Sólin Sólin Rís 03:29 • sest 23:24 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 03:35 • Sest 09:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:38 • Síðdegis: 23:07 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:33 • Síðdegis: 16:38 í Reykjavík

Hver var Ágúst H. Bjarnason og hvert var framlag hans til heimspekinnar?

Jakob Guðmundur Rúnarsson

Ágúst H. Bjarnason (1875-1952) var skipaður í embætti prófessors í heimspeki við stofnun Háskóla Íslands árið 1911 og gegndi því embætti í 34 ár. Embættið fól meðal annars í sér kennslu heimspekilegra forspjallsvísinda, sem þá var skyldugrein fyrir alla nemendur Háskólans. Þegar Ágúst lét af störfum árið 1945 var talið að hann hefði kennt tæplega 1000 stúdentum, en auk kennslu gegndi hann stöðu rektors í tvígang og sat í háskólaráði í samtals þrettán ár. Um tuttugu ára skeið hafði hann einnig skólastjórn Gagnfræðaskóla Reykvíkinga með höndum, eða allt frá stofnun hans árið 1928 til ársins 1948. Það er þó ekki vegna þessara starfa sem nafn hans hefur haldist á lofti heldur er hans fyrst og fremst minnst vegna ritverka hans, sem voru á sínum tíma bæði útbreidd og áhrifamikil. Ber ritröðin Yfirlit yfir sögu mannsandans (1906-1915) höfuð og herðar yfir önnur verk hans að því leyti.

Ágúst H. Bjarnason (1875-1952).

Ágúst fæddist þann 20. ágúst 1875 á Bíldudal við Arnarfjörð. Hann var yngsta barn hjónanna Jóhönnu Þorleifsdóttur og Hákons Bjarnasonar, kaupmanns sem lést þegar Ágúst var aðeins tveggja ára gamall. Fjölskyldan flutti frá Bíldudal til Reykjavíkur þar sem Ágúst gekk í Mýrarhúsaskóla en þaðan lá leiðin til Kaupmannahafnar þar sem hann lauk stúdentsprófi frá Efterslægtskabets skole árið 1894 og hóf skömmu síðar nám við Kaupmannahafnarháskóla. Ágúst lauk meistaraprófi í heimspeki árið 1901 með sálfræði sem aðalfag en á þessum tíma heyrðu rannsóknir á vitundarlífi mannsins og lífeðlisfræðilegum undirstöðum þess, enn þá til heimspekinnar.

Á námsárum sínum í Kaupmannahöfn kynntist Ágúst meðal annars Guðmundi Finnbogasyni (1873-1944) sem var samtíða honum í heimspekináminu og Björgu C. Þorláksson (1874-1934) sem hóf sitt heimspekinám skömmu síðar. Námsár þeirra bar upp á þann tíma sem áhrif Harald Høffding (1843-1931) voru hvað mest við heimspekideild Hafnarháskóla. Óhætt er að segja að Høffding hafi haft mótandi áhrif á heimspeki þeirra allra, en honum og Ágústi var þó sérstaklega vel til vina. Þýsk hughyggja í anda Kants og Hegels hafði lengi verið ríkjandi við Kaupmannahafnarháskóla en Høffding og samtímamenn hans höfðu hins vegar kynnt til sögunnar nýjar áherslur þar á meðal pósítívisma í anda Auguste Comte (1798-1857).

Ágúst og Guðmundur luku meistaraprófi á sama tíma og til stóð að úthluta í fyrsta skipti úr styrktarsjóði Hannesar Árnasonar. Styrknum var ætlað að standa undir framhaldsnámi styrkþegans við erlenda háskóla (það er að segja utan Danmerkur). Ágúst og Guðmundur kepptu um styrkinn og kom hann í hlut Ágústs, sem hélt til frekara náms í Þýskalandi, Frakklandi og Sviss. Guðmundur átti reyndar eftir að njóta styrksins síðar, sem og Björg C. Þorláksson og fleiri íslenskir heimspekingar á fyrri hluta tuttugustu aldar en óhætt er að tala um blómaskeið í íslenskri heimspekisögu á þeim árum sem styrksins naut við. Styrkþeganum var gert skylt að halda röð fyrirlestra fyrir almenning að loknum þremur námsárum og nutu þeir tíðast mikilla vinsælda og urðu í sumum tilfellum grundvöllur útbreiddra rita um heimspekileg efni. Sú var raunin í tilfelli Ágústs sem sendi frá sér fyrsta bindið í ritröðinni Yfirlit yfir sögu mannsandans, sem bar titilinn Nítjánda öldin, í kjölfar fyrirlestra sinna árið 1906. Á næstu árum litu fleiri bindi þessarar hugmynda-, menningar- og heimspekisögu dagsins ljós: Austurlönd (1908), Hellas (1910) og Vesturlönd (1915). Árið 1911 lagði Ágúst doktorsritgerð sína um heimspeki Jean-Marie Guyau (1854-1888) fram til varnar við Kaupmannahafnarháskóla og áður en vörnin sjálf hafði farið fram, hafði Ágústi verið veitt prófessorsembættið heima á Íslandi.

