Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Orðið „sósíalismi" var fyrst notað árið 1827 og þá til að lýsa sameignarhugmyndum Englendingsins Roberts Owens. Orðið „kommúnismi" er eldra og hugmyndin um kommúnískt samfélag (þar sem einkaeignarétturinn er bannaður) mun fyrst koma fyrir í Ríki Platons (4. öld f.Kr.). Merking þessara tveggja hugtaka hefur verið nokkuð á reiki í gegnum tíðina. Stundum hafa þau verið notuð til að lýsa sama fyrirbærinu, en algengast er líklega líta svo á að hugtakið „sósíalismi" hafi víðari og almennari merkingu en „kommúnismi". Kommúnistar, segir máltilfinningin, eru róttækari en sósíalistar eins og sjá má af því til dæmis að sósíalistaflokkur varð til þegar hluti Alþýðuflokksins gekk til liðs við Kommúnistaflokk Íslands árið 1938.
Í marxískum fræðum er greinarmunurinn hins vegar ljós og vísar til mismunandi stiga í þeirri samfélagsþróun sem stefnt var að. Í riti Marx: Athugasemdir við Gotha-stefnuskránna, sem kom út árið 1875, talar hann um tvö stig kommúnísks samfélags. Hann talar um að strax eftir byltingu muni koma nokkurs konar aðlögunartímabil (alræði öreiganna) sem muni að nokkru líkjast fyrra skeiði (kapítalísku samfélagi). Síðara stigið er svo samfélag þar sem ríkisvaldið er orðið óþarft og einkaeignarétturinn hefur verið afnuminn. Á þessu síðara stigi, sagði hann, munu samskipti manna byggjast á þeirri grundvallarreglu að hver leggi af mörkum eftir getu og beri úr býtum eftir þörfum. Þessi stigskipting kemur svo fram í riti Leníns, Ríki og bylting, og hann kallar fyrra stigið „sósíalisma" og hið síðara „kommúnisma". Þetta er munurinn eins og marx-lenínistar skilja hann og í samræmi við þetta voru Sovétríkin kölluð sósíalísk, enda náði rússneska byltingin aldrei lokatakmarkinu - „kommúnisma."
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Ragnheiður Kristjánsdóttir. „Hver er munurinn á sósíalisma og kommúnisma?“ Vísindavefurinn, 4. ágúst 2000, sótt 12. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=730.
Ragnheiður Kristjánsdóttir. (2000, 4. ágúst). Hver er munurinn á sósíalisma og kommúnisma? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=730
Ragnheiður Kristjánsdóttir. „Hver er munurinn á sósíalisma og kommúnisma?“ Vísindavefurinn. 4. ágú. 2000. Vefsíða. 12. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=730>.