Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 19:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:40 • Síðdegis: 17:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:49 • Síðdegis: 24:15 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 19:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:40 • Síðdegis: 17:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:49 • Síðdegis: 24:15 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Ivan Pavlov og hvert var hans framlag til sálfræðinnar?

Arnór Hannibalsson (1934-2012)

Ívan Petrovitsj Pavlov var fæddur í borginni Rjazanj árið 1849. Faðir hans var prestur í rétttrúnaðarkirkjunni, móðir hans var dóttir prests. Faðirinn hóf störf í fátækri sókn í útjaðri borgarinnar, en lauk ævinni sem höfuðprestur aðalkirkjunnar í Rjazanj. Á æskuárum sótti Pavlov nám í skóla sóknarinnar og hafði ætíð höfuðáhuga á náttúruvísindum. Árið 1870 fékk hann inngöngu í eðlisfræði- og stærðfræðideild háskólans í St. Pétursborg, en aðalgrein hans var líffræði. Áhugi hans beindist að þeim fræðum eftir að hann hafði lesið verk Sétsjenovs um viðbrögð heilans. Pavlov lauk námi árið 1875 og hélt þá til Breslau í Þýskalandi og starfaði þar nokkur ár. Þar hóf Pavlov að rannsaka lífeðlisfræði meltingar, og hélt þeim áfram í tuttugu ár. Hann sneri heim til Rússlands 1885. Hann kom á fót í St. Pétursborg Stofnun fyrir tilraunir í læknisfræði, jafnframt því sem hann stóð fyrir þeirri deild læknaskóla hersins sem fékkst við lífeðlisfræði (1895-1925).

Fyrstu rannsóknir Pavlovs beindust að blóðrásinni. Athygli hans beindist að sambandi taugakerfis og hjartans, og hann sýndi fram á þátt tauga í næringarstarfsemi þess.

Þegar Pavlov rannsakaði meltingarveginn, komst hann að raun um það, að rannsaka þyrfti einstaka hluta hans – munnvatnskirtla, skeifugarnarkirtla, maga, bris og lifur – virkni hvers og eins og kerfisins í heild. Hann sannfærðist um það, að til þess að ná marktækum árangri yrði að rannsaka þessi ferli í heilbrigðum, lifandi dýrum. Hann notaði lifandi hunda í þessu skyni og fann ráð til að ná frá þeim hreinum meltingarsafa. Hann gerði á þeim aðgerðir í þessu skyni, en hundarnir héldu áfram að lifa góðu lífi og náðu háum aldri. En með þessu gat Pavlov gert athuganir og tilraunir sem náðu yfir langt tímabil. Einnig var mikilvægt að einangra dýrin, svo að hægt væri að stýra utanaðkomandi áreitum. Fyrir þessar rannsóknir fékk hann Nóbelsverðlaunin 1904.

Pavlov sá fljótt, að meltingarferlið er ekki lokað. Ýmis taugaboð að utan hafa áhrif á starfsemi meltingarfæranna. Hann tók eftir því, að hundarnir tóku að gefa frá sér munnvatn, ekki aðeins þegar þeir fengu mat í munninn, (það heitir skilyrðislaust viðbragð), heldur og einnig, þegar þeir heyrðu fótatak fóðrunarmeistarans, sem bar þeim mat. Fótatakið er þannig farið að tákna fyrir hundinn: Matur á leiðinni (skilyrt viðbragð). En nú fór Pavlov að rannsaka það nánar. Grunnurinn er fólginn í því, að líffæri bregst við ytra áreiti. Það er skilyrðislaust viðbragð. Taugaboð berst frá munnvatnskirtli til heila. Síðan berst boð til baka: Taka til starfa. Í heilaberkinum myndast tengsl milli tveggja viðbragða, hins skilyrðislausa og hins skilyrta. Hér er kominn grunnurinn að því að skilja samband lífveru við umhverfið.

Áreiti geta verið af öllu hugsanlegu tagi; ljós og myrkur, hljóð, lykt, hiti og kuldi og svo framvegis. Nú myndast skilyrt viðbragð við ljós, og þá má klingja bjöllu á undan ljósinu. Þá myndast keðja viðbragða; ljós, hljóð, og síðan fær tilraunadýrið mat sinn. Þannig myndast í sífellu ný og flókin kerfi viðbragða.



Einn af hundum Pavlovs, uppstoppaður á safni í borginni Rjazanj. Búnaðurinn á kjálka hundsins var til þess ætlaður að safna munnvatni.

