Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:29 • Síðdegis: 18:52 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:31 • Síðdegis: 12:34 í Reykjavík

Hver var Georges Bataille og hvert var framlag hans til fræðanna?

Björn Þorsteinsson

Georges Bataille var franskur rithöfundur og heimspekingur. Höfundarverk hans er sérkennileg, görótt og einkar forvitnileg blanda af bölsýni, lífsþorsta og óslökkvandi þörf fyrir að horfast hispurslaust í augu við veruleikann.

Bataille fæddist 10. september 1897 í smábænum Billom í Auvergne í Mið-Frakklandi en árið 1901 fluttist fjölskyldan til borgarinnar Reims í Champagne-héraði austur af París. Þar ólst Bataille upp og gekk í skóla, en að sumarlagi dvaldi fjölskyldan jafnan í bænum Riom-ès-Montagnes í Auvergne. Veikindi af ýmsum toga settu svip á heimilislífið, því faðir Batailles þjáðist af sárasótt (sýfilis), hafði misst sjónina þegar Georges fæddist og lamaðist þegar snáðinn var á þriðja ári; móðir hans átti aftur á móti við alvarlegt þunglyndi að stríða og talið er að hún hafi reynt að stytta sér aldur þegar Georges var á táningsaldri. Vegna ástandsins heima fyrir var drengurinn að eigin ósk sendur í heimavistarskóla um leið og efni stóðu til. Á átjánda ári snerist hann gegn trúleysi foreldra sinna, lét skírast til kaþólsku og gerðist ákafur trúmaður. Þegar fyrri heimsstyrjöldin skall á hélt hann ásamt móður sinni suður á bóginn til Auvergne, en faðir hans var skilinn eftir hjá vandalausum í Reims og lést ári síðar, einn og yfirgefinn.

Georges Bataille (lengst til hægri) ásamt föður sínum og bróður.

Árið 1918 fluttist Bataille til Parísar og hóf nám við skjalavörslu- og sagnfræðingaskólann École des Chartes. Honum sóttist námið vel og þótti samviskusamur og trúrækinn. Hann felldi hug til systur æskuvinar síns og sumarið 1919 afréð hann að biðja hennar, en foreldrar hennar höfnuðu málaleitan hans með þeim rökum að þau óttuðust að sárasótt væri ættlægur sjúkdómur í fjölskyldu Batailles. Eins og nærri má geta urðu þessi málalok vonbiðlinum unga mikið áfall og vöktu honum djúpa örvæntingu og sjálfsmorðshugleiðingar. Hann hélt þó sínu striki og lauk prófi í skjalavörslu og fornletursfræði frá École des Chartes í febrúar 1922. Litlu síðar hóf hann störf við Þjóðbókasafnið í París og starfaði þar það sem eftir var.

Um sama leyti uppgötvaði Bataille þá pörupilta Nietzsche, Freud, Hegel og Sade (1740-1814, franskur rithöfundur og fríþenkjari sem sadismi er kenndur við) og kastaði trúnni með miklum tilþrifum – segja má að óvíða hafi „dauða Guðs“ borið að með jafn dramatískum hætti og í lífi Batailles. Fyrir áhrif vina sinna dróst hann inn í klíku súrrealista en rakst reyndar illa í þeim hópi. Hann gerðist drykkfelldur og tók að stunda hóruhús og nektarbúllur Parísar af kappi.

Árið 1926 skrifaði hann sína fyrstu bók, W.C., en fargaði handritinu. Síðar sagði hann bók þessa hafa verið „hryllingsóp“ sem stefnt hefði verið „af öllum kröftum gegn sæmd eða reisn af öllu tagi“. Um þetta leyti gerðist hann fráhverfur þeim ofurvenjulegu „lystisemdum holdsins“ sem súrrealistar hömpuðu hvað mest og kvaðst sjálfur helst vilja leggja stund á það sem taldist „óhreint“ eða „subbulegt“. Árið 1927, þegar hann var á þrítugasta ári, kynntist hann nítján ára gamalli stúlku að nafni Sylvia Maklès og kvæntist henni ári síðar. Sama ár skrifaði hann nóvelluna Sögu augans, en í henni kristallast á margan hátt ágreiningur Batailles við súrrealistana. Hún kom út 1928 og varð upphafið að löngum og fjölskrúðugum rithöfundarferli.

