Sólin Sólin Rís 03:40 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík

Hver var Jean-Paul Sartre og hvert var framlag hans til heimspekinnar?

Jóhann Björnsson

Jean-Paul Sartre fæddist 21. júní 1905 í París. Faðir hans Jean-Baptiste sem var sjóliðsforingi veiktist og dó þegar Sartre var rúmlega árs gamall. Sartre flutti þá með móður sinni Anne-Marie til móðurforeldra sinna, þar sem hann ólst upp innan um bækur afa síns Charles Schweitser. Í Orðunum1, endurminningum Sartres frá þeim tíma er hann elst upp hjá móðurforeldrum sínum kemur fram að hann hafi snemma heillast af bókum og ætlað sér frama á ritvellinum: „Ég hóf líf mitt eins og ég á vafalaus eftir að enda það: innan um bækur. Á skrifstofu afa míns voru þær alstaðar ... Áður en ég kunni að lesa var ég farinn að bera lotningu fyrir bautasteinum þessum; hvort sem þeir stóðu beinir eða skakkir, eins og tiglar í þéttum röðum bókahillnanna eða með góðu bili í vörðuðum göngum fann ég að velfarnaður fjölskyldunnar var undir þeim komin.“2 Hann ætlaði sér alltaf að skrifa og var ekki hár í lofti þegar hann tók til við að setja saman texta.

Sartre reyndist mjög afkastamikill á ritvellinum og skrifaði jöfnum höndum sögur og leikrit, heimspekitexta og greinar um þjóðfélagsmál og stjórnmál. Það hafði ekki verið ætlun hans að verða heimspekingur, heldur leit hann á heimspekina sem leið til þess að þroska sig í ritstörfum. Sartre taldi heimspekina og bókmenntirnar fjalla um sama hlutinn, það er að segja mannlegan veruleika, en á ólíkan hátt þó. Fyrir Sartre voru heimspekin og bókmenntirnar eins og sitthvor hliðin á sama peningnum. Sartre notar leikrit sín og skáldsögur til að gæða heimspeki sína lífi. Þekkt er hvernig Sartre raungerir fræðilega kenningu sína um mannleg samskipti í leikritinu Luktar dyr3. Í leikritinu er að finna eina af þekktustu setningum Sartres: „Helvíti það er annað fólk.“ Setningin vísar til þess að guð er ekki til og ekki heldur helvíti en samt sem áður upplifum við ýmsar aðstæður sem helvíti líkastar og oftar en ekki eru þær tengdar samskiptum okkar við annað fólk.

Á meðal helstu áhrifamanna á heimspeki Sartres voru þeir Descartes, Kant, Marx, Husserl og Heidegger og dvaldi Sartre til dæmis um tíma í Berlín og lagði stund á fyrirbærafræði Husserls.

Sartre starfaði sem menntaskólakennari þar til hann ákvað árið 1944 að kennsluferlinum væri lokið og framvegis myndi hann einbeita sér að ritstörfum.

Jean-Paul Sartre, fyrir miðju, og Simone de Beauvoir, til vinstri, ræða við Che Guevara á Kúbú árið 1960.

Þekktastur er Sartre án efa fyrir tilvistarspekina svokölluðu eða existensíalismann sem naut mikilla vinsælda um tíma og er fyrst og fremst heimspeki einstaklingsins þar sem hann er í spurn um veru sína í heiminum, frjáls og ábyrgur fyrir lífi sínu. Maðurinn að mati Sartres er dæmdur til frelsisins og kemst ekki undan því að velja og ákvarða líf sitt á einhvern hátt. Ítarleg greining á tilveru mannsins kom út í höfuðriti hans Veru og neind4 árið 1943. Bókin kom út á dögum seinni heimsstyrjaldarinnar en heimsstyrjöldin hafði sín áhrif á hugsun Sartres.