En viðbrögð slokkna, hverfa, deyja út. Pavlov kallaði það hömlun. Enn fremur er óhjákvæmilegt, að lífvera bregst ekki við öllu því í umhverfinu, sem gæti verkað sem áreiti. Lífveran velur úr. En með þeim hugtökum, sem hér hafa verið nefnd, smíðaði Pavlov kenningu um starf heilans sem gagnkvæm tengsl viðbragða og hömlunar.

Lífverur taka við óendanlega fjölbreytilegum áreitum úr nánasta umhverfi. Þetta kallaði Pavlov fyrra merkjakerfið, og það er sameiginlegt mönnum og dýrum. En maðurinn hefur til að bera flóknara og merkingarbærara merkjakerfi. Pavlov kallaði það seinna merkjakerfið. Það hefur orðið til hjá mönnum í rás þróunar tegundarinnar og skilur menn frá dýrum. Seinna merkjakerfið er grunnur málhæfis manna: Hæfileikans til að tjá fjölbreytilegar tilfinningar og hugsanir í táknum máls og mynda.

Pavlov reit:
Skynreyndir okkar og skynheildir vísa til heimsins umhverfis okkur. Þær eru hið fyrra merkjakerfi veruleikans, hlutstæð merki, en tungumálið og fyrst og fremst hreyfiáreiti, sem renna til heilabarkarins frá talfærunum, þau eru merki merkjanna, hið annað merkjakerfi.

Heilinn annast flókið starf greiningar og samantektar, aðskilnaðar og alhæfingar áreita. Á þessum grunni er hægt að reisa kenningar bæði um starf taugakerfisins og um sálarlíf manna, svo og um tengsl manns við náttúru og umhverfi. Þannig hugðist Pavlov skilgreina endanlega það sem bindur hið huglæga (e. subject) og hið hlutlæga (e. object), hið sálræna og hið lífeðlisfræðilega.

Pavlov reisti hús yfir rannsóknir sínar ekki allfjarri St. Pétursborg, þar sem heitir Koltushi. Þar var í miðjunni Þagnarturninn, sem hýsti hunda þá, sem notaðir voru við tilraunir. Það var sovétstjórnin, að fyrirskipan Leníns, sem gerði þetta mögulegt. Pavlov leit með velvild á febrúarbyltinguna 1917, en var ákaflega andsnúinn valdráni bolsévika. Hann lenti og í hremmingum eins og svo margir aðrir á þessum árum, þar var hungursneyð og allsherjarskortur. Árið 1920 bað Pavlov sovétstjórnina leyfis til að flytjast til útlanda, enda hafði honum borist álitleg tilboð frá Stokkhólmi og frá Bretlandi. En hann hætti við að fara í útlegð, þegar Lenín skipaði svo fyrir 1921 að Pavlov skyldi fá allt sem hann þyrfti til rannsókna, kol til að kynda húsið. Enginn hefur getað skýrt, hví Lenín fór þannig með Pavlov, samtímis því að verið var að reka rjóma menntamannastéttar Rússlands ýmist í útlegð eða dauðann. Verið getur að skýringarinnar sé að leita í því, að Lenín hafi haldið að kenning Pavlovs skyti náttúruvísindalegum stoðum undir heimspekikenningu hans sjálfs. En Pavlov leyndi aldrei neikvæðri afstöðu sinni til sovétstjórnarinnar. Á þriðja og fjórða áratug 20. aldar ritaði hann sovéskum yfirvöldum mörg bréf til að mótmæla ofbeldi og gerræði þeirra, svo og bælingu frjálsrar hugsunar.

Pavlov hafði mikil áhrif á alla þróun sálfræðinnar. Það væri til dæmis erfitt að hugsa sér hinn volduga skóla atferlishyggjunnar (e. behaviourism) án Pavlovs.

Pavlov var kosinn í vísindaakademíu St. Pétursborgar 1907, vísindaakademíu Rússlands 1917, og í vísindaakademíu Sovétríkjanna 1925. Hann vann að rannsóknum sínum alveg til hinsta dags en hann lést árið 1936.

Heimildir og myndir:
  • Arnór Hannibalsson: „Áhrif kenninga I. P. Pavlovs á sovézka sálarfræði“, Andvari, 1963, bls. 108-118.
  • hrono.ru
  • П. А. Рудик: Психология, Москва, 1958. (P. A. Rúdík: Psychologia, Moskva, 1958).
  • С. Л. Рубинштейн: Бытие и сознание, Москва, 1957. (S. L. Rúbínstein: Tilvist og vitund, Moskva 1957.
  • Myndir: Ivan Pavlov á Wikipedia. Sóttar 23. 3. 2011.

Höfundur

prófessor emeritus í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

25.3.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Arnór Hannibalsson (1934-2012). „Hver var Ivan Pavlov og hvert var hans framlag til sálfræðinnar?“ Vísindavefurinn, 25. mars 2011, sótt 17. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58837.

