Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Georg Wilhelm Friedrich Hegel (1770-1831) má heita einn áhrifamesti og umdeildasti hugsuður allra tíma. Heimspeki hans var ætlað að gera kerfisbundna grein fyrir bókstaflega öllu í veruleikanum og framvindu hans. Hugsun Hegels stendur í rökréttu framhaldi af hinum gagnmerku kenningum Immanuels Kant og er ætlað að gera á þeim bragarbót. Meðal arftaka Hegels er Karl Marx án efa frægastur, en fjölmargir síðari tíma hugsuðir hafa fundið sig knúna til að taka afstöðu til kerfis Hegels, jákvæða eða neikvæða.
Hegel fæddist í Stuttgart árið 1770. Hann lagði stund á guðfræðinám í Tübingen og kynntist þar Friedrich Hölderlin (1770-1843) og Friedrich von Schelling (1775-1854). Sá fyrrnefndi átti eftir að verða einn mesti skáldjöfur Þjóðverja, en sá síðarnefndi varð nafnkunnur sem heimspekilegur hugsuður strax upp úr tvítugu. Hegel var ekki alveg jafn bráðger, en fyrir fertugt hafði hann þó sent frá sér sitt fyrsta stórvirki, Fyrirbærafræði andans (Phänomenologie des Geistes, 1807).
Georg Wilhelm Friedrich Hegel (1770-1831) má heita einn áhrifamesti og umdeildasti hugsuður allra tíma.
Á árunum 1808-1816 starfaði Hegel sem menntaskólarektor í Nürnberg og festi jafnframt ráð sitt. Hann eignaðist tvo syni með konu sinni, Maríu von Tucher, auk einnar dóttur sem ekki varð langra lífdaga auðið. Þar að auki eignaðist hann son utan hjónabands.
Árið 1816 varð Hegel prófessor við háskólann í Heidelberg og tveimur árum síðar flutti hann sig um set til Berlínar og tók við stöðu við háskólann sem Johann Gottlieb Fichte (1762-1814) hafði skilið eftir sig. Í nóvember 1831 smitaðist Hegel af kóleru og innan sólarhrings var hann allur.
Eins og áður sagði stendur heimspeki Hegels í órofa tengslum við þau miklu vatnaskil sem Immanuel Kant markaði í sögu heimspekinnar. Kant ætlaði sér að leggja traustan grunn að hvers kyns heimspekiiðkun með því að draga landamerki frumspekinnar í eitt skipti fyrir öll. En niðurstaðan varð ófullnægjandi, og sú hugsun sem Kant kom áleiðis til eftirmanna sinna var þjökuð af mótsögnum. Í raun var þar þó um eina mótsögn að ræða sem kenna má við skynsemi og þekkingu, frelsi og nauðhyggju, mannsanda og náttúru. Í hnotskurn fólst vandinn í því að heimur skynsemi, frelsis og mannsanda var, á forsendum Kants, ósamrýmanlegur við heim þekkingar, nauðhyggju og náttúru.
Arftakar Kants, einkum Fichte, Schelling og Hegel, glímdu við þennan vanda hver með sínum hætti. Í hugsun Hegels er fyrsta skrefið á vit lausnarinnar fólgið í því að benda á að samkvæmt forsendum Kants sjálfs fer hvers kyns heimspekileg viðureign við landamerki þekkingar og skynsemi sjálf fram innan vébanda skynseminnar en ekki þekkingarinnar. Samkvæmt skilgreiningu falla landamerkin utan sviðs mögulegrar reynslu, og þar af leiðandi er útilokað að tala um að hægt sé að öðlast réttnefnda þekkingu á þessum sömu landamerkjum og fullyrða eitthvað um þau. Sjálf kenning Kants reynist því, þegar upp er staðið, vera ekkert annað en uppfinning skynseminnar, afurð af starfsemi mannlegrar vitundar eða mannsandans. Frumspekin liggur eftir sem áður þekkingunni til grundvallar en verður ekki greind frá henni fyrir fullt og fast.
Hegel dregur nokkrar ályktanir af þessu skipbroti Kants. Í fyrsta lagi lætur hann drauminn um altækan grunn fyrir þekkinguna róa. Þess í stað heldur hann því fram að viðureign mannsandans við náttúruna verði ekki lýst utan frá, en aftur á móti megi hæglega „hugsa sig inn í“ framvindu hennar, stig af stigi. Fyrirbærafræði andans er einmitt lýsing á þessari viðureign og þeim myndum sem mannleg vitund tekur á sig meðan á henni stendur. Í öðru lagi, og í rökréttu framhaldi af fyrsta atriðinu, lítur Hegel svo á að saga mannkyns sé ekkert annað en þessi glíma mannsandans í heild sinni við náttúruna sem það óræða svið reynslunnar sem andinn er, svo að segja, fæddur til að skilja. Í þeirri skilningsleit er fólgið að hugurinn (sem einkennist af óslökkvandi skilningsþorsta og ókyrrð) nær smátt og smátt betri tökum á náttúrunni fyrir atbeina hugtaksins, sem er hið eina sanna tæki mannsandans. Og í þessari hugtekningu náttúrunnar felst jafnframt að mannsandanum verður staða sín innan náttúrunnar sífellt ljósari ásamt þeim innri orsakatengslum sem náttúran lýtur. Þannig sviptir andinn hulunni af sjálfum sér um leið og hann kynnist náttúrunni. Í þriðja lagi hélt Hegel því fram að sú uppgötvun sem felst í fyrri atriðunum tveimur – það er að segja í heimspeki Hegels sjálfs – marki óneitanlega mikil tímamót í sögu mannlegrar hugsunar og þar með í mannkynssögunni yfirleitt, því að mannsandinn hafi nú svipt hulunni af hlutverki sínu í heiminum, þeirri þindarlausu merkingarleit og framleiðslu sem hann er dæmdur til.
Þessir meginþættir hugsunar Hegels voru meira og minna fullmótaðir þegar Fyrirbærafræði andans kom út, og upp frá því vann hann við að beita hugsun sinni á margvísleg viðfangsefni og svið. Jafnframt einsetti hann sér að gera kerfisbundna grein fyrir hugsuninni sem slíkri, hugtökum hennar og starfsemi, og af því spratt rit hans Vísindaleg rökfræði (Wissenschaft der Logik) sem kom út 1812 en var í stöðugri endurskoðun hjá höfundi sínum allt fram í andlátið, enda kom þriðja og síðasta útgáfa verksins út 1832, árið eftir að hann lést. Alfræði heimspekilegra vísinda (Enzyklopädie der philosophischen Wissenschaften) leit dagsins ljós 1817 (og síðan aukin og endurbætt 1827 og 1830) og nær yfir breiðara svið en Rökfræðin, það er tekur ekki bara til hugsunarinnar út af fyrir sig heldur einnig til náttúrunnar og andans. Hegel hafði mikinn áhuga á stjórnmálum og samfélagsmálum og helgaði þeim efnum sérstakt rit, Meginlínur réttarheimspekinnar (Grundlinien der Philosophie des Rechts) sem kom út 1821. Í fyrirlestrum sínum við Berlínarháskóla á síðasta áratug ævi sinnar beindi Hegel síðan athyglinni að viðfangsefnum á borð við heimspeki sögunnar, sögu heimspekinnar, trúarbrögð og listir, og voru bollaleggingar hans um þessi efni gefin út eftir hans dag í ritstjórn dyggra lærisveina.
Arftakar Hegels skiptust annars fremur eindregið í tvær fylkingar, og voru þá annars vegar þeir sem vildu túlka meistarann bókstaflega og jafnframt á íhaldssaman hátt, og hins vegar þeir sem vildu finna leið til að andæfa arfleifðinni og jafnvel snúa hugsun hans á hvolf, ekki síst með róttækar samfélagsbreytingar í huga. Karl Marx varð nafnkunnastur þeirra síðarnefndu en danska heimspekinginn Søren Kierkegaard má einnig með nokkrum rökum telja í þeirra hópi.
Franski heimspekingurinn Michel Foucault lét eitt sinn eftirfarandi orð falla um Hegel:
[…] að sleppa í raun og veru undan Hegel merkir að átta sig nákvæmlega á hvað það kostar að losa sig frá honum; það merkir að vita upp að hvaða marki Hegel hafi, ef til vill bragðvíslega, nálgast okkur; það merkir að vita hvað er enn hegelskt í því sem gerir okkur kleift að hugsa gegn Hegel; og að mæla að hvaða leyti athlaup okkar gegn honum kann að vera enn eitt bragðið af hans hálfu, þar sem hann bíður okkar á endanum óbifanlegur og annars staðar.[1]
Hvað á Foucault við? Til dæmis þetta: hugsuður eins og Hegel, sem gerir sjálfa afneitun þess sem fyrir er að kjarna kenningar sinnar, og sníður hugtak sitt um mannsandann, eða mennska sjálfsveru, utan um þá iðju að andmæla storknuðum líkönum og hugsa alltaf lengra - slíkur hugsuður verður ekki hæglega kveðinn niður.
Tilvísun:
^ Michel Foucault, „Skipan orðræðunnar“, Gunnar Harðason þýddi, Spor í bókmenntafræði 20. aldar, ritstj. Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir, Reykjavík, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands 1991, s. 223.
Nokkrar vefsíður:
hegel.net/ - hefur meðal annars að geyma myndræna framsetningu á kerfi Hegels.
Björn Þorsteinsson. „Hver var Hegel og hvert var framlag hans til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn, 12. október 2011, sótt 11. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60902.
Björn Þorsteinsson. (2011, 12. október). Hver var Hegel og hvert var framlag hans til heimspekinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60902
Björn Þorsteinsson. „Hver var Hegel og hvert var framlag hans til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn. 12. okt. 2011. Vefsíða. 11. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60902>.