nær óslitið frá Skandinavíu og norðanverðum Bretlandseyjum austur yfir Rússland og Síberíu að Kyrrahafi. Suðurmörkin í Evrópu eru Alparnir og Karpatafjöllin. Kjörsvæði hans eru heiðar, mólendi og raskað skóglendi, en hann er fátíðari í þéttum og dimmum óröskuðum skógum. Orrinn er fyrst og fremst láglendisfugl en finnst þó allt upp í 3.000 m hæð í fjalllendi Evrópu.
Útbreiðslusvæði orrans
(Tetrao tetrix) í Evrópu.
Í vestanverðri Evrópu halda orrar nokkurn veginn til á svipuðum slóðum allan ársins hring þó þeir fari kannski eitthvað um í fæðuleit. Í Rússlandi sýna þeir hins vegar fartilhneigingu þar sem harður veturinn neyðir þá til að leita að fæðu út fyrir barrskógana. Þeir fara þá gjarnan í hópum, 200-500 fuglar saman. Lengst fara orrar af deilitegundinni Tetrao tetrix ussuriensis sem fljúga 300 km sunnar í landið til að komast á vetrarstöðvar sínar.
Orrar hefja tilhugalífið þegar kemur fram í mars og er það nokkurt sjónarspil. Þá safnast karrarnir saman á ákveðið svæði, nokkurs konar leiksvæði, til að sýna sig og berjast um hylli kvenfuglanna. Yfirleitt eru það gömlu og reyndu orrarnir sem eru ýtnastir og næla sér í bestu staðina, en ungu karrarnir verða að láta sér nægja jaðarsvæðin og eiga því minni möguleika á að ná sér í hænu.
Karrarnir sperra stél sín þannig að hvítar undirstélfjaðrirnar verða áberandi í morgunskímunni og dansa sérstakan hringdans með kurrandi og vellandi hljóði. Þessu fylgir mjög sérstakt blásturshljóð, stuttir sprettir og hopp og tilfallandi átök við nágrannana. Átökin geta verið harkaleg en eru sjaldnast banvæn.
Kvenfuglum fjölgar svo smám saman á staðnum. Þær halda sig fyrst til hlés en þoka sér svo nær og leggjast loks undir einhvern áberandi karra, sem þar með hefur náð takmarki sínu. Gæðum heimsins er ekki jafnskipt hjá orrum frekar en öðrum því einn orri getur frjóvgað margar hænur á meðan aðrir komast ekki að. Til marks um það sýndi rannsókn sem gerð var í Skotlandi fyrir 30 árum, að af átta körrum sem börðust um hylli 29 hæna fékk einn haninn 26 hænur, einn fékk tvær hænur, sá þriðji eina en hinir fimm hanarnir fengu ekki neitt.
Orrakarri.
Þegar mökun er yfirstaðin hverfur hænan af leikvellinum og fer að huga að hreiðurgerðinni, en hún sér ein um eggin og útungunina. Hreiðrið er jarðlægt, lítið og gjarnan vel falið í dæld í kjarri. Eggin eru 7-8 og gulbrún eða dröfnótt að lit. Útungunin tekur 24-28 daga og yfirgefa ungarnir hreiðrið strax og þeir skríða úr eggi. Þeir eru því óvenju þroskaðir eftir klak, og eru orðnir fleygir tveimur vikum síðar og 3-4 vikna gamlir geta þeir algjörlega séð um sig sjálfir.
Framan af er helsta fæða unganna skordýr, sniglar og aðrir landhryggleysingjar, en þegar frá líður taka þeir upp mataræði fullorðnu fuglanna sem samanstendur af brumhnöppum birkis, berjum og ýmsu fleiru úr jurtaríkinu. Fullorðnir fuglar og ungar halda hópinn til hausts en þegar vetur gengur í garð tvístrast hópurinn.
Sennilega er heildarstofnstærð orra í Evrópu milli 600 og 900 þúsund pör í Evrópu, en höfundur hefur ekki upplýsingar um stofnstærð þeirra í Rússlandi og Asíu. Orrinn hefur átt nokkuð undir högg að sækja og hefur víða hrakist í burtu vegna akuryrkju mannsins. Hann hvarf til dæmis af heiðum Jótlands í Danmörku upp úr miðri 19. öld þegar svæðið var rutt og brotið til ræktunar. Orranum hefur líka fækkað mjög á Bretlandseyjum undanfarna öld og er það aðallega vegna eyðingar búsvæða hans. Fuglafræðingar hafa talið karra á nokkrum svæðum og er niðurstaðan sú að á aðeins 10 ára tímabili, milli 1995 og 2005, fækkaði þeim um rúmlega 20% um allt Bretland, og í dag er stofnstærðin talin vera um 10 þúsund pör.
Þar sem í spurningunni er talað um mannsafnið Orra má geta þess að lokum að samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar báru 778 einstaklingar þetta nafn þann 31. desember 2004. Af þeim var Orri 1. eiginnafn hjá 180 og 598 báru það sem 2. eiginnafn.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Jón Már Halldórsson. „Mannsnafnið Orri er sagt fuglsheiti. Hvernig fugl er orrinn?“ Vísindavefurinn, 6. febrúar 2006, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5622.
Jón Már Halldórsson. (2006, 6. febrúar). Mannsnafnið Orri er sagt fuglsheiti. Hvernig fugl er orrinn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5622
Jón Már Halldórsson. „Mannsnafnið Orri er sagt fuglsheiti. Hvernig fugl er orrinn?“ Vísindavefurinn. 6. feb. 2006. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5622>.