Sartre var óneitanlega áhrifamikill maður og og setti mikinn svip á samtíma sinn. Hann átti það sammerkt með Sókratesi að hafa áhrif á almenning og var af sumum talinn háskalegur æskunni. Franski heimspekingurinn Maurice Merleau-Ponty (1908-1961) lýsti í grein sem skrifuð var tveimur árum eftir útgáfu Veru og neindar þeim ótta sem sumir töldu stafa af honum og tilvistarspekinni: „Menntaskólastúlkur eru varaðar við tilvistarspekinni eins og um sé að ræða synd aldarinnar.“5

Sartre stofnaði, ásamt Simone de Beauvoir sem var lífsförunautur hans allt til æviloka og Maurice Merleau-Ponty, tímaritið Les Temps Modernes árið 1945.

Árið 1964 skömmu eftir að æskuminningar hans Orðin komu út átti hann að fá Nóbelsverðlaunin en hann hafnaði þeim meðal annars á þeirri forsendu að hann vildi ekki láta „stofnanavæða“ sig þrátt fyrir góðan ásetning þeirra sem vildu veita honum viðurkenninguna.6

Sartre var mjög virkur í þjóðfélagsumræðunni og tók sér stöðu með ýmsum baráttuhópum, einkum á vinstri væng stjórnmálanna. Hann féllst til að mynda á að gerast ritstjóri blaðs maóista La Cause du Peuple 1970 til þess að sýna samstöðu með ritstjórunum sem hnepptir höfðu verið í varðhald. Þessa ákvörðun Sartres má ekki skilja sem svo að hann hafi verið sammála maóistunum í einu og öllu, heldur var hann með þessu uppátæki að hrinda í framkvæmd heimspeki sinni, þar sem mikið er lagt upp úr því að taka afstöðu. Maður kemst aldrei hjá því að taka afstöðu. Aðgerðarleysi er ekkert síður afstaða en að gera eitthvað. Með því að taka að sér að ritstýra La Cause du Peuple sýndi hann hver afstaða hans var til franskra stjórnvalda sem á þessum tíma höfðu þrengt að starfsemi og mótmælum vinstri manna.

Ljóst er að áhrif Sartres á samtímamenn sína voru mikil en hvað hefur hann fram að færa til þeirra sem lifa á 21. öldinni? Bókmenntaverk hans mörg eru sígild og eiga eftir að verða lesin áfram. Ekki hefur farið ýkja mikið fyrir heimspeki hans undanfarin ár en þó bregður nafni hans öðru hvoru fyrir í hinum akademíska heimi. Ætla má að þeir sem leggja stund á svokallaða „heimspekipraktík“7 hafi heilmikið til hans að sækja, þar sem hugtök á borð við ábyrgð, frelsi, val og heilindi koma ítrekað við sögu, en þetta eru nokkur af lykilhugtökum tilvistarheimspeki Sartres.

Jean-Paul Sartre lést 15. apríl 1980 og fylgdu honum um 50.000 manns til grafar.

Heimildir:
 • Jóhann Björnsson. 2005. „Líf mitt og heimspeki er eitt og hið sama“. Lesbók Morgunblaðsins. S.16.
 • - 2005. „Þegar hinir eru helvíti, um mannleg samskipti í heimspeki Jean-Pauls Sartre.“ Hugur tímarit um heimspeki. Félag áhugamanna um heimspeki.
 • Merleau-Ponty, Maurice. 1964. Sense and Non Sense. Þýðendur Hubert L. Dreyfus og Patricia Allen Dreyfus. Northwestern University Press.
 • Sartre, Jean-Paul. 1956. Being and Nothingness. Þýðandi Hazel Barnes, Washington Square Press.
 • - 1994. Orðin. Þýðandi Sigurjón Halldórsson. Ararit.
 • - 2007. Tilvistarstefnan er mannhyggja. Þýðandi Páll Skúlason. Hið Íslenska bókmenntafélag.
 • Vilhjálmur Árnason. 2007. Inngangur að Tilvistarstefnan er mannhyggja. Hið Íslenska bókmenntafélag.
 • Solal, Annie Cohen. 1991. Sartre a life. Minerva.

Myndir:


1 Jean-Paul Sartre, Orðin, þýðandi Sigurjón Halldórsson, Ararit 1994.

2 Sama rit s. 25.

3 Jean-Paul Sartre, „No Exit“ í No Exit and Three other Plays, þýðandi Stuart Gilbert, Vintage Books, A Division of Random House 1955.

4 Jean-Paul Sartre, L´Etre et le Neant, Gallimard 1943.

5 Maurice Merleau-Ponty, Sense and Non Sense, þýðendur Hubert L. Dreyfus og Patricia Allen Dreyfus, Northwestern University Press 1964 s.71.

6 Í enskri þýðingu útskýrir Sartre ákvörðun sína og segir meðal annars: „The writer must refuse to let himself be transformed by institutions ...“ Annie Cohen-Solal, Sartre a life, Minerva 1991 s.448.

7 Hér nota ég orðið „heimspekipraktík“ sem Robert Jack útskýrir á eftirfarandi hátt í bók sinni Hversdagsheimspeki, Háskólaútgáfan – Heimspekistofnun 2006: „Heimspekipraktík er ... heimspeki sem athafnar sig og reynir að gera sig gildandi við raunverulegar aðstæður eða, einfaldar sagt í hversdagslífinu.“ S. 150. Hér er einkum átt við heimspekiráðgjöf, heimspekiástundun með börnum, unglingum og þeim sem ekki hafa hlotið þjálfun eða formlega menntun í heimspeki.

Höfundur

M.A. í heimspeki

Útgáfudagur

14.2.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Jóhann Björnsson. „Hver var Jean-Paul Sartre og hvert var framlag hans til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn, 14. febrúar 2011. Sótt 25. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=58379.

Jóhann Björnsson. (2011, 14. febrúar). Hver var Jean-Paul Sartre og hvert var framlag hans til heimspekinnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58379

Jóhann Björnsson. „Hver var Jean-Paul Sartre og hvert var framlag hans til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn. 14. feb. 2011. Vefsíða. 25. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58379>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Jean-Paul Sartre og hvert var framlag hans til heimspekinnar?
Jean-Paul Sartre fæddist 21. júní 1905 í París. Faðir hans Jean-Baptiste sem var sjóliðsforingi veiktist og dó þegar Sartre var rúmlega árs gamall. Sartre flutti þá með móður sinni Anne-Marie til móðurforeldra sinna, þar sem hann ólst upp innan um bækur afa síns Charles Schweitser. Í Orðunum1, endurminningum Sartres frá þeim tíma er hann elst upp hjá móðurforeldrum sínum kemur fram að hann hafi snemma heillast af bókum og ætlað sér frama á ritvellinum: „Ég hóf líf mitt eins og ég á vafalaus eftir að enda það: innan um bækur. Á skrifstofu afa míns voru þær alstaðar ... Áður en ég kunni að lesa var ég farinn að bera lotningu fyrir bautasteinum þessum; hvort sem þeir stóðu beinir eða skakkir, eins og tiglar í þéttum röðum bókahillnanna eða með góðu bili í vörðuðum göngum fann ég að velfarnaður fjölskyldunnar var undir þeim komin.“2 Hann ætlaði sér alltaf að skrifa og var ekki hár í lofti þegar hann tók til við að setja saman texta.

Sartre reyndist mjög afkastamikill á ritvellinum og skrifaði jöfnum höndum sögur og leikrit, heimspekitexta og greinar um þjóðfélagsmál og stjórnmál. Það hafði ekki verið ætlun hans að verða heimspekingur, heldur leit hann á heimspekina sem leið til þess að þroska sig í ritstörfum. Sartre taldi heimspekina og bókmenntirnar fjalla um sama hlutinn, það er að segja mannlegan veruleika, en á ólíkan hátt þó. Fyrir Sartre voru heimspekin og bókmenntirnar eins og sitthvor hliðin á sama peningnum. Sartre notar leikrit sín og skáldsögur til að gæða heimspeki sína lífi. Þekkt er hvernig Sartre raungerir fræðilega kenningu sína um mannleg samskipti í leikritinu Luktar dyr3. Í leikritinu er að finna eina af þekktustu setningum Sartres: „Helvíti það er annað fólk.“ Setningin vísar til þess að guð er ekki til og ekki heldur helvíti en samt sem áður upplifum við ýmsar aðstæður sem helvíti líkastar og oftar en ekki eru þær tengdar samskiptum okkar við annað fólk.

Á meðal helstu áhrifamanna á heimspeki Sartres voru þeir Descartes, Kant, Marx, Husserl og Heidegger og dvaldi Sartre til dæmis um tíma í Berlín og lagði stund á fyrirbærafræði Husserls.

Sartre starfaði sem menntaskólakennari þar til hann ákvað árið 1944 að kennsluferlinum væri lokið og framvegis myndi hann einbeita sér að ritstörfum.

Jean-Paul Sartre, fyrir miðju, og Simone de Beauvoir, til vinstri, ræða við Che Guevara á Kúbú árið 1960.

Þekktastur er Sartre án efa fyrir tilvistarspekina svokölluðu eða existensíalismann sem naut mikilla vinsælda um tíma og er fyrst og fremst heimspeki einstaklingsins þar sem hann er í spurn um veru sína í heiminum, frjáls og ábyrgur fyrir lífi sínu. Maðurinn að mati Sartres er dæmdur til frelsisins og kemst ekki undan því að velja og ákvarða líf sitt á einhvern hátt. Ítarleg greining á tilveru mannsins kom út í höfuðriti hans Veru og neind4 árið 1943. Bókin kom út á dögum seinni heimsstyrjaldarinnar en heimsstyrjöldin hafði sín áhrif á hugsun Sartres.

Sartre var óneitanlega áhrifamikill maður og og setti mikinn svip á samtíma sinn. Hann átti það sammerkt með Sókratesi að hafa áhrif á almenning og var af sumum talinn háskalegur æskunni. Franski heimspekingurinn Maurice Merleau-Ponty (1908-1961) lýsti í grein sem skrifuð var tveimur árum eftir útgáfu Veru og neindar þeim ótta sem sumir töldu stafa af honum og tilvistarspekinni: „Menntaskólastúlkur eru varaðar við tilvistarspekinni eins og um sé að ræða synd aldarinnar.“5

Sartre stofnaði, ásamt Simone de Beauvoir sem var lífsförunautur hans allt til æviloka og Maurice Merleau-Ponty, tímaritið Les Temps Modernes árið 1945.

Árið 1964 skömmu eftir að æskuminningar hans Orðin komu út átti hann að fá Nóbelsverðlaunin en hann hafnaði þeim meðal annars á þeirri forsendu að hann vildi ekki láta „stofnanavæða“ sig þrátt fyrir góðan ásetning þeirra sem vildu veita honum viðurkenninguna.6

Sartre var mjög virkur í þjóðfélagsumræðunni og tók sér stöðu með ýmsum baráttuhópum, einkum á vinstri væng stjórnmálanna. Hann féllst til að mynda á að gerast ritstjóri blaðs maóista La Cause du Peuple 1970 til þess að sýna samstöðu með ritstjórunum sem hnepptir höfðu verið í varðhald. Þessa ákvörðun Sartres má ekki skilja sem svo að hann hafi verið sammála maóistunum í einu og öllu, heldur var hann með þessu uppátæki að hrinda í framkvæmd heimspeki sinni, þar sem mikið er lagt upp úr því að taka afstöðu. Maður kemst aldrei hjá því að taka afstöðu. Aðgerðarleysi er ekkert síður afstaða en að gera eitthvað. Með því að taka að sér að ritstýra La Cause du Peuple sýndi hann hver afstaða hans var til franskra stjórnvalda sem á þessum tíma höfðu þrengt að starfsemi og mótmælum vinstri manna.

Ljóst er að áhrif Sartres á samtímamenn sína voru mikil en hvað hefur hann fram að færa til þeirra sem lifa á 21. öldinni? Bókmenntaverk hans mörg eru sígild og eiga eftir að verða lesin áfram. Ekki hefur farið ýkja mikið fyrir heimspeki hans undanfarin ár en þó bregður nafni hans öðru hvoru fyrir í hinum akademíska heimi. Ætla má að þeir sem leggja stund á svokallaða „heimspekipraktík“7 hafi heilmikið til hans að sækja, þar sem hugtök á borð við ábyrgð, frelsi, val og heilindi koma ítrekað við sögu, en þetta eru nokkur af lykilhugtökum tilvistarheimspeki Sartres.

Jean-Paul Sartre lést 15. apríl 1980 og fylgdu honum um 50.000 manns til grafar.

Heimildir:
 • Jóhann Björnsson. 2005. „Líf mitt og heimspeki er eitt og hið sama“. Lesbók Morgunblaðsins. S.16.
 • - 2005. „Þegar hinir eru helvíti, um mannleg samskipti í heimspeki Jean-Pauls Sartre.“ Hugur tímarit um heimspeki. Félag áhugamanna um heimspeki.
 • Merleau-Ponty, Maurice. 1964. Sense and Non Sense. Þýðendur Hubert L. Dreyfus og Patricia Allen Dreyfus. Northwestern University Press.
 • Sartre, Jean-Paul. 1956. Being and Nothingness. Þýðandi Hazel Barnes, Washington Square Press.
 • - 1994. Orðin. Þýðandi Sigurjón Halldórsson. Ararit.
 • - 2007. Tilvistarstefnan er mannhyggja. Þýðandi Páll Skúlason. Hið Íslenska bókmenntafélag.
 • Vilhjálmur Árnason. 2007. Inngangur að Tilvistarstefnan er mannhyggja. Hið Íslenska bókmenntafélag.
 • Solal, Annie Cohen. 1991. Sartre a life. Minerva.

Myndir:


1 Jean-Paul Sartre, Orðin, þýðandi Sigurjón Halldórsson, Ararit 1994.

2 Sama rit s. 25.

3 Jean-Paul Sartre, „No Exit“ í No Exit and Three other Plays, þýðandi Stuart Gilbert, Vintage Books, A Division of Random House 1955.

4 Jean-Paul Sartre, L´Etre et le Neant, Gallimard 1943.

5 Maurice Merleau-Ponty, Sense and Non Sense, þýðendur Hubert L. Dreyfus og Patricia Allen Dreyfus, Northwestern University Press 1964 s.71.

6 Í enskri þýðingu útskýrir Sartre ákvörðun sína og segir meðal annars: „The writer must refuse to let himself be transformed by institutions ...“ Annie Cohen-Solal, Sartre a life, Minerva 1991 s.448.

7 Hér nota ég orðið „heimspekipraktík“ sem Robert Jack útskýrir á eftirfarandi hátt í bók sinni Hversdagsheimspeki, Háskólaútgáfan – Heimspekistofnun 2006: „Heimspekipraktík er ... heimspeki sem athafnar sig og reynir að gera sig gildandi við raunverulegar aðstæður eða, einfaldar sagt í hversdagslífinu.“ S. 150. Hér er einkum átt við heimspekiráðgjöf, heimspekiástundun með börnum, unglingum og þeim sem ekki hafa hlotið þjálfun eða formlega menntun í heimspeki....