Helstu verk Ágústs eru nátengd kennslu hans við Háskóla Íslands. Rökfræði (1913), Almenn sálarfræði (1916), Siðfræði I-II (1924-1926) og Vandamál mannlegs lífs I-II (1943-1945) voru öll annaðhvort sérstaklega samin til að nota við kennslu eða unnin upp úr fyrirlestrum sem Ágúst hafði haldið við skólann. Áhrifin frá Høffding leyna sér ekki og eru einna helst áberandi þegar Ágúst tekst á við heimspekisöguna en verk Høffdings á því sviði voru heimskunn; til að mynda er rík áhersla á mikilvægi náttúruvísinda sameiginlegt einkenni verka þeirra. Ágúst gerði sér reyndar sérstaklega far um að kynna nýjustu kenningar líf-, efna-, og eðlisfræði fyrir lesendum sínum. Nægir þar að nefna Himingeiminn (1926) og Heimsmynd vísindanna (1931). Eitt af hlutverkum heimspekinnar að mati Ágústs var að skapa heildstæða heimsmynd sem væri í samræmi við niðurstöður náttúruvísindanna. Í þessu tilliti eru áhrifin frá Comte augljós en ekki er hægt að ganga svo langt að kalla heimspeki Ágústs hreinræktaðan pósítívisma. Raunvísindin koma aldrei í stað heimspekinnar. „Mannsandinn“ getur aldrei sagt skilið við heimspekilegar rannsóknir á veröldinni, sjálfum sér og umhverfi sínu og einskorðað sig við aðferðir raunvísindanna. Heimspekin er „eins konar útvörður mannlegrar skynsemi“ og eðlileg framlenging á vísindalegri viðleitni mannsins.

Himingeimurinn eftir Ágúst H. Bjarnason kom út árið 1926.

Gagnrýnið viðhorf einkenndi ekki þá heimspekisögu sem Ágúst kynnti í verkum sínum. Frekar mætti segja að hann hafi aðhyllst nokkurs konar „eclecticisma“ og verið fyrst og fremst umhugað að draga fram samfelldan þráð í heimspekisögunni og rökstyðja að hvaða leyti einstaka heimspekingar hafi tekið þátt í að spinna þann þráð. Túlkun hans á heimspekisögunni var þannig skilyrt af heimspekilegri afstöðu hans sjálfs sem einkenndist fyrst og fremst af framfara- og þróunarhyggju í anda Herberts Spencer (1820-1903). Að mati Ágústs var lykilinn að skilningi á eðli manns og heims fólginn í þróunarkenningunni. Þá er mikilvægt að hafa í huga að hugmyndir Ágústs um þróun voru ekki takmarkaðar við líffræðilega þróun tegunda á grundvelli náttúruvals í þeim skilningi sem Charles Darwin (1809-1882) hafði fært rök fyrir. Hugmyndir Darwins um líffræðilega þróun settu mark sitt á heimspeki Ágústs og hann efaðist ekki um mikilvægi náttúruvals en skilningur hans á þróunarlíffræði tók fyrst og fremst mið af kenningum náttúrufræðingsins Jean-Baptiste Lamarck (1744-1829) um starfsþróun, eða starfsval þar sem líffræðileg þróun tegundarinnar er háð þeim starfsháttum sem einstaklingurinn temur sér.

