Sólin Sólin Rís 08:22 • sest 18:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:46 • Sest 06:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:12 • Síðdegis: 17:29 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:25 • Síðdegis: 23:46 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:22 • sest 18:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:46 • Sest 06:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:12 • Síðdegis: 17:29 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:25 • Síðdegis: 23:46 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er munurinn á plöntusvifi og dýrasvifi?

Jón Már Halldórsson

Plöntu- og dýrasvif eru smáar lífverur sem svífa um ofarlega í vatnsmassanum. Það sem greinir þær að er að plöntusvif flokkast til plantna sem stunda ljóstillífun en dýrasvif telst til dýra sem þurfa orku frá öðrum dýrum eða plöntum. Plöntusvif er frumframleiðandi líkt og landplöntur en dýrasvif eru ófrumbjarga lífverur.

Svif (e. plankton) ferðast ekki úr stað af eigin rammleik heldur vegna krafta vatnsins. Að vísu ferðast stærri dýrasvif, svo sem sviflægar krabbaflær, um vatnsmassann af eigin rammleik að einhverju leyti.

Rauðáta (Copepod) er sviflægt krabbadýr og telst til dýrasvifs.

Svifi er gróflega skipt upp í þrjá meginflokka:
  • Dýrasvif (e. zooplankton) flokkast í einfruma heilkjarnalífverur, svo sem frumdýr (Protista), og fjölfruma dýr en í þeim flokki eru meðal annars krabbadýr (Crustacea), liðormar (Annelida) og egg og lirfur stærri dýra sem fljóta um í efstu lögum sjávar, svo sem fiska, krabbadýra og lindýra.
  • Plöntusvif (e. phytoplankton) en til þess teljast sviflægir þörungar sem stunda ljóstillífun þar sem sólarljóss nýtur við. Plöntusvifið er grunnurinn að hinu mikilvæga vistkerfi í uppsjónum.
  • Gerlasvif (e. bacterioplankton). Billjónir dreifkjarna einfrumunga fljóta um í efstu lögum sjávar. Þeir eru bæði af meiði gerla og forngerla og eru mikilvæg fæða fyrir hin smæstu dýr.

Magn svifs er mismikið og útbreiðsla þess er mjög mismunandi eftir árstíma og hafsvæðum. Svæði sem eru rík af dýrasvifi eru oft blöndunarsvæði eða straumamót í hafinu. Á slíkum svæðum er framleiðni þörunga yfirleitt geysimikil og því eru góð fæðuskilyrði fyrir dýrasvif, svo sem átu, það er sviflæg krabbadýr eins og rauðátu (Copepod) og ljósátu (Euphausiidae). Í slíka flokka sviflægra krabbadýra sem geta talið hundruði milljarða einstaklinga, sækja síðan hryggdýr eins og fiskar og hvalir sem lifa á krabbadýrunum. Stærstu hvalir jarðar, reyðarhvalir (Balaenopteridae), lifa að miklu leyti á slíkum krabbadýrum.

Ljósáta af tegundinni Meganyctiphanes norvegica.

Ljóstillífun og frumframleiðni í hafinu nær hámarki snemma sumars og oft gerist það um leið og aukið ferskvatnsrennsli verður til sjávar. Með minnkandi sólargeislum yfir háveturinn nær áðurnefnd framleiðsla lágmarki en auk þess dregur úr lóðréttri lagskiptingu sjávar. Mestur er vöxtur plöntusvifs þegar tiltölulega hlýr sjór er við landið en minnstur þegar áhrif pólsjávar eru yfirgnæfandi.

Þess má geta að meginfæða steypireyðar (Balaenoptera musculus) í Norður-Atlantshafi eru ljósátur af tegundunum Thysanoëssa inermis og Meganyctiphanes norvegica.

Myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

10.12.2010

Spyrjandi

Hafdís María Pétursdóttir, f. 1996

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hver er munurinn á plöntusvifi og dýrasvifi?“ Vísindavefurinn, 10. desember 2010, sótt 16. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=57665.

Jón Már Halldórsson. (2010, 10. desember). Hver er munurinn á plöntusvifi og dýrasvifi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=57665

Jón Már Halldórsson. „Hver er munurinn á plöntusvifi og dýrasvifi?“ Vísindavefurinn. 10. des. 2010. Vefsíða. 16. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=57665>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á plöntusvifi og dýrasvifi?
Plöntu- og dýrasvif eru smáar lífverur sem svífa um ofarlega í vatnsmassanum. Það sem greinir þær að er að plöntusvif flokkast til plantna sem stunda ljóstillífun en dýrasvif telst til dýra sem þurfa orku frá öðrum dýrum eða plöntum. Plöntusvif er frumframleiðandi líkt og landplöntur en dýrasvif eru ófrumbjarga lífverur.

Svif (e. plankton) ferðast ekki úr stað af eigin rammleik heldur vegna krafta vatnsins. Að vísu ferðast stærri dýrasvif, svo sem sviflægar krabbaflær, um vatnsmassann af eigin rammleik að einhverju leyti.

Rauðáta (Copepod) er sviflægt krabbadýr og telst til dýrasvifs.

Svifi er gróflega skipt upp í þrjá meginflokka:
  • Dýrasvif (e. zooplankton) flokkast í einfruma heilkjarnalífverur, svo sem frumdýr (Protista), og fjölfruma dýr en í þeim flokki eru meðal annars krabbadýr (Crustacea), liðormar (Annelida) og egg og lirfur stærri dýra sem fljóta um í efstu lögum sjávar, svo sem fiska, krabbadýra og lindýra.
  • Plöntusvif (e. phytoplankton) en til þess teljast sviflægir þörungar sem stunda ljóstillífun þar sem sólarljóss nýtur við. Plöntusvifið er grunnurinn að hinu mikilvæga vistkerfi í uppsjónum.
  • Gerlasvif (e. bacterioplankton). Billjónir dreifkjarna einfrumunga fljóta um í efstu lögum sjávar. Þeir eru bæði af meiði gerla og forngerla og eru mikilvæg fæða fyrir hin smæstu dýr.

Magn svifs er mismikið og útbreiðsla þess er mjög mismunandi eftir árstíma og hafsvæðum. Svæði sem eru rík af dýrasvifi eru oft blöndunarsvæði eða straumamót í hafinu. Á slíkum svæðum er framleiðni þörunga yfirleitt geysimikil og því eru góð fæðuskilyrði fyrir dýrasvif, svo sem átu, það er sviflæg krabbadýr eins og rauðátu (Copepod) og ljósátu (Euphausiidae). Í slíka flokka sviflægra krabbadýra sem geta talið hundruði milljarða einstaklinga, sækja síðan hryggdýr eins og fiskar og hvalir sem lifa á krabbadýrunum. Stærstu hvalir jarðar, reyðarhvalir (Balaenopteridae), lifa að miklu leyti á slíkum krabbadýrum.

Ljósáta af tegundinni Meganyctiphanes norvegica.

Ljóstillífun og frumframleiðni í hafinu nær hámarki snemma sumars og oft gerist það um leið og aukið ferskvatnsrennsli verður til sjávar. Með minnkandi sólargeislum yfir háveturinn nær áðurnefnd framleiðsla lágmarki en auk þess dregur úr lóðréttri lagskiptingu sjávar. Mestur er vöxtur plöntusvifs þegar tiltölulega hlýr sjór er við landið en minnstur þegar áhrif pólsjávar eru yfirgnæfandi.

Þess má geta að meginfæða steypireyðar (Balaenoptera musculus) í Norður-Atlantshafi eru ljósátur af tegundunum Thysanoëssa inermis og Meganyctiphanes norvegica.

Myndir:...