Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Guðmundur Finnbogason var einn fjölhæfasti menntamaður Íslendinga á fyrri hluta 20. aldar, brautryðjandi í skólamálum og sálfræði, ritstjóri Skírnis um árabil, hagur orðasmiður og höfundur frumlegrar kenningar um „samúðarskilninginn“.
Guðmundur fæddist á Arnstapa í Ljósavatnsskarði 6. júní 1873. Hann var af fátæku fólki en braust til mennta, settist í þriðja bekk Lærða skólans í Reykjavík 1892 og útskrifaðist með ágætiseinkunn árið 1896. Þaðan hélt hann til Kaupmannahafnar og lauk meistaraprófi í heimspeki með sálfræði sem aðalgrein árið 1901. Í Kaupmannahöfn hlaut hann afbragðsmenntun í þessum greinum.
Að loknu meistaraprófi fékk Guðmundur tveggja ára styrk frá Alþingi til að kynna sér skólamál á Norðurlöndum en á þessum árum voru íslensk skólamál í ólestri. Í lok ferðar sinnar um Norðurlöndin samdi hann bókina Lýðmenntun (1903) sem er höfuðrit í íslenskri skólasögu. Í bókinni mælir hann með skólaskyldu barna og unglinga og fjallar um þær kennslugreinar sem eru nauðsynlegar hverju barni. Athyglisvert er að Guðmundur leggur sálfræðilegt sjónarhorn víða til grundvallar í umfjöllun sinni, segir að nám barna og kunnátta kennara verði að taka mið af „þróunarlögum barnssálarinnar“.
Á árunum 1903–1905 var Guðmundur ráðunautur Alþingis og stjórnvalda um menntamál, ferðaðist um landið og gerði úttekt á fræðslumálum eins og rakið er í gagnmerku riti hans: Skýrsla um fræðslu barna og unglinga veturinn 1903–1904 (1905). Árið 1905 samdi Guðmundur frumvarp til fræðslulaga sem var síðar samþykkt, með nokkrum breytingum, á Alþingi 1907.
Árið 1907 hlaut Guðmundur styrk úr sjóði Hannesar Árnasonar prestaskólakennara (1812–1879) sem hafði með erfðaskrá mælt fyrir um stofnun sjóðs sem var ætlað að styrkja stúdenta til framhaldsnáms í heimspeki og sálfræði. Þetta var myndarlegur fjögurra ára styrkur. Ætlast var til þess að styrkþegar dveldu þrjú ár erlendis en fjórða árið áttu þeir að flytja fyrirlestra fyrir almenning í Reykjavík. Guðmundur dvaldi lengst af í París þar sem hann sökkti sér í heimspeki Henris Bergson (1859–1941) en hélt síðan til Berlínar þar sem hann lærði einkum hjá Carli Stumpf (1848–1936). Stumpf var einn kunnasti sálfræðingur heims á þessum árum, ekki síst þekktur fyrir rannsóknir sínar á tónskynjun.
Carl Stumpf er hér vinstra megin en Henri Bergson hægra megin.
Guðmundur hóf að semja doktorsritgerð sína þegar dró nær lokum styrktímabilsins. Hún bar heitið Den sympatiske Forstaaelse, „samúðarskilningurinn“, og er fyrsta íslenska doktorsritgerðin í sálfræði. Doktorsritgerðin er ekki mikil að vöxtum en þeim mun frumlegri. Í henni fjallar hann um hluti á borð við eftirhermun og samhljómun í sálarlífi fólks. Kenning hans er sú að skilningur manna á sálarlífi hvers annars sé „samúðarskilningur“ sem vakni við það að við skynjum sálarástand annarra og tökum það ósjálfrátt á okkur sjálf. Ef við sjáum mann brosa förum við sjálf ósjálfrátt að brosa, sorgmætt fólk kallar hins vegar fram sorg í huga okkar og við tökum á okkur fas hins sorgmædda, verðum álút og horfum niður fyrir okkur. Við höfum hneigð til að „keikjast með keikum og heykjast með hoknum“ eins og Guðmundur orðaði það í Hannesar Árnasonar fyrirlestrum sem hann flutti í Reykjavík veturinn 1910–1911. Fyrirlestrar Guðmundar þóttu tíðindum sæta og voru afar vel sóttir. Þeir komu út árið 1912 í bókinni Hugur og heimur.
