Sólin Sólin Rís 08:23 • sest 18:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:16 • Síðdegis: 25:08 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:12 • Síðdegis: 18:26 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um makríl?

Jón Már Halldórsson

Makríll (Scomber scombrus) getur orðið allt að 60 cm á lengd en algengast er að hann sé á bilinu 35-45 cm. Makríllinn ber þess merki að vera mikill sundfiskur, hann er rennilegur í vexti, gildastur um miðjuna og mjókkar til sporðs og kjafts. Hann er oftast grænn eða blár á baki með 30-35 dökkum hlykkjóttum rákum eftir endilöngu baki. Kviðurinn er hvítur og perlugljáandi.

Makríllinn finnst í Miðjarðarhafi, Svartahafi og í Norður-Atlantshafi frá Madeira og Azoreyjum norður að Noregsströndum. Undanfarin ár hefur hann í vaxandi mæli gengið inn í íslensku efnahagslögsöguna samfara auknum hlýindum í hafinu umhverfis landið. Sumarið 2010 var talið að meira en milljón tonn hafi gengið inn í lögsöguna.Makríll (Scomber scombrus). Talið er að sumarið 2010 hafi meira en milljón tonn af makríl gengið inn í íslenska fiskveiðilögsögu.

Áður en þessar miklu göngur hófust á Íslandsmið var makríllinn aðeins flækingur hér á landi. Fyrst varð vart við hann í torfum árið 1904 fyrir Norðurlandi og svo reglulega á fyrri hluta síðustu aldar, meðal annars við Keflavík 1934 og í Skerjafirði 1938. Einnig var allmikið um hann undan suðvesturlandi sumarið 1987 og við Suðurland 1991.

Makríllinn er uppsjávarfiskur líkt og síld og loðna. Á veturna heldur hann sig djúpt á hafi úti en þegar vora tekur safnast hann saman í miklar torfur og færir sig nær landi til hrygningar og fæðuöflunar.

Fæða makrílsins er breytileg eftir aldri og stærð hans. Ungfiskurinn étur fiskilirfur og krabbasvif svo sem ljósátu. Fullorðinn fiskur étur einnig krabbaflær svo sem ljósátu og rauðátu en einnig aðra hryggleysingja sem finnast í uppsjónum eins og pílorma. Fullorðinn makríll er einnig mikil fiskiæta, hann étur sandsíli, síld, brisling og sardínu.

Á Norður-Atlantshafi hrygnir makríllinn frá maí og fram í júlí. Eggin eru um 1-1,38 mm í þvermál og svífa um á 7-9 metra dýpi frá yfirborði. Sviflægar lirfurnar klekjast út eftir 4-7 daga og eru þá 3,5-3,9 mm á lengd. Að hrygningu lokinni byrja ætisgöngur og þá hafa á síðastliðnum árum komið miklar göngur inn í lögsögu Íslands.

Fyrir utan manninn eru fjölmargar tegundir dýra sem éta makríl, þeirra á meðal eru ýmsar tegundir háfiska, svo sem hámeri, og túnfiskur. Einnig er nokkuð um að fuglar éti makríl.

Makríll er mikið veiddur þar sem hann er að finna. Mestu veiðisvæðin eru í Norðursjó og hafa helstu veiðiþjóðirnar verið Norðmenn, Rússar og Evrópusambandsríki. Aflinn hefur verið frá 600 þúsund og upp í milljón tonn. Veiðar Íslendinga hafa verið að aukast á síðastliðnum árum og voru í fyrra tæplega 120 þúsund tonn.

Mynd: Seafood from Norway. Sótt 11. 10. 2010.

Í heild hljóðaði spurningin svona:
Hvað getið þið sagt mér um líffræði makrílsins? Nú er makríllinn að verða áberandi í íslensku vistkerfi. Mig langar að vita hvers konar fiskur þetta er.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

13.10.2010

Spyrjandi

Guðmundur Kristmundsson

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um makríl?“ Vísindavefurinn, 13. október 2010. Sótt 4. mars 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=57175.