Arnór Hannibalsson (1934-2012). (2011, 25. mars). Hver var Ivan Pavlov og hvert var hans framlag til sálfræðinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58837

Arnór Hannibalsson (1934-2012). „Hver var Ivan Pavlov og hvert var hans framlag til sálfræðinnar?“ Vísindavefurinn. 25. mar. 2011. Vefsíða. 17. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58837>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Ivan Pavlov og hvert var hans framlag til sálfræðinnar?
Ívan Petrovitsj Pavlov var fæddur í borginni Rjazanj árið 1849. Faðir hans var prestur í rétttrúnaðarkirkjunni, móðir hans var dóttir prests. Faðirinn hóf störf í fátækri sókn í útjaðri borgarinnar, en lauk ævinni sem höfuðprestur aðalkirkjunnar í Rjazanj. Á æskuárum sótti Pavlov nám í skóla sóknarinnar og hafði ætíð höfuðáhuga á náttúruvísindum. Árið 1870 fékk hann inngöngu í eðlisfræði- og stærðfræðideild háskólans í St. Pétursborg, en aðalgrein hans var líffræði. Áhugi hans beindist að þeim fræðum eftir að hann hafði lesið verk Sétsjenovs um viðbrögð heilans. Pavlov lauk námi árið 1875 og hélt þá til Breslau í Þýskalandi og starfaði þar nokkur ár. Þar hóf Pavlov að rannsaka lífeðlisfræði meltingar, og hélt þeim áfram í tuttugu ár. Hann sneri heim til Rússlands 1885. Hann kom á fót í St. Pétursborg Stofnun fyrir tilraunir í læknisfræði, jafnframt því sem hann stóð fyrir þeirri deild læknaskóla hersins sem fékkst við lífeðlisfræði (1895-1925).

Fyrstu rannsóknir Pavlovs beindust að blóðrásinni. Athygli hans beindist að sambandi taugakerfis og hjartans, og hann sýndi fram á þátt tauga í næringarstarfsemi þess.

Þegar Pavlov rannsakaði meltingarveginn, komst hann að raun um það, að rannsaka þyrfti einstaka hluta hans – munnvatnskirtla, skeifugarnarkirtla, maga, bris og lifur – virkni hvers og eins og kerfisins í heild. Hann sannfærðist um það, að til þess að ná marktækum árangri yrði að rannsaka þessi ferli í heilbrigðum, lifandi dýrum. Hann notaði lifandi hunda í þessu skyni og fann ráð til að ná frá þeim hreinum meltingarsafa. Hann gerði á þeim aðgerðir í þessu skyni, en hundarnir héldu áfram að lifa góðu lífi og náðu háum aldri. En með þessu gat Pavlov gert athuganir og tilraunir sem náðu yfir langt tímabil. Einnig var mikilvægt að einangra dýrin, svo að hægt væri að stýra utanaðkomandi áreitum. Fyrir þessar rannsóknir fékk hann Nóbelsverðlaunin 1904.

Pavlov sá fljótt, að meltingarferlið er ekki lokað. Ýmis taugaboð að utan hafa áhrif á starfsemi meltingarfæranna. Hann tók eftir því, að hundarnir tóku að gefa frá sér munnvatn, ekki aðeins þegar þeir fengu mat í munninn, (það heitir skilyrðislaust viðbragð), heldur og einnig, þegar þeir heyrðu fótatak fóðrunarmeistarans, sem bar þeim mat. Fótatakið er þannig farið að tákna fyrir hundinn: Matur á leiðinni (skilyrt viðbragð). En nú fór Pavlov að rannsaka það nánar. Grunnurinn er fólginn í því, að líffæri bregst við ytra áreiti. Það er skilyrðislaust viðbragð. Taugaboð berst frá munnvatnskirtli til heila. Síðan berst boð til baka: Taka til starfa. Í heilaberkinum myndast tengsl milli tveggja viðbragða, hins skilyrðislausa og hins skilyrta. Hér er kominn grunnurinn að því að skilja samband lífveru við umhverfið.

Áreiti geta verið af öllu hugsanlegu tagi; ljós og myrkur, hljóð, lykt, hiti og kuldi og svo framvegis. Nú myndast skilyrt viðbragð við ljós, og þá má klingja bjöllu á undan ljósinu. Þá myndast keðja viðbragða; ljós, hljóð, og síðan fær tilraunadýrið mat sinn. Þannig myndast í sífellu ný og flókin kerfi viðbragða.



Einn af hundum Pavlovs, uppstoppaður á safni í borginni Rjazanj. Búnaðurinn á kjálka hundsins var til þess ætlaður að safna munnvatni.