Í bréfi sínu til Sigfúsar Blöndal (1874-1950) árið 1899 lýsir Ágúst þeirri heimssýn sem hann hafði tileinkað sér í heimspekináminu og varpar um leið ljósi á metnað hans sem heimspekings:

[E]inn daginn er ég í náttúruvísindunum, annan daginn í sálarfræðinni og þjóðfræðinni, svo ég get rakið þráðinn frá uppruna sólkerfisins, gegnum dýraríkið, upp í manninn, andann og út í þjóðlífið.

„Að rekja þráðinn“ frá uppruna alheimsins til mannsins sem siðferðislegrar félagsveru varð upp frá því eitt af höfuðviðfangsefnum Ágústs. Frá þeim sjónarhóli gat hann tekið undir með þýskri hughyggju í anda Friedrichs W.J. Schelling (1775-1854) og Georgs W.F. Hegel (1770-1831) sem lagði áherslu á mikilvægi náttúrulegra og sögulegra ferla. En verufræðilega gat Ágúst ekki tekið undir að það væri „andi“, „vilji“ eða „hugur“ sem birtist í náttúrulegum og sögulegum ferlum. Niðurstöður samtímamanna hans á sviði efna- og eðlisfræði létu hann draga þá ályktun að undirstaða alls væri í raun og veru „orka“ eða „afl“ og það mætti líta á rás tilverunnar í heild sinni sem þróunarsögu náttúrulegs skapandi afls. Hvað þetta varðar virðist Ágúst að mörgu leyti vera samstíga franska heimspekingnum Henri Bergson (1859-1941).

Mannskilningur og siðfræði Ágústs byggði á sömu meginatriðum og heimspeki hans í heild. Maðurinn hefur til að bera náttúrulega eiginleika og tilhneigingar sem hann getur þroskað og þróað. Maðurinn ber ábyrgð á sjálfum sér sem siðferðisveru. Hann getur göfgað tilhneigingar sínar og breytt samkvæmt þeim skyldum sem skynsemin og samfélagið býður. Þegar breytni hans samkvæmt skyldu er orðin að „holdgrónum vana“ og orðin honum bæði eiginleg og ljúf er skylduboðið orðið að persónubundinni dygð. Ágúst lítur á þetta ferli sem náttúrulegt þróunarferli sem endurspeglast í sögulegri þróun siðgæðisins hjá stærri menningarheildum.

Sú siðferðilega þróunarhyggja sem Ágúst mælti fyrir felur í sér mælikvarða sem öll breytni er metin eftir. Þessi mælikvarði er í sjálfu sér mjög einfaldur: Allt það sem „lyftir lífinu sem mest má verða, tryggir það, fegrar það og göfgar“ er gott en það sem veldur „niðurdrepi“ þess og „hrörnun“ er siðferðilega ámælisvert. Það er ef til vill erfitt að sætta þennan siðferðilega mælikvarða við þá staðreynd að Ágúst var eindreginn talsmaður mannkynbóta en þá verður að hafa í huga þann sérstaka skilning sem hann hafði á erfðum og eðli þróunar. Samkvæmt starfsvalskenningu Lamarck höfðu starfshættir og umhverfi einstaklingsins bein áhrif á þá eiginleika sem erfðust til afkomenda hans. Hagsmunum heildarinnar, til langs tíma, var því best borgið með því að skapa sem flestum þau skilyrði sem gerðu þeim kleift að hafa jákvæð áhrif á líkamlega og andlega velferð sína í víðasta skilningi. „Mannræktarstefna“ Ágústs var því fyrst og fremst fólgin í úrbótum á sviði heilsugæslu, auknum félagslegum réttindum og bættri menntun.

Ágúst lagði þunga áherslu á gildi uppeldis og menntunar og hann taldi að hlutverk kennara skipti sköpum í því sambandi. Störf hans við Háskólann og aðrar menntastofnanir endurspegluðu það viðhorf. Hann var þess mjög meðvitaður að störf hans höfðu siðferðislega og félagslega vídd og höfðu áhrif bæði á samtíma hans en ekki síður á framtíð þess samfélags sem var í mótun.

Ágúst H. Bjarnason lést 77 ára gamall í Reykjavík þann 22. september 1952 og skildi eftir sig eiginkonu, Sigríði Jónsdóttur, fimm uppkomin börn og ómetanlegt framlag til íslenskrar heimspeki- og menningarsögu.

Myndir:

Höfundur

doktorsnemi í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

1.12.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Jakob Guðmundur Rúnarsson. „Hver var Ágúst H. Bjarnason og hvert var framlag hans til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn, 1. desember 2011. Sótt 29. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=61377.

