Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hvaða hlutverki gegnir nálin á gömlum vínylplötuspilurum?

Bjarni Gíslason

Framan af 20. öld var algengast að varðveita hljóðupptökur á vínylplötum. Afspilunartækni þeirra byggir á því að plötuspilari snýr hljómplötu með jöfnum hraða á meðan nál hans strýkst við rákir sem liggja í spírallaga ferli umhverfis miðju plötunnar. Við þetta tekur nálin að titra, titringurinn umbreytist í rafmerki sem svo aftur er leitt frá nálinni í gegnum magnara og loks til hátalara.

Spaugilegar athugasemdir skráðar á vínylinn

Við ystu brún vínylplatna er um 6 mm breiður flötur þar sem breitt er á milli ráka og engin hljóðmerki eru skráð. Þar er nálin látin hefja ferð sína um plötuna til þess að minnka hættu á að nálinni sé sleppt ógætilega á rákir sem bera hljóðmerki og valdi þannig skemmdum. Þegar hljóðupptakan er fullspiluð við innri brún plötunnar tekur við annað bil þar sem rákir verða dreifðari og enda í hring. Sjálfvirkir plötuspilarar stóla á þetta einkenni plötunnar og draga nálararminn upp þegar að því kemur. Á þessu svæði er algengt að hljómplötuframleiðendur skrái spaugilegar athugasemdir á vínylinn, sem lesa má undir sterku ljósi.

Framan af 20. öld var algengast að varðveita hljóðupptökur á vínylplötum. Hér sést 10 tommu hljómplata.

Einóma og víðóma hljómplötur

Í upphafi voru rákir hljómplatna einfaldar brautir í láréttu plani sem nálin titraði í. Þannig myndaðist ein hljóðrás (einóma, e. monophonic). Til að ná fram tveimur hljóðrásum (víðóma, e. stereophonic) þurfti að gera endurbætur á nálum spilara og rákum hljómplatna. Tvær rafrásir, ein fyrir hvora hljóðrás, voru nú tengdar nálinni í stað einnar áður. Rákirnar voru líka gæddar þeim eiginleikum að hreyfing í lóðrétta stefnu hafði einnig áhrif á úttakið. Þannig hafði hreyfing nálar til vinstri og niður áhrif á hægri hljóðrás en til hægri og niður áhrif á vinstri hljóðrás.

Myndrænar útskýringar á þessu má sjá hér.

Snúningshraði

Nú eru framleiddar hljómplötur með 33 1/3 snúningum á mínútu og 45 snúningum á mínútu. Lengi framan af voru 78 snúninga plötur algengar en það heyrir til undantekninga að nútímaplötuspilarar bjóði upp á þann snúningshraða.

Útlit vínylplatna

Algengasta þvermál hljómplötu er í kringum 300 mm (12 tommur), en einnig er nokkuð algengt að styttri hljóðupptökur séu gefnar út á 250 mm (10 tommu) eða 175 mm (7 tommu) plötum. Plata í fullri lengd (breiðskífa, e. long play, LP) er yfirleitt 300 mm í þvermál og spilast á 33 1/3 snúningum á mínútu. Með því móti má koma allt að 30 mínútum af efni á hvora hlið plötunnar.

Vani er að lita vínylplötur svartar, en viðhafnarútgáfur einstakra platna eða takmörkuð upplög eru oft höfð í öðrum litum og eru þær plötur oft eftirsóttar meðal safnara.

Vínylplata í fullri lengd er yfirleitt 12 tommur í þvermál og spilast á 33 1/3 snúningum á mínútu

Ókostir vínylplatna

Ókostir vínylplatna eru þó nokkrir. Smærri rispur og ryk valda smellum og snarki við afspilun. Verði rispa milli ráka er hætt við að nálin flakki á milli þeirra þannig að hökt komi í hljóðupptökuna. Fylgifiskur þess að rákir plötu eru styttri eftir því sem innar er farið á plötuna er að hraði nálar miðað við rákir verður sífellt minni. Þetta veldur því að hljómur plötunnar getur breyst lítið eitt eftir því sem innar dregur. Vínylplötur geta einnig skekkst, til dæmis vegna hita eða framleiðslugalla. Þegar skekktar plötur eru spilaðar geta tónar upptökunnar afbakast þar sem hraðinn á yfirferð nálarinnar verður annar en gert var ráð fyrir við hönnun ráka hljómplötunnar. Svipuð áhrif geta orðið ef gatið í miðju hljómplötunnar er ekki rétt staðsett.

Stækkuð mynd af yfirborði vínilplötu. Rákirnar sjást vel og einnig ryk sem getur valdið smellum og snarki við afspilun.

Gæðum hrakar við spilun

Við spilun hrakar gæðum hljómplötu einnig óumflýjanlega. Sé of þung eða ósveigjanleg nál notuð getur platan orðið fyrir skemmdum á stuttum tíma og eiga hærri tíðnir það til að detta út fyrst. Það getur haft varðveislugildi að spila sömu plötuna ekki oft í röð því við spilun hitnar vínyllinn og verður auðmótanlegri og hætta á varanlegum skemmdum eykst.

Myndir:

Höfundur

verkfræðingur

Útgáfudagur

10.3.2006

Spyrjandi

Elísa Elíasdóttir

Tilvísun

Bjarni Gíslason. „Hvaða hlutverki gegnir nálin á gömlum vínylplötuspilurum?“ Vísindavefurinn, 10. mars 2006. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5701.