Jón Már Halldórsson. (2010, 13. október). Hvað getið þið sagt mér um makríl? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=57175

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um makríl?“ Vísindavefurinn. 13. okt. 2010. Vefsíða. 4. mar. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=57175>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um makríl?
Makríll (Scomber scombrus) getur orðið allt að 60 cm á lengd en algengast er að hann sé á bilinu 35-45 cm. Makríllinn ber þess merki að vera mikill sundfiskur, hann er rennilegur í vexti, gildastur um miðjuna og mjókkar til sporðs og kjafts. Hann er oftast grænn eða blár á baki með 30-35 dökkum hlykkjóttum rákum eftir endilöngu baki. Kviðurinn er hvítur og perlugljáandi.

Makríllinn finnst í Miðjarðarhafi, Svartahafi og í Norður-Atlantshafi frá Madeira og Azoreyjum norður að Noregsströndum. Undanfarin ár hefur hann í vaxandi mæli gengið inn í íslensku efnahagslögsöguna samfara auknum hlýindum í hafinu umhverfis landið. Sumarið 2010 var talið að meira en milljón tonn hafi gengið inn í lögsöguna.Makríll (Scomber scombrus). Talið er að sumarið 2010 hafi meira en milljón tonn af makríl gengið inn í íslenska fiskveiðilögsögu.

Áður en þessar miklu göngur hófust á Íslandsmið var makríllinn aðeins flækingur hér á landi. Fyrst varð vart við hann í torfum árið 1904 fyrir Norðurlandi og svo reglulega á fyrri hluta síðustu aldar, meðal annars við Keflavík 1934 og í Skerjafirði 1938. Einnig var allmikið um hann undan suðvesturlandi sumarið 1987 og við Suðurland 1991.

Makríllinn er uppsjávarfiskur líkt og síld og loðna. Á veturna heldur hann sig djúpt á hafi úti en þegar vora tekur safnast hann saman í miklar torfur og færir sig nær landi til hrygningar og fæðuöflunar.

Fæða makrílsins er breytileg eftir aldri og stærð hans. Ungfiskurinn étur fiskilirfur og krabbasvif svo sem ljósátu. Fullorðinn fiskur étur einnig krabbaflær svo sem ljósátu og rauðátu en einnig aðra hryggleysingja sem finnast í uppsjónum eins og pílorma. Fullorðinn makríll er einnig mikil fiskiæta, hann étur sandsíli, síld, brisling og sardínu.

Á Norður-Atlantshafi hrygnir makríllinn frá maí og fram í júlí. Eggin eru um 1-1,38 mm í þvermál og svífa um á 7-9 metra dýpi frá yfirborði. Sviflægar lirfurnar klekjast út eftir 4-7 daga og eru þá 3,5-3,9 mm á lengd. Að hrygningu lokinni byrja ætisgöngur og þá hafa á síðastliðnum árum komið miklar göngur inn í lögsögu Íslands.

Fyrir utan manninn eru fjölmargar tegundir dýra sem éta makríl, þeirra á meðal eru ýmsar tegundir háfiska, svo sem hámeri, og túnfiskur. Einnig er nokkuð um að fuglar éti makríl.

Makríll er mikið veiddur þar sem hann er að finna. Mestu veiðisvæðin eru í Norðursjó og hafa helstu veiðiþjóðirnar verið Norðmenn, Rússar og Evrópusambandsríki. Aflinn hefur verið frá 600 þúsund og upp í milljón tonn. Veiðar Íslendinga hafa verið að aukast á síðastliðnum árum og voru í fyrra tæplega 120 þúsund tonn.

Mynd: Seafood from Norway. Sótt 11. 10. 2010.

Í heild hljóðaði spurningin svona:
Hvað getið þið sagt mér um líffræði makrílsins? Nú er makríllinn að verða áberandi í íslensku vistkerfi. Mig langar að vita hvers konar fiskur þetta er.
...