Þegar Saga augans kom út hafði Bataille verið til meðferðar hjá sálgreinandanum Adrien Borel í tæpt ár, að eigin sögn með þeim árangri að hann fékk losað sig við þann „feimna, litlausa allsherjarvesaling“ sem hann hafði áður verið og orðið þess í stað „tiltölulega lifandi persóna“. Sálgreinandinn ráðlagði skjólstæðingi sínum raunar að leita hugarvíli sínu útrásar í skrifum, og er Saga augans ávöxtur þessa læknisráðs. Bókin kom út undir dulnefni enda var efni hennar á margan hátt óhentugt nýlega ráðnum ríkisstarfsmanni. Íslensk þýðing Sögu augans kom út árið 2001 og er lesendum því hægur vandi að dæma sjálfir um innihaldið.

André Breton, foringi súrrealistanna, átti í útistöðum við Bataille.

Eins og fyrr segir átti Bataille um tíma samleið með súrrealistum, en var þó ætíð í útjaðri hópsins. Foringja súrrealistanna, André Breton, lynti illa við Bataille – meðal annars vegna áhuga þess síðarnefnda á Sade – og þegar klofningur kom upp í hreyfingunni á árunum 1929–1930 eftir að Bataille og félagar hans stofnuðu tímaritið Documents létu þeir Bataille og Breton gífuryrðin ganga sín á milli á prenti. Svo dæmi séu tekin var Bataille nefndur „óheiðarlegur ruddi“ og á móti var Breton „falskur byltingarmaður með kristshöfuð“. Að þessum ósköpum afstöðnum gekk Bataille í félagsskap kommúnista, svonefndan Cercle communiste démocratique, sem stóð að tímaritinu La critique sociale. Bataille skrifaði í ritið ýmsar greinar, meðal annars um sálfræðilega formgerð fasismans og um hugtakið eyðslu sem þá var orðið að lykilhugmynd í hugsun hans. Árið 1934 leystist þessi félagsskapur upp og um svipað leyti skildi Bataille að skiptum við konu sína og fjögurra ára gamla dóttur þeirra og tók að nýju að stunda hóruhús og drykkjubúllur af kappi (að vísu hafði hann aldrei lagt þá iðju að fullu niður).

Um þetta leyti tók Bataille saman við Colette Peignot, sem var af ætt auðmanna og hafði lifað býsna ævintýralegu lífi. Ástarsamband Batailles og Peignot, sem kallaði sig jafnan Laure, var stormasamt, ástríðuþrungið og óhefðbundið. Bataille hélt allt að því skipulega fram hjá henni og píndi hana á ýmsan hátt. Á sama tíma dró óðum til styrjaldar í Evrópu samfara uppgangi fasismans. Bataille sættist við André Breton og þeir tóku höndum saman ásamt nokkrum öðrum mennta- og listamönnum og stofnuðu árið 1935 tímaritið Cahiers de Contre-Attaque sem sérstaklega var ætlað að leita vinstrimönnum úrræða andspænis fasismanum eða, með orðalagi Batailles, virkja að nýju „ofbeldi byltingarinnar“. Þessi samtök stóðu hins vegar aðeins í eitt ár, og ein höfuðorsök þess að upp úr þeim slitnaði var sú að mörgum þótti Bataille sjálfur gerast sekur um að leita í smiðju fasismans með hugmyndum sínum um nauðsyn þess að viðurkenna ofbeldið í samfélaginu og taka það í sína þjónustu. Á þessum tíma skrifaði Bataille einnig eitt sitt helsta verk, skáldsöguna Le bleu du ciel (Himinbláminn), og ber hún þessum hugmyndum glöggt vitni.

Þó að hin breiða samstaða vinstrimanna hefði farið út um þúfur var Bataille ekki af baki dottinn og stofnaði ásamt fylgismönnum sínum leynifélagið Acéphale („hauslaus“) sem einnig gaf út samnefnt tímarit. Litlum sögum fer af því í hverju starfsemi leynifélagsins fólst, en tilgangur þess var að sögn Batailles að „stofna ný trúarbrögð“ og að baki bjó sú hugmynd að með því að vinna gegn ofurvaldi skynsemi og nytsemishyggju mætti öðlast einhvers konar beina reynslu af því sem býr handan tungumáls og hversdagslegrar reynslu – eða, með öðrum orðum, komast í snertingu við hið heilaga. Acéphale-menn létu reyndar ekki þar við sitja heldur stofnuðu svonefndan Collège de Sociologie sacrée, „Skóla um félagsfræði hins heilaga“, sem ætlað var að standa að opnu fyrirlestrahaldi í París og breiða þannig út nýjar kenningar þar sem órökrænum þáttum mannlífsins, svo sem tilfinningum, eðlisávísun og ástríðum, var spyrt saman við marxískar hugmyndir. Frá fyrsta degi var Bataille fremstur í flokki fyrirlesara á vegum skólans. En árið 1938 urðu þau ótíðindi að sambýliskona hans Laure veiktist og lést í nóvember af völdum berkla. Dauði hennar varð Bataille mikil raun. Ári síðar skall síðari heimsstyrjöldin á. Félagsfræðiskólinn leystist upp og leynifélagið Acéphale fór sömu leið.

