
Önnur algeng tjáning katta er að láta sig falla á hliðina þegar einhver ætlar að klappa þeim. Þá eru þeir að gefa til kynna að þeir hafi ekki áhuga á athygli þá stundina. Oft fylgir taktföst hreyfing rófunnar í kjölfarið og jafnvel hraðari hreyfing eftir því sem pirringurinn verður meiri. Ef maðurinn les ekki í táknmálið eða lætur sér ekki segjast þá geta kettir gripið til harklegri aðgerða. Sumir kettir eiga það til að grípa í höndina sem er að klappa þeim með klónum og læsa þeim í hana og bíta. Þetta táknmál er einnig þekkt milli katta. Eyrun eru líka mikilvæg tjáningarfæri og er hægt að lesa mikið út úr stöðu þeirra. Eyrunum geta þeir snúið sitt í hvoru lagi, ýmist upp eða niður, fram eða aftur. Til dæmis á köttur sem er reiður eða óvenjupirraður það til að leggja eyrun niður í lárétta stöðu út frá hausnum svo hann virkar óvenjuflatur. Um leið sveiflar hann skottinu kröftuglega. Þetta samsetta tjáningarform rófu og eyrna er algengt þegar kettir eiga í deilum sín á milli. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Af hverju eru kettir með rófu? eftir Jón Má Halldórsson
- Af hverju vísar skottið á ljónum og rófan á köttum alltaf upp í loft? eftir JMH og ÞV
- Af hverju titrar rófan á köttum stundum? eftir Jón Má Halldórsson
- Black white cat on fence á Wikimedia Commons. Sótt 6.1.2011.