Sólin Sólin Rís 03:43 • sest 23:08 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:44 • Síðdegis: 19:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:47 • Síðdegis: 12:50 í Reykjavík

Hver er munurinn á trölli, jötni og risa?

Ólína Þorvarðardóttir

Í heild sinni hljómaði spurningin svona:

Hver er munurinn á trölli, jötni og risa? Í Þýskalandi og víða eru tröll dvergvaxin og ljót en hér eru stór (sbr. tröllvaxinn).

Vanalega er gerður greinarmunur á hugtökunum jötunn, tröll og risi, þó að vissulega skarist merking þeirra og skil geti verið óljós. Þannig tilheyra jötnar jafnan norrænni goðafræði, risar eiga heima í evrópskum ævintýrum en tröllin byggja kletta og klungur íslenskra þjóðsagna. Í goðafræðinni eru jötnar erkióvinir ása, enda var það ein helsta iðja Þórs að lumbra á þeim með hamrinum Mjölni. Reið hann þá í austurveg "að berja tröll" og má á því orðalagi sjá að í fyrstu var ekki greint vel á milli jötna og trölla.

Í öðrum norrænum málum hefur "tröll" nokkuð aðra merkingu en í íslensku. Í dönsku er "trold" nokkurs konar dvergur, það er lítil yfirnáttúruleg vera sem býr í hæðum og hólum. Orðið "tröll" er skylt sögninni að "trylla" og í gamalli íslensku er það notað sem skammaryrði um fjölkynngisfólk, enda er norræna orðið "trolddom" notað um galdur og fjölkynngi. Fram eftir öldum var í íslensku máli einnig talað um "tröllskap" í merkingunni galdur.


"Sjáðu þá", sagði tröllamamma. "Sjáðu syni mína! Fegurri tröll finnast ekki hérna megin mánans." Myndskreyting eftir John Bauer.

Lengst af hefur íslenska orðið tröll þó ævinlega verið notað um einhvers konar bergbúa eða vættir í mannsmynd. Fram kemur í þjóðsögum að tröll eru stórvaxnar verur sem búa í hellum og gljúfrum. Þau eru ólík jötnakyni goðsagnanna að því leyti að jötnarnir búa vel og ríkmannlega, eiga góð húsakynni og berast á, eins og lesa má um í Þrymskviðu og víðar. Sama má segja um risana í ævintýrum sem margir hverjir gæta gulls og eiga glersali.

Tröllin, aftur á móti, hokra við þröngan kost í gilskorningum íslenskra fjalla. Mörg þeirra eru grimmlynd og ásælin í mannakjöt – líkt og Grýla sem er einna þekktust mannætutrölla á Íslandi.

Þjóðsagnageymdin hefur þó ýmis dæmi um tröll sem eru tryggar góðvættir. Einkum á það við um tröllskessur sem búa oft og tíðum í sátt og samlyndi við íslenska bændur sé þeim virðing sýnd og tillitssemi. Af sögum um slíkt samneyti er trúlega sprottið máltækið "tröll eru í tryggðum best". Illa er þó tröllum við kristni og kirkjur og hopa jafnan undan ef kirkjuklukkur gjalla.

Ein grein tröllasagna fjallar um nátttröllin, en þau eru þeirrar náttúru að mega ekki líta dagsljósið, því þá verða þau að steini. Til er gömul goðsögn um samskipti Þórs og dvergsins Alvíss, sem kveðast á heila nótt þar til sól skín á sali og dvergurinn dagar uppi.

Til er sambærileg þjóðsaga um tröll eða óvætti sem kemur á gluggann hjá bóndadóttur og ávarpar hana:

Fögur þykir mér hönd þín

snör mín en snarpa

og dillidó

Hún svarar tröllinu og skiptist á kviðlingum við það þar til "dagur er í austri" og hún getur með fullvissu sagt:

Stattu og vertu að steini

en engum þó að meini

ári minn Kári og korriró.

Fjölmörg íslensk örnefni og fyrirbæri í landslagi hafa verið nefnd eftir sögnum af nátttröllum, þar á meðal Drangey og Reynisdrangar.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd

 • Árni Björnsson. Íslenskt vættatal. Mál og menning, Reykjavík 1990.
 • Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík 1989.
 • Dönsk-íslensk orðabók. 2. útgáfa. Mál og menning, Reykjavík 2000.
 • Eddukvæði. Íslenzk úrvalsrit 5. Ólafur Briem annaðist útgáfuna. Reykjavík 1968.
 • Einar Ólafur Sveinsson. Um íslenzkar þjóðsögur. Reykjavík 1940.
 • Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa aukin og endurbætt. Mörður Árnason ritstjóri. Edda, Reykjavík 2002.
 • Jón Árnason. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I-IV. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík 1954-61.
 • Ólína Þorvarðardóttir. Íslenskar þjóðsögur. Álfar og tröll. Bóka- og blaðaútgáfan.
 • Reykjavík 1995.

 • Myndin er af síðunni Billede:John Bauer 1915.jpg. Wikipedia: Den frie encyklopædi.

Höfundur

Dr. Phil. í íslenskum bókmenntum og þjóðfræði

Útgáfudagur

28.4.2006

Spyrjandi

Örvar Marteinsson

Tilvísun

Ólína Þorvarðardóttir. „Hver er munurinn á trölli, jötni og risa?“ Vísindavefurinn, 28. apríl 2006. Sótt 24. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5847.

