Sólin Sólin Rís 11:15 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:33 • Síðdegis: 23:44 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:15 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:33 • Síðdegis: 23:44 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er rétttrúnaðarkirkja?

Þórhallur Heimisson

Leiðtogar kirkjunnar á fyrstu öldum kristninnar kölluðust patríarkar sem þýðir í raun eins konar æðstu biskupar. Sat einn í Róm, annar í Jerúsalem, sá þriðji í Antíokkíu og hinn fjórði í Konstantínópel þar sem nú heitir Ístanbúl. Stjórnaði hver sínu svæði Rómaveldis og þar með kirkjunnar.

Patríarkinn í Róm nefndi sig eftirmann Péturs postula, sem Jesús hafði gefið umboð til að stjórna kirkjunni samkvæmt Matteusarguðspjalli. Taldi hann því og telur sig starfa sem umboðsmann Krists á jörðu öðrum fremur. Því var hann kallaður fremstur meðal jafningja, enda naut hann stuðnings keisaranna í Róm. Í dag kallast hann páfi og er yfirmaður rómversk-kaþólsku kirkjunnar.



Hagia Sophia var dómkirkjan í Konstantínópel og þar með aðsetur patríarkans á árum 360-1453, moska á árunum 1453-1934, en safn frá 1935.

Eftir að Rómaveldi klofnaði í Vestrómverska ríkið og Býsansríkið eða Austrómverska ríkið, breikkaði bilið milli patríarkanna í Róm og Konstantínópel, en Konstantínópel var höfuðborg Austrómverska ríkisins. Fylgdu þeir sitt hvorum keisaranum og töldu sig óháða hvorir öðrum. Svo fór að kirkjan klofnaði á 11. öld í rómversk-kaþólsku og grísk-kaþólsku eða orþodox kirkjuna. Orþodox þýðir hin hreina, sú sem varðveitir hina réttu kenningu. Þaðan er dregið nafnið rétttrúnaðarkirkjan.

Klofning kirkjunnar má kannski fyrst og fremst rekja til þess að patríarkinn í Konstantínópel vildi ekki lúta patríarkanum í Róm, páfanum, og öfugt. Einnig deildu menn í austri og vestri um guðfræðileg atriði, þó þau kunni ekki að þykja stórvægileg nú. Kjarni þeirra var skilningurinn á þrenningu Guðs. Báðar kirkjudeildir játa að Guð sé einn og að hann birtist sem þrenning, faðir, sonur og andi. Rómversk-kaþólskir segja að faðirinn og sonurinn hafi sent andann í heiminn eftir upprisu Jesú. Því fylgja lútersku kirkjurnar. Rétttrúnaðarkirkjan segir að einungis faðirinn hefði sent soninn og andann.

Fleira greinir kirkjurnar að. Rétttrúnaðarkirkjan hefur fleiri sakramenti en sú rómverska og aðrar vestrænar kirkjur. Rétttrúnaðarkirkjan fylgir líka eldra tímatali og heldur því jól 6. janúar, sem reyndar er elsta fæðingarhátíð kristninnar.

Rétttrúnaðarkirkjan leggur mikla áherslu á dulúð, messan er með allt öðru sniði en gerist í vestrænum kirkjum, upplifun og tilfinning skipta meira máli en kenningar. Því skipa íkonar eða helgimyndir veglegan sess í rétttrúnaðarkirkjunni. Þær eru töluvert notaðar í tilbeiðslu og yfir þeim hvílir mikil helgi. Íkoninn hér til hægri, Guðsmóðirin frá Vladimir, er frá 12. öld og einn virtasti íkoninn í Rússlandi.

Gríska, serbneska, rúmenska og rússneska kirkjan eru þekktustu deildir rétttrúnaðarkirkjunnar, en hún hefur vígi sitt um alla Austur-Evrópu og er einnig fjölmenn í Bandaríkjunum. Enginn einn yfirmaður er yfir rétttrúnaðarkirkjunni, hvert land hefur sinn patríarka, en patríarkinn í Ístanbúl (Konstantínópel) er talinn fremstur meðal jafningja.

Nokkur hundruð manna eru í Rétttrúnaðarkirkjunni hér á landi og eru tvö trúfélög starfrækt á hennar vegum. Annað kallast Söfnuður Moskvu-patríarkatsins í Reykjavík, hinn heitir Serbneska rétttrúnaðarkirkjan - fæðing heilagrar guðsmóður.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Myndir:

Hér er einnig svarað spurningunum:

  • Hvað getið þið sagt mér um grísku rétttrúnaðarkirkjuna?
  • Er rétttrúnaðarkirkja á Íslandi?
  • Hvað trúir fólkið í réttrúnaðarkirkjunni á?


Þetta svar er fengið af vefnum trú.is og birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

Höfundur

prestur við Hafnarfjarðarkirkju

Útgáfudagur

1.12.2010

Spyrjandi

Sólrún Rós Eiríksdóttir, Hanna Ragnarsdóttir, Siggerður Aðalsteinsdóttir, Rósa Jórunn Daníelsdóttir

Tilvísun

Þórhallur Heimisson. „Hvað er rétttrúnaðarkirkja?“ Vísindavefurinn, 1. desember 2010, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=29731.

Þórhallur Heimisson. (2010, 1. desember). Hvað er rétttrúnaðarkirkja? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=29731

Þórhallur Heimisson. „Hvað er rétttrúnaðarkirkja?“ Vísindavefurinn. 1. des. 2010. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=29731>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er rétttrúnaðarkirkja?
Leiðtogar kirkjunnar á fyrstu öldum kristninnar kölluðust patríarkar sem þýðir í raun eins konar æðstu biskupar. Sat einn í Róm, annar í Jerúsalem, sá þriðji í Antíokkíu og hinn fjórði í Konstantínópel þar sem nú heitir Ístanbúl. Stjórnaði hver sínu svæði Rómaveldis og þar með kirkjunnar.

Patríarkinn í Róm nefndi sig eftirmann Péturs postula, sem Jesús hafði gefið umboð til að stjórna kirkjunni samkvæmt Matteusarguðspjalli. Taldi hann því og telur sig starfa sem umboðsmann Krists á jörðu öðrum fremur. Því var hann kallaður fremstur meðal jafningja, enda naut hann stuðnings keisaranna í Róm. Í dag kallast hann páfi og er yfirmaður rómversk-kaþólsku kirkjunnar.



Hagia Sophia var dómkirkjan í Konstantínópel og þar með aðsetur patríarkans á árum 360-1453, moska á árunum 1453-1934, en safn frá 1935.

Eftir að Rómaveldi klofnaði í Vestrómverska ríkið og Býsansríkið eða Austrómverska ríkið, breikkaði bilið milli patríarkanna í Róm og Konstantínópel, en Konstantínópel var höfuðborg Austrómverska ríkisins. Fylgdu þeir sitt hvorum keisaranum og töldu sig óháða hvorir öðrum. Svo fór að kirkjan klofnaði á 11. öld í rómversk-kaþólsku og grísk-kaþólsku eða orþodox kirkjuna. Orþodox þýðir hin hreina, sú sem varðveitir hina réttu kenningu. Þaðan er dregið nafnið rétttrúnaðarkirkjan.

Klofning kirkjunnar má kannski fyrst og fremst rekja til þess að patríarkinn í Konstantínópel vildi ekki lúta patríarkanum í Róm, páfanum, og öfugt. Einnig deildu menn í austri og vestri um guðfræðileg atriði, þó þau kunni ekki að þykja stórvægileg nú. Kjarni þeirra var skilningurinn á þrenningu Guðs. Báðar kirkjudeildir játa að Guð sé einn og að hann birtist sem þrenning, faðir, sonur og andi. Rómversk-kaþólskir segja að faðirinn og sonurinn hafi sent andann í heiminn eftir upprisu Jesú. Því fylgja lútersku kirkjurnar. Rétttrúnaðarkirkjan segir að einungis faðirinn hefði sent soninn og andann.

Fleira greinir kirkjurnar að. Rétttrúnaðarkirkjan hefur fleiri sakramenti en sú rómverska og aðrar vestrænar kirkjur. Rétttrúnaðarkirkjan fylgir líka eldra tímatali og heldur því jól 6. janúar, sem reyndar er elsta fæðingarhátíð kristninnar.

Rétttrúnaðarkirkjan leggur mikla áherslu á dulúð, messan er með allt öðru sniði en gerist í vestrænum kirkjum, upplifun og tilfinning skipta meira máli en kenningar. Því skipa íkonar eða helgimyndir veglegan sess í rétttrúnaðarkirkjunni. Þær eru töluvert notaðar í tilbeiðslu og yfir þeim hvílir mikil helgi. Íkoninn hér til hægri, Guðsmóðirin frá Vladimir, er frá 12. öld og einn virtasti íkoninn í Rússlandi.

Gríska, serbneska, rúmenska og rússneska kirkjan eru þekktustu deildir rétttrúnaðarkirkjunnar, en hún hefur vígi sitt um alla Austur-Evrópu og er einnig fjölmenn í Bandaríkjunum. Enginn einn yfirmaður er yfir rétttrúnaðarkirkjunni, hvert land hefur sinn patríarka, en patríarkinn í Ístanbúl (Konstantínópel) er talinn fremstur meðal jafningja.

Nokkur hundruð manna eru í Rétttrúnaðarkirkjunni hér á landi og eru tvö trúfélög starfrækt á hennar vegum. Annað kallast Söfnuður Moskvu-patríarkatsins í Reykjavík, hinn heitir Serbneska rétttrúnaðarkirkjan - fæðing heilagrar guðsmóður.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Myndir:

Hér er einnig svarað spurningunum:

  • Hvað getið þið sagt mér um grísku rétttrúnaðarkirkjuna?
  • Er rétttrúnaðarkirkja á Íslandi?
  • Hvað trúir fólkið í réttrúnaðarkirkjunni á?


Þetta svar er fengið af vefnum trú.is og birt með góðfúslegu leyfi höfundar....