Jakob Guðmundur Rúnarsson. (2011, 1. desember). Hver var Ágúst H. Bjarnason og hvert var framlag hans til heimspekinnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61377

Jakob Guðmundur Rúnarsson. „Hver var Ágúst H. Bjarnason og hvert var framlag hans til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn. 1. des. 2011. Vefsíða. 29. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61377>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Ágúst H. Bjarnason og hvert var framlag hans til heimspekinnar?
Ágúst H. Bjarnason (1875-1952) var skipaður í embætti prófessors í heimspeki við stofnun Háskóla Íslands árið 1911 og gegndi því embætti í 34 ár. Embættið fól meðal annars í sér kennslu heimspekilegra forspjallsvísinda, sem þá var skyldugrein fyrir alla nemendur Háskólans. Þegar Ágúst lét af störfum árið 1945 var talið að hann hefði kennt tæplega 1000 stúdentum, en auk kennslu gegndi hann stöðu rektors í tvígang og sat í háskólaráði í samtals þrettán ár. Um tuttugu ára skeið hafði hann einnig skólastjórn Gagnfræðaskóla Reykvíkinga með höndum, eða allt frá stofnun hans árið 1928 til ársins 1948. Það er þó ekki vegna þessara starfa sem nafn hans hefur haldist á lofti heldur er hans fyrst og fremst minnst vegna ritverka hans, sem voru á sínum tíma bæði útbreidd og áhrifamikil. Ber ritröðin Yfirlit yfir sögu mannsandans (1906-1915) höfuð og herðar yfir önnur verk hans að því leyti.

Ágúst H. Bjarnason (1875-1952).

Ágúst fæddist þann 20. ágúst 1875 á Bíldudal við Arnarfjörð. Hann var yngsta barn hjónanna Jóhönnu Þorleifsdóttur og Hákons Bjarnasonar, kaupmanns sem lést þegar Ágúst var aðeins tveggja ára gamall. Fjölskyldan flutti frá Bíldudal til Reykjavíkur þar sem Ágúst gekk í Mýrarhúsaskóla en þaðan lá leiðin til Kaupmannahafnar þar sem hann lauk stúdentsprófi frá Efterslægtskabets skole árið 1894 og hóf skömmu síðar nám við Kaupmannahafnarháskóla. Ágúst lauk meistaraprófi í heimspeki árið 1901 með sálfræði sem aðalfag en á þessum tíma heyrðu rannsóknir á vitundarlífi mannsins og lífeðlisfræðilegum undirstöðum þess, enn þá til heimspekinnar.

Á námsárum sínum í Kaupmannahöfn kynntist Ágúst meðal annars Guðmundi Finnbogasyni (1873-1944) sem var samtíða honum í heimspekináminu og Björgu C. Þorláksson (1874-1934) sem hóf sitt heimspekinám skömmu síðar. Námsár þeirra bar upp á þann tíma sem áhrif Harald Høffding (1843-1931) voru hvað mest við heimspekideild Hafnarháskóla. Óhætt er að segja að Høffding hafi haft mótandi áhrif á heimspeki þeirra allra, en honum og Ágústi var þó sérstaklega vel til vina. Þýsk hughyggja í anda Kants og Hegels hafði lengi verið ríkjandi við Kaupmannahafnarháskóla en Høffding og samtímamenn hans höfðu hins vegar kynnt til sögunnar nýjar áherslur þar á meðal pósítívisma í anda Auguste Comte (1798-1857).