En viðbrögð slokkna, hverfa, deyja út. Pavlov kallaði það hömlun. Enn fremur er óhjákvæmilegt, að lífvera bregst ekki við öllu því í umhverfinu, sem gæti verkað sem áreiti. Lífveran velur úr. En með þeim hugtökum, sem hér hafa verið nefnd, smíðaði Pavlov kenningu um starf heilans sem gagnkvæm tengsl viðbragða og hömlunar.

Lífverur taka við óendanlega fjölbreytilegum áreitum úr nánasta umhverfi. Þetta kallaði Pavlov fyrra merkjakerfið, og það er sameiginlegt mönnum og dýrum. En maðurinn hefur til að bera flóknara og merkingarbærara merkjakerfi. Pavlov kallaði það seinna merkjakerfið. Það hefur orðið til hjá mönnum í rás þróunar tegundarinnar og skilur menn frá dýrum. Seinna merkjakerfið er grunnur málhæfis manna: Hæfileikans til að tjá fjölbreytilegar tilfinningar og hugsanir í táknum máls og mynda.

Pavlov reit:
Skynreyndir okkar og skynheildir vísa til heimsins umhverfis okkur. Þær eru hið fyrra merkjakerfi veruleikans, hlutstæð merki, en tungumálið og fyrst og fremst hreyfiáreiti, sem renna til heilabarkarins frá talfærunum, þau eru merki merkjanna, hið annað merkjakerfi.

Heilinn annast flókið starf greiningar og samantektar, aðskilnaðar og alhæfingar áreita. Á þessum grunni er hægt að reisa kenningar bæði um starf taugakerfisins og um sálarlíf manna, svo og um tengsl manns við náttúru og umhverfi. Þannig hugðist Pavlov skilgreina endanlega það sem bindur hið huglæga (e. subject) og hið hlutlæga (e. object), hið sálræna og hið lífeðlisfræðilega.

Pavlov reisti hús yfir rannsóknir sínar ekki allfjarri St. Pétursborg, þar sem heitir Koltushi. Þar var í miðjunni Þagnarturninn, sem hýsti hunda þá, sem notaðir voru við tilraunir. Það var sovétstjórnin, að fyrirskipan Leníns, sem gerði þetta mögulegt. Pavlov leit með velvild á febrúarbyltinguna 1917, en var ákaflega andsnúinn valdráni bolsévika. Hann lenti og í hremmingum eins og svo margir aðrir á þessum árum, þar var hungursneyð og allsherjarskortur. Árið 1920 bað Pavlov sovétstjórnina leyfis til að flytjast til útlanda, enda hafði honum borist álitleg tilboð frá Stokkhólmi og frá Bretlandi. En hann hætti við að fara í útlegð, þegar Lenín skipaði svo fyrir 1921 að Pavlov skyldi fá allt sem hann þyrfti til rannsókna, kol til að kynda húsið. Enginn hefur getað skýrt, hví Lenín fór þannig með Pavlov, samtímis því að verið var að reka rjóma menntamannastéttar Rússlands ýmist í útlegð eða dauðann. Verið getur að skýringarinnar sé að leita í því, að Lenín hafi haldið að kenning Pavlovs skyti náttúruvísindalegum stoðum undir heimspekikenningu hans sjálfs. En Pavlov leyndi aldrei neikvæðri afstöðu sinni til sovétstjórnarinnar. Á þriðja og fjórða áratug 20. aldar ritaði hann sovéskum yfirvöldum mörg bréf til að mótmæla ofbeldi og gerræði þeirra, svo og bælingu frjálsrar hugsunar.

Pavlov hafði mikil áhrif á alla þróun sálfræðinnar. Það væri til dæmis erfitt að hugsa sér hinn volduga skóla atferlishyggjunnar (e. behaviourism) án Pavlovs.

Pavlov var kosinn í vísindaakademíu St. Pétursborgar 1907, vísindaakademíu Rússlands 1917, og í vísindaakademíu Sovétríkjanna 1925. Hann vann að rannsóknum sínum alveg til hinsta dags en hann lést árið 1936.

Heimildir og myndir:
  • Arnór Hannibalsson: „Áhrif kenninga I. P. Pavlovs á sovézka sálarfræði“, Andvari, 1963, bls. 108-118.
  • hrono.ru
  • П. А. Рудик: Психология, Москва, 1958. (P. A. Rúdík: Psychologia, Moskva, 1958).
  • С. Л. Рубинштейн: Бытие и сознание, Москва, 1957. (S. L. Rúbínstein: Tilvist og vitund, Moskva 1957.
  • Myndir: Ivan Pavlov á Wikipedia. Sóttar 23. 3. 2011.
...