Bjarni Gíslason. (2006, 10. mars). Hvaða hlutverki gegnir nálin á gömlum vínylplötuspilurum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5701

Bjarni Gíslason. „Hvaða hlutverki gegnir nálin á gömlum vínylplötuspilurum?“ Vísindavefurinn. 10. mar. 2006. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5701>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða hlutverki gegnir nálin á gömlum vínylplötuspilurum?
Framan af 20. öld var algengast að varðveita hljóðupptökur á vínylplötum. Afspilunartækni þeirra byggir á því að plötuspilari snýr hljómplötu með jöfnum hraða á meðan nál hans strýkst við rákir sem liggja í spírallaga ferli umhverfis miðju plötunnar. Við þetta tekur nálin að titra, titringurinn umbreytist í rafmerki sem svo aftur er leitt frá nálinni í gegnum magnara og loks til hátalara.

Spaugilegar athugasemdir skráðar á vínylinn

Við ystu brún vínylplatna er um 6 mm breiður flötur þar sem breitt er á milli ráka og engin hljóðmerki eru skráð. Þar er nálin látin hefja ferð sína um plötuna til þess að minnka hættu á að nálinni sé sleppt ógætilega á rákir sem bera hljóðmerki og valdi þannig skemmdum. Þegar hljóðupptakan er fullspiluð við innri brún plötunnar tekur við annað bil þar sem rákir verða dreifðari og enda í hring. Sjálfvirkir plötuspilarar stóla á þetta einkenni plötunnar og draga nálararminn upp þegar að því kemur. Á þessu svæði er algengt að hljómplötuframleiðendur skrái spaugilegar athugasemdir á vínylinn, sem lesa má undir sterku ljósi.

Framan af 20. öld var algengast að varðveita hljóðupptökur á vínylplötum. Hér sést 10 tommu hljómplata.

Einóma og víðóma hljómplötur

Í upphafi voru rákir hljómplatna einfaldar brautir í láréttu plani sem nálin titraði í. Þannig myndaðist ein hljóðrás (einóma, e. monophonic). Til að ná fram tveimur hljóðrásum (víðóma, e. stereophonic) þurfti að gera endurbætur á nálum spilara og rákum hljómplatna. Tvær rafrásir, ein fyrir hvora hljóðrás, voru nú tengdar nálinni í stað einnar áður. Rákirnar voru líka gæddar þeim eiginleikum að hreyfing í lóðrétta stefnu hafði einnig áhrif á úttakið. Þannig hafði hreyfing nálar til vinstri og niður áhrif á hægri hljóðrás en til hægri og niður áhrif á vinstri hljóðrás.

Myndrænar útskýringar á þessu má sjá hér.

Snúningshraði

Nú eru framleiddar hljómplötur með 33 1/3 snúningum á mínútu og 45 snúningum á mínútu. Lengi framan af voru 78 snúninga plötur algengar en það heyrir til undantekninga að nútímaplötuspilarar bjóði upp á þann snúningshraða.

Útlit vínylplatna

Algengasta þvermál hljómplötu er í kringum 300 mm (12 tommur), en einnig er nokkuð algengt að styttri hljóðupptökur séu gefnar út á 250 mm (10 tommu) eða 175 mm (7 tommu) plötum. Plata í fullri lengd (breiðskífa, e. long play, LP) er yfirleitt 300 mm í þvermál og spilast á 33 1/3 snúningum á mínútu. Með því móti má koma allt að 30 mínútum af efni á hvora hlið plötunnar.

Vani er að lita vínylplötur svartar, en viðhafnarútgáfur einstakra platna eða takmörkuð upplög eru oft höfð í öðrum litum og eru þær plötur oft eftirsóttar meðal safnara.

Vínylplata í fullri lengd er yfirleitt 12 tommur í þvermál og spilast á 33 1/3 snúningum á mínútu

Ókostir vínylplatna

Ókostir vínylplatna eru þó nokkrir. Smærri rispur og ryk valda smellum og snarki við afspilun. Verði rispa milli ráka er hætt við að nálin flakki á milli þeirra þannig að hökt komi í hljóðupptökuna. Fylgifiskur þess að rákir plötu eru styttri eftir því sem innar er farið á plötuna er að hraði nálar miðað við rákir verður sífellt minni. Þetta veldur því að hljómur plötunnar getur breyst lítið eitt eftir því sem innar dregur. Vínylplötur geta einnig skekkst, til dæmis vegna hita eða framleiðslugalla. Þegar skekktar plötur eru spilaðar geta tónar upptökunnar afbakast þar sem hraðinn á yfirferð nálarinnar verður annar en gert var ráð fyrir við hönnun ráka hljómplötunnar. Svipuð áhrif geta orðið ef gatið í miðju hljómplötunnar er ekki rétt staðsett.

Stækkuð mynd af yfirborði vínilplötu. Rákirnar sjást vel og einnig ryk sem getur valdið smellum og snarki við afspilun.

Gæðum hrakar við spilun

Við spilun hrakar gæðum hljómplötu einnig óumflýjanlega. Sé of þung eða ósveigjanleg nál notuð getur platan orðið fyrir skemmdum á stuttum tíma og eiga hærri tíðnir það til að detta út fyrst. Það getur haft varðveislugildi að spila sömu plötuna ekki oft í röð því við spilun hitnar vínyllinn og verður auðmótanlegri og hætta á varanlegum skemmdum eykst.

Myndir:

...