
Klausturrústirnar á Kirkjubæ frá 15. öld (ljósm. BFE).

Myndin sýnir staðsetningu íslensku klaustranna og er birt með góðfúslegu leyfi höfundar hennar, Halldórs Baldurssonar.
Ágústínus kirkjufaðir var einn frægasti hugsuður síns tíma og hefur áhrifa hans gætt í kenningum kirkjunnar fram á þennan dag, til dæmis um kristið hjónaband. Mesta rit hans er De civitate Dei eða Ríki guðs, en sjálfsævisaga hans, Játningar, er ekki síður vel skrifuð (Sigurbjörn Einarsson biskup þýddi hana á íslensku). Ágústínus lýsir þar lausungarlífi sínu framan af ævinni eða þangað til hann snerist til kristni fyrir bænastað móður sinnar og gerðist eftir það mjög siðavandur. Margir af áhangendum hans sökktu sér niður í lærdómslistir, ekki síst guðfræði og kirkjurétt, og þegar háskólar tóku að eflast víða í Evrópu á síðmiðöldum fóru margir þeirra að kenna þar. Þess má geta að Marteinn Lúther var Ágústínusarmunkur áður en hann festi mótmæli gegn aflátssölu páfastóls upp á kirkjuhurðina í Wittenberg árið 1517.
Kjörorð Benediktsmunka og -nunna var að iðja og biðja. Benedikt af Núrsíu var sjálfur ekki prestur en vildi að forstöðumenn klaustra væru eins konar andlegir feður, eða mæður, í byggðarlagi sínu; þeir skyldu vera vitrir, hógværir, sveigjanlegir og vel að sér í boðorðum Guðs. Klaustur sem við hann voru kennd urðu ekki einangruð bænasetur, heldur leituðust munkar og nunnur við að laga sig að þörfum almennings með fræðslu, ræktun nytjajurta, gestrisni og lækningum. Þau báðu heitt til Maríu meyjar og annarra dýrlinga, og síðast en ekki síst var mikið skrifað í klaustrum þeirra, og mátti sumt af því vera úr heiðnum sið.
Í sögum íslensku biskupanna má greina nokkurn mun eftir því hvorri reglunni þeir tilheyrðu. Þorlákur helgi fylgdi Ágústínusi og virðist hafa verið agaður og stundum strangur, en Jón Ögmundsson og Guðmundur góði sem voru Benediktínar bjuggu yfir meiri kærleika og samúð. Allir voru þeir þó fúsir til að greiða úr hvers kyns vanda almennings, bæði lífs og liðnir, og um það hafa geymst yfir 300 jarteinasögur, sem veita okkur innsýn í lífsbaráttu löngu liðinna kynslóða í harðbýlu landi.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Ég er sagður sestur í helgan stein. Hvar finn ég „helga steininn“!? eftir Guðrúnu Kvaran.
- Hvernig fór fyrir nunnum og munkum á Íslandi eftir að siðaskiptin áttu sér stað? eftir Hjalta Hugason.
- Hvað getið þið sagt mér um fyrstu nunnurnar á Íslandi? eftir Ingu Huld Hákonardóttur.
- Hvert var helsta hlutverk klaustra á miðöldum? eftir Ingu Huld Hákonardóttur.
- Grunnheimild um íslensku nunnuklaustrin er rit Önnu Sigurðardóttur: Allt hafði annan róm áður í páfadóm. Kvennasögusafn Íslands, 1988.
- Íslenskt samfélag og Rómarkirkja. Kristni á Íslandi, II. Aðalhöf. Gunnar F. Guðmundsson, myndritstj. Guðbjörg Kristjánsdóttir, meðhöf. Ásdís Egilsdóttir og Inga Huld Hákonardóttir. Ritstj. Hjalti Hugason. Alþingi, 2000, sjá bls. 212-245 og víðar.
- Ásdís Egilsdóttir: „Kvendýrlingar og kvenímynd trúarlegra bókmennta á Íslandi“ í greinasafninu Konur og kristsmenn: Þættir úr kristnisögu Íslands. Ritstj. Inga Huld Hákonardóttir. Háskólaútgáfan, 1996, sjá bls. 91-116.
- Elsa E. Guðjónsson: „Með silfurbjarta nál. Um kirkjuleg útsaumsverk íslenskra kvenna í kaþólskum og lútherskum sið“ í greinasafninu Konur og kristsmenn: Þættir úr kristnisögu Íslands. Ritstj. Inga Huld Hákonardóttir. Háskólaútgáfan, 1996, sjá bls.119-162.
- Svanhildur Óskarsdóttir: „Universal history in fourteenth-century of Iceland: Studies in AM 764 4to.“ University of London, 2000. [Óbirt doktorsritgerð]. Sjá kynningu á niðurstöðum hennar í Mediaeval Scandiavia 14 (2004), 185-194.
- Síðast en ekki síst er Hið íslenska fornritafélag að gefa út biskupasögur miðalda í nýju og glæsilegu formi, undir stjórn færustu fræðimanna og ekki síður kvenna. Dreifingu annast Hið íslenska bókmenntafélag.
- Mynd af rústum tók Bjarni F. Einarsson.
- Kortið er eftir Halldór Baldursson. Sótt 5.5.2006.
- Mynd af Ágústínusi er af Image:Tiffany Window of St Augustine - Lightner Museum.JPG. Wikipedia: The Free Encyclopedia. Sótt 5.5.2006.
- Mynd af Benedikt er af Image:Benedict.jpg. Wikipedia: The Free Encyclopedia. Sótt 5.5.2006.
- Hvað voru mörg klaustur á Íslandi og hvernig skiptust þau á milli kynja? (Skúli)
- Hvernig var stjórnfyrirkomulag í klaustrum á Íslandi og var það öðruvísi en annars staðar? (Skúli)
- Hvernig var stjórnunarkerfið í íslenskum klaustrum? (Þórdís)