Ágúst og Guðmundur luku meistaraprófi á sama tíma og til stóð að úthluta í fyrsta skipti úr styrktarsjóði Hannesar Árnasonar. Styrknum var ætlað að standa undir framhaldsnámi styrkþegans við erlenda háskóla (það er að segja utan Danmerkur). Ágúst og Guðmundur kepptu um styrkinn og kom hann í hlut Ágústs, sem hélt til frekara náms í Þýskalandi, Frakklandi og Sviss. Guðmundur átti reyndar eftir að njóta styrksins síðar, sem og Björg C. Þorláksson og fleiri íslenskir heimspekingar á fyrri hluta tuttugustu aldar en óhætt er að tala um blómaskeið í íslenskri heimspekisögu á þeim árum sem styrksins naut við. Styrkþeganum var gert skylt að halda röð fyrirlestra fyrir almenning að loknum þremur námsárum og nutu þeir tíðast mikilla vinsælda og urðu í sumum tilfellum grundvöllur útbreiddra rita um heimspekileg efni. Sú var raunin í tilfelli Ágústs sem sendi frá sér fyrsta bindið í ritröðinni Yfirlit yfir sögu mannsandans, sem bar titilinn Nítjánda öldin, í kjölfar fyrirlestra sinna árið 1906. Á næstu árum litu fleiri bindi þessarar hugmynda-, menningar- og heimspekisögu dagsins ljós: Austurlönd (1908), Hellas (1910) og Vesturlönd (1915). Árið 1911 lagði Ágúst doktorsritgerð sína um heimspeki Jean-Marie Guyau (1854-1888) fram til varnar við Kaupmannahafnarháskóla og áður en vörnin sjálf hafði farið fram, hafði Ágústi verið veitt prófessorsembættið heima á Íslandi.

Helstu verk Ágústs eru nátengd kennslu hans við Háskóla Íslands. Rökfræði (1913), Almenn sálarfræði (1916), Siðfræði I-II (1924-1926) og Vandamál mannlegs lífs I-II (1943-1945) voru öll annaðhvort sérstaklega samin til að nota við kennslu eða unnin upp úr fyrirlestrum sem Ágúst hafði haldið við skólann. Áhrifin frá Høffding leyna sér ekki og eru einna helst áberandi þegar Ágúst tekst á við heimspekisöguna en verk Høffdings á því sviði voru heimskunn; til að mynda er rík áhersla á mikilvægi náttúruvísinda sameiginlegt einkenni verka þeirra. Ágúst gerði sér reyndar sérstaklega far um að kynna nýjustu kenningar líf-, efna-, og eðlisfræði fyrir lesendum sínum. Nægir þar að nefna Himingeiminn (1926) og Heimsmynd vísindanna (1931). Eitt af hlutverkum heimspekinnar að mati Ágústs var að skapa heildstæða heimsmynd sem væri í samræmi við niðurstöður náttúruvísindanna. Í þessu tilliti eru áhrifin frá Comte augljós en ekki er hægt að ganga svo langt að kalla heimspeki Ágústs hreinræktaðan pósítívisma. Raunvísindin koma aldrei í stað heimspekinnar. „Mannsandinn“ getur aldrei sagt skilið við heimspekilegar rannsóknir á veröldinni, sjálfum sér og umhverfi sínu og einskorðað sig við aðferðir raunvísindanna. Heimspekin er „eins konar útvörður mannlegrar skynsemi“ og eðlileg framlenging á vísindalegri viðleitni mannsins.

Himingeimurinn eftir Ágúst H. Bjarnason kom út árið 1926.

Gagnrýnið viðhorf einkenndi ekki þá heimspekisögu sem Ágúst kynnti í verkum sínum. Frekar mætti segja að hann hafi aðhyllst nokkurs konar „eclecticisma“ og verið fyrst og fremst umhugað að draga fram samfelldan þráð í heimspekisögunni og rökstyðja að hvaða leyti einstaka heimspekingar hafi tekið þátt í að spinna þann þráð. Túlkun hans á heimspekisögunni var þannig skilyrt af heimspekilegri afstöðu hans sjálfs sem einkenndist fyrst og fremst af framfara- og þróunarhyggju í anda Herberts Spencer (1820-1903). Að mati Ágústs var lykilinn að skilningi á eðli manns og heims fólginn í þróunarkenningunni. Þá er mikilvægt að hafa í huga að hugmyndir Ágústs um þróun voru ekki takmarkaðar við líffræðilega þróun tegunda á grundvelli náttúruvals í þeim skilningi sem Charles Darwin (1809-1882) hafði fært rök fyrir. Hugmyndir Darwins um líffræðilega þróun settu mark sitt á heimspeki Ágústs og hann efaðist ekki um mikilvægi náttúruvals en skilningur hans á þróunarlíffræði tók fyrst og fremst mið af kenningum náttúrufræðingsins Jean-Baptiste Lamarck (1744-1829) um starfsþróun, eða starfsval þar sem líffræðileg þróun tegundarinnar er háð þeim starfsháttum sem einstaklingurinn temur sér.