Ólína Þorvarðardóttir. (2006, 28. apríl). Hver er munurinn á trölli, jötni og risa? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5847

Ólína Þorvarðardóttir. „Hver er munurinn á trölli, jötni og risa?“ Vísindavefurinn. 28. apr. 2006. Vefsíða. 24. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5847>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á trölli, jötni og risa?
Í heild sinni hljómaði spurningin svona:

Hver er munurinn á trölli, jötni og risa? Í Þýskalandi og víða eru tröll dvergvaxin og ljót en hér eru stór (sbr. tröllvaxinn).

Vanalega er gerður greinarmunur á hugtökunum jötunn, tröll og risi, þó að vissulega skarist merking þeirra og skil geti verið óljós. Þannig tilheyra jötnar jafnan norrænni goðafræði, risar eiga heima í evrópskum ævintýrum en tröllin byggja kletta og klungur íslenskra þjóðsagna. Í goðafræðinni eru jötnar erkióvinir ása, enda var það ein helsta iðja Þórs að lumbra á þeim með hamrinum Mjölni. Reið hann þá í austurveg "að berja tröll" og má á því orðalagi sjá að í fyrstu var ekki greint vel á milli jötna og trölla.

Í öðrum norrænum málum hefur "tröll" nokkuð aðra merkingu en í íslensku. Í dönsku er "trold" nokkurs konar dvergur, það er lítil yfirnáttúruleg vera sem býr í hæðum og hólum. Orðið "tröll" er skylt sögninni að "trylla" og í gamalli íslensku er það notað sem skammaryrði um fjölkynngisfólk, enda er norræna orðið "trolddom" notað um galdur og fjölkynngi. Fram eftir öldum var í íslensku máli einnig talað um "tröllskap" í merkingunni galdur.


"Sjáðu þá", sagði tröllamamma. "Sjáðu syni mína! Fegurri tröll finnast ekki hérna megin mánans." Myndskreyting eftir John Bauer.

Lengst af hefur íslenska orðið tröll þó ævinlega verið notað um einhvers konar bergbúa eða vættir í mannsmynd. Fram kemur í þjóðsögum að tröll eru stórvaxnar verur sem búa í hellum og gljúfrum. Þau eru ólík jötnakyni goðsagnanna að því leyti að jötnarnir búa vel og ríkmannlega, eiga góð húsakynni og berast á, eins og lesa má um í Þrymskviðu og víðar. Sama má segja um risana í ævintýrum sem margir hverjir gæta gulls og eiga glersali.

Tröllin, aftur á móti, hokra við þröngan kost í gilskorningum íslenskra fjalla. Mörg þeirra eru grimmlynd og ásælin í mannakjöt – líkt og Grýla sem er einna þekktust mannætutrölla á Íslandi.

Þjóðsagnageymdin hefur þó ýmis dæmi um tröll sem eru tryggar góðvættir. Einkum á það við um tröllskessur sem búa oft og tíðum í sátt og samlyndi við íslenska bændur sé þeim virðing sýnd og tillitssemi. Af sögum um slíkt samneyti er trúlega sprottið máltækið "tröll eru í tryggðum best". Illa er þó tröllum við kristni og kirkjur og hopa jafnan undan ef kirkjuklukkur gjalla.

Ein grein tröllasagna fjallar um nátttröllin, en þau eru þeirrar náttúru að mega ekki líta dagsljósið, því þá verða þau að steini. Til er gömul goðsögn um samskipti Þórs og dvergsins Alvíss, sem kveðast á heila nótt þar til sól skín á sali og dvergurinn dagar uppi.

Til er sambærileg þjóðsaga um tröll eða óvætti sem kemur á gluggann hjá bóndadóttur og ávarpar hana:

Fögur þykir mér hönd þín

snör mín en snarpa

og dillidó

Hún svarar tröllinu og skiptist á kviðlingum við það þar til "dagur er í austri" og hún getur með fullvissu sagt:

Stattu og vertu að steini

en engum þó að meini

ári minn Kári og korriró.

Fjölmörg íslensk örnefni og fyrirbæri í landslagi hafa verið nefnd eftir sögnum af nátttröllum, þar á meðal Drangey og Reynisdrangar.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd

 • Árni Björnsson. Íslenskt vættatal. Mál og menning, Reykjavík 1990.
 • Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík 1989.
 • Dönsk-íslensk orðabók. 2. útgáfa. Mál og menning, Reykjavík 2000.
 • Eddukvæði. Íslenzk úrvalsrit 5. Ólafur Briem annaðist útgáfuna. Reykjavík 1968.
 • Einar Ólafur Sveinsson. Um íslenzkar þjóðsögur. Reykjavík 1940.
 • Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa aukin og endurbætt. Mörður Árnason ritstjóri. Edda, Reykjavík 2002.
 • Jón Árnason. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I-IV. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík 1954-61.
 • Ólína Þorvarðardóttir. Íslenskar þjóðsögur. Álfar og tröll. Bóka- og blaðaútgáfan.
 • Reykjavík 1995.

 • Myndin er af síðunni Billede:John Bauer 1915.jpg. Wikipedia: Den frie encyklopædi.
  • ...