Skilríki Batailles frá árinu 1940.

Eftir þetta áfall, og önnur sem Bataille varð fyrir í einkalífi sínu og starfi undir lok fjórða áratugarins, dró hann verulega úr beinum afskiptum sínum af samfélagsmálum. Jafnframt tók hann að sinna skriftum af meiri festu en áður. Hann dró úr greinaskrifum en lagði þess í stað meiri áherslu á að skrifa lengri verk. Raunin varð sú að á árunum eftir 1940 urðu til flest þeirra verka sem haldið hafa nafni hans á lofti. Meðal þessara verka má nefna skáldverk og smátexta á borð við Madame Edwarda (Frú Edwarda, 1941), Le petit (Sá litli, 1943), Le coupable (Sá seki, 1944), L’abbé C (Séra C, 1950), Le bleu du ciel (Himinbláminn, 1957), L’impossible (Hið ómögulega, 1962), Ma mère (Móðir mín, 1966) og Le mort (Sá dauði, 1967); og heimspeki- eða fræðitexta á borð við L’expérience intérieure (Innri reynsla, 1943), Sur Nietzsche (Um Nietzsche, 1945), La part maudite (Bölvaði hlutinn, 1949), La littérature et le mal (Bókmenntir og hið illa, 1957), L’érotisme (Erótíkin, 1957) og Les larmes d’Éros (Tár Erosar, 1961).

Ekki er hlaupið að því að gera grein fyrir hugsun og heimspeki Batailles í stuttu máli – meðal annars af þeim sökum að eitt helsta einkenni hennar er stöðug uppreisn gegn hvers kyns endanlegum, lokuðum og snyrtilegum kerfum sem búið hafa haganlega um sig innan landamerkja tungumálsins. Engu að síður má með meðvitaðri einföldun draga markalínu utan um ákveðinn hóp lykilhugtaka: eyðsla, ofgnótt, almennt hagkerfi og takmarkað hagkerfi, fórnin, potlach, angistin, hið forboðna, brotið, erótíkin, hláturinn, tilviljunin, hið heilaga, hið ómögulega, dauðinn. Þessi hugtök tengjast með margslungnum hætti og er skemmst frá því að segja að ekki verður reynt að gera þeim full skil hér, heldur látið nægja að tæpa á nokkrum þeirra.

Meðal helstu fræðilegu áhrifavalda á hugsun Batailles (til aðgreiningar frá þeim áhrifum sem hlutust af ytri aðstæðum hans og mótlætinu sem hann mætti í lífinu) má eins og áður sagði nefna Nietzsche og Hegel. Bataille kynntist þeim fyrrnefnda þegar hann var á miðjum þrítugsaldri og tók við hann slíku ástfóstri að jaðraði við algjöra samsömun. Sérstaklega hreifst Bataille af óvægni Nietzsches andspænis siðferðinu, upphafningu hans á óröklegum kröftum og tilvísunum hans til ofurmennisins. Hegel kom síðar til sögunnar í andlegu lífi Batailles, og þá fyrir tilstilli margfrægra fyrirlestra fransk-rússneska fræðimannsins Alexandre Kojève um rit Hegels Fyrirbærafræði andans í París 1934–1939.

Samkvæmt Bataille fær einstaklingurinn aðgang að dulrænum kjarna veruleikans meðal annars þegar hann verður vitni að blóðugum atburðum í líkingu við mannfórn.

Túlkun Batailles á Hegel, sem að vísu var ætíð mjög undir merkjum hinnar umdeildu túlkunar Kojèves, bar öðru fremur vott um þá sannfæringu að Hegel „hefði ekki gert sér grein fyrir því að hve miklu leyti hann hefði haft rétt fyrir sér“ eins og Bataille orðaði það. Hegel hefði sannarlega tekist að ljúka því ætlunarverki skynseminnar að koma heiminum fyrir í hugtakakerfi; en gallinn væri sá að í kerfinu væri „blindur blettur“ sem skynsemin gæti með engu móti gert grein fyrir. Rétt eins og augað getur ekki séð blinda blettinn sem þó er forsenda sjónarinnar yfirhöfuð, getur ljós skynseminnar ekki lýst upp það sem ljósið sjálft sprettur af: hið óhugsanlega, hið ómögulega, hið heilaga. Aðgang að þessum dulræna kjarna í veruleikanum fær einstaklingurinn aðeins í svipleiftri algleymis af einhverju tagi: til dæmis þegar hann brýtur í bága við það sem er forboðið, verður fyrir listrænni upplifun, springur úr hlátri af óútskýranlegum orsökum, verður vitni að blóðugum atburðum í líkingu við nautaat eða mannfórn, eða fær kynferðislega fullnægingu.

