Sartre reyndist mjög afkastamikill á ritvellinum og skrifaði jöfnum höndum sögur og leikrit, heimspekitexta og greinar um þjóðfélagsmál og stjórnmál. Það hafði ekki verið ætlun hans að verða heimspekingur, heldur leit hann á heimspekina sem leið til þess að þroska sig í ritstörfum. Sartre taldi heimspekina og bókmenntirnar fjalla um sama hlutinn, það er að segja mannlegan veruleika, en á ólíkan hátt þó. Fyrir Sartre voru heimspekin og bókmenntirnar eins og sitthvor hliðin á sama peningnum. Sartre notar leikrit sín og skáldsögur til að gæða heimspeki sína lífi. Þekkt er hvernig Sartre raungerir fræðilega kenningu sína um mannleg samskipti í leikritinu Luktar dyr3. Í leikritinu er að finna eina af þekktustu setningum Sartres: „Helvíti það er annað fólk.“ Setningin vísar til þess að guð er ekki til og ekki heldur helvíti en samt sem áður upplifum við ýmsar aðstæður sem helvíti líkastar og oftar en ekki eru þær tengdar samskiptum okkar við annað fólk.
Á meðal helstu áhrifamanna á heimspeki Sartres voru þeir Descartes, Kant, Marx, Husserl og Heidegger og dvaldi Sartre til dæmis um tíma í Berlín og lagði stund á fyrirbærafræði Husserls.
Sartre starfaði sem menntaskólakennari þar til hann ákvað árið 1944 að kennsluferlinum væri lokið og framvegis myndi hann einbeita sér að ritstörfum.

Sartre var mjög virkur í þjóðfélagsumræðunni og tók sér stöðu með ýmsum baráttuhópum, einkum á vinstri væng stjórnmálanna. Hann féllst til að mynda á að gerast ritstjóri blaðs maóista La Cause du Peuple 1970 til þess að sýna samstöðu með ritstjórunum sem hnepptir höfðu verið í varðhald. Þessa ákvörðun Sartres má ekki skilja sem svo að hann hafi verið sammála maóistunum í einu og öllu, heldur var hann með þessu uppátæki að hrinda í framkvæmd heimspeki sinni, þar sem mikið er lagt upp úr því að taka afstöðu. Maður kemst aldrei hjá því að taka afstöðu. Aðgerðarleysi er ekkert síður afstaða en að gera eitthvað. Með því að taka að sér að ritstýra La Cause du Peuple sýndi hann hver afstaða hans var til franskra stjórnvalda sem á þessum tíma höfðu þrengt að starfsemi og mótmælum vinstri manna.
Ljóst er að áhrif Sartres á samtímamenn sína voru mikil en hvað hefur hann fram að færa til þeirra sem lifa á 21. öldinni? Bókmenntaverk hans mörg eru sígild og eiga eftir að verða lesin áfram. Ekki hefur farið ýkja mikið fyrir heimspeki hans undanfarin ár en þó bregður nafni hans öðru hvoru fyrir í hinum akademíska heimi. Ætla má að þeir sem leggja stund á svokallaða „heimspekipraktík“7 hafi heilmikið til hans að sækja, þar sem hugtök á borð við ábyrgð, frelsi, val og heilindi koma ítrekað við sögu, en þetta eru nokkur af lykilhugtökum tilvistarheimspeki Sartres.
Jean-Paul Sartre lést 15. apríl 1980 og fylgdu honum um 50.000 manns til grafar.
Heimildir:- Jóhann Björnsson. 2005. „Líf mitt og heimspeki er eitt og hið sama“. Lesbók Morgunblaðsins. S.16.
- - 2005. „Þegar hinir eru helvíti, um mannleg samskipti í heimspeki Jean-Pauls Sartre.“ Hugur tímarit um heimspeki. Félag áhugamanna um heimspeki.
- Merleau-Ponty, Maurice. 1964. Sense and Non Sense. Þýðendur Hubert L. Dreyfus og Patricia Allen Dreyfus. Northwestern University Press.
- Sartre, Jean-Paul. 1956. Being and Nothingness. Þýðandi Hazel Barnes, Washington Square Press.
- - 1994. Orðin. Þýðandi Sigurjón Halldórsson. Ararit.
- - 2007. Tilvistarstefnan er mannhyggja. Þýðandi Páll Skúlason. Hið Íslenska bókmenntafélag.
- Vilhjálmur Árnason. 2007. Inngangur að Tilvistarstefnan er mannhyggja. Hið Íslenska bókmenntafélag.
- Solal, Annie Cohen. 1991. Sartre a life. Minerva.
- Università di Pavia. Sótt 14.2.2011.
- Wikipedia.com - Sartre, de Beauvoir og Guevara. Sótt 14.2.2011.
- Wikipedia.com - Gröf Jean-Paul Sartre og Simone de Beauvoir í Montparnasse-kirkjugarðinum. Sótt 14.2.2011.
1 Jean-Paul Sartre, Orðin, þýðandi Sigurjón Halldórsson, Ararit 1994.
2 Sama rit s. 25.
3 Jean-Paul Sartre, „No Exit“ í No Exit and Three other Plays, þýðandi Stuart Gilbert, Vintage Books, A Division of Random House 1955.
4 Jean-Paul Sartre, L´Etre et le Neant, Gallimard 1943.
5 Maurice Merleau-Ponty, Sense and Non Sense, þýðendur Hubert L. Dreyfus og Patricia Allen Dreyfus, Northwestern University Press 1964 s.71.
6 Í enskri þýðingu útskýrir Sartre ákvörðun sína og segir meðal annars: „The writer must refuse to let himself be transformed by institutions ...“ Annie Cohen-Solal, Sartre a life, Minerva 1991 s.448.
7 Hér nota ég orðið „heimspekipraktík“ sem Robert Jack útskýrir á eftirfarandi hátt í bók sinni Hversdagsheimspeki, Háskólaútgáfan – Heimspekistofnun 2006: „Heimspekipraktík er ... heimspeki sem athafnar sig og reynir að gera sig gildandi við raunverulegar aðstæður eða, einfaldar sagt í hversdagslífinu.“ S. 150. Hér er einkum átt við heimspekiráðgjöf, heimspekiástundun með börnum, unglingum og þeim sem ekki hafa hlotið þjálfun eða formlega menntun í heimspeki.