Ævareiður yfir þessum svikum fór Capone með þá á afvikið byggingarsvæði þar sem þeir voru allir grafnir í steypu upp að hálsi. Í steypunni mynduðu þeir beina röð þannig að hver þeirra horfði á þá sem á undan voru; Tony var fremstur, þar næst kom Sunny, þá Donny og aftastur var Jimmy.
Á milli tveggja fremstu mannanna var burðarveggur. Tony sá því engan þar sem hann var grafinn hinum megin við vegginn. Sunny sneri einnig andlitinu að burðarveggnum og sá því engan heldur.
Þar sem Capone var illa við að missa fjóra af mönnum sínum vegna svika eins þeirra, ákvað hann að gefa þeim eitt tækifæri enn.
Capone var mikill smekkmaður og hafði dálæti á höttum. Hann gerði því eftirfarandi samning við mennina. Hann setti hatta á þá alla; hvítan hatt á Tony, bláan á Sunny, hvítan á Donny og Jimmy sem var aftastur fékk bláan hatt. Þeir fengu jafnframt að vita að tveir þeirra væru með hvíta hatta og tveir með bláa hatta.
Samningurinn var einfaldur; gæti einhver þeirra getið sér rétt til um hvernig hatturinn sinn væri á litinn myndi hann hlífa þeim öllum. Hefðu þeir hins vegar rangt fyrir sér myndu þeir allir enda lífdaga sína grafnir í steypunni. Þeir myndu aðeins fá eitt tækifæri til að losa sig þar sem aðeins einn þeirra fengi færi á að svara. Þeir máttu ekki tala saman, gátu ekki snúið sér við í steypunni og gátu ekki gefið nein merki. Capone sagði þeim að nú myndi reyna á rökhugsun þeirra og hann myndi þá jafnframt sjá hvort það væri þess virði að bjarga þeim.Nú voru góð ráð dýr fyrir þá Tony, Sunny, Donny og Jimmy. Þeir voru því miður þekktir fyrir aðra hæfileika en skýra hugsun. Við leitum því til lesenda Vísindavefsins um að leysa málin fyrir þá kumpána. Hver þessara manna getur sagt til um það hvernig hatturinn hans er á litinn og hvernig getur hann fundið það út? Lausnin felst eingöngu í rökfærslu en ekki neinum brellum.
Rétt svar ásamt nöfnum þeirra sem sendu inn réttar lausnir hefur nú verið birt hér.