Hver er refsirammi afbrota gegn börnum hér á landi? Hvað eru afbrotamenn oftast dæmdir til að sitja lengi inni?Það á við um flest refsiákvæði að þau gilda jafnt gagnvart öllum, því er refsirammi afbrota gegn börnum langoftast hinn sami og refsirammi brota gegn fullorðnum. Ef almenn hegningarlög eru skoðuð er í fæstum greinanna talað sérstaklega um börn og gildir því refsirammi hverrar greinar óháð því hve gamall sá er sem brotið beinist að. Hér er því sennilega átt við kynferðisbrot gegn börnum enda þar um að ræða brotaflokk sem er mikið í umræðunni. 22. kafli hegningarlaganna fjallar um kynferðisbrot, meðal annars gegn börnum. Refsiramminn vegna slíkra brota er allt að tólf árum, eftir grófleika brots og aldri barns. Ef um nauðgun er að ræða er refsiramminn svo frá einu ári upp í sextán ár. Nauðgun er hins vegar frekar þröngt hugtak lagalega og þeir sem ákærðir eru fyrir að misnota börn kynferðislega eru sjaldnast ákærðir fyrir nauðgun sem slíka. Nú er til meðferðar hjá Alþingi frumvarp sem á að breyta ákvæðum um kynferðisbrot gegn börnum og verður fróðlegt að sjá hvernig refsiramminn breytist verði það samþykkt. Hvað lengd fangavistar varðar þá hafa dómarar heimild samkvæmt almennum hegningarlögum til að dæma menn í ævilangt fangelsi eða tímabundið fangelsi. Tímalengdin er þá frá 30 dögum upp í sextán ár. Í einstökum lagagreinum er svo oft að finna nánari ákvæði um refsiramma. Þá þurfa dómarar einnig að hafa í huga fordæmi og dómvenjur við ákvörðun refsinga. Jafnframt er nauðsynlegt að skoða hvert tilvik vel, oft geta sérstök atvik eða aðstæður verið hinum ákærða til málsbóta. Þannig fer því fjarri að ákvörðun refsingar sé einhver færibandavinna heldur koma fjöldamörg atriði við sögu. Á heimasíðu fangelsismálastofnunar, www.fangelsi.is er að finna ýmsar tölulegar upplýsingar sem varða afplánun refsinga. Þar má sjá að á hverjum tíma eru í kringum hundrað manns í fangavist hérlendis. Meirihluti fanga er í afplánun vegna auðgunar- eða fíkniefnabrota. Hvað lengd fangelsisrefsingar varðar voru flestir, eða um 40% allra sem dæmdir voru til fangavistar, dæmdir í eins til þriggja mánaða fangelsi. Lausleg skoðun undirritaðrar bendir svo til þess að algengt sé að þeir sem eru fundnir sekir um kynferðisbrot gegn börnum séu dæmdir í eins til þriggja ára fangavist. Heimildir: Heimasíða fangelsismálastofnunar ríkisins, tölurnar sem notast er við hér að ofan eru meðaltölur áranna 1999-2003.
Hver er refsirammi afbrota gegn börnum hér á landi?
Útgáfudagur
8.3.2006
Spyrjandi
Oddný Kristbjörnsdóttir
Tilvísun
Hildigunnur Hafsteinsdóttir. „Hver er refsirammi afbrota gegn börnum hér á landi?“ Vísindavefurinn, 8. mars 2006, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5693.
Hildigunnur Hafsteinsdóttir. (2006, 8. mars). Hver er refsirammi afbrota gegn börnum hér á landi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5693
Hildigunnur Hafsteinsdóttir. „Hver er refsirammi afbrota gegn börnum hér á landi?“ Vísindavefurinn. 8. mar. 2006. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5693>.