Á seinni hluta 19. aldar voru svo fyrstu eiginlegu fótboltaskórnir framleiddir en þeir voru úr þykku leðri og vógu 500 g en tvöfölduðust í þyngd í bleytu! Eftir seinni heimsstyrjöldina var farið að framleiða skó sem voru léttari og náðu ekki jafnlangt upp, þannig gátu leikmenn verið hraðari og stjórnað betur boltanum. Á seinni hluta 20. aldar og byrjun 21. aldarinnar hefur þróunin svo verið í þá átt að gera skóna léttari og sveigjanlegri.
Eins og með marga hluti er erfitt að segja hvenær þeir komu fyrst fram, það er ef við viljum fá nákvæmt ártal og annað. Eins er talið að fótbolti hafi jafnvel verið spilaður allt frá 206 f.Kr. eins og lesa má í svari Unnars Árnasonar við spurningunni: Hver fann upp fótboltann? Það er þannig ógerningur að segja hvenær fyrstu takkaskórnir komu fram en menn hafa að minnsta kosti sett takka undir skóna sína allt frá byrjun 19. aldar.
Í dag nota menn mismunandi skó við mismunandi aðstæður. Takkaskó nota menn á venjulegum grasvelli, svokallaðir gervigrasskór eru einnig til en þeim svipar meira til þeirra sem eru notaðir innanhúss en þeir eru ekki með tökkum. Nú til dags er víða ekki leyfilegt að spila með skrúfanlega takka líkt og menn gerðu í upphafi 19. aldar þar sem þeir þykja hættulegri.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:- Hver fann upp fótboltann? eftir Unnar Árnason
- Hver fann upp boltann sem menn nota í fótbolta og hvernig er hann búinn til? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Hvernig getur fótbolti eða golfkúla sveigt til hægri eða vinstri á fluginu? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Wikipedia.com - Football boot
- Mynd: Wikipedia.com - Football boot. Sótt 16.3.2011.
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.