Guðmundur varði doktorsritgerð sína við Kaupmannahafnarháskóla 27. september 1911. Alfred Lehmann (1858–1921), dósent í tilraunasálfræði við skólann og kunnur sálfræðingur á þessum árum, var annar andmælenda. Honum þótti mikið til ritsmíðar Guðmundar koma og vitnaði iðulega til hennar í seinni verkum sínum. Doktorsritgerð Guðmundar kom út á frönsku –- L’intelligence sympathique –- árið 1913 og varð vel kunn meðal frönskumælandi sálfræðinga.
Guðmundur varð einna fyrstur sálfræðinga til að fjalla um eftirhermun. Hann hélt því fram að
þegar vér virðum vel fyrir oss form hluta eða hreyfingar þeirra eða hlustum með óskiftri athygli á hljóð, þá vaknar löngum hjá oss hneigð til að líkja eftir því sem vér sjáum eða heyrum, líkja eftir því með vöðvahreyfingum sem verða í líkömum vorum.
Hér lítur Guðmundur á eftirhermun sem sjálfvirka afurð skynjunar. Það var byltingarkennd hugmynd á sínum tíma. Svipaðar hugmyndir komu löngu síðar fram í sálfræði, til dæmis í tímamótagrein um eftirhermun ungbarna eftir Meltzoff og Moore í Science árið 1977. En þá var framlag Guðmundar því miður gleymt. Kenning Guðmundar er einnig í góðu samræmi við nútímalegar hugmyndir um svonefndar „spegilfrumur.“ Þær fundust fyrst í heilum apa og eru frumur nálægt hreyfisvæðum heila sem svara hvort sem apinn horfir á hreyfingu eða framkvæmir hana sjálfur. Þær rannsóknir vöktu mikla athygli en niðurstöðurnar hefðu örugglega ekki komið Guðmundi á óvart.
Háskóli Íslands var í upphafi til húsa á neðri hæð Alþingishússins.
Guðmundur varði doktorsritgerð sína um það leyti sem Háskóli Íslands var stofnaður og sótti um prófessorsembættið í heimspeki. Það hlaut hins vegar Ágúst H. Bjarnason en Guðmundur gerðist þá aðstoðarlandsbókavörður. Árið 1917 samþykkti Alþingi með sérstökum lögum að stofna prófessorsembætti í hagnýtri sálfræði við Háskóla Íslands og var staðan ætluð Guðmundi. Ári fyrr hafði hann hlotið styrk til að kynna sér vinnuvísindi í Vesturheimi. Í lögunum segir svo að auk háskólakennslunnar skuli prófessornum „skylt að hafa á hendi vísindarannsókn á vinnubrögðum í landinu og tilraunir til umbóta á þeim“. Hugmyndir um hagnýtingu sálfræðinnar í þágu atvinnulífsins lágu í loftinu á þessum árum.
Kennsla Guðmundar við Háskóla Íslands sýndi að hann var gagnmenntaður í sálfræði þess tíma. Hann kenndi meðal annars námskeið í hagnýtri sálfræði, námssálfræði og tilraunasálfræði og gerði sálfræðitilraunir með stúdentum auk þess að sinna rannsóknum í vinnusálfræði en um hana hafði hann þá reyndar skrifað tvær bækur, Vit og strit (1915) og Vinnuna (1917). Bók um sjónskynjun, Frá sjónarheimi, gaf hann út 1918.
Staðan í hagnýtri sálfræði varð hins vegar ekki langlíf í Háskóla Íslands þar eð Alþingi lagði hana niður árið 1924 í sparnaðarskyni og gerðist Guðmundur þá landsbókavörður. Þá lauk afskiptum hans af sálfræði. Hann sneri sér nú að öðrum viðfangsefnum, freistaði þess meðal annars að varpa ljósi á eðli Íslendinga í bókinni Íslendingar (1933). Hann var afkastamikill þýðandi fræðirita og ötull orðasmiður. Guðmundur lést árið 1944.
Heimild:
Jörgen L. Pind (2006). Frá sál til sálar: Ævi og verk Guðmundar Finnbogasonar sálfræðings. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
Jörgen Pind. „Hver var Guðmundur Finnbogason og hvað gerði hann merkilegt?“ Vísindavefurinn, 9. ágúst 2011, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60353.
Jörgen Pind. (2011, 9. ágúst). Hver var Guðmundur Finnbogason og hvað gerði hann merkilegt? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60353
Jörgen Pind. „Hver var Guðmundur Finnbogason og hvað gerði hann merkilegt?“ Vísindavefurinn. 9. ágú. 2011. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60353>.