Sólin Sólin Rís 10:47 • sest 15:46 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:25 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:26 • Síðdegis: 21:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:05 • Síðdegis: 15:48 í Reykjavík

Hver var Søren Kierkegaard og hvert var framlag hans til heimspekinnar?

Henry Alexander Henrysson og Kristian Guttesen

Þann 5. janúar 1813, nákvæmlega fjórum mánuðum áður en Søren Aabye Kierkegaard fæddist, varð allsherjarefnahagshrun í Danmörku. Einn fárra danskra kaupsýslumanna sem komst því sem næst klakklaust í gegnum fjárhagserfiðleikana sem fylgdu í kjölfarið var faðir hans, Michael Pedersen Kierkegaard (1756-1838). Hann var þá sestur í helgan stein en hafði skömmu fyrir hrun fjárfest stórum hluta auðæfa sinna í ríkisskuldabréfum sem reyndust einu bréfin sem ekki hrundu í verði þegar verðbólgan skall á. Af þeim sökum varð hann skyndilega einn af ríkustu mönnum Danaveldis. Michael var ákaflega trúrækinn maður og guðhræddur, og veitti hann börnum sínum strangt og þrúgandi uppeldi. Hann eignaðist sjö börn með síðari konu sinni, Ane Sørensdatter (1768-1834), en hún hafði áður verið þjónustustúlka í húsinu. Hann átti seinna eftir að trúa bræðrunum Søren og Peter Christian (1805-1888) fyrir nokkrum afdrifaríkum syndum sem hann taldi sig hafa drýgt um ævina: Að hafa eitt sinn lagt nafn guðs við hégóma sem ungur drengur, og að hafa syrgt fyrri konu sína í of skamman tíma áður en hann gekk að eiga móður þeirra. Fyrir þær sakir taldi hann að bölvun hvíldi á ættinni. Ef til vill yrði nú á dögum sagt að faðirinn hafi glímt við þunglyndi og ekki er fráleitt að ætla að hann hafi innrætt yngsta syni sínum hugarvíl.

Fræg er frásögn úr fórum Sørens frá því þegar hann dag nokkurn, ungur að árum, bað föður sinn um að fara með sig í göngutúr. Faðirinn tók vel í bónina en í stað þess að ganga með hann um götur Kaupmannahafnar leiddi hann snáðann fram og aftur um stofugólfin, spurði hann áhugasamur hvert hann vildi fara og lýsti í smáatriðum fyrir syninum öllu því sem þeim bæri fyrir sjónir á hinni ímynduðu göngu. Þannig ætla menn meðal annars að Søren litla hafi áskotnast hin mikla frásagnargáfa sem seinna nýttist honum við rit- og fræðistörf.

Sem námsmaður var Kierkegaard ákaflega leitandi einstaklingur, eins og sjá má á dagbókarfærslu frá 1. ágúst 1835:
Það sem mig skortir í raun og veru er að fá það á hreint með sjálfum mér hvað ég á að gera, ekki hvað ég á að skilja, burtséð frá því að skilningur verður að koma á undan sérhverri athöfn. Það veltur á að skilja ákvörðun mína, að sjá hvað guðdómurinn vill í raun og veru að ég eigi að gera; það veltur á að finna sannleika, sem er sannleikur fyrir mig, að finna þá hugmynd sem ég er tilbúinn að lifa og deyja fyrir (Kierkegaard, 2000: 24).
Fyrir íslenska lesendur er fróðlegt að sjá að í dagbókum sínum sakar Kierkegaard þjóðskáldið Grím Thomsen (1820-1896) um ritstuld og guðfræðinginn Magnús Eiríksson (1806-1881) um afbökun á hugmyndum sínum. Reyndar ber að geta þess að Kierkegaard á hafa verið meinilla við að aðrir fræðimenn sæktu í kenningar sínar. Sjálfur var hann vandvirkur en sérvitur fræðimaður. Þegar hann árið 1840 lagði fram magister ritgerð sína Um hugtakið íróníu með samfelldri hliðsjón af Sókratesi (útg. 1841) hafði hann fengið undanþágu til að skila henni af sér á dönsku, en það er bæði óvenjulegt samkvæmt því sem venja var við Kaupmannahafnarháskóla og með tilliti til þess að hann var raunar mikill latínumaður.

Ekki verður sagt að ástarlíf Kierkegaards hafi verið margbrotið. Konan í lífi hans var Regine Olsen (1822-1904). Þau kynntust þegar hún var aðeins 15 ára og hann tuttugu og fjögurra. Þrátt fyrir að hún hafi þremur árum síðar fellt hug til húskennara síns, Johan Frederik Schlegel (1817-1896), sem hún átti síðar eftir að giftast, lagði Kierkegaard allt kapp á að gera hosur sínar grænar fyrir henni, sem einnig fólst í að heilla fjölskyldu hennar, og trúlofuðust þau haustið 1840. Skemmst er frá því að segja að strax eftir trúlofunina snerist honum hugur þar eð hann taldi sig ekki geta boðið stúlkunni upp á samlíf með jafn melankólískum manni og hann var. Í þá daga voru sambandsslit fátíð, og þó að Regine streittist gegn þeim beitti Kierkegaard sér af hörku til að slíta trúlofuninni. Þannig má jafnvel segja að Kierkegaard hafi reynt á eigin skinni ákveðna þversögn sem síðar verður leiðandi stef í tilvistarspeki hans: að standa frammi fyrir því að þurfa að gera eitthvað sem maður getur ekki gert, en gera það samt. Og má segja að hann hafi horft til Regine með eftirsjá og í einum skilningi syrgt hana allt sitt líf, því af eftirlátnum skrifum hans að dæma hætti hann aldrei að elska hana. Kierkegaard lést 11. nóvember 1855.

En hvert var þá framlag Kierkegaards til vísindanna? Hann var augljóslega ekki hefðbundinn vísindamaður og raunar gerði hann sem minnst úr þeirri byltingarkenndu heimsmynd sem hafði komið fram á sautjándu og átjándu öld. Það voru þó ekki eingöngu náttúruvísindi, markmið þeirra og gildi, sem voru skotspónn hans. Viðhorf hans til heimspekinnar er svipað; sérstaklega þegar hún er bundin í kerfi sem á að ná utan um allt í heiminum, þar með talið einstaklinga og líf þeirra. Guðfræði fékk einnig vænan skammt af efasemdum hans. Á öllum þessum sviðum voru rök hans svipuð. Markmið andlegs starfs er ekki að sanna eitt né neitt heldur að leita sannleika sem á sér ekki stað í tíma og rúmi. Samkvæmt honum er jafn gagnslaust að sanna að guð sé til og að sanna að einhver frásögn ritningarinnar sé sönn þegar kemur að því að útskýra trúna. Fólk á að leita annars konar skilnings.

Kierkegaard á kaffihúsi. Mynd eftir Christian Olavius frá 1843.

Kierkegaard lagði sem sagt allt annan skilning á trúna heldur en hefðbundnir guðstrúarmenn. Grundvallaratriðið var að trú hefur ekkert með vissu að gera. Hún er alltaf áhætta. Heimspeki Kierkegaards snýst um að útskýra mikilvægi þessarar áhættu fyrir mannlegt líf. Útgangspunktur hans eru tvö atriði: lífið er ávallt fullt af angist og örvæntingu. Sá sem finnur til slíkra geðshræringa er ekki í óeðlilegu ástandi; ekkert er eins mannlegt. En maðurinn er þó ekki eðlisvera. Kierkegaard er talinn einn helsti forgöngumaður tilvistarspekinnar. Samkvæmt honum er tómt mál að tala líkt og einstaklingurinn hafi þegar ákveðna eðliseiginleika til að bera. Franski heimspekingurinn René Descartes (1596-1650) hafði tvö hundruð árum fyrr sett fyrir verkefni nútíma heimspeki með því að finna rannsókn sinni upphafspunkt í einhvers konar sjálfi – í þeirri eigin tilvist sem ekki er hægt að efast um þegar við höfum efast um allt annað. Það sjálf getur aðeins reitt sig á guð í sambandi við eiginleika sína. Næstu tvær aldir reyndu allir heimspekingar að bregðast við þessari hugmynd Descartes, en Kierkegaard er sá fyrsti sem snýr henni alveg við. Við sköpum okkar eigið sjálf, það er stanslaust verkefni í stöðugri mótun. Og þessi sköpun fer fram í miklum tilvistarlegum átökum. Lykilatriðið er ekki að ég er til svo lengi sem ég hugsa, heldur að ég finn til angistar og örvæntingar. Það kemur til af því einu að við erum aldrei það sem við vildum svo gjarnan vera.

Lífið er uppfullt af möguleikum; möguleikum á einhverju öðru. Við fyllumst örvæntingu yfir því að ná ekki þangað sem við stefnum og við fyllumst angist yfir því að öllu gæti verið lokið eins og hendi sé veifað. En þetta er þó ekki neikvætt ástand. Þvert á móti, annars gætum við ekki skapað okkur nothæfa sjálfsmynd. Möguleikarnir hlaupa alltaf undan okkur, þeir eru óþrjótandi drifkraftur. Leiðarvísir Kierkegaards um leyndarstíga mannlegs lífs felst í því að vara fólk við því að annaðhvort takast ekki á við angist og örvæntingu í lífinu eða gleyma sér í þessu ástandi. Sá sem drekkir sér í hagnýtum viðfangsefnum og sá sem gleymir sér í krampakenndum dagdraumum eru á sama báti með að forðast að takast á við það sem er ekki hér og nú. Um þetta snýst trúin og því er hún órjúfanlegur hluti mannlegs lífs. Hún er hið óleysta verkefni þeirra sem vilja ekkert vita og þeirra sem þykjast allt vita. Trúarlegar stofnanir jafnt sem trúleysingjar hafa átt erfitt með að bregðast við þessari greiningu Kierkegaards og þeirri trúarhugmynd sem er niðurstaða hennar. Áhrif heimspeki hans hafa aukist til jafns við ráðaleysi þeirra.

Tilvitnun fengin frá:
 • Kierkegaard, S. (2000). Søren Kierkegaards skrifter - Bind 17: Journalerne AA, BB, CC, DD. København: Gads Forlag.

Frekari fróðleikur á Heimspekivefnum:

Kierkegaard á íslensku:
 • Endurtekningin, íslensk þýðing eftir Þorstein Gylfason sem einnig ritar inngang. Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags 2000.
 • Uggur og ótti, íslensk þýðing eftir Jóhönnu Þráinsdóttur með inngangi eftir Kristján Árnason. Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags 2000.
 • Ómar af strengleikum: Úrval úr „Diapsalmata. Ad se ipsum“ í Enten-eller, íslensk þýðing eftir Þorstein Gylfason. Birt í Jóni á Bægisá nr. 1, nóvember 1994 og á Heimspekivefnum 2010.

Vefsíður:
 • Sören Kierkegaard“, Saga heimspekinnar, eftir Gunnar Dal. Lafleur útgáfan 2006.
 • SAK, umsögn Kristjáns Jóhanns Jónssonar um ævisögu Kierkegaards eftir Joakim Garff. Lesbók Morgunblaðsins 26. janúar 2002.

Myndir:

Höfundar

Henry Alexander Henrysson

doktor í heimspeki

Kristian Guttesen

meistaranemi í heimspeki

Útgáfudagur

1.7.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Henry Alexander Henrysson og Kristian Guttesen. „Hver var Søren Kierkegaard og hvert var framlag hans til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn, 1. júlí 2011. Sótt 2. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=60177.

Henry Alexander Henrysson og Kristian Guttesen. (2011, 1. júlí). Hver var Søren Kierkegaard og hvert var framlag hans til heimspekinnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60177

Henry Alexander Henrysson og Kristian Guttesen. „Hver var Søren Kierkegaard og hvert var framlag hans til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn. 1. júl. 2011. Vefsíða. 2. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60177>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Søren Kierkegaard og hvert var framlag hans til heimspekinnar?
Þann 5. janúar 1813, nákvæmlega fjórum mánuðum áður en Søren Aabye Kierkegaard fæddist, varð allsherjarefnahagshrun í Danmörku. Einn fárra danskra kaupsýslumanna sem komst því sem næst klakklaust í gegnum fjárhagserfiðleikana sem fylgdu í kjölfarið var faðir hans, Michael Pedersen Kierkegaard (1756-1838). Hann var þá sestur í helgan stein en hafði skömmu fyrir hrun fjárfest stórum hluta auðæfa sinna í ríkisskuldabréfum sem reyndust einu bréfin sem ekki hrundu í verði þegar verðbólgan skall á. Af þeim sökum varð hann skyndilega einn af ríkustu mönnum Danaveldis. Michael var ákaflega trúrækinn maður og guðhræddur, og veitti hann börnum sínum strangt og þrúgandi uppeldi. Hann eignaðist sjö börn með síðari konu sinni, Ane Sørensdatter (1768-1834), en hún hafði áður verið þjónustustúlka í húsinu. Hann átti seinna eftir að trúa bræðrunum Søren og Peter Christian (1805-1888) fyrir nokkrum afdrifaríkum syndum sem hann taldi sig hafa drýgt um ævina: Að hafa eitt sinn lagt nafn guðs við hégóma sem ungur drengur, og að hafa syrgt fyrri konu sína í of skamman tíma áður en hann gekk að eiga móður þeirra. Fyrir þær sakir taldi hann að bölvun hvíldi á ættinni. Ef til vill yrði nú á dögum sagt að faðirinn hafi glímt við þunglyndi og ekki er fráleitt að ætla að hann hafi innrætt yngsta syni sínum hugarvíl.

Fræg er frásögn úr fórum Sørens frá því þegar hann dag nokkurn, ungur að árum, bað föður sinn um að fara með sig í göngutúr. Faðirinn tók vel í bónina en í stað þess að ganga með hann um götur Kaupmannahafnar leiddi hann snáðann fram og aftur um stofugólfin, spurði hann áhugasamur hvert hann vildi fara og lýsti í smáatriðum fyrir syninum öllu því sem þeim bæri fyrir sjónir á hinni ímynduðu göngu. Þannig ætla menn meðal annars að Søren litla hafi áskotnast hin mikla frásagnargáfa sem seinna nýttist honum við rit- og fræðistörf.

Sem námsmaður var Kierkegaard ákaflega leitandi einstaklingur, eins og sjá má á dagbókarfærslu frá 1. ágúst 1835:
Það sem mig skortir í raun og veru er að fá það á hreint með sjálfum mér hvað ég á að gera, ekki hvað ég á að skilja, burtséð frá því að skilningur verður að koma á undan sérhverri athöfn. Það veltur á að skilja ákvörðun mína, að sjá hvað guðdómurinn vill í raun og veru að ég eigi að gera; það veltur á að finna sannleika, sem er sannleikur fyrir mig, að finna þá hugmynd sem ég er tilbúinn að lifa og deyja fyrir (Kierkegaard, 2000: 24).
Fyrir íslenska lesendur er fróðlegt að sjá að í dagbókum sínum sakar Kierkegaard þjóðskáldið Grím Thomsen (1820-1896) um ritstuld og guðfræðinginn Magnús Eiríksson (1806-1881) um afbökun á hugmyndum sínum. Reyndar ber að geta þess að Kierkegaard á hafa verið meinilla við að aðrir fræðimenn sæktu í kenningar sínar. Sjálfur var hann vandvirkur en sérvitur fræðimaður. Þegar hann árið 1840 lagði fram magister ritgerð sína Um hugtakið íróníu með samfelldri hliðsjón af Sókratesi (útg. 1841) hafði hann fengið undanþágu til að skila henni af sér á dönsku, en það er bæði óvenjulegt samkvæmt því sem venja var við Kaupmannahafnarháskóla og með tilliti til þess að hann var raunar mikill latínumaður.

Ekki verður sagt að ástarlíf Kierkegaards hafi verið margbrotið. Konan í lífi hans var Regine Olsen (1822-1904). Þau kynntust þegar hún var aðeins 15 ára og hann tuttugu og fjögurra. Þrátt fyrir að hún hafi þremur árum síðar fellt hug til húskennara síns, Johan Frederik Schlegel (1817-1896), sem hún átti síðar eftir að giftast, lagði Kierkegaard allt kapp á að gera hosur sínar grænar fyrir henni, sem einnig fólst í að heilla fjölskyldu hennar, og trúlofuðust þau haustið 1840. Skemmst er frá því að segja að strax eftir trúlofunina snerist honum hugur þar eð hann taldi sig ekki geta boðið stúlkunni upp á samlíf með jafn melankólískum manni og hann var. Í þá daga voru sambandsslit fátíð, og þó að Regine streittist gegn þeim beitti Kierkegaard sér af hörku til að slíta trúlofuninni. Þannig má jafnvel segja að Kierkegaard hafi reynt á eigin skinni ákveðna þversögn sem síðar verður leiðandi stef í tilvistarspeki hans: að standa frammi fyrir því að þurfa að gera eitthvað sem maður getur ekki gert, en gera það samt. Og má segja að hann hafi horft til Regine með eftirsjá og í einum skilningi syrgt hana allt sitt líf, því af eftirlátnum skrifum hans að dæma hætti hann aldrei að elska hana. Kierkegaard lést 11. nóvember 1855.

En hvert var þá framlag Kierkegaards til vísindanna? Hann var augljóslega ekki hefðbundinn vísindamaður og raunar gerði hann sem minnst úr þeirri byltingarkenndu heimsmynd sem hafði komið fram á sautjándu og átjándu öld. Það voru þó ekki eingöngu náttúruvísindi, markmið þeirra og gildi, sem voru skotspónn hans. Viðhorf hans til heimspekinnar er svipað; sérstaklega þegar hún er bundin í kerfi sem á að ná utan um allt í heiminum, þar með talið einstaklinga og líf þeirra. Guðfræði fékk einnig vænan skammt af efasemdum hans. Á öllum þessum sviðum voru rök hans svipuð. Markmið andlegs starfs er ekki að sanna eitt né neitt heldur að leita sannleika sem á sér ekki stað í tíma og rúmi. Samkvæmt honum er jafn gagnslaust að sanna að guð sé til og að sanna að einhver frásögn ritningarinnar sé sönn þegar kemur að því að útskýra trúna. Fólk á að leita annars konar skilnings.

Kierkegaard á kaffihúsi. Mynd eftir Christian Olavius frá 1843.

Kierkegaard lagði sem sagt allt annan skilning á trúna heldur en hefðbundnir guðstrúarmenn. Grundvallaratriðið var að trú hefur ekkert með vissu að gera. Hún er alltaf áhætta. Heimspeki Kierkegaards snýst um að útskýra mikilvægi þessarar áhættu fyrir mannlegt líf. Útgangspunktur hans eru tvö atriði: lífið er ávallt fullt af angist og örvæntingu. Sá sem finnur til slíkra geðshræringa er ekki í óeðlilegu ástandi; ekkert er eins mannlegt. En maðurinn er þó ekki eðlisvera. Kierkegaard er talinn einn helsti forgöngumaður tilvistarspekinnar. Samkvæmt honum er tómt mál að tala líkt og einstaklingurinn hafi þegar ákveðna eðliseiginleika til að bera. Franski heimspekingurinn René Descartes (1596-1650) hafði tvö hundruð árum fyrr sett fyrir verkefni nútíma heimspeki með því að finna rannsókn sinni upphafspunkt í einhvers konar sjálfi – í þeirri eigin tilvist sem ekki er hægt að efast um þegar við höfum efast um allt annað. Það sjálf getur aðeins reitt sig á guð í sambandi við eiginleika sína. Næstu tvær aldir reyndu allir heimspekingar að bregðast við þessari hugmynd Descartes, en Kierkegaard er sá fyrsti sem snýr henni alveg við. Við sköpum okkar eigið sjálf, það er stanslaust verkefni í stöðugri mótun. Og þessi sköpun fer fram í miklum tilvistarlegum átökum. Lykilatriðið er ekki að ég er til svo lengi sem ég hugsa, heldur að ég finn til angistar og örvæntingar. Það kemur til af því einu að við erum aldrei það sem við vildum svo gjarnan vera.

Lífið er uppfullt af möguleikum; möguleikum á einhverju öðru. Við fyllumst örvæntingu yfir því að ná ekki þangað sem við stefnum og við fyllumst angist yfir því að öllu gæti verið lokið eins og hendi sé veifað. En þetta er þó ekki neikvætt ástand. Þvert á móti, annars gætum við ekki skapað okkur nothæfa sjálfsmynd. Möguleikarnir hlaupa alltaf undan okkur, þeir eru óþrjótandi drifkraftur. Leiðarvísir Kierkegaards um leyndarstíga mannlegs lífs felst í því að vara fólk við því að annaðhvort takast ekki á við angist og örvæntingu í lífinu eða gleyma sér í þessu ástandi. Sá sem drekkir sér í hagnýtum viðfangsefnum og sá sem gleymir sér í krampakenndum dagdraumum eru á sama báti með að forðast að takast á við það sem er ekki hér og nú. Um þetta snýst trúin og því er hún órjúfanlegur hluti mannlegs lífs. Hún er hið óleysta verkefni þeirra sem vilja ekkert vita og þeirra sem þykjast allt vita. Trúarlegar stofnanir jafnt sem trúleysingjar hafa átt erfitt með að bregðast við þessari greiningu Kierkegaards og þeirri trúarhugmynd sem er niðurstaða hennar. Áhrif heimspeki hans hafa aukist til jafns við ráðaleysi þeirra.

Tilvitnun fengin frá:
 • Kierkegaard, S. (2000). Søren Kierkegaards skrifter - Bind 17: Journalerne AA, BB, CC, DD. København: Gads Forlag.

Frekari fróðleikur á Heimspekivefnum:

Kierkegaard á íslensku:
 • Endurtekningin, íslensk þýðing eftir Þorstein Gylfason sem einnig ritar inngang. Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags 2000.
 • Uggur og ótti, íslensk þýðing eftir Jóhönnu Þráinsdóttur með inngangi eftir Kristján Árnason. Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags 2000.
 • Ómar af strengleikum: Úrval úr „Diapsalmata. Ad se ipsum“ í Enten-eller, íslensk þýðing eftir Þorstein Gylfason. Birt í Jóni á Bægisá nr. 1, nóvember 1994 og á Heimspekivefnum 2010.

Vefsíður:
 • Sören Kierkegaard“, Saga heimspekinnar, eftir Gunnar Dal. Lafleur útgáfan 2006.
 • SAK, umsögn Kristjáns Jóhanns Jónssonar um ævisögu Kierkegaards eftir Joakim Garff. Lesbók Morgunblaðsins 26. janúar 2002.

Myndir:...