Bataille lítur svo á að angistin sem einstaklingurinn finnur fyrir andspænis hinu forboðna eigi rætur að rekja til þeirrar óumflýjanlegu freistingar að brjóta gegn banninu, gera það sem er bannað – og í slíku athæfi opnist einmitt möguleikinn á hinni æðri upplifun. En því miður er engin leið að treysta því að óknyttaskapurinn beri tilætlaðan árangur: Hið heilaga er nefnilega handan við alla áætlanagerð, skipulagningu og vilja – með öðrum orðum er það hið ómögulega, það kemur ekki þegar maður vill. En detti maður í lukkupottinn er sælan því miður skammvinn... hún varir aðeins örskot – og angistin steypist yfir að nýju.

Annar fylgifiskur angistarinnar er eyðslan. Í hinum rökræna hugarheimi markaðslögmála og tvöfalds bókhalds er lítið rúm fyrir óráðsíu og óskynsamlegar fjárfestingar. En vitund einstaklingsins um dauðann raskar jafnvæginu milli dálkanna, og þegar angistin grípur um sig vaknar löngunin til að losa sig við öll höft og lifa lífinu til fulls í óhóflegri eyðslu í stað þess að sitja með hendur í skauti og telja peninga í huganum. Þessi lífslöngun reynist þegar grannt er skoðað beinast í óvænta átt – í dauðann. Óhófið leiðir okkur í gröfina – vitum við það ekki öll? – og kjarninn í lífinu sjálfu, lífinu þegar því er lifað „fram í fingurgóma“, reynist því vera ekkert annað en það sem við töldum andhverfu þess. Löngun okkar snýst um að upplifa hið ómögulega, en til þess að ná því marki verðum við að fórna sjálfu lífinu. Þannig erum við hvert um sig, að mati Georges Bataille, dæmd til að eltast við hið ómögulega, til að vilja það sem lætur ekki að stjórn viljans. En þá sjaldan tilviljunin sér til þess að við öðlumst sameiginlega reynslu af hinu heilaga, þá myndast á milli okkar orðlaus samskiptarás sem færir okkur heim sanninn um að við deilum hlutskipti okkar með öðrum. Á slíkum stundum verða til samtök og hreyfingar – og þannig er kynhvötin rótin að trúarbrögðunum og alsæla píslarvottanna rennur saman við fullnægju samfaranna – sem heitir á frönsku litli dauði, la petite mort.

Georges Bataille árið 1950.

Þó að Bataille hafi að mestu snúið baki við tímaritaútgáfu eftir stríð lét hann þann þátt menningarinnar ekki alveg eiga sig. Árið 1946 stofnaði hann ásamt öðrum tímaritið Critique sem enn kemur út og telst eitt virtasta tímarit Frakklands á sviði húmanískra fræða.

Árið 1946 skildi Bataille lögformlega við konu sína Sylvíu og hún giftist litlu síðar sálgreinandanum fræga Jacques Lacan. Sjálfur hafði Bataille þá tekið saman við konu að nafni Diane Kotchoubey de Beaucharnais. Þau eignuðust dóttur árið 1948 og gengu í hjónaband 1951.

Árið 1942 greindist Bataille með berkla og átti við vanheilsu að stríða upp frá því. Þegar leið að ævilokum játaði hann fyrir vinum sínum að hann væri vissulega hræddur við dauðann, en jafnframt hélt hann því fram að dauðinn vekti sér hlátur. Má ekki sjá þetta fyrir sér? Í öllum sínum fáránleika, óhugsanleika og hátíðleika – er dauðinn ekki beinlínis kostulegur? Bataille lést 8. júlí 1962 og var grafinn í smábænum Vézelay skammt suðaustan við Auxerre.

Myndir:


Þetta svar er stytt útgáfa af eftirmála Björns Þorsteinssonar við þýðingu sína á Sögu augans eftir Georges Bataille sem Forlagið gaf út árið 2001.

Upprunalega spurningin var:
Hvað getið þið sagt mér um Georges Bataille?

Höfundur

Björn Þorsteinsson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

5.1.2017

Spyrjandi

Andri Gunnarsson

Tilvísun

Björn Þorsteinsson. „Hver var Georges Bataille og hvert var framlag hans til fræðanna?“ Vísindavefurinn, 5. janúar 2017. Sótt 22. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=72780.