Í bréfi sínu til Sigfúsar Blöndal (1874-1950) árið 1899 lýsir Ágúst þeirri heimssýn sem hann hafði tileinkað sér í heimspekináminu og varpar um leið ljósi á metnað hans sem heimspekings:

[E]inn daginn er ég í náttúruvísindunum, annan daginn í sálarfræðinni og þjóðfræðinni, svo ég get rakið þráðinn frá uppruna sólkerfisins, gegnum dýraríkið, upp í manninn, andann og út í þjóðlífið.

„Að rekja þráðinn“ frá uppruna alheimsins til mannsins sem siðferðislegrar félagsveru varð upp frá því eitt af höfuðviðfangsefnum Ágústs. Frá þeim sjónarhóli gat hann tekið undir með þýskri hughyggju í anda Friedrichs W.J. Schelling (1775-1854) og Georgs W.F. Hegel (1770-1831) sem lagði áherslu á mikilvægi náttúrulegra og sögulegra ferla. En verufræðilega gat Ágúst ekki tekið undir að það væri „andi“, „vilji“ eða „hugur“ sem birtist í náttúrulegum og sögulegum ferlum. Niðurstöður samtímamanna hans á sviði efna- og eðlisfræði létu hann draga þá ályktun að undirstaða alls væri í raun og veru „orka“ eða „afl“ og það mætti líta á rás tilverunnar í heild sinni sem þróunarsögu náttúrulegs skapandi afls. Hvað þetta varðar virðist Ágúst að mörgu leyti vera samstíga franska heimspekingnum Henri Bergson (1859-1941).

Mannskilningur og siðfræði Ágústs byggði á sömu meginatriðum og heimspeki hans í heild. Maðurinn hefur til að bera náttúrulega eiginleika og tilhneigingar sem hann getur þroskað og þróað. Maðurinn ber ábyrgð á sjálfum sér sem siðferðisveru. Hann getur göfgað tilhneigingar sínar og breytt samkvæmt þeim skyldum sem skynsemin og samfélagið býður. Þegar breytni hans samkvæmt skyldu er orðin að „holdgrónum vana“ og orðin honum bæði eiginleg og ljúf er skylduboðið orðið að persónubundinni dygð. Ágúst lítur á þetta ferli sem náttúrulegt þróunarferli sem endurspeglast í sögulegri þróun siðgæðisins hjá stærri menningarheildum.

Sú siðferðilega þróunarhyggja sem Ágúst mælti fyrir felur í sér mælikvarða sem öll breytni er metin eftir. Þessi mælikvarði er í sjálfu sér mjög einfaldur: Allt það sem „lyftir lífinu sem mest má verða, tryggir það, fegrar það og göfgar“ er gott en það sem veldur „niðurdrepi“ þess og „hrörnun“ er siðferðilega ámælisvert. Það er ef til vill erfitt að sætta þennan siðferðilega mælikvarða við þá staðreynd að Ágúst var eindreginn talsmaður mannkynbóta en þá verður að hafa í huga þann sérstaka skilning sem hann hafði á erfðum og eðli þróunar. Samkvæmt starfsvalskenningu Lamarck höfðu starfshættir og umhverfi einstaklingsins bein áhrif á þá eiginleika sem erfðust til afkomenda hans. Hagsmunum heildarinnar, til langs tíma, var því best borgið með því að skapa sem flestum þau skilyrði sem gerðu þeim kleift að hafa jákvæð áhrif á líkamlega og andlega velferð sína í víðasta skilningi. „Mannræktarstefna“ Ágústs var því fyrst og fremst fólgin í úrbótum á sviði heilsugæslu, auknum félagslegum réttindum og bættri menntun.

Ágúst lagði þunga áherslu á gildi uppeldis og menntunar og hann taldi að hlutverk kennara skipti sköpum í því sambandi. Störf hans við Háskólann og aðrar menntastofnanir endurspegluðu það viðhorf. Hann var þess mjög meðvitaður að störf hans höfðu siðferðislega og félagslega vídd og höfðu áhrif bæði á samtíma hans en ekki síður á framtíð þess samfélags sem var í mótun.

Ágúst H. Bjarnason lést 77 ára gamall í Reykjavík þann 22. september 1952 og skildi eftir sig eiginkonu, Sigríði Jónsdóttur, fimm uppkomin börn og ómetanlegt framlag til íslenskrar heimspeki- og menningarsögu.

Myndir: