Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:29 • Síðdegis: 18:52 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:31 • Síðdegis: 12:34 í Reykjavík

Hvað er fyrirbærafræði?

Björn Þorsteinsson

Fyrirbærafræði (e. phenomenology, þ. Phänomenologie) er heimspekistefna sem kom fram á 20. öld og hefur haft ómæld áhrif á iðkun heimspekinnar. Kjarni fyrirbærafræðinnar er rannsókn á gerð mannlegrar vitundar eins og hún birtist frá sjónarhorni fyrstu persónu. Grundvallarformgerð vitundarinnar er í því fólgin að hún er ætlandi (e. intentional), það er að segja að vitundin beinist ætíð að einhverju viðfangi, athafnir vitundarinnar eru ætíð um eitthvað, reynsla hennar er ætíð reynsla af einhverju. Íslenska lýsingarorðið eða nafnorðið ætlandi vísar hér til þess hvernig mannleg vitundarvera beinir sjónum eða leiðir hugann að tilteknum hlut og ætlar að hluturinn sé til staðar og að hann sé lagaður á þennan eða hinn veginn, samanber orðalagið „ég ætla að þarna sé tré“.

Þessi skilgreining á fyrirbærafræði er rökleg; en til nánari skýringar á því hvað fyrirbærafræði er má líta á sögu hennar. Upphafsmaður nútíma fyrirbærafræði var þýski heimspekingurinn Edmund Husserl (1859-1938). Hann var þó ekki fyrstur til að tala um fyrirbærafræði – eftir því sem næst verður komist birtist orðið fyrst á prenti á 18. öld, í ritum þýskra heimspekinga, og hinn mikli brautryðjandi nútíma heimspekinnar, Immanuel Kant, notaði það í afmörkuðu samhengi. Arftaki Kants, G.W.F. Hegel (1770-1831), tók orðið einnig upp á sína arma eins og sjá má á titli stórvirkis hans frá 1807, Fyrirbærafræði andans. Það var þó ekki fyrr en með Husserl sem hugtakið fékk afmarkaða og skýra merkingu og var haft um fræðigrein sem ætlað var að leggja traustan grunn að hverskyns vísindum. Í stuttu máli var vandinn sem Husserl hugðist takast á við sem hér segir: Öll vísindi gera grein fyrir einhvers konar fyrirbærum sem við þekkjum úr reynslunni. En engin vísindi hafa hingað til tekið sjálfa reynsluna til vísindalegrar skoðunar. Með öðrum orðum hafa vísindin látið undir höfuð leggjast að beina kastljósi sínu að grunninum sem þau standa sjálf á. Ætlun Husserls var að berja í þennan brest.

Edmund Husserl (1859-1938) var upphafsmaður nútímafyrirbærafræði.

Husserl tók að móta hugmyndina um fyrirbærafræði um aldamótin 1900 og var enn að þegar hann lést 38 árum síðar. Í hnotskurn má segja að rannsóknir hans hafi snúist um eftirfarandi lykilatriði: (a) fyrirbæri, (b) sjónarhorn fyrstu persónu, (c) frestun og afturfærslu, (d) að skoða hlutina sjálfa, (e) lífheiminn. Hér á eftir verður gerð stutt grein fyrir þessum atriðum.

(a) Eins og nafnið gefur til kynna snýst fyrirbærafræðin um fyrirbæri. Með því orði er ekki sérstaklega átt við „óvenjuleg“ fyrirbæri eins og algeng notkun orðsins gefur eflaust í skyn. Öllu heldur er átt við hvaðeina sem borið getur fyrir mannlega vitund í reynslu hennar af heiminum. Fyrirbæri í þessum víða skilningi eru til dæmis fuglar, tré, annað fólk, náttúran, hvassviðri, þreyta, tölur, minningar, væntingar, draumar og jafnvel sjálfur dauðinn. Markmið Husserls er að gera skipulega grein fyrir því hvernig vitundin upplifir ólík fyrirbæri. Hver er til dæmis munurinn á ímyndun og væntingu? Hver er munurinn á rangminni og raunverulegri minningu?

(b) Bein afleiðing af áherslunni á fyrirbærin er sú að rannsóknin hlýtur að miðast við tiltekinn athuganda sem sér fyrirbærin frá sínu eigin sjónarhorni og er raunar bundinn því á tiltekinn hátt – það er sjónarhorni fyrstu persónunnar. Fyrirbærafræðin gagnrýnir vísindin fyrir að lýsa hlutunum alltaf frá sjónarhorni þriðju persónu, það er utan frá – en gá ekki að því að slík lýsing byggir ófrávíkjanlega á grunnreynslu tiltekinna einstaklinga af fyrirbærunum, með öðrum orðum reynslu sem á sér stað undir sjónarhorni fyrstu persónunnar. Fyrirbærafræðin einsetur sér að taka þessa grundvallarstaðreynd um mannlega reynslu til gaumgæfilegrar skoðunar og greiningar.

(c) Aðferð Husserls við þessa greiningu fólst í því að beita því sem hann kallaði frestun og afturfærslu. Frestun miðast við að nema tímabundið úr gildi allar þær fyrirframhugmyndir og forsendur sem móta hversdagslega reynslu okkar (iðulega án þess að við gefum þeim sérstakan gaum). Þannig er markmið frestunarinnar að gefa því sem birtist í reynslunni kost á að birtast eins og það er í allri sinni nekt, ef svo má segja, það er án þeirra hugtaka og venjubundnu skorða sem við þvingum upp á það hugsunarlaust. Þegar við sjáum til dæmis eftirprentun af Mónu Lísu, þá þekkjum við myndina umsvifalaust og leiðum iðulega ekki frekar hugann að henni. Fyrirbærafræðileg frestun gerir þá kröfu til okkar að við stöldrum við og reynum að ná hreinu og upprunalegu sambandi við myndina, það er að við leitumst við að sjá hana eins og hana hafi aldrei borið fyrir augu okkar áður. Á þennan hátt má sjá að frestun beinist sér í lagi að þætti vitundarinnar í reynslunni; en aðgerðin sem Husserl nefndi afturfærslu beinist hins vegar fyrst og fremst að þætti viðfangsins í reynslunni. Nánar tiltekið miðast afturfærslan við að svara spurningum um eðli einstakra tilbrigða reynslunnar, það er spurningum á borð við það hvað geri endurminningu að endurminningu, og þar með hvað greini endurminningu frá rangminni. Að því gefnu að til sé sérstök vitundarathöfn sem kalla mætti „listræna reynslu“, þá snýst afturfærslan um það, hvert sé eðli slíkrar reynslu, hvað það sé sem einkenni hana. Í rannsókn sinni á þeirri spurningu beitir fyrirbærafræðingurinn jafnan ímynduðum tilbrigðum, það er hann gerir sér í hugarlund reynslu af ólíkum viðföngum sem öll teljast listaverk – til dæmis Mónu Lísu, Móses eftir Michelangelo og Níundu sinfóníu Beethovens – og spyr: Hvað er það sem reynslan af þessum ólíku viðföngum á sameiginlegt?

Þegar við sjáum eftirprentun af Mónu Lísu, þá þekkjum við myndina umsvifalaust og leiðum iðulega ekki frekar hugann að henni.

(d) Strax í fyrstu verkum sínum lagði Husserl mikla áherslu á að hverfa til hlutanna sjálfra (þ. zu den Sachen selbst). Af lýsingunni á undanförnum þremur atriðum má leiða hvers vegna hann hélt þessu fram. Fyrirbærafræðin vill lýsa hlutunum eins og þeir birtast, fordóma- og vafningalaust. Husserl leit svo á að fyrri fræði hefðu ekki náð að losa sig úr viðjum fyrirframhugmyndanna og gera fullnægjandi grein fyrir því sem í reynd liggur fyrir. Husserl taldi að vísindin hefðu í æ ríkari mæli gerst sek um aðferðafræðilega einsleitni sem leiðir til þess að reynt er að þröngva fyrirbærunum inn í staðlaða ramma. Gegn þessari einsleitni tefldi Husserl fram mikilvægi þess að láta aðferðina ráðast af viðfangsefninu.

(e) Krafan um að hverfa aftur til hlutanna sjálfra birtist á síðari hluta ferils Husserls í aukinni áherslu á lífheiminn (þ. Lebenswelt). Eins og nafnið bendir til er lífheimurinn einfaldlega sá heimur sem við lifum og hrærumst í, sá hversdagslegi heimur sem við eigum, svo að segja, í stöðugu trúnaðarsambandi við. Að mati Husserls hneigjast vísindin til að gera lítið úr þessum heimi og telja hann á einhvern hátt ómerkilegri en hinn hreina heim vísindalegra sanninda. Gegn þessari smættarhyggju teflir Husserl, enn sem fyrr, fram nauðsyn þess að gera grein fyrir veruleikanum eins og hann sannarlega birtist raunverulegum, lifandi, mennskum vitundarverum.

Enda þótt Husserl hafi ekki tekist að fullmóta hugmynd sína um fyrirbærafræðina og leggja þann endanlega grunn að vísindunum sem hann sóttist eftir, hefur fyrirbærafræðin lifað góðu lífi eftir hans dag. Frægasti lærisveinn Husserls, Martin Heidegger (1889-1976), tók snemma við kyndlinum og þróaði raunar fyrirbærafræðina í átt sem Husserl var lítt sáttur við. Í Frakklandi spratt strax fyrir síðari heimsstyrjöld upp mikill skóli heimspekinga sem þáðu ríkulegan innblástur af fyrirbærafræðinni og má þar nefna, meðal annarra, Jean-Paul Sartre (1905-80), Emmanuel Lévinas (1906-95), Simone de Beauvoir (1908-86) og Maurice Merleau-Ponty (1908-61). Tvö þau síðastnefndu hafa átt miklu fylgi að fagna meðal fyrirbærafræðinga á síðustu árum, einkum vegna vandaðra og einkar frjórra rannsókna sinna á þætti líkamans í skynjun og reynslu. Ljóst er að fyrirbærafræðin á góða framtíð fyrir sér. Áhrifa hennar hefur lengi gætt á fjölmörgum sviðum hugvísinda, svo sem í listfræði og kynjafræði. Á síðari árum hefur hún til dæmis lagt hjúkrunarfræðum, taugavísindum og hugfræðum lið, enda hljóta fordómalausar grunnrannsóknir hennar á gerð mannlegrar vitundar að koma „hlutlægari“ vísindum að góðum notum – ef allt er með felldu.

Áhugaverðar vefsíður:

Heimildir:
  • Björn Þorsteinsson, „Vitund og viðfang: Ágrip af lykilhugtökum fyrirbærafræðinnar“, í Steinar Örn Atlason og Þórdís Helgadóttir (ritstj.), Veit efnið af andanum?, Reykjavík: Heimspekistofnun Háskóla Íslands 2009.
  • „Phenomenology“, Stanford Encyclopedia of Philosophy.
  • „What is Phenomenology?“, Center for Advanced Research in Phenomenology.
  • Zahavi, Dan, Fyrirbærafræði, Björn Þorsteinsson þýddi, Reykjavík: Heimspekistofnun Háskóla Íslands 2008.

Myndir:

Höfundur

Björn Þorsteinsson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

26.2.2008

Spyrjandi

Hlín Jóhannesdóttir
Kristrún Gunnarsdóttir
Áslaug Ármannsdóttir
Sindri Þórarinsson

Tilvísun

Björn Þorsteinsson. „Hvað er fyrirbærafræði?“ Vísindavefurinn, 26. febrúar 2008. Sótt 22. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=7104.

Björn Þorsteinsson. (2008, 26. febrúar). Hvað er fyrirbærafræði? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=7104

Björn Þorsteinsson. „Hvað er fyrirbærafræði?“ Vísindavefurinn. 26. feb. 2008. Vefsíða. 22. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=7104>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er fyrirbærafræði?
Fyrirbærafræði (e. phenomenology, þ. Phänomenologie) er heimspekistefna sem kom fram á 20. öld og hefur haft ómæld áhrif á iðkun heimspekinnar. Kjarni fyrirbærafræðinnar er rannsókn á gerð mannlegrar vitundar eins og hún birtist frá sjónarhorni fyrstu persónu. Grundvallarformgerð vitundarinnar er í því fólgin að hún er ætlandi (e. intentional), það er að segja að vitundin beinist ætíð að einhverju viðfangi, athafnir vitundarinnar eru ætíð um eitthvað, reynsla hennar er ætíð reynsla af einhverju. Íslenska lýsingarorðið eða nafnorðið ætlandi vísar hér til þess hvernig mannleg vitundarvera beinir sjónum eða leiðir hugann að tilteknum hlut og ætlar að hluturinn sé til staðar og að hann sé lagaður á þennan eða hinn veginn, samanber orðalagið „ég ætla að þarna sé tré“.

Þessi skilgreining á fyrirbærafræði er rökleg; en til nánari skýringar á því hvað fyrirbærafræði er má líta á sögu hennar. Upphafsmaður nútíma fyrirbærafræði var þýski heimspekingurinn Edmund Husserl (1859-1938). Hann var þó ekki fyrstur til að tala um fyrirbærafræði – eftir því sem næst verður komist birtist orðið fyrst á prenti á 18. öld, í ritum þýskra heimspekinga, og hinn mikli brautryðjandi nútíma heimspekinnar, Immanuel Kant, notaði það í afmörkuðu samhengi. Arftaki Kants, G.W.F. Hegel (1770-1831), tók orðið einnig upp á sína arma eins og sjá má á titli stórvirkis hans frá 1807, Fyrirbærafræði andans. Það var þó ekki fyrr en með Husserl sem hugtakið fékk afmarkaða og skýra merkingu og var haft um fræðigrein sem ætlað var að leggja traustan grunn að hverskyns vísindum. Í stuttu máli var vandinn sem Husserl hugðist takast á við sem hér segir: Öll vísindi gera grein fyrir einhvers konar fyrirbærum sem við þekkjum úr reynslunni. En engin vísindi hafa hingað til tekið sjálfa reynsluna til vísindalegrar skoðunar. Með öðrum orðum hafa vísindin látið undir höfuð leggjast að beina kastljósi sínu að grunninum sem þau standa sjálf á. Ætlun Husserls var að berja í þennan brest.

Edmund Husserl (1859-1938) var upphafsmaður nútímafyrirbærafræði.

Husserl tók að móta hugmyndina um fyrirbærafræði um aldamótin 1900 og var enn að þegar hann lést 38 árum síðar. Í hnotskurn má segja að rannsóknir hans hafi snúist um eftirfarandi lykilatriði: (a) fyrirbæri, (b) sjónarhorn fyrstu persónu, (c) frestun og afturfærslu, (d) að skoða hlutina sjálfa, (e) lífheiminn. Hér á eftir verður gerð stutt grein fyrir þessum atriðum.

(a) Eins og nafnið gefur til kynna snýst fyrirbærafræðin um fyrirbæri. Með því orði er ekki sérstaklega átt við „óvenjuleg“ fyrirbæri eins og algeng notkun orðsins gefur eflaust í skyn. Öllu heldur er átt við hvaðeina sem borið getur fyrir mannlega vitund í reynslu hennar af heiminum. Fyrirbæri í þessum víða skilningi eru til dæmis fuglar, tré, annað fólk, náttúran, hvassviðri, þreyta, tölur, minningar, væntingar, draumar og jafnvel sjálfur dauðinn. Markmið Husserls er að gera skipulega grein fyrir því hvernig vitundin upplifir ólík fyrirbæri. Hver er til dæmis munurinn á ímyndun og væntingu? Hver er munurinn á rangminni og raunverulegri minningu?

(b) Bein afleiðing af áherslunni á fyrirbærin er sú að rannsóknin hlýtur að miðast við tiltekinn athuganda sem sér fyrirbærin frá sínu eigin sjónarhorni og er raunar bundinn því á tiltekinn hátt – það er sjónarhorni fyrstu persónunnar. Fyrirbærafræðin gagnrýnir vísindin fyrir að lýsa hlutunum alltaf frá sjónarhorni þriðju persónu, það er utan frá – en gá ekki að því að slík lýsing byggir ófrávíkjanlega á grunnreynslu tiltekinna einstaklinga af fyrirbærunum, með öðrum orðum reynslu sem á sér stað undir sjónarhorni fyrstu persónunnar. Fyrirbærafræðin einsetur sér að taka þessa grundvallarstaðreynd um mannlega reynslu til gaumgæfilegrar skoðunar og greiningar.

(c) Aðferð Husserls við þessa greiningu fólst í því að beita því sem hann kallaði frestun og afturfærslu. Frestun miðast við að nema tímabundið úr gildi allar þær fyrirframhugmyndir og forsendur sem móta hversdagslega reynslu okkar (iðulega án þess að við gefum þeim sérstakan gaum). Þannig er markmið frestunarinnar að gefa því sem birtist í reynslunni kost á að birtast eins og það er í allri sinni nekt, ef svo má segja, það er án þeirra hugtaka og venjubundnu skorða sem við þvingum upp á það hugsunarlaust. Þegar við sjáum til dæmis eftirprentun af Mónu Lísu, þá þekkjum við myndina umsvifalaust og leiðum iðulega ekki frekar hugann að henni. Fyrirbærafræðileg frestun gerir þá kröfu til okkar að við stöldrum við og reynum að ná hreinu og upprunalegu sambandi við myndina, það er að við leitumst við að sjá hana eins og hana hafi aldrei borið fyrir augu okkar áður. Á þennan hátt má sjá að frestun beinist sér í lagi að þætti vitundarinnar í reynslunni; en aðgerðin sem Husserl nefndi afturfærslu beinist hins vegar fyrst og fremst að þætti viðfangsins í reynslunni. Nánar tiltekið miðast afturfærslan við að svara spurningum um eðli einstakra tilbrigða reynslunnar, það er spurningum á borð við það hvað geri endurminningu að endurminningu, og þar með hvað greini endurminningu frá rangminni. Að því gefnu að til sé sérstök vitundarathöfn sem kalla mætti „listræna reynslu“, þá snýst afturfærslan um það, hvert sé eðli slíkrar reynslu, hvað það sé sem einkenni hana. Í rannsókn sinni á þeirri spurningu beitir fyrirbærafræðingurinn jafnan ímynduðum tilbrigðum, það er hann gerir sér í hugarlund reynslu af ólíkum viðföngum sem öll teljast listaverk – til dæmis Mónu Lísu, Móses eftir Michelangelo og Níundu sinfóníu Beethovens – og spyr: Hvað er það sem reynslan af þessum ólíku viðföngum á sameiginlegt?

Þegar við sjáum eftirprentun af Mónu Lísu, þá þekkjum við myndina umsvifalaust og leiðum iðulega ekki frekar hugann að henni.

(d) Strax í fyrstu verkum sínum lagði Husserl mikla áherslu á að hverfa til hlutanna sjálfra (þ. zu den Sachen selbst). Af lýsingunni á undanförnum þremur atriðum má leiða hvers vegna hann hélt þessu fram. Fyrirbærafræðin vill lýsa hlutunum eins og þeir birtast, fordóma- og vafningalaust. Husserl leit svo á að fyrri fræði hefðu ekki náð að losa sig úr viðjum fyrirframhugmyndanna og gera fullnægjandi grein fyrir því sem í reynd liggur fyrir. Husserl taldi að vísindin hefðu í æ ríkari mæli gerst sek um aðferðafræðilega einsleitni sem leiðir til þess að reynt er að þröngva fyrirbærunum inn í staðlaða ramma. Gegn þessari einsleitni tefldi Husserl fram mikilvægi þess að láta aðferðina ráðast af viðfangsefninu.

(e) Krafan um að hverfa aftur til hlutanna sjálfra birtist á síðari hluta ferils Husserls í aukinni áherslu á lífheiminn (þ. Lebenswelt). Eins og nafnið bendir til er lífheimurinn einfaldlega sá heimur sem við lifum og hrærumst í, sá hversdagslegi heimur sem við eigum, svo að segja, í stöðugu trúnaðarsambandi við. Að mati Husserls hneigjast vísindin til að gera lítið úr þessum heimi og telja hann á einhvern hátt ómerkilegri en hinn hreina heim vísindalegra sanninda. Gegn þessari smættarhyggju teflir Husserl, enn sem fyrr, fram nauðsyn þess að gera grein fyrir veruleikanum eins og hann sannarlega birtist raunverulegum, lifandi, mennskum vitundarverum.

Enda þótt Husserl hafi ekki tekist að fullmóta hugmynd sína um fyrirbærafræðina og leggja þann endanlega grunn að vísindunum sem hann sóttist eftir, hefur fyrirbærafræðin lifað góðu lífi eftir hans dag. Frægasti lærisveinn Husserls, Martin Heidegger (1889-1976), tók snemma við kyndlinum og þróaði raunar fyrirbærafræðina í átt sem Husserl var lítt sáttur við. Í Frakklandi spratt strax fyrir síðari heimsstyrjöld upp mikill skóli heimspekinga sem þáðu ríkulegan innblástur af fyrirbærafræðinni og má þar nefna, meðal annarra, Jean-Paul Sartre (1905-80), Emmanuel Lévinas (1906-95), Simone de Beauvoir (1908-86) og Maurice Merleau-Ponty (1908-61). Tvö þau síðastnefndu hafa átt miklu fylgi að fagna meðal fyrirbærafræðinga á síðustu árum, einkum vegna vandaðra og einkar frjórra rannsókna sinna á þætti líkamans í skynjun og reynslu. Ljóst er að fyrirbærafræðin á góða framtíð fyrir sér. Áhrifa hennar hefur lengi gætt á fjölmörgum sviðum hugvísinda, svo sem í listfræði og kynjafræði. Á síðari árum hefur hún til dæmis lagt hjúkrunarfræðum, taugavísindum og hugfræðum lið, enda hljóta fordómalausar grunnrannsóknir hennar á gerð mannlegrar vitundar að koma „hlutlægari“ vísindum að góðum notum – ef allt er með felldu.

Áhugaverðar vefsíður:

Heimildir:
  • Björn Þorsteinsson, „Vitund og viðfang: Ágrip af lykilhugtökum fyrirbærafræðinnar“, í Steinar Örn Atlason og Þórdís Helgadóttir (ritstj.), Veit efnið af andanum?, Reykjavík: Heimspekistofnun Háskóla Íslands 2009.
  • „Phenomenology“, Stanford Encyclopedia of Philosophy.
  • „What is Phenomenology?“, Center for Advanced Research in Phenomenology.
  • Zahavi, Dan, Fyrirbærafræði, Björn Þorsteinsson þýddi, Reykjavík: Heimspekistofnun Háskóla Íslands 2008.

Myndir:...