Björn Þorsteinsson. (2017, 5. janúar). Hver var Georges Bataille og hvert var framlag hans til fræðanna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=72780

Björn Þorsteinsson. „Hver var Georges Bataille og hvert var framlag hans til fræðanna?“ Vísindavefurinn. 5. jan. 2017. Vefsíða. 22. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=72780>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Georges Bataille og hvert var framlag hans til fræðanna?
Georges Bataille var franskur rithöfundur og heimspekingur. Höfundarverk hans er sérkennileg, görótt og einkar forvitnileg blanda af bölsýni, lífsþorsta og óslökkvandi þörf fyrir að horfast hispurslaust í augu við veruleikann.

Bataille fæddist 10. september 1897 í smábænum Billom í Auvergne í Mið-Frakklandi en árið 1901 fluttist fjölskyldan til borgarinnar Reims í Champagne-héraði austur af París. Þar ólst Bataille upp og gekk í skóla, en að sumarlagi dvaldi fjölskyldan jafnan í bænum Riom-ès-Montagnes í Auvergne. Veikindi af ýmsum toga settu svip á heimilislífið, því faðir Batailles þjáðist af sárasótt (sýfilis), hafði misst sjónina þegar Georges fæddist og lamaðist þegar snáðinn var á þriðja ári; móðir hans átti aftur á móti við alvarlegt þunglyndi að stríða og talið er að hún hafi reynt að stytta sér aldur þegar Georges var á táningsaldri. Vegna ástandsins heima fyrir var drengurinn að eigin ósk sendur í heimavistarskóla um leið og efni stóðu til. Á átjánda ári snerist hann gegn trúleysi foreldra sinna, lét skírast til kaþólsku og gerðist ákafur trúmaður. Þegar fyrri heimsstyrjöldin skall á hélt hann ásamt móður sinni suður á bóginn til Auvergne, en faðir hans var skilinn eftir hjá vandalausum í Reims og lést ári síðar, einn og yfirgefinn.

Georges Bataille (lengst til hægri) ásamt föður sínum og bróður.

Árið 1918 fluttist Bataille til Parísar og hóf nám við skjalavörslu- og sagnfræðingaskólann École des Chartes. Honum sóttist námið vel og þótti samviskusamur og trúrækinn. Hann felldi hug til systur æskuvinar síns og sumarið 1919 afréð hann að biðja hennar, en foreldrar hennar höfnuðu málaleitan hans með þeim rökum að þau óttuðust að sárasótt væri ættlægur sjúkdómur í fjölskyldu Batailles. Eins og nærri má geta urðu þessi málalok vonbiðlinum unga mikið áfall og vöktu honum djúpa örvæntingu og sjálfsmorðshugleiðingar. Hann hélt þó sínu striki og lauk prófi í skjalavörslu og fornletursfræði frá École des Chartes í febrúar 1922. Litlu síðar hóf hann störf við Þjóðbókasafnið í París og starfaði þar það sem eftir var.

Um sama leyti uppgötvaði Bataille þá pörupilta Nietzsche, Freud, Hegel og Sade (1740-1814, franskur rithöfundur og fríþenkjari sem sadismi er kenndur við) og kastaði trúnni með miklum tilþrifum – segja má að óvíða hafi „dauða Guðs“ borið að með jafn dramatískum hætti og í lífi Batailles. Fyrir áhrif vina sinna dróst hann inn í klíku súrrealista en rakst reyndar illa í þeim hópi. Hann gerðist drykkfelldur og tók að stunda hóruhús og nektarbúllur Parísar af kappi.

Árið 1926 skrifaði hann sína fyrstu bók, W.C., en fargaði handritinu. Síðar sagði hann bók þessa hafa verið „hryllingsóp“ sem stefnt hefði verið „af öllum kröftum gegn sæmd eða reisn af öllu tagi“. Um þetta leyti gerðist hann fráhverfur þeim ofurvenjulegu „lystisemdum holdsins“ sem súrrealistar hömpuðu hvað mest og kvaðst sjálfur helst vilja leggja stund á það sem taldist „óhreint“ eða „subbulegt“. Árið 1927, þegar hann var á þrítugasta ári, kynntist hann nítján ára gamalli stúlku að nafni Sylvia Maklès og kvæntist henni ári síðar. Sama ár skrifaði hann nóvelluna Sögu augans, en í henni kristallast á margan hátt ágreiningur Batailles við súrrealistana. Hún kom út 1928 og varð upphafið að löngum og fjölskrúðugum rithöfundarferli.

Þegar Saga augans kom út hafði Bataille verið til meðferðar hjá sálgreinandanum Adrien Borel í tæpt ár, að eigin sögn með þeim árangri að hann fékk losað sig við þann „feimna, litlausa allsherjarvesaling“ sem hann hafði áður verið og orðið þess í stað „tiltölulega lifandi persóna“. Sálgreinandinn ráðlagði skjólstæðingi sínum raunar að leita hugarvíli sínu útrásar í skrifum, og er Saga augans ávöxtur þessa læknisráðs. Bókin kom út undir dulnefni enda var efni hennar á margan hátt óhentugt nýlega ráðnum ríkisstarfsmanni. Íslensk þýðing Sögu augans kom út árið 2001 og er lesendum því hægur vandi að dæma sjálfir um innihaldið.

André Breton, foringi súrrealistanna, átti í útistöðum við Bataille.

Eins og fyrr segir átti Bataille um tíma samleið með súrrealistum, en var þó ætíð í útjaðri hópsins. Foringja súrrealistanna, André Breton, lynti illa við Bataille – meðal annars vegna áhuga þess síðarnefnda á Sade – og þegar klofningur kom upp í hreyfingunni á árunum 1929–1930 eftir að Bataille og félagar hans stofnuðu tímaritið Documents létu þeir Bataille og Breton gífuryrðin ganga sín á milli á prenti. Svo dæmi séu tekin var Bataille nefndur „óheiðarlegur ruddi“ og á móti var Breton „falskur byltingarmaður með kristshöfuð“. Að þessum ósköpum afstöðnum gekk Bataille í félagsskap kommúnista, svonefndan Cercle communiste démocratique, sem stóð að tímaritinu La critique sociale. Bataille skrifaði í ritið ýmsar greinar, meðal annars um sálfræðilega formgerð fasismans og um hugtakið eyðslu sem þá var orðið að lykilhugmynd í hugsun hans. Árið 1934 leystist þessi félagsskapur upp og um svipað leyti skildi Bataille að skiptum við konu sína og fjögurra ára gamla dóttur þeirra og tók að nýju að stunda hóruhús og drykkjubúllur af kappi (að vísu hafði hann aldrei lagt þá iðju að fullu niður).

Um þetta leyti tók Bataille saman við Colette Peignot, sem var af ætt auðmanna og hafði lifað býsna ævintýralegu lífi. Ástarsamband Batailles og Peignot, sem kallaði sig jafnan Laure, var stormasamt, ástríðuþrungið og óhefðbundið. Bataille hélt allt að því skipulega fram hjá henni og píndi hana á ýmsan hátt. Á sama tíma dró óðum til styrjaldar í Evrópu samfara uppgangi fasismans. Bataille sættist við André Breton og þeir tóku höndum saman ásamt nokkrum öðrum mennta- og listamönnum og stofnuðu árið 1935 tímaritið Cahiers de Contre-Attaque sem sérstaklega var ætlað að leita vinstrimönnum úrræða andspænis fasismanum eða, með orðalagi Batailles, virkja að nýju „ofbeldi byltingarinnar“. Þessi samtök stóðu hins vegar aðeins í eitt ár, og ein höfuðorsök þess að upp úr þeim slitnaði var sú að mörgum þótti Bataille sjálfur gerast sekur um að leita í smiðju fasismans með hugmyndum sínum um nauðsyn þess að viðurkenna ofbeldið í samfélaginu og taka það í sína þjónustu. Á þessum tíma skrifaði Bataille einnig eitt sitt helsta verk, skáldsöguna Le bleu du ciel (Himinbláminn), og ber hún þessum hugmyndum glöggt vitni.

Þó að hin breiða samstaða vinstrimanna hefði farið út um þúfur var Bataille ekki af baki dottinn og stofnaði ásamt fylgismönnum sínum leynifélagið Acéphale („hauslaus“) sem einnig gaf út samnefnt tímarit. Litlum sögum fer af því í hverju starfsemi leynifélagsins fólst, en tilgangur þess var að sögn Batailles að „stofna ný trúarbrögð“ og að baki bjó sú hugmynd að með því að vinna gegn ofurvaldi skynsemi og nytsemishyggju mætti öðlast einhvers konar beina reynslu af því sem býr handan tungumáls og hversdagslegrar reynslu – eða, með öðrum orðum, komast í snertingu við hið heilaga. Acéphale-menn létu reyndar ekki þar við sitja heldur stofnuðu svonefndan Collège de Sociologie sacrée, „Skóla um félagsfræði hins heilaga“, sem ætlað var að standa að opnu fyrirlestrahaldi í París og breiða þannig út nýjar kenningar þar sem órökrænum þáttum mannlífsins, svo sem tilfinningum, eðlisávísun og ástríðum, var spyrt saman við marxískar hugmyndir. Frá fyrsta degi var Bataille fremstur í flokki fyrirlesara á vegum skólans. En árið 1938 urðu þau ótíðindi að sambýliskona hans Laure veiktist og lést í nóvember af völdum berkla. Dauði hennar varð Bataille mikil raun. Ári síðar skall síðari heimsstyrjöldin á. Félagsfræðiskólinn leystist upp og leynifélagið Acéphale fór sömu leið.

Skilríki Batailles frá árinu 1940.

Eftir þetta áfall, og önnur sem Bataille varð fyrir í einkalífi sínu og starfi undir lok fjórða áratugarins, dró hann verulega úr beinum afskiptum sínum af samfélagsmálum. Jafnframt tók hann að sinna skriftum af meiri festu en áður. Hann dró úr greinaskrifum en lagði þess í stað meiri áherslu á að skrifa lengri verk. Raunin varð sú að á árunum eftir 1940 urðu til flest þeirra verka sem haldið hafa nafni hans á lofti. Meðal þessara verka má nefna skáldverk og smátexta á borð við Madame Edwarda (Frú Edwarda, 1941), Le petit (Sá litli, 1943), Le coupable (Sá seki, 1944), L’abbé C (Séra C, 1950), Le bleu du ciel (Himinbláminn, 1957), L’impossible (Hið ómögulega, 1962), Ma mère (Móðir mín, 1966) og Le mort (Sá dauði, 1967); og heimspeki- eða fræðitexta á borð við L’expérience intérieure (Innri reynsla, 1943), Sur Nietzsche (Um Nietzsche, 1945), La part maudite (Bölvaði hlutinn, 1949), La littérature et le mal (Bókmenntir og hið illa, 1957), L’érotisme (Erótíkin, 1957) og Les larmes d’Éros (Tár Erosar, 1961).

Ekki er hlaupið að því að gera grein fyrir hugsun og heimspeki Batailles í stuttu máli – meðal annars af þeim sökum að eitt helsta einkenni hennar er stöðug uppreisn gegn hvers kyns endanlegum, lokuðum og snyrtilegum kerfum sem búið hafa haganlega um sig innan landamerkja tungumálsins. Engu að síður má með meðvitaðri einföldun draga markalínu utan um ákveðinn hóp lykilhugtaka: eyðsla, ofgnótt, almennt hagkerfi og takmarkað hagkerfi, fórnin, potlach, angistin, hið forboðna, brotið, erótíkin, hláturinn, tilviljunin, hið heilaga, hið ómögulega, dauðinn. Þessi hugtök tengjast með margslungnum hætti og er skemmst frá því að segja að ekki verður reynt að gera þeim full skil hér, heldur látið nægja að tæpa á nokkrum þeirra.

Meðal helstu fræðilegu áhrifavalda á hugsun Batailles (til aðgreiningar frá þeim áhrifum sem hlutust af ytri aðstæðum hans og mótlætinu sem hann mætti í lífinu) má eins og áður sagði nefna Nietzsche og Hegel. Bataille kynntist þeim fyrrnefnda þegar hann var á miðjum þrítugsaldri og tók við hann slíku ástfóstri að jaðraði við algjöra samsömun. Sérstaklega hreifst Bataille af óvægni Nietzsches andspænis siðferðinu, upphafningu hans á óröklegum kröftum og tilvísunum hans til ofurmennisins. Hegel kom síðar til sögunnar í andlegu lífi Batailles, og þá fyrir tilstilli margfrægra fyrirlestra fransk-rússneska fræðimannsins Alexandre Kojève um rit Hegels Fyrirbærafræði andans í París 1934–1939.

Samkvæmt Bataille fær einstaklingurinn aðgang að dulrænum kjarna veruleikans meðal annars þegar hann verður vitni að blóðugum atburðum í líkingu við mannfórn.

Túlkun Batailles á Hegel, sem að vísu var ætíð mjög undir merkjum hinnar umdeildu túlkunar Kojèves, bar öðru fremur vott um þá sannfæringu að Hegel „hefði ekki gert sér grein fyrir því að hve miklu leyti hann hefði haft rétt fyrir sér“ eins og Bataille orðaði það. Hegel hefði sannarlega tekist að ljúka því ætlunarverki skynseminnar að koma heiminum fyrir í hugtakakerfi; en gallinn væri sá að í kerfinu væri „blindur blettur“ sem skynsemin gæti með engu móti gert grein fyrir. Rétt eins og augað getur ekki séð blinda blettinn sem þó er forsenda sjónarinnar yfirhöfuð, getur ljós skynseminnar ekki lýst upp það sem ljósið sjálft sprettur af: hið óhugsanlega, hið ómögulega, hið heilaga. Aðgang að þessum dulræna kjarna í veruleikanum fær einstaklingurinn aðeins í svipleiftri algleymis af einhverju tagi: til dæmis þegar hann brýtur í bága við það sem er forboðið, verður fyrir listrænni upplifun, springur úr hlátri af óútskýranlegum orsökum, verður vitni að blóðugum atburðum í líkingu við nautaat eða mannfórn, eða fær kynferðislega fullnægingu.

Bataille lítur svo á að angistin sem einstaklingurinn finnur fyrir andspænis hinu forboðna eigi rætur að rekja til þeirrar óumflýjanlegu freistingar að brjóta gegn banninu, gera það sem er bannað – og í slíku athæfi opnist einmitt möguleikinn á hinni æðri upplifun. En því miður er engin leið að treysta því að óknyttaskapurinn beri tilætlaðan árangur: Hið heilaga er nefnilega handan við alla áætlanagerð, skipulagningu og vilja – með öðrum orðum er það hið ómögulega, það kemur ekki þegar maður vill. En detti maður í lukkupottinn er sælan því miður skammvinn... hún varir aðeins örskot – og angistin steypist yfir að nýju.

Annar fylgifiskur angistarinnar er eyðslan. Í hinum rökræna hugarheimi markaðslögmála og tvöfalds bókhalds er lítið rúm fyrir óráðsíu og óskynsamlegar fjárfestingar. En vitund einstaklingsins um dauðann raskar jafnvæginu milli dálkanna, og þegar angistin grípur um sig vaknar löngunin til að losa sig við öll höft og lifa lífinu til fulls í óhóflegri eyðslu í stað þess að sitja með hendur í skauti og telja peninga í huganum. Þessi lífslöngun reynist þegar grannt er skoðað beinast í óvænta átt – í dauðann. Óhófið leiðir okkur í gröfina – vitum við það ekki öll? – og kjarninn í lífinu sjálfu, lífinu þegar því er lifað „fram í fingurgóma“, reynist því vera ekkert annað en það sem við töldum andhverfu þess. Löngun okkar snýst um að upplifa hið ómögulega, en til þess að ná því marki verðum við að fórna sjálfu lífinu. Þannig erum við hvert um sig, að mati Georges Bataille, dæmd til að eltast við hið ómögulega, til að vilja það sem lætur ekki að stjórn viljans. En þá sjaldan tilviljunin sér til þess að við öðlumst sameiginlega reynslu af hinu heilaga, þá myndast á milli okkar orðlaus samskiptarás sem færir okkur heim sanninn um að við deilum hlutskipti okkar með öðrum. Á slíkum stundum verða til samtök og hreyfingar – og þannig er kynhvötin rótin að trúarbrögðunum og alsæla píslarvottanna rennur saman við fullnægju samfaranna – sem heitir á frönsku litli dauði, la petite mort.

Georges Bataille árið 1950.

Þó að Bataille hafi að mestu snúið baki við tímaritaútgáfu eftir stríð lét hann þann þátt menningarinnar ekki alveg eiga sig. Árið 1946 stofnaði hann ásamt öðrum tímaritið Critique sem enn kemur út og telst eitt virtasta tímarit Frakklands á sviði húmanískra fræða.

Árið 1946 skildi Bataille lögformlega við konu sína Sylvíu og hún giftist litlu síðar sálgreinandanum fræga Jacques Lacan. Sjálfur hafði Bataille þá tekið saman við konu að nafni Diane Kotchoubey de Beaucharnais. Þau eignuðust dóttur árið 1948 og gengu í hjónaband 1951.

Árið 1942 greindist Bataille með berkla og átti við vanheilsu að stríða upp frá því. Þegar leið að ævilokum játaði hann fyrir vinum sínum að hann væri vissulega hræddur við dauðann, en jafnframt hélt hann því fram að dauðinn vekti sér hlátur. Má ekki sjá þetta fyrir sér? Í öllum sínum fáránleika, óhugsanleika og hátíðleika – er dauðinn ekki beinlínis kostulegur? Bataille lést 8. júlí 1962 og var grafinn í smábænum Vézelay skammt suðaustan við Auxerre.

Myndir:


Þetta svar er stytt útgáfa af eftirmála Björns Þorsteinssonar við þýðingu sína á Sögu augans eftir Georges Bataille sem Forlagið gaf út árið 2001.

Upprunalega spurningin var:
Hvað getið þið sagt mér um Georges Bataille?

...