Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hver var Vladimir Lenín?

Skúli Sæland

Vladimir Lenín og arfleifð hans hafa ætíð verið umdeild. Hann var leiðtogi rússnesku byltingarinnar, stjórnmálaflokks bolsévíka og fyrsti leiðtogi Sovétríkjanna. Hann lagði grunninn að hugmyndafræði sem við hann er kennd og nefnist lenínismi. Lenín tókst með ómældum viljastyrk og trú á málstað byltingarinnar að vinna nýju stjórnkerfi brautargengi sem var gersamlega andsnúið vestrænum hagkerfum. Gagnrýnendur hans vísa hins vegar til andlýðræðislegra, einræðiskenndra og vægðarlausra stjórnarhátta hans og að með beitingu skoðanakúgunar og blóðugum hreinsunum hafi hann lagt grunninn að fyrsta alræðislögregluríki nútímans.

Bernskuár

Lenín, sem hét réttu nafni Vladimir Ilyich Ulyanov, fæddist 22. apríl árið 1870 í bænum Simbirsk í Rússlandi. Hann var þriðja barn af þeim fimm sem Ilya Nikolaevich Ulyanov (1831-1886) og Maria Alexandrovna Blank (1835-1916) komu upp. Þau voru þokkalega efnuð, þóttu frjálslynd og skírðu Vladimir til grísk-kaþólskrar trúar.



Vladimir Ulyanov nærri sautján ára aldri.

Árið 1887 var elsti bróðir hans, Alexander, hengdur eftir að hafa verið bendlaður við morðtilræði við keisarann. Eftir þetta gerðist hann róttækur og kynnti sér skrif róttæklinga á borð við Nikolai Chernyshevsky og Dmitri Pisarev. Þetta varð til þess að ári síðar var Vladimir, sem snemma hafði getið sér gott orð í námi á latínu og grísku, rekinn úr háskóla vegna mótmæla. Hann lærði þó sjálfstætt og öðlaðist rétt til að stunda lögmennsku árið 1891.

Byltingarmaðurinn

Eftir skamman starfsferil sem lögmaður tók hann að stunda vinstri áróður og nam marxisma, mikið til í St. Pétursborg. Þetta leiddi til þess að hann var fangelsaður í heilt ár 1895 þar til hann var sendur í refsivist til þorpsins Shushenskoye í Síberíu. Þar giftist hann Nadezhdu Krupskayu, sem átti eftir að standa með honum í gegnum þykkt og þunnt. Á meðan á refsivistinni stóð gaf hann út ritið Þróun kapítalisma í Rússlandi (e. The Development of Capitalism in Russia).

Að útlegðinni lokinni ferðaðist hann víða innan Rússlands og Evrópu og gaf út blöð og bækur er snertu byltingarmálefni á borð við tímaritið Iskra (Neistinn) ásamt Plekhanov, Trotsky og fleirum. Á þessum tíma tók hann upp byltingarnafnið Lenín, að því að talið er eftir ánni Lenu sem rann við Shushenskoye.

Lenín var virkur innan rússneska sósíaldemókrataflokksins (e. Russian Social Democratic Workers Party) en árið 1903 klofnaði flokkurinn í bolsévíka undir forystu Leníns og mensévíka undir forystu Julius Martovs. Bolsévíkar voru róttæklingar sem vildu hraða byltingu verkalýðsins í Rússlandi undir miðstýrðri stjórn þeirra á meðan mensévíkar vildu byggja upp opinn lýðræðislegan stjórnmálaflokk og gagnrýndu Lenín harkalega fyrir einræðistilburði. Margar tilraunir voru gerðar til að sameina sósíaldemókrata en Lenín kom ávallt í veg fyrir það með kröfum sínum um framvindu byltingar. Þetta breytti því þó ekki að á þessu tímabili jókst fylgi mensévíka stöðugt á meðan fylgi bolsévíka snarminnkaði.

Fram til ársins 1914 ferðaðist Lenín víða um Evrópu að mestu útlægur frá Rússlandi og hitti þá annan útlægan Rússa í París, Inessu Armand sem varð síðar hjákona hans. Þegar heimsstyrjöldin hófst árið 1914 kröfðust flestir leiðtogar rússneskra sósíalista friðarsamninga en Lenín, sem strandað hafði í Sviss, krafðist þess hins vegar að verkalýðurinn notaði vopn sín til þess að kollvarpa kapitalískum ríkisstjórnum sínum.

Októberbyltingin

Lenín sneri aftur heim til Rússlands þann 16. apríl 1917, eftir að Nikulási II keisara hafði verið steypt af stóli, til að leiða hreyfingu bolsévika í byltingunni með fjárstuðning þýskra yfirvalda. Eftir að hafa verið sakaður um að vera útsendari Þjóðverja flúði hann til Finnlands í júlí en sneri aftur í nóvember (október skv. þáverandi tímatali) til að stýra október byltingunni. Sú bylting var háð undir slagorðunum „allt vald til fulltrúaráðanna (r. soviets)“ en var þó ekki byggð á fjöldauppþotum heldur réðust byltingarmenn undir stjórn Leons Trotskys á mikilvægustu staði stjórnarinnar og þannig tókst bolsévíkum að ná völdum.

Bolsévíkar bönnuðu í kjölfarið alla stjórnmálaflokka og blöð þeirra, bönnuðu viðskipti og þjóðnýttu einkaeignir og banka. Lenín var þess viss að hægt væri að koma sósíalistísku hagkerfi á í Rússlandi þó svo að það þyrfti að beita til þess harkalegum aðgerðum. Andstæðingar hans andæfðu og vöruðu við því að slíkar aðferðir gætu leitt til einræðis.



Lenín á hátindi valda sinna. Hann var sagður svo heltekinn af hugsjóninni að hann hugsaði ekki um annað en byltingu hvort sem væri í svefni eða vöku.

Alvarlegasta viðfangsefnið sem Lenín og félagar stóðu frammi fyrir var hvað skyldi taka til bragðs í því ófriðarástandi sem ríkti vegna fyrri heimsstyrjaldar. Rússar höfðu barist við hlið Frakka og Breta gegn Þjóðverjum, Austurísk-Ungverska keisaradæminu og Tyrkjum en höfðu lent í miklum óförum. Þjóðverjar sóttu nú andspyrnulítið inn í Rússland og neyddust Rússar til að sætta sig við afarkosti í friðarsamningum við þá við borgina Brest-Litovsk árið 1917.

Í kjölfar samninganna varð mikil ólga innan Rússlands og töldu andstæðingar bolsévíka að þeir hefðu verið of dýru verði keyptir. Blossaði upp borgarastyrjöld þar sem hreyfingar bolsévíka, gjarnan nefndir rauðliðar, og andstæðingar þeirra, hvítliðar, börðust grimmilega næstu þrjú árin. Lauk stríðinu með sigri rauðliða og skipti hér nokkru pólitísk klókindi Leníns, herkænska Trotskys og að skipulag Rauða hersins og samvinna var töluvert betri en hvítliða sem voru sundurlausir hópar andstæðinga bolsévíka.

Mikil grimmdarverk voru framin af beggja hálfu og komu bolsévíkar á stofn illræmdri leynilögreglu, Cheka, sem leitaði uppi og tók af lífi pólitíska andstæðinga og aðra sem þeir álitu glæpamenn. Lenín og Trotsky vörðu beitingu rauða ógnvaldsins (e. Red Terror) eins og þeir nefndu grimmdarverk sem framin voru í nafni byltingarinnar og töldu það nauðsynlegan þátt hennar. Ekki er vitað hvað rauða ógnvaldið kostaði mörg mannslíf en nefndar hafa verið tölur allt frá 13.000 til meira en 140.000.

Á þessum miklu ógnartímum var Lenín sýnt banatilræði þann 30. ágúst 1918 sem sennilega átti þátt í dauða hans sex árum síðar.

Bolsévíkar breyttu nafni sósíaldemókrataflokksins í Rússneska kommúnistaflokkinn árið 1918 og ári síðar stofnaði Lenín Alþjóðasamband kommúnista til að breiða byltinguna út. Hann reyndi líka að breiða byltinguna út til Evrópu með hervaldi með því að gera innrás í Pólland árið 1919 en Rauði herinn beið þar afhroð og þær hugmyndir voru því lagðar á hilluna.

Eftir margra ára ófrið var efnahagur landsins í kaldakoli og sneri Lenín sér að því að reyna að endurbyggja hann árið 1921. Takmörkuð viðskipti voru leyfð, rauða ógnvaldinu var aflétt, blöð fengu aftur að koma út en hert var á aga og miðstýringu á meðal bolsévíka.

Veikindi og andlát

Ekki hafði þótt þorandi að fjarlægja byssukúlur úr líkama Leníns fyrst eftir banatilræðið við hann árið 1918 en talið er að staðsetning kúlu nærri mænunni hafi átt þátt í því að heilsu hans tók að hraka. Hann fékk heilablóðfall í maí árið 1922 sem lamaði hann hægra megin. Við það dró hann sig að miklu leyti út úr stjórnmálum en ritaði leiðbeiningar um framtíðarstjórn Sovétríkjanna sem eru frægastar fyrir harða gagnrýni á helstu arftaka hans, þá Leon Trotsky og Jósef Stalín. Lenín fékk aftur heilablóðfall í desember sama ár sem varð til þess að hann hætti allri stjórnmálaþátttöku. Hann varð algerlega rúmfastur eftir þriðja heilablóðfallið í mars 1923 og lést 10 mánuðum síðar, þann 21. janúar 1924, eftir enn eitt heilablóðfallið.

Skömmu eftir dauða Leníns komust sögusagnir á kreik um að banamein hans hefði verið af völdum sárasóttar (sýfilis). Vitað er að mörg sjúkdómseinkenna hans eiga við um sárasótt og að læknar hans gáfu honum líklega lyf allt frá 1895 sem notuð voru við sjúkdómnum. Þetta er þó enn umdeilt og sennilegasta skýringin er að banamein hans hafi verið af völdum heilablóðfalls sem byssukúlan hafi ýtt undir.

Eftir andlát Leníns var lík hans smurt og því komið fyrir til sýnis í grafhýsi í Moskvu. Jafnframt var Pétursborg nefnd Leníngrad í höfuðið á honum og hélst það nafn allt þar til Sovétríkin hrundu árið 1991 en þá fékk borgin aftur sitt fyrra nafn.

Töluverðar vangaveltur hafa verið uppi um hvert Lenín hefði leitt rússnesku þjóðina hefði hann haft heilsu til og vísa menn þá gjarnan til þeirrar mildunar á stefnu bolsévíka sem hann hafði beitt sér fyrir. Hvernig þróunin í Sovétríkjunum hefði orðið undir stjórn Leníns verður aldrei annað en getgátur en hitt er staðreynd að eftirmaður hans, Jósef Stalín, tók síðar upp margar af öfgafyllstu stefnum bolsévíka frá því fyrir 1921 svo sem ógnarstjórn og róttækni í efnahagsstjórn.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Hér var einnig svarað spurningunum:
  • Hver var Lenín og hvað gerði hann?
  • Hvaða ár fæddist Vladimir Lenin, fyrrverandi einræðisherra USSR?
  • Hvernig lést Lenín?
  • Hvað getið þið sagt mér um Lenín?
Aðrir spyrjendur eru: Sveinn Jóhannesson, Sævar Jóhannsson, Kjartan Benedikt, Rúnar Friðriksson og Bjarki Jónsson.

Höfundur

Skúli Sæland

sagnfræðingur

Útgáfudagur

2.6.2005

Spyrjandi

Valdimar Garðarsson

Tilvísun

Skúli Sæland. „Hver var Vladimir Lenín?“ Vísindavefurinn, 2. júní 2005. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5029.

Skúli Sæland. (2005, 2. júní). Hver var Vladimir Lenín? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5029

Skúli Sæland. „Hver var Vladimir Lenín?“ Vísindavefurinn. 2. jún. 2005. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5029>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Vladimir Lenín?
Vladimir Lenín og arfleifð hans hafa ætíð verið umdeild. Hann var leiðtogi rússnesku byltingarinnar, stjórnmálaflokks bolsévíka og fyrsti leiðtogi Sovétríkjanna. Hann lagði grunninn að hugmyndafræði sem við hann er kennd og nefnist lenínismi. Lenín tókst með ómældum viljastyrk og trú á málstað byltingarinnar að vinna nýju stjórnkerfi brautargengi sem var gersamlega andsnúið vestrænum hagkerfum. Gagnrýnendur hans vísa hins vegar til andlýðræðislegra, einræðiskenndra og vægðarlausra stjórnarhátta hans og að með beitingu skoðanakúgunar og blóðugum hreinsunum hafi hann lagt grunninn að fyrsta alræðislögregluríki nútímans.

Bernskuár

Lenín, sem hét réttu nafni Vladimir Ilyich Ulyanov, fæddist 22. apríl árið 1870 í bænum Simbirsk í Rússlandi. Hann var þriðja barn af þeim fimm sem Ilya Nikolaevich Ulyanov (1831-1886) og Maria Alexandrovna Blank (1835-1916) komu upp. Þau voru þokkalega efnuð, þóttu frjálslynd og skírðu Vladimir til grísk-kaþólskrar trúar.



Vladimir Ulyanov nærri sautján ára aldri.

Árið 1887 var elsti bróðir hans, Alexander, hengdur eftir að hafa verið bendlaður við morðtilræði við keisarann. Eftir þetta gerðist hann róttækur og kynnti sér skrif róttæklinga á borð við Nikolai Chernyshevsky og Dmitri Pisarev. Þetta varð til þess að ári síðar var Vladimir, sem snemma hafði getið sér gott orð í námi á latínu og grísku, rekinn úr háskóla vegna mótmæla. Hann lærði þó sjálfstætt og öðlaðist rétt til að stunda lögmennsku árið 1891.

Byltingarmaðurinn

Eftir skamman starfsferil sem lögmaður tók hann að stunda vinstri áróður og nam marxisma, mikið til í St. Pétursborg. Þetta leiddi til þess að hann var fangelsaður í heilt ár 1895 þar til hann var sendur í refsivist til þorpsins Shushenskoye í Síberíu. Þar giftist hann Nadezhdu Krupskayu, sem átti eftir að standa með honum í gegnum þykkt og þunnt. Á meðan á refsivistinni stóð gaf hann út ritið Þróun kapítalisma í Rússlandi (e. The Development of Capitalism in Russia).

Að útlegðinni lokinni ferðaðist hann víða innan Rússlands og Evrópu og gaf út blöð og bækur er snertu byltingarmálefni á borð við tímaritið Iskra (Neistinn) ásamt Plekhanov, Trotsky og fleirum. Á þessum tíma tók hann upp byltingarnafnið Lenín, að því að talið er eftir ánni Lenu sem rann við Shushenskoye.

Lenín var virkur innan rússneska sósíaldemókrataflokksins (e. Russian Social Democratic Workers Party) en árið 1903 klofnaði flokkurinn í bolsévíka undir forystu Leníns og mensévíka undir forystu Julius Martovs. Bolsévíkar voru róttæklingar sem vildu hraða byltingu verkalýðsins í Rússlandi undir miðstýrðri stjórn þeirra á meðan mensévíkar vildu byggja upp opinn lýðræðislegan stjórnmálaflokk og gagnrýndu Lenín harkalega fyrir einræðistilburði. Margar tilraunir voru gerðar til að sameina sósíaldemókrata en Lenín kom ávallt í veg fyrir það með kröfum sínum um framvindu byltingar. Þetta breytti því þó ekki að á þessu tímabili jókst fylgi mensévíka stöðugt á meðan fylgi bolsévíka snarminnkaði.

Fram til ársins 1914 ferðaðist Lenín víða um Evrópu að mestu útlægur frá Rússlandi og hitti þá annan útlægan Rússa í París, Inessu Armand sem varð síðar hjákona hans. Þegar heimsstyrjöldin hófst árið 1914 kröfðust flestir leiðtogar rússneskra sósíalista friðarsamninga en Lenín, sem strandað hafði í Sviss, krafðist þess hins vegar að verkalýðurinn notaði vopn sín til þess að kollvarpa kapitalískum ríkisstjórnum sínum.

Októberbyltingin

Lenín sneri aftur heim til Rússlands þann 16. apríl 1917, eftir að Nikulási II keisara hafði verið steypt af stóli, til að leiða hreyfingu bolsévika í byltingunni með fjárstuðning þýskra yfirvalda. Eftir að hafa verið sakaður um að vera útsendari Þjóðverja flúði hann til Finnlands í júlí en sneri aftur í nóvember (október skv. þáverandi tímatali) til að stýra október byltingunni. Sú bylting var háð undir slagorðunum „allt vald til fulltrúaráðanna (r. soviets)“ en var þó ekki byggð á fjöldauppþotum heldur réðust byltingarmenn undir stjórn Leons Trotskys á mikilvægustu staði stjórnarinnar og þannig tókst bolsévíkum að ná völdum.

Bolsévíkar bönnuðu í kjölfarið alla stjórnmálaflokka og blöð þeirra, bönnuðu viðskipti og þjóðnýttu einkaeignir og banka. Lenín var þess viss að hægt væri að koma sósíalistísku hagkerfi á í Rússlandi þó svo að það þyrfti að beita til þess harkalegum aðgerðum. Andstæðingar hans andæfðu og vöruðu við því að slíkar aðferðir gætu leitt til einræðis.



Lenín á hátindi valda sinna. Hann var sagður svo heltekinn af hugsjóninni að hann hugsaði ekki um annað en byltingu hvort sem væri í svefni eða vöku.

Alvarlegasta viðfangsefnið sem Lenín og félagar stóðu frammi fyrir var hvað skyldi taka til bragðs í því ófriðarástandi sem ríkti vegna fyrri heimsstyrjaldar. Rússar höfðu barist við hlið Frakka og Breta gegn Þjóðverjum, Austurísk-Ungverska keisaradæminu og Tyrkjum en höfðu lent í miklum óförum. Þjóðverjar sóttu nú andspyrnulítið inn í Rússland og neyddust Rússar til að sætta sig við afarkosti í friðarsamningum við þá við borgina Brest-Litovsk árið 1917.

Í kjölfar samninganna varð mikil ólga innan Rússlands og töldu andstæðingar bolsévíka að þeir hefðu verið of dýru verði keyptir. Blossaði upp borgarastyrjöld þar sem hreyfingar bolsévíka, gjarnan nefndir rauðliðar, og andstæðingar þeirra, hvítliðar, börðust grimmilega næstu þrjú árin. Lauk stríðinu með sigri rauðliða og skipti hér nokkru pólitísk klókindi Leníns, herkænska Trotskys og að skipulag Rauða hersins og samvinna var töluvert betri en hvítliða sem voru sundurlausir hópar andstæðinga bolsévíka.

Mikil grimmdarverk voru framin af beggja hálfu og komu bolsévíkar á stofn illræmdri leynilögreglu, Cheka, sem leitaði uppi og tók af lífi pólitíska andstæðinga og aðra sem þeir álitu glæpamenn. Lenín og Trotsky vörðu beitingu rauða ógnvaldsins (e. Red Terror) eins og þeir nefndu grimmdarverk sem framin voru í nafni byltingarinnar og töldu það nauðsynlegan þátt hennar. Ekki er vitað hvað rauða ógnvaldið kostaði mörg mannslíf en nefndar hafa verið tölur allt frá 13.000 til meira en 140.000.

Á þessum miklu ógnartímum var Lenín sýnt banatilræði þann 30. ágúst 1918 sem sennilega átti þátt í dauða hans sex árum síðar.

Bolsévíkar breyttu nafni sósíaldemókrataflokksins í Rússneska kommúnistaflokkinn árið 1918 og ári síðar stofnaði Lenín Alþjóðasamband kommúnista til að breiða byltinguna út. Hann reyndi líka að breiða byltinguna út til Evrópu með hervaldi með því að gera innrás í Pólland árið 1919 en Rauði herinn beið þar afhroð og þær hugmyndir voru því lagðar á hilluna.

Eftir margra ára ófrið var efnahagur landsins í kaldakoli og sneri Lenín sér að því að reyna að endurbyggja hann árið 1921. Takmörkuð viðskipti voru leyfð, rauða ógnvaldinu var aflétt, blöð fengu aftur að koma út en hert var á aga og miðstýringu á meðal bolsévíka.

Veikindi og andlát

Ekki hafði þótt þorandi að fjarlægja byssukúlur úr líkama Leníns fyrst eftir banatilræðið við hann árið 1918 en talið er að staðsetning kúlu nærri mænunni hafi átt þátt í því að heilsu hans tók að hraka. Hann fékk heilablóðfall í maí árið 1922 sem lamaði hann hægra megin. Við það dró hann sig að miklu leyti út úr stjórnmálum en ritaði leiðbeiningar um framtíðarstjórn Sovétríkjanna sem eru frægastar fyrir harða gagnrýni á helstu arftaka hans, þá Leon Trotsky og Jósef Stalín. Lenín fékk aftur heilablóðfall í desember sama ár sem varð til þess að hann hætti allri stjórnmálaþátttöku. Hann varð algerlega rúmfastur eftir þriðja heilablóðfallið í mars 1923 og lést 10 mánuðum síðar, þann 21. janúar 1924, eftir enn eitt heilablóðfallið.

Skömmu eftir dauða Leníns komust sögusagnir á kreik um að banamein hans hefði verið af völdum sárasóttar (sýfilis). Vitað er að mörg sjúkdómseinkenna hans eiga við um sárasótt og að læknar hans gáfu honum líklega lyf allt frá 1895 sem notuð voru við sjúkdómnum. Þetta er þó enn umdeilt og sennilegasta skýringin er að banamein hans hafi verið af völdum heilablóðfalls sem byssukúlan hafi ýtt undir.

Eftir andlát Leníns var lík hans smurt og því komið fyrir til sýnis í grafhýsi í Moskvu. Jafnframt var Pétursborg nefnd Leníngrad í höfuðið á honum og hélst það nafn allt þar til Sovétríkin hrundu árið 1991 en þá fékk borgin aftur sitt fyrra nafn.

Töluverðar vangaveltur hafa verið uppi um hvert Lenín hefði leitt rússnesku þjóðina hefði hann haft heilsu til og vísa menn þá gjarnan til þeirrar mildunar á stefnu bolsévíka sem hann hafði beitt sér fyrir. Hvernig þróunin í Sovétríkjunum hefði orðið undir stjórn Leníns verður aldrei annað en getgátur en hitt er staðreynd að eftirmaður hans, Jósef Stalín, tók síðar upp margar af öfgafyllstu stefnum bolsévíka frá því fyrir 1921 svo sem ógnarstjórn og róttækni í efnahagsstjórn.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Hér var einnig svarað spurningunum:
  • Hver var Lenín og hvað gerði hann?
  • Hvaða ár fæddist Vladimir Lenin, fyrrverandi einræðisherra USSR?
  • Hvernig lést Lenín?
  • Hvað getið þið sagt mér um Lenín?
Aðrir spyrjendur eru: Sveinn Jóhannesson, Sævar Jóhannsson, Kjartan Benedikt, Rúnar Friðriksson og Bjarki Jónsson....