Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það eru öruggar heimildir fyrir því að Isidore Auguste Marie François Xavier Comte fæddist í borginni Montpellier í Suður-Frakklandi. Hins vegar má deila um það hvort hann hafi fæðst þann 19. febrúar árið 1798, eða fyrsta dag mánaðarins pluviôse (sem þýðir rigningarsamur) árið 4. Reyndar vísa báðar dagsetningar til sama dagsins, en sú síðari er í samræmi við þágildandi dagatal franska lýðveldisins sem hafði verið tekið upp fimm árum fyrir fæðingu Comte. Í kjölfar frönsku byltingarinnar var ákveðið að leysa af hólmi hið gregoríska tímatal, sem var í huga byltingarmanna hluti af kúgandi valdi konungs og kirkju, og innleiða dagatal í anda byltingarinnar og í samræmi við hugsjónir upplýsingarinnar sem upphefði skynsemi mannsins en ekki afdankaðar stofnanir gamla tímans. Áratugum eftir að það var numið úr gildi árið 1805, lagði Comte sjálfur til að tekið yrði upp enn annað dagatal í samræmi við þá heildstæðu kerfisbundnu heimspeki sem hann kenndi við pósitífisma, en samkvæmt því fæddist hann í mánuðinum Hómer. Rétt eins og dagatal lýðveldisins átti það að vera hluti af gagngerri breytingu samfélagsins. Hið pósitífíska dagatal Comte er einungis einn sérkennilegur angi af hugmyndafræði pósitífismans sem hefur haldið nafni hans á lofti allt frá því að hann lést 59 ára gamall árið 1857.
Comte er í dag minnst sem eins áhrifamesta hugsuðar nítjándu aldar og brautryðjenda á sviði félagsfræði og vísindaheimspeki. Áhersla Comte á félagslegt eðli mannsins var að hluta til tilraun hans til að stemma stigu við þeirri áherslu sem hefðbundin stjórnmálaheimspeki hafði lagt á einstaklinginn sem grundvallareiningu samfélagsins og þeirri einstaklingshyggju sem hafði að hans mati einkennt vestrænan hugsunarhátt allt frá dögum endurreisnarinnar.
Auguste Comte (1798–1857).
Foreldrar Comte, sem voru bæði dyggir konungssinnar og kaþólikkar, hafa vart getað gert sér í hugarlund hvað framtíðin bar í skauti sér fyrir son þeirra en þó varð snemma ljóst að Comte var afburðanámsmaður og árið 1814 hóf hann nám við École Polytechnique í París þar sem áhersla var lögð á raun- og náttúruvísindi. Eftir að skólinn var lagður niður árið 1816 settist Comte við fótskör hins róttæka þjóðfélagsrýnis Saint-Simon (1760-1825) sem átti eftir að hafa mótandi áhrif á líf Comte og heimspeki hans. Ferill Comte sem fræðimanns á því rætur í þeim tveim þáttum sem setja mestan svip á heimspeki hans: vísindum og samfélagi.
Helstu verk hans eru Cours de philosophie positive sem kom út í sex bindum á árunum 1830-1842 og Système de politique positive, ou traité de sociologie instituant la religion de l'Humanité sem kom út í fjórum bindum á árunum 1851-1854. Þessi tvö verk mynda kjarna tveggja tímabila í höfundarverki Comte sem verður þó að skoða í samhengi hvort við annað og við önnur verk hans til að draga upp sannferðuga mynd af heimspeki hans.
Cours var tilraun Comte til að gera heildstæða grein fyrir vísindalegri þekkingu mannsins á kerfisbundin hátt og undirbyggja það sem hann kallaði „eðlisfræði samfélagsins“. Fyrstu þrjú bindin gera þannig grein fyrir stærðfræði, stjörnufræði, eðlisfræði, efnafræði og líffræði á stigbundinn hátt þar sem hver grein tekur við af annarri bæði í sögulegu og röklegu tilliti og einnig hvað varðar flækjustig viðfangsefnisins. Síðustu þrjú bindin gera hins vegar grein fyrir félagsfræði sem hinni æðstu vísindagrein og Comte sjálfur þurfti að leggja grunninn að.
Í Cours má finna ítarlegustu útskýringar Comte á þekktustu hugmynd hans: að saga mannsins sé stigbundið ferli sem má skipta í tímabil trúarbragða, frumspeki og pósitífískrar þekkingar sem birtist einnig í félagslegum veruleika mannsins sem tímabil hernaðar, lagatækni og loks iðnaðar. Skipting Comte í tímabil byggði bæði á því með hvaða hætti maðurinn aflar þekkingar og hvað einkenndi félagslegan veruleika mannsins.
Verkið var ein áhrifamesta bók nítjándu aldarinnar, en Comte sjálfur leit á það sem nokkurs konar inngang eða grundvöll að því sem hann vildi í raun og veru áorka í krafti pósitífismans. Sú hugsjón hans kemur skýrast í ljós í Système de politique positive. Á síðasta stigi mannlegrar þróunar skyldi pósitífismi gegna hlutverki trúarbragða og þá skyldi vísindaleg þekking og aðferðir vísindanna ekki ráða för heldur ættu þau að þjóna hjarta mannsins og sjálfri ástin. Í því samhengi skóp Comte nýyrðið „altruisme“ sem mætti útleggja sem „ósérplægin góðmennska.“ Pósitífisminn skyldi verða að trú mannsins á mannkynið sjálft. Vísindi gegna vissulega mikilvægu hlutverki en þau eiga ekki að njóta forræðis yfir manninum eða samfélagi hans. Comte dró saman hugsjón pósítífismans á gagnorðan hátt: „Ást er frumforsenda og skipulag grundvöllurinn en takmarkið er framför.“ Pósitífisminn var í huga Comte siðferðileg kenning ekki síður en félagsleg og vísindaleg.
Margir af dyggustu stuðningsmönnum Comte sneru baki við þeirri trúarlegu mynd sem pósitífisminn tók á sig í síðari verkum hans. Þau voru til að mynda viðbrögð Johns Stuarts Mill (1806-1873) sem skrifaðist á við Comte á fimmta áratugnum og skrifaði bókina Auguste Comte and Positivism árið 1865 sem átti stóran þátt í því að móta ríkjandi viðhorf fræðimanna til höfundarverks Comte. Þar er pósitífisma fyrra tímabilsins hampað en hinni trúarlegu útfærslu seinna tímabilsins hafnað.
Verk Comte og heimspeki nutu mikilla vinsælda út um allan heim á nítjándu og tuttugustu öld, allt frá Brasilíu, þar sem hugmyndafræði hinna pósitífísku trúarbragða náði sterkri fótfestu og má sjá merki um í þjóðfána landsins. Áhrifanna gætti einnig um alla Evrópu (á Íslandi í verkum Ágústs H. Bjarnasonar (1875-1952)) og Norður-Ameríku og teygði sig einnig til Austurlanda nær og fjær. Auk heimspeki Mill, má greina pósitífísk áhrif í verkum fræðimanna á borð við Karl Marx (1818-1883), Herbert Spencer (1820-1903) og Émile Durkheim (1858-1917) og rithöfunda á borð við George Elliot (1819-1880).
Þegar Comte féll frá vegna magakrabbameins, hafði hann þegar gert áætlanir um fjölda verka á pósitífískum grunni sem honum auðnaðist aldrei að ljúka, þar á meðal verk um frumspeki, um menntamál og opinbera stefnumótun í hnattrænu tilliti. Hann var lagður til hinstu hvílu í París árið 1857 en árið 1983 höfðu brasilískir áhangendur hinnar pósitífísku trúar forgöngu um að reisa styttu til hyllingar mannkyninu við gröf hans.
Mynd:
Jakob Guðmundur Rúnarsson. „Hver var Auguste Comte og hvert var hans framlag til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn, 12. nóvember 2012, sótt 6. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=59067.
Jakob Guðmundur Rúnarsson. (2012, 12. nóvember). Hver var Auguste Comte og hvert var hans framlag til heimspekinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=59067
Jakob Guðmundur Rúnarsson. „Hver var Auguste Comte og hvert var hans framlag til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn. 12. nóv. 2012. Vefsíða